Vel heppnað fyrirtækjaþing Akureyrar
Vel heppnað fyrirtækjaþing Akureyrar
Akureyrarstofa og SSNE tóku höndum saman og skipulögðu vel heppnað fyrirtækjaþing (rafrænt að sjálfsögðu) s.l. fimmtudag.
Komu þar saman í netheimum stjórnendur á fjórða tug fyrirtækja sem eru með fjölbreytilega atvinnustarfsemi á Akureyri og ræddu meðal annars um helstu kosti og áskoranir sem felast í fyrirtækjarekstri á svæðinu og tækifæri til framtíðar. Þessir stjórnendur voru staðsettir bæði hér norðan heiða sem og í Reykjavík enda er mikilvægt að fá upplýsingar úr mismunandi áttum af sem flestum sviðum atvinnulífsins.
Ráðgjafar frá Símey stjórnuðu umræðum og var fjölbreyttum aðferðum beitt til að kalla fram viðhorf þátttakenda. Sköpuðust afar uppbyggilegar og góðar umræður í rýnihópum sem munu nýtast vel í framhaldinu. Fyrirtækjaþingið er liður í greiningu á samkeppnishæfni sveitarfélagsins og undanfari nýrrar atvinnustefnu og aukinnar markaðssóknar Akureyrarbæjar.
Áform um aukin umsvif
Í lokin voru þátttakendur spurðir um framtíðaráform og voru niðurstöðurnar í senn jákvæðar og eftirtektarverðar. Af 34 sem svöruðu spurningunni sögðust 25 (74%) sjá fyrir sér aukin umsvif í atvinnurekstri á Akureyri, sex töldu að umsvif héldust óbreytt en aðeins einn hafði áform um að draga úr umsvifum.
Svörum við þessari spurningu og nokkrum öðrum var safnað í gegnum Mentimeter veflausnina og eru þau því órekjanleg til einstakra þátttakenda. Þó niðurstöðurnar séu úr óformlegri könnun þá eru þær engu að síður vísbending um að mikill hugur sé í atvinnurekendum á svæðinu.