Fara í efni

Upptakturinn - Tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna

Markmið verkefnisins eru að stuðla að tónsköpun ungs fólks, hvetja börn og ungmenni til að semja eigin tónlist og
aðstoða þau við að fullvinna hugmyndir sínar í vinnusmiðju með fagfólki, auk þess að gefa þeim tækifæri til að upplifa
eigin tónlist í flutningi atvinnutónlistarfólks við kjöraðstæður á tónleikum í Menningarhúsinu Hofi.
Til verða ný tónverk sem flutt verða á tónleikum Upptaktsins í Hofi auk þess sem þau verða varðveitt með upptöku.

Verkefnastjóri Upptaksins er Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastjóri Menningarfélags Akureyrar.

Framlag úr Sóknaráætlun:
Upphæð 2026: 7.633.891 ( með fyrirvara um fjármögnun sóknaráætlunar) 
Upphæð 2025: 6.572.620 kr. (með fyrirvara um fjármögnun sóknaráætlunar)
Upphæð 2024: 6.572.620 kr. (með fyrirvara um fjármögnun sóknaráætlunar)
Upphæð 2023: 850.000 kr. 
Upphæð 2021: 1.500.000 kr. 

Upptakturinn 2024 - Verkefni lokið

Ellefu glæný tónverk eftir börn og ungmenni frumflutt í Hofi

Afar velheppnaðir tónleikar Upptaktsins á Norðurlandi eystra, tónsköpunarverðlauna barna og ungmenna fóru fram í Menningarhúsinu Hofi.

Þar fluttu atvinnuhljóðfæraleikarar ellefu glæný tónverk eftir ungmenni á aldrinum 10-16 ára. Á tónleikunum fengu tónlistarstefnur að njóta sín, og áheyrendur fengu að heyra allt frá reggí yfir í háklassískan menúett. Þar má nefna rokk, popp, jazz, tölvuleikjatónlist og tónlist sem myndi sóma sér vel í hvaða kvikmynd sem er.

Það voru hátt í 100 manns sem fögnuðu ungu tónskáldunum tíu með glimrandi lófataki í lok tónleikanna.

„Við erum ríkt samfélag að eiga svo hæfileikarík og skapandi ungmenni í tónlist! Ég er líka afar stolt af því að Menningarfélag Akureyrar hafi skapað vettvang til að ýta undir sköpunarkraft ungmenna sem hafa áhuga á tónlist og ég bið þau einlæglega að halda áfram að semja og hvet þau sem langar til að prófa að semja verk að kýla á það. Allt getur gerst. Ég hlakka mikið til að sjá nýjar hugmyndir kvikna og streyma inn að ári í Upptaktinn 2025!“ segir Kristín Sóley jafnframt.

Útsetning verkanna var í höndum Kristjáns Edelsteins og Gretu Salóme, sem einnig var tónlistarstjóri Upptaktsins.

Tónleikarnir voru teknir upp bæði í hljóð og mynd til skrásetningar og fyrir ungmennin til eignar.

Lög þeirra munu birtast á vef RÚV innan skamms og verða í kjölfarið einnig aðgengileg á Youtuberás Upptaktsins á Norðurlandi eystra.

Upptakturinn - Tónleikar 7. apríl 2024

Upptakturinn gefur ungu fólki tækifæri til að vinna að hugmyndum sínum með flutningi listafólks.
Nú hafa tíu unghöfundar unnið með listafólki að útsetningu laga sinna.
Afrakstur vinnunnar má sjá og heyra á tónleikunum þar sem börn á aldrinum 0-16 ára hafa skapað ellefu verk sem flutt verða á tónleikunum.
Verkin ellefu voru valin af dómnefnd úr fjölda umsókna, sem bárust í Upptaktinn í ár.
Verk ungtónskáldanna eru útsett af fagfólki og flutt af atvinnuhljóðfæraleikurum á stóra sviðinu í Hamraborg.

Leiðbeinendur: Tónlistarfólkið og tónskáldin Greta Salóme og Júlí Heiðar.

Lög ungtónskáldanna okkar má nú sjá á UNGrúv
https://www.ruv.is/ungruv/spila/upptakturinn-a-akureyri/36728/au8fsa

Upptaktur 2023 verkefninu er lokið, sem fól í sér ítarlega kynningu á verkefninu og tónlistarsmiðju sem haldin var í Hömrum í Hofi 28. janúar 2024. Tilgangur hennar var: Kynning á tónsmíðum, mikilvægi tónlistar í kvikmyndum, tölvuleikjum, sem stef í auglýsingum og til að hrífa og hreyfa við áhorfendum. Sýnidæmi spiluð og sýnd. Reynt var að svara spurningum eins og þessum: Hvernig færðu hugmyndir að því sem þú skapar? Hvernig gerir maður tónlist við texta? Hvernig slær maður í gegn? Hvernig er best að vinna upptöku á hljóði? Hvernig verður maður tónskáld/smiður? Kynntar voru aðferðir til upptöku og þátttakendur hvattir til að taka þátt í Upptaktinum 2024.

Hér má sjá frétt frá undirritun samnings til þriggja ára um Upptakt 26. september 2023:

Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar gerðu í dag samning við Menningarfélag Akureyrar um tvö verkefni, Upptakt og Fiðring. Um er að ræða áhersluverkefni Sóknaráætlunar sem stjórn SSNE hefur valið að styrkja til þriggja ára. Bæði þessi verkefni styðja vel við barnamenningu sem er ein af áherslum Sóknaráætlunar Norðurlands eystra, auk þess að vera áhersla menningar- og viðskiptaráðherra sem stutt hefur dyggilega við sóknaráætlanir landshlutanna um árabil.

Fiðringur er hæfileikakeppni ungmenna á Norðurlandi eystra sem hefur það að markmiði að stuðla að listsköpun ungmenna og hvetja þau til að semja, æfa og flytja sína eigin frumsköpun. Með Fiðringi er skapaður vettvangur fyrir ungmenni af öllu svæðinu til að halda uppskeruhátíð og flytja verk sín á sviði með öllum leikhústöfrunum.

Upptaktur, tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna á Norðurlandi eystra stuðlar að tónsköpun ungs fólks og hvetur þau til frumsköpunar. Ungmennin fá aðstoð við að fullvinna hugmyndir sínar í vinnusmiðjum með atvinnu tónlistarfólki og upplifa eigin tónlist í flutningi atvinnuhljóðfæraleikara. Þátttakendur eignast svo hágæða upptökur af eigin tónsmíðum í flutningi fagfólks.

„Það skiptir bæði þessi verkefni afar miklu máli að hafa vissu fyrir því að fjármögnun til þriggja ára liggi fyrir og mun vonandi gera þeim kleift að blómstra enn frekar og skapa sér vettvang til framtíðar. Að auki verður upplifun ungmennanna einnig betri þar sem fókusinn mun geta farið frá því að hafa áhyggjur af fjármögnun hvers árs í að vinna enn meira með verkefnin sjálf. Með þessum samningi verður barnamenningu í landshlutanum gert enn hærra undir höfði og við fögnum því gríðarlega,” segir Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastjóri Menningarfélags Akureyrar og verkefnastjóri Upptaktsins og tekur María Pálsdóttir verkefnastjóri Fiðrings heilshugar undir þessi orð.

Sóknaráætlanir landshlutanna eru fjármagnaðar af menningar- og viðskiptaráðuneytinu og innviðaráðuneytinu. Fyrir áhugasama má kynna sér Sóknaráætlun Norðurlands eystra og verkefni hennar á heimasíðu SSNE.