Samtöl og samvinna um farsæld barna á Norðurlandi eystra
Samtöl og samvinna um farsæld barna á Norðurlandi eystra
Undanfarin misseri hefur verkefnastjóri farsældar á Norðurlandi eystra átt samtöl við helstu þjónustuveitendur á svæðinu um stöðu þeirra hvað varðar innleiðingu farsældar og þær áskoranir og tækifæri sem fylgja farsældarlögunum. Markmiðið með þessum samtölum hefur verið að öðlast betri yfirsýn og þekkingu yfir stöðu mála, ásamt því að efla traust og samstarf á svæðinu.
Þátttakendur í samtölunum
Meðal þeirra aðila sem hafa tekið þátt í þessum viðræðum eru:
- Sveitarfélög á svæðinu, þar á meðal Akureyrarbær, Dalvíkurbyggð, Fjallabyggð, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit, Eyjafjarðarsveit, Norðurþing, Svalbarðsstrandarhreppur, Tjörneshreppur, Þingeyjarsveit og Langanesbyggð.
- Heilbrigðisstofnanir og löggæsla, s.s. Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Lögreglan á Norðurlandi eystra.
- Skólasamfélagið, þar á meðal Verkmenntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Framhaldsskólinn á Húsavík og Framhaldsskólinn á Laugum.
- Aðrir opinberir aðilar eins og Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra og Svæðisstöð ÍSÍ á Norðurlandi eystra.
Næstu skref
Til að stuðla að áframhaldandi ferli sem felst í því að stofna svæðisbundið farsældarráð, verður næsta skref að kynna verkefnið enn betur, fyrir æðstu stjórnendum viðeigandi þjónustustofnana og kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum á svæðinu. Þetta er mikilvægt skref í aðdraganda þess að tilnefna fulltrúa í svæðisbundið farsældarráð á Norðurlandi eystra, sem á að vinna áætlun um svæðisbundna forgangsröðun aðgerða um farsæld barna til fjögurra ára, sem tekur mið af þingsályktun um stefnu um farsæld barna og framkvæmdaáætlun ríkisins og niðurstöðum farsældarþings.
Samvinna til framtíðar
Þessi vegferð sýnir hversu mikilvægt er að allir þjónustuveitendur og sveitarfélög leggi sitt af mörkum til að tryggja farsæld barna á Norðurlandi eystra. Með samvinnu og markvissri innleiðingu farsældarstarfs er hægt að tryggja að börn og fjölskyldur fái þá þjónustu sem þau þurfa á að halda á réttum tíma og á réttum stað.
Hafa samband
Verkefnastjóri farsældar á Norðurlandi eystra hlakkar til áframhaldandi samtala og samstarfs við alla hlutaðeigandi aðila á svæðinu. Velkomið er að hafa samband við verkefnastjóra, ef spurningar vakna, með því að senda tölvupóst á netfangið thorleifur@ssne.is eða með því að hringja í 464 5400.