Bókun stjórnar SSNE um stöðu bænda
Bókun stjórnar SSNE um stöðu bænda
Stjórn SSNE lýsir þungum áhyggjum af stöðu bænda og íslensks landbúnaðar. Gríðarlegar kostnaðarhækkanir á aðföngum og íþyngjandi vaxtakostnaður hefur gert það að verkum að afkomubrestur er í flestum greinum landbúnaðar.
Landbúnaður er ein af undirstöðuatvinnugreinum landshlutans og skapa þarf landbúnaði öruggar rekstraraðstæður til framtíðar sem stuðlar að nýliðun í greininni til að matvælaframleiðsla eflist, þróist áfram og verði áfram ein af grunnstoðum fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar. Mikil sóknarfæri eru í íslenskri matvælaframleiðslu hvort sem litið er til garðyrkju, kornræktar eða hefðbundins búskapar. Þá skiptir innlend matvælaframleiðsla miklu máli þegar kemur að fæðuöryggi þjóðarinnar ásamt því að vera ein af grunnstoðum búsetu í dreifðum byggðum.
Stjórn SSNE hvetur stjórnvöld til að bregðast strax við þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er í íslenskum landbúnaði og flýta vinnu starfshóps matvælaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og innviðaráðuneytis vegna fjárhagsstöðu bænda og tryggja rekstarhæfi landbúnaðarins til lengri tíma.