Fara í efni

Veltek - Heilbrigðis- og velferðartækniklasi Norðurlands

Markmið verkefnisins er að efla nýsköpun í velferðar- og heilbrigðisþjónustu, deila nýsköpunarþekkingu á milli svæða, stofnana og sveitarfélaga. Undirmarkmið er að efla norrænt nýsköpunarsamstaf um velferðartækni og draga norrænt fjármagn inn á svæðið.

Staða verkefnisins: 
Heilbrigðis- og velferðartækniklasi Norðurlands hóf starfsemi haustið 2021 og hefur nú lokið tveimur heilum starfsárum en klasinn er samstarfsvettvangur um tækni- og þjónustuþróun í þágu heilbrigðis og velferðar á Norðurlandi. Markmiðið er að styðja við starfsfólk í heilbrigðis- og velferðarþjónustu og stuðla þannig að betri þjónustu við íbúa og sem bestu lífi og hagsæld Norðlendinga. Hér verður farið yfir starfsemina og þann árangur sem náðst hefur.

NPA norðurslóðaáætlunarverkefni
Veltek klasinn hafði frumkvæði að því að setja saman norrænan hóp sem samanstendur af aðilum sem deilt geta reynslu og sambærilegum áskorunum og sveitarfélögin á Norðurlandi Eystra. Ein stærsta áskorun sem dreifð samfélög á norðurslóðum koma til með að standa frammi fyrir eða gera það nú þegar, er hvernig veita skuli framúrskarandi heilbrigðis- og velferðarþjónustu á sama tíma og samfélögin eldast og þörfin fyrir þjónustu eykst. Því er mikilvægt fyrir svæðið að kynna sér reynslu annarra sambærilegra samfélaga og hvaða þjónustulausnir er verið eða mögulegt er að þróa. Hvatinn fyrir Veltek að því að setja saman hópinn var samstarfsyfirlýsingin á milli Veltek, Fjallabyggðar og HSN, um nýsköpunarverkefni í öldrunarþjónustu í Fjallabyggð, sem undirrituð var á málþingi Veltek í menningarhúsinu Hofi sumarið 2022.

Hópinn skipa auk Íslendinga, aðilar frá Færeyjum, Norður Svíþjóð og frá Írlandi. Hópurinn sótti um undirbúningsstyrk í Norðurslóðaáætlunina (NPA) og hlaut styrk síðastliðinn vetur til að vinna að aðalumsókn í áætlunina. Hluti af vinnu hópsins var tveggja daga vinnustofa sem haldin var í Hofi menningarhúsi á Akureyri í lok ágúst 2023. Fjallabyggð hefur tekið virkan þátt í verkefninu sem ber vinnuheitið, „Selfcare – self-management of health and wellbeing in rural areas“. Vinna hópsins er leidd af dönskum ráðgjafa sérhæfðum í umsóknum af þessu tagi en Veltek hefur forgöngu um að ráða ráðgjafann fyrir hönd hópsins. Heildarkostnaður Veltek við undirbúningsverkefnið er áætlaður um 2,5 milljónir (17.3525 EUR) en styrkfjárhæð er 65% eða um 1,5 milljón. Mótframlag Veltek felst fyrst og fremst í vinnuframlagi.

Undirbúningsverkefninu lýkur í lok nóvember 2023 og hópurinn stefnir á að senda inn aðalumsókn í Norðurslóðaáætlun í sama mánuði. Hámarksupphæðir íslenskrar þátttöku í aðalverkefni er 200 þús EUR eða 29 milljónir ISK yfir allt að þriggja ára tímabil og styrkhlutfall er 65% eða u.þ.b. 19 milljónir sem gera um 6 milljónir ISK á hverju verkefnisári. Unnið er að því að stilla upp kostnaðaráætlun fyrir íslenska þátttöku en gert er ráð fyrir að hluti þessarar upphæðar, fjármagni aðild Fjallabyggðar að verkefninu sem verður í formi vinnu fulltrúa Fjallabyggðar við norðurslóðaverkefnið „Selfcare – self-management of health and wellbeing in rural areas“.

iHAC verkefni um samþætta heilbrigðis- og velferðarþjónustu
Í byrjun árs sótti Veltek ásamt Fjallabyggð um styrk á vegum vegum Nordic Welfare Center í gegnum verkefni sem kallast iHAC (integrated health and care) en utanumhald er á vegum Center for Rural medicine. Á vormánuðum var tilkynnt að Veltek og Fjallabyggð hefðu í gegnum áætlunina hlotið styrk að upphæð SEK 210.000 sem gera tæplega 3 milljónir ISK. Styrkurinn fjármagnar kaup á ráðgjafaþjónustu til að halda tvær vinnustofur í Fjallabyggð með hagaðilum og ferðakostnaði fyrir þrjá á norrænt módel svæði.

