Fara í efni

Eyrarrósin 2025

Eyrarrósarhafinn hlýtur 2,5 milljón króna peningaverðlaun. Framleitt verður sérstakt
myndband um ve…
Eyrarrósarhafinn hlýtur 2,5 milljón króna peningaverðlaun. Framleitt verður sérstakt
myndband um verkefnið og því gefinn kostur á að standa að viðburði á aðaldagskrá
Listahátíðar í Reykjavík 2026.

Eyrarrósin 2025

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um Eyrarrósina 2025 sem veitt verður í 19. sinn nú í vor. Eyrarrósin er veitt annað hvert ár.

Eyrarrósarhafinn hlýtur 2,5 milljón króna peningaverðlaun, framleitt verður sérstakt myndband um verkefnið og því gefið kostur á að standa að viðburði á aðaldagskrá Listahátíðar í Reykjavík 2026. Viðburðurinn getur annað hvort farið fram í heimabyggð eða öðru byggðarlagi.

Markmið Eyrarrósarinnar er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði lista og menningar. Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er framúrskarandi menningarverkefni í landsbyggðunum. Horft er til þess að verkefnið hafi fest sig í sessi, verið starfrækt í yfir þrjú ár og hafi áhrif á menningarlíf á sínu landssvæði.

Líkt og síðustu þrjú skipti verða jafnframt veitt hvatningarverðlaun. Þrenn verkefni geta hlotið þann heiður og er þá horft til nýlegra verkefna og jafnvel verkefna sem enn eru í þróun, sem sýna faglegan metnað bæði í rekstri og listrænni sýn. Hver hvatningarverðlaun eru 750 þúsund krónur.

Verkefnin sem hlotið hafa Eyrarrósina eru af afar fjölbreyttum toga. Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði hlaut Eyrarrósina við síðustu afhendingu, sem var árið 2023, en meðal fyrri verðlaunahafa má nefna Handbendi á Hvammstanga, Bræðsluna á Borgarfirði eystra, Skaftfell, Frystiklefann á Rifi, Aldrei fór ég suður, Ferska vinda í Garði, List í ljósi á Seyðisfirði og Skjaldborg á Patreksfirði. Eitt norðlenskt verkefni hlaut hvatningarverðlaun við síðustu úthlutun og var það norðlenski hópurinn Hnoðri í Norðri  fyrir sín ævintýralegu störf.

Bæði þessi verkefni hafa hlotið styrk úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra og gefur vísbendingar um það hversu mikilvægt tæki stjórnvalda Sóknaráætlun er hvað varðar uppbyggingu, hvatningu og framsækni frumkvöðla landsbyggðanna.

Umsóknarfrestur um Eyrarrósina og hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar er til kl. 16:00 mánudaginn 24. mars.

Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Icelandair standa að Eyrrósinni en verndari Eyrarrósarinnar í ár er hr. Björn Skúlason, maki forseta Íslands. Allar nánari upplýsingar um fyrirkomulag Eyrarrósarinnar og umsóknareyðublað má finna á vef Listahátíðar: www.listahatid.is/eyrarrosin

Hægt er að panta tíma hjá ráðgjöfum SSNE varðandi umsóknarskrif.

Getum við bætt síðuna?