Fara í efni

Úthlutunarnefnd - 7. fundur

17.01.2018

Árið 2018, miðvikudaginn 17. janúar kl. 15:00, kom úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra saman til fundar að Hafnarstræti 91. Mætt voru: Eva Hrund Einarsdóttir formaður, Arnór Benónýsson, Sigurður Steingrímsson, Sigrún Stefánsdóttir og Valdemar Þór Viðarsson. Einnig var mætt Linda Margrét Sigurðardóttir sem ritaði fundargerð. 

Formaður Eva Hrund Einarsdóttir bauð fundarmenn velkomna og gengið til dagskrár.

 

1. Fjárhagsrammi og vanhæfi.

Uppbyggingarsjóði bárust 133 umsóknir, þar af 51 til atvinnuþróunar og nýsköpunar og 82 til menningar. Samtals var sótt um rúmlega 150 mkr til atvinnuþróunar og nýsköpunar og tæplega 122 mkr. til menningar.

Fjárhagsrammi uppbyggingarsjóðs markast af ákvörðun stjórnar Eyþings, sbr. fundargerð nr. 301 frá 13. desember sl. Þar kemur fram að árið 2018 hefur Uppbyggingarsjóður til úthlutunar samtals 100.000.000 kr. sem skiptist jafnt milli menningar og atvinnuþróunar og nýsköpunar. Jafnframt heimilar stjórn Eyþings úthlutunarnefnd að færa fjármuni á milli verkefnaflokka ef svigrúm skapast.

Á fundum dagana 8.-9. janúar og 14.-15. janúar fóru fagráð ítarlega yfir allar umsóknir og lagður var til grundvallar, samningur um sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015-2019, verklagsreglur Uppbyggingarsjóðs 2018 og matsblað.

 

Um vanhæfi:

Arnór kvaðst vanhæfur í umsóknum nr. 1966, 2015, 2043, 2109 og 2171.
Sigurður Steingrímsson kvaðst vanhæfur í umsóknum nr. 2147 og 2145.
Sigrún Stefánsdóttir kvaðst vanhæf í umsóknum nr. 1983, 1998, 2141, 2231.
Eva Hrund Einarsdóttir kvaðst vanhæf í umsóknum nr. 2065 og 2033. 

Viku fundarmenn af fundi undir afgreiðslu þessara umsókna. 

 

2.  Tillaga fagráðs atvinnuþróunar og nýsköpunar.
Formaður fagráðs atvinnuþróunar og nýsköpunar, Sigurður Steingrímsson, fór yfir verklag sem var viðhaft við vinnu fagráðs við mat á umsóknum. Farið var yfir rök fyrir höfnun umsókna. Tillaga að styrkvilyrðum fagráðs var kynnt í kjölfarið, lagt var til að styrkja 36 verkefni að upphæð kr. 50.000.000.- Nokkrar umræður urðu um tillöguna. Úthlutunarnefnd óskaði eftir að fagráðið færi aftur yfir umsókn nr. 2001 „Búseta og byggð 2008-2018” frá Þekkingarneti Þingeyinga og komi með frekari rökstuðning fyrir veitingu styrks, þar sem úthlutunarnefnd telur að umsóknin sé á mörkum þess að falla undir styrkhæf verkefni í Uppbyggingasjóð Norðurlands eystra.

Úthlutunarnefnd samþykkti aðrar tillögur fagráðs og mun taka afstöðu til rökstuðnings fagráðs um umsókn nr. 2001.  Samþykkt var að afgreiða málið í tölvupósti.

Valdemar Þór Viðarsson gerir athugasemd við umsókn nr. 2153 á þeim forsendum að viðkomandi aðilar hafi verið með ökuskóla á netinu í mörg ár og að þetta verkefni séu í beinni samkeppni við aðra ökuskóla á svæðinu.

Úthlutunarnefnd telur rétt að benda stjórn Eyþings á verkefni nr. 2001 „Búseta og byggð 2008-2018” og nr. 1998 „Fyrir og eftir göng“ sem hugsanleg áhersluverkefni Sóknaráætlunar Norðurlands eystra.

 

3. Tillaga fagráðs menningar.
Formaður fagráðs menningar, Arnór Benónýsson, fór yfir verklag sem var viðhaft við vinnu fagráðs við mat á umsóknum. Farið var yfir rök fyrir höfnun umsókna. Tillaga að styrkvilyrðum fagráðs var kynnt í kjölfarið, lagt var til að styrkja 49 verkