Fara í efni

Barnamenningarsjóður úthlutar styrkjum til 37 verkefna 2021

Barnamenningarsjóður úthlutar styrkjum til 37 verkefna 2021

Þann 28. maí var tilkynnt um úthlutun úr Barnamenningarsjóði Íslands, sem nú veitir styrki til barnamenningar í þriðja sinn frá stofnun sjóðsins. Sjóðurinn styrkir 37 metnaðarfull verkefni og er heildarupphæð úthlutunarinnar 90 milljónir króna. Alls bárust 113 umsóknir og var sótt um rúmlega fjórfalda þá upphæð sem sjóðurinn hafði til úthlutunar eða rúmar 373 milljónir króna. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ávörpuðu fulltrúa verkefnanna af þessu tilefni og fiðlusveit úr Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar flutti tónlistaratriði.

Þriggja manna fagráð fjallaði um umsóknirnar og forsætisráðherra samþykkti tillögu stjórnar sjóðsins. Sem fyrr hefur fagráðið horft til fjölbreyttra þarfa barna og ungmenna, þar koma til álita þættir á borð við búsetu, aldur, kyn, uppruna og efnahag. Þessar áherslur má finna í reglum sjóðsins og þær eru í góðu samræmi við fjölda þeirra umsókna sem taka til fjölmenningar, jafnrar stöðu stúlkna og drengja, málefna hinsegin ungmenna og verkefna sem tengd eru hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Þá má í ár greina fjölgun verkefna utan höfuðborgarsvæðisins og frá dreifðari byggðum.

Í rökstuðningi fagráðsins segir að umsóknirnar sem bárust beri fagurt vitni ástríðu og hugmyndaauðgi þeirra sem sinna skapandi störfum með börnum og í þágu barna. Þar eru á ferðinni fagmenn og frumkvöðlar sem sinna flóknum verkefnum af djúpri þekkingu og einlægri sköpunargleði. Sérstaklega ánægjulegt er að sjá í verkefnunum áhrif alþjóðlegrar stefnumörkunar á borð við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun, sem ber vott um flókið samspil menningarlegra þátta sem setja mun mark sitt á framtíð þeirra kynslóða sem nú vaxa úr grasi.

Barnamenningarsjóður Íslands var stofnaður í tilefni aldarafmælis fullveldisins með ályktun Alþingis á hátíðarfundi 18. júlí 2018. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Í starfi sjóðsins er m.a. horft til áherslu menningarstefnu um samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga, ásamt því markmiði að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.

Úthlutun var tilkynnt við athöfn í Hörpu föstudaginn 28. maí 2021.

Hér eru þau verkefni á Norðurlandi eystra sem hlutu styrk úr Barnamenningarsjóði 2021:

Ásdís Arnardóttir – kr. 720.000 – Sögur af draugnum Reyra

Öllum grunnskólabörnum í 3.-5. bekk á Norðurlandi verður boðið til sannkallaðrar hryllilegrar veislu þar sem draugurinn Reyri fer með þeim á vit löngu látinna tónskálda og kynnir þau fyrir tónlist þeirra. Blásarakvintettinn Norðaustan leikur, söngkona syngur aríu Næturdrottningarinnar úr Töfraflautu Mozarts og sögumaður leiðir þátttakendur inn í heim, sem er í senn ógnvekjandi en um leið fyndinn og skemmtilegur. Barnakór Akureyrarkirkju og börn í Dansskóla Alice taka einnig þátt í verkefninu.

Listasafnið á Akureyri / Akureyrarbær – kr. 1.200.000 - Allt til enda - listvinnustofur barna

Í Listasafninu á Akureyrir verður boðið upp á þrjár vandaðar listvinnustofur þar sem börn á grunnskólaaldri fá tækifæri til að vinna undir leiðsögn kraftmikilla og metnaðarfullra listamanna og hönnuða. Áhersla er lögð á að börnin taki virkan þátt í öllu sköpunarferlinu, allt frá því að leita sér innblásturs, skapa verkið og sýna svo afraksturinn á sérstakri sýningu sem sett verður upp í safninu. Þar fá börnin tækifæri til að láta ljós sitt skína á sinni eigin sýningu í Listasafninu á Akureyri.

Svalbarðsstrandarhreppur – kr. 1.000.000 – Tímahylkið

Verkefnið er í þremur hlutum. Í fyrsta lagi tímarit sem gefið var út sl. vetur og kallað Tímahylkið þar sem safnað var sögum úr samtímanum frá börnum og fullorðnum. Í öðru lagi listsýning þar sem börn og ungmenni á Svalbarðsströnd vinna verk og sögulegt yfirlit með tengingu við fyrri heimsfaraldra. Þriðji hluti er svo Tímahylki þar sem völdum sýningamunum, orðsendingum og öðrum munum er safnað í kassa sem varðveittur verður á Minjasafni Akureyrar opnaður að 50, 60 eða 70 árum liðnum.

Getum við bætt síðuna?