225 milljónir króna í orkuskiptaverkefni á Norðurlandi eystra
225 milljónir króna í orkuskiptaverkefni á Norðurlandi eystra
Verkefnið Rural Europe for the Clean Energy Transition (RECET) hefur hlotið styrk sem nemur um 1,5 milljónum evra (225 M ISK) úr LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. Verkefnið sem fer af stað 1 .október næstkomandi og stendur í þrjú ár. Verkefnið snýst um að efla efla getu sveitarfélaga á fimm svæðum í Evrópu til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir í sátt við hagsmunaaðila og samstarfi við atvinnulíf. RECET er samstarfsverkefni fimm landa og tuga sveitarfélaga um alla Evrópu, með Ísland í fararbroddi.
Sveitarfélög í dreifðum byggðum munu gegna lykilhlutverki í orkuskiptum og innleiðingu aðgerða sem miða að markmiði Evrópusambandsins um kolefnishlutleysi 2050 og lögfest markmið Íslands um kolefnishlutleysi 2040 og verður aðkoma sveitarfélaga meðal annars í gegnum skipulagsgerð og leyfisveitingar. RECET miðar að því að efla getu sveitarfélaganna og atvinnulífsins til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin. Stuðst verður við reynslu og aðferðir Energiakademiet frá eyjunni Samsø í Danmörku við mótun og þróun aðgerða til orkuskipta á hverju landsvæði fyrir sig. Energiakademiet hefur áratuga reynslu af því að þróa og innleiða svæðisbundnar orkuskiptaáætlanir.
Íslensk Nýorka og Eimur leiða verkefnið hér á landi en SSNE og Vestfjarðastofa eru einnig þátttakendur. Utan Íslands koma einnig að RECET: Sveitarfélagið Postojna í Slóveníu, Blekinge sýsla í Suðaustur-Svíþjóð og sveitarfélög á eyjunni Menorca á Spáni. Að auki hafa fleiri lýst yfir stuðningi við verkefnið, og þar á meðal er Samband íslenskra sveitarfélaga. Vel sóttur kynningarfundur var haldinn á Akureyri í dag og er greinilegt að mikill áhugi er á verkefninu.
Sú þekking sem mun skapast í RECET verkefninu og niðurstöður þessu verða aðgengileg öllum sveitarfélögum jafnt á Íslandi sem og annars staðar í Evrópu. Vilji sveitarfélög taka þátt, eru þau eindregið hvött til að hafa samband við verkefnastjóra verkefnisins, en Smári Jónas Lúðvíksson, smari@ssne.is fer fyrir verkefninu fyrir hönd SSNE.