Fyrri vinnustofan var haldin í júní 2023 í Fjallabyggð með þátttöku hagaðila sem koma með beinum og óbeinum hætti að nýsköpunar- og þróunarverkefnum Fjallabyggðar. Vinnustofuna sátu um 25 manns en seinni vinnustofan verður haldin í október með stærri hópi hagaðila bæði innan og utan svæðis þar sem horft verður til yfirfærslugildis verkefnisins. Hluti verkefnisins er kynningarferð í lok september á norrænt módel svæði, þar sem fulltrúar frá sveitarfélaginu og HSN í Fjallabyggð munu kynna sér samþættingu á heilbrigðis- og velferðarþjónustu á módel svæði í Noregi.

Tengslanet

Ötullega hefur verið unnið að því að stækka tengslanetið og kynna starfsemi klasans og nýsköpunarverkefni innan svæðis fyrir aðilum utan svæðis.

Snemma vors 2023 hélt framkvæmdastjóri Veltek kynningu í Heilbrigðisráðuneytinu um klasann og starfsemi hans fyrir stýrihóp um stafrænar lausnir og heilbrigðistæknilausnir.

Einnig var kynningarfundur hjá Velferðartæknismiðju Reykjavíkurborgar og brú mynduð varðandi það að deila upplýsingum um reynslu af þjónustulausnum.

Í gegnum Veltek klasann hélt fulltrúi Fjallabyggðar, verkefnastjóri Hátinds 60+, kynningu á nýsköpunar- og þróunarverkefnum sveitarfélagsins á norrænni vinnustofu fræðimanna á vegum Rannsóknarstofu í Öldrunarfræðum, sem eru að skoða notkun stafrænnar tækni- eða velferðartækni í þjónustu við eldra fólk.

Veltek hefur myndað tengsl við finnskt fyrirtæki Arnora, sem vinnur að verkefni sem miðar að því að tengja saman sveitarfélög og stofnanir sem leita nýrra heilbrigðis- og/eða velferðarlausna og fyrirtækja sem þróa slíkar lausnir. Verkefni Arnora kallast „Nordic access“ og er unnið með stuðningi „Nordic innovation“ og „Nordic Welfare Center“. Arnora hefur sýnt verkefnum Fjallabyggðar áhuga og von er á sendinefnd á vegum verkefnis Arnora til Íslands í byrjun október 2023 til að kynna sér aðstæður hjá sveitarfélaginu og heilbrigðisstofnunum á svæðinu. Veltek hefur haft milligöngu um heimsóknir til stofnana og sveitarfélaga innan og utan starfsvæðis klasans og jafnframt til fyrirtækja sem eru að þróa heilbrigðislausnir bæði innan svæðis og utan þess.

Frá árslokum 2021 hefur Veltek klasinn verið aðili að danska velferðartækniklasanum CareNet. CareNet heldur reglulega viðburði svo sem ráðstefnur, sýningar og málþing sem aðilum Veltek stendur til boða að sækja.

Verkefnastjóri Veltek er Perla Björk Egilsdóttir

Framlag úr Sóknaráætlun:
Upphæð 2024: 5.000.000 kr. 
Upphæð 2023: 5.000.000 kr. 
Upphæð 2022: 7.000.000 kr. 
Upphæð 2021: 10.000.000 kr. 

Önnur fjármögnun:
Lóa nýsköpunarstyrkur 2021-2022. Upphæð: 10.000.000 kr.
Norðurslóðaáætlun, NPA undirbúningsstyrkur. Upphæð: 1.500.000 kr.
Unnið er að NPA aðalumsókn þar sem sótt veðrur um hámarksupphæð eða um EUR 130 þúsund (um 19 milljónir ISK).

Bakhjarlar Veltek hafa jafnframt lýst yfir vilja sínum til að styðja verkefni klasans með aðildargjaldi að klasanum.

Heimasíða Veltek er www.veltek.is og klasinn heldur jafnframt úti LinkedIn síðu til að viðhalda sýnileika sínum og tengslum.

Getum við bætt síðuna?