Pistill framkvæmdastjóra - mars
Pistill framkvæmdastjóra - mars
Marsmánuður hefur sannarlega verið viðburðaríkur hjá okkur hjá SSNE, með fjölbreyttum verkefnum og viðburðum hér á Norðurlandi eystra.
Það er kannski ágætt að byrja á því sem gerðist í lok mánaðarins, dagana 28.-29. mars, var hugmyndasmiðjan Krubburinn haldin á Húsavík. Þetta tveggja daga nýsköpunarverkefni, sem haldið var í samstarfi við Hraðið á Húsavík og Háskólann á Akureyri, bauð þátttakendum að takast á við áskoranir tengdar samfélaginu á Húsavík, með það að markmiði að skapa nýjar lausnir og tækifæri. Fyrirtæki og stofnanir á svæðinu kynntu raunverulegar áskoranir sem þátttakendur unnu að sem skilaði sér í fjölmörgum nýjum verkefnum og lausnum. Viðburðurinn var vel sóttur og sýndi glögglega þann frumkvöðlaanda sem ríkir á svæðinu.
Við leggjum mikið upp úr allskyns samstarfi en meðal annars eru landshlutasamtökin sífellt að auka samstarf sitt. Þannig hafa nú eftir áramót verið keyrð mánaðarleg fræðsluerindi undir heitinu Forvitnir frumkvöðlar í samstarfi landshlutasamtakanna. Fræðsluerindin miða öll að því að efla skapandi hugsun og nýsköpun og er næsta erindi nú á morgun, 1. apríl þar sem verður fjallað um skapandi og lausnamiðaða hugsun til að finna nýjar leiðir og skapa verðmæti. Þessi erindi hafa verið vel sótt og reynst afar gagnleg fyrir þau sem vilja þróa nýjar hugmyndir og verkefni.
Fyrr í mánuðinum hélt SSNE starfsdag fyrir starfsfólk sitt en í þetta skiptið fór hann fram í Drift EA á Akureyri þar sem Sesselja og hennar fólk tók vel á móti okkur. Það má hrósa starfseminni sem þar fer fram en slíkur stuðningur við nýsköpun og frumkvöðla er dýrmætur fyrir landshlutann í heild. Starfsdagurinn sjálfur heppnaðist vel undir handleiðslu Láru Kristínar, lóðs og leiðtogaþjálfa sem leiddi okkur í gegnum styrkleikaþjálfun. Þessi dagur var því bæði fræðandi og skemmtilegur.
Fjölmargt annað mætti nefna af því sem hefur verið í gangi hjá okkur í landshlutanum. Það var meðal annars tilkynnt um að Byggðastofnun hefur valið verkefnin Raufarhöfn og framtíðin og Öxarfjörður í sókn til þátttöku í nýju tilraunaverkefni. Þetta verkefni má líta á sem framhald af "Brothættum byggðum" sem þessi byggðalög tóku þátt í fyrir nokkrum árum. Markmiðið er að styðja við áframhaldandi uppbyggingu og þróun í þessum samfélögum og við hlökkum til að vinna með íbúum að nýjum og spennandi tækifærum.
Að lokum má nefna þátttöku okkar í fyrirtækjaþingi í Langanesbyggð þar sem fjölbreyttur hópur fólks úr atvinnulífinu á svæðinu kom saman. Alls tóku 22 aðilar frá 15 fyrirtækjum og stofnunum þátt, og ræddu meðal annars um framtíðarsýn, áskoranir og tækifæri í atvinnulífinu. Þingið var vettvangur fyrir gagnlegar umræður og tengslamyndun sem mun án efa skila sér í auknu samstarfi og nýjum verkefnum.
Nú er aprílmánuður framundan með óvenju mörgum frídögum. Margir starfsmenn SSNE munu nýta tækifærið og taka smá frí í kringum páskana þannig að það verður því aðeins skert viðvera á meðan, en það má alltaf ná í okkur með því að senda póst á ssne@ssne.is. Það verður samt sem áður nóg um að vera hjá okkur en við hefjum mánuðinn á að halda ársþing SSNE 2025. Þingið verður haldið 2.-3. apríl næstkomandi og fer fram í Svalbarðsstrandarhreppi í þetta skiptið. Venju samkvæmt eru allar upplýsingar um þingið aðgengilegar á heimasíðunni okkar. Þá verður næsti Föstudagsfundur SSNE haldinn 11. apríl næstkomandi, en í þetta skiptið verður fjallað um hagræn áhrif menningar og skapandi greinar. Fundurinn er opinn öllum og ég hvet ykkur öll til að mæta.
Gleðilega páska!