Pistill framkvæmdastjóra - Hvað er að frétta eftir sumarið?
Pistill framkvæmdastjóra - Hvað er að frétta eftir sumarið?
Þrátt fyrir rysjótta tíð hefur tíminn flogið áfram og sumrinu að ljúka áður en það byrjaði. Eins og líklega víðast hvar var sumarið rólegt hjá SSNE en starfsfólk týndist inn eftir sumarfrí strax eftir Verslunarmannahelgina og hefur ágústmánuður verið býsna annasamur.
Þessa dagana fer töluverður tími hjá okkur í að undirbúa nýja Sóknaráætlun landshlutans þar sem framtíðarsýn landshlutans fyrir næstu fimm ár mun birtast. Í þessari vinnu er lögð áhersla á að setja fram skýr markmið og tilgreina þau verkefni sem ætlað er að stuðla að áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu. Í þeim tilgangi að ná fram sjónarmiðum almennings í þessa vinnu er SSNE nú að halda vinnustofur í öllum sveitarfélögum innan SSNE. Vinnustofurnar eru opnar öllum sem áhuga hafa, en þegar þetta er skrifað á enn eftir að halda vinnustofur á Siglufirði og Ólafsfirði, Grenivík, Akureyri, Þórshöfn, Svalbarðseyri og Hrafnagili. Það eru því enn næg tækifæri til að taka þátt í þessari mikilvægu vinnu. Ég hvet ykkur eindregið til að taka þátt en nánari upplýsingar um tímasetningar og skráningu má finna á heimasíðu SSNE.
Það var svo fjölmargt fleira sem gerðist í ágústmánuði sem vert er að minnast á. Matvælaráðherra opnaði heimasíðu Líforkuvers ehf. og undirritað var samkomulag nú í lok mánaðarins um inngöngu SSNV í verkefnið Eimur sem við hjá SSNE fögnum auðvitað heilshugar og eru spennandi tímar framundan í báðum verkefnum. Þá var opnað fyrir umsóknir í STARTUP STORM – Vaxtarrými fyrir norðlenska sprota í ágúst og fjölmargt fleira mætti auðvitað nefna.
Það er líka fjölmargt spennandi framundan í september fyrir utan allar vinnustofurnar í tengslum við Sóknaráætlun Norðurlands eystra. Þar má meðal annars nefna tónleika hljómasveitarinnar Skálmaldar við Heimskautsgerðið á Raufarhöfn. SSNE og Uppbyggingarsjóður Sóknaráætlunar Norðurlands eystra eru stoltir styrktaraðilar og hvetjum við auðvitað öll til að mæta. Það lítur út fyrir vænan sumarauka og blíðuveður og því um að gera að mæta og njóta!