Bókun stjórnar SSNE um Fljótagöng
Bókun stjórnar SSNE um Fljótagöng
Á 65. fundi stjórnar SSNE sem haldinn var 4. september síðastliðinn var eftifarandi bókun samþykkt vegna Fljótaganga:
Stjórn SSNE skorar á stjórnvöld að bregðast umsvifalaust við þeirri stöðu sem komin er upp á Tröllaskaga vegna nýafstaðinna atburða í kjölfar mikillar úrkomu. Brýn þörf er á að flýta undirbúningi Fljótaganga og tryggja þannig öryggi vegfarenda fyrir Tröllaskaga.
Uppbygging Fljótaganga er í forgangi í samgöngu- og innviðastefnu SSNE, enda er ljóst að þessi framkvæmd er mikilvægur þáttur í að tryggja öruggar og skilvirkar samgöngur á Norðurlandi eystra. Auk þess að vera mikilvæg samgönguleið fyrir íbúa á utanverðum Tröllaskaga, myndu Fljótagöng tryggja mikilvæga varaleið þegar Öxnadalsheiði er lokuð. Uppbygging Fljótaganga myndi því einnig auka áreiðanleika samgangna milli landsvæða og tryggja að hægt sé að ferðast óhindrað, jafnvel við erfiðar aðstæður.
Stjórn SSNE leggur því á það áherslu að undirbúningur við Fljótagöng hefjist strax í haust, göngin sett í forgang í samgönguáætlun og tryggt að verkefnið verði fjármagnað og því lokið sem allra fyrst.
Nánari upplýsingar um bókunina veitir Lára Halldóra Eiríksdóttir, formaður stjórnar SSNE.