Verið velkomin á Krubb
Verið velkomin á Krubb
Krubbur er tveggja daga hugmyndasmiðja haldin á Stéttinni á Húsavík. Smiðjan er opin öllum og engrar fyrri kunnáttu þarfnast. Áhersla ársins er á nýsköpun í ferðaþjónustu en jafnframt er opinn flokkur fyrir þau sem það kjósa.
Eða með orðum Stefáns forsprakka Krubbs:
Verið velkomin með okkur í hugarflug, við pökkum fyrir ykkur innblæstri, reynslu og þekkingu í bakpokann!
Á Krubbi er nýsköpunarhugsun kennd og þjálfuð, ýtt undir hugmyndaauðgi og frumkvæði. Er þetta gert með því að nota raunverulegar áskoranir sem þátttakendur fá að spreyta sig á. Ýmsir reyndir mentorar og þjálfarar aðstoða þátttakendur í leit sinni að vörum og svörum. Jafnframt fá þátttakendur aðstoð við að mynda og starfa í teymi og við að kynna sínar hugmyndir. Vegleg verðlaun verða í boði fyrir bestu hugmyndirnar.
Orðið hugmyndahraðhlaup er hugarsmíði Stefáns verkefnastjóra Hraðsins. Orðið fæddist í aðdraganda Krubbsins sem haldinn var í fyrsta sinn árið 2024. Merkingin er sú sama og hakkaþon. Á Krubbi 2025 ætlar Skynró, eitt af vinningsteymum ársins 2024, að segja frá sinni vegferð, frá því að vera lítið hugmyndafræ og nú fyrirtæki með vörur í þróun.
Áskoranir ársins eru afar spennandi og ekki síður gagnadrifna inspóið úr niðurstöðum Þekkingarnets Þingeyinga ,,Erlendir ferðamenn á Húsavík".
Vissir þú t.d. að
- meðal dvalarlengd erlenda gesta á Húsavík er 16 klukkustundir?
- hvalir eru meginástæða heimsóknar erlendra ferðamanna til Húsavíkur?
Áskoranir 2025
Lögð verður áhersla á hugmyndir að lausnum sem tengjast ferðaþjónustu og ímynd Húsavíkur. Aðilar á svæðinu kynna áskoranir sínar í þeim efnum á Krubbi. EN það verður sannarlega opinn flokkur fyrir þau ykkar sem vilja mæta með eigin áskoranir.
Áskorun PCC
Hvernig getum við nýtt glatvarma frá PCC á sjálfbæran og skapandi hátt? Taktu þátt í að finna nýjar leiðir til að hámarka nýtingu á heitu vatni – hvort sem er fyrir grænmetisræktun, vellíðunarupplifanir, iðnað eða nýsköpun í samfélaginu.
Hvernig getum við skapað einstakt kennifyrirbæri á Húsavík sem laðar að gesti og er myndrænt? Hjálpaðu til við að móta einstaka upplifun sem sameinar náttúrufegurð, menningu, ímynd bæjarins og ljósmyndavænt umhverfi!
Hvernig getum við eflt ferðaþjónustu á jaðar- og vetrartíma? Hvernig getum við gert ferðalög og upplifanir utan háannatíma meira aðlaðandi og sjálfbær? Komdu og hjálpaðu okkur að skapa lausnir sem hvetja ferðamenn til að njóta töfra vetrarins á Húsavík.
Áskorun Hraðsins - opin áskorun
Hvernig getum við gert Húsavík að enn betri stað til að búa á og heimsækja? Opin áskorun til allra sem hafa hugmyndir um nýjar lausnir í ferðaþjónustu, samfélagsþjónustu, umhverfismálum, tækni eða öðrum sviðum sem geta bætt lífsgæði og skapað ný tækifæri fyrir bæinn okkar.
Nýsköpunarhugsun er sú færni sem er hvað verðmætust og eftirsóttust af atvinnurekendum samkvæmt World Economic Forum og áherslan hjá stjórnvöldum og heima í héraði á nýsköpun gegnum Sóknaráætlun mikil og skýr. SSNE tekur því virkan þátt í undirbúningi og framkvæmd Krubbs ásamt Háskólanum á Akureyri, með það að markmiði að efla nýsköpun á svæðinu og frjóvga farveg fjölbreyttra atvinnugreina.
- Er vindurinn mættur í seglin og þú vilt sigla af stað? Skráðu nafnið þitt og netfang hér
- Viltu lesa yfir sjálfa dagskrána? --> Krubbur | Hraðið
- Hér er facebook viðburður með helstu upplýsingum --> https://fb.me/e/2PBd3P641
- Á heimasíðu Hraðsins, miðstöðvar nýsköpunar, má finna allar upplýsingar um Krubb --> hradid.is/krubbur
Ertu enn að hugsa um takmarkanir?
Ef þú ert á aldrinum 16-99 ætti ekkert að stoppa þig
Það kostar ekkert að taka þátt
Hugmyndahraðhlaupið er fyrir öll áhugasöm um nýsköpunarfærni og/eða ferðaþjónustu.
Býrðu ekki á Húsavík? Samt velkomið að taka þátt
Mikilvægt: Það er hvorki nauðsynlegt né skylda að búa yfir ákveðinni þekkingu.
Ertu enn að hugsa um að þetta sé kannski ekki fyrir þig? Hringdu þá í Stefán Pétur verkefnastjóra Hraðsins 861-0057 og fáðu frekari upplýsingar
Af hverju heitir þetta eiginlega Krubbur?
Hugmyndahraðhlaupið dregur nafn sitt af Krubbi og svokölluðu Krubbsveðri sem skapast í ákveðinni vindátt á Húsavík. Veðrinu fylgir svo mikill stormur að fólk heldur sig innan dyra meðan hann geysar. Vonast er eftir alvöru Krubbsstormi í hugum þátttakenda meðan á hlaupinu stendur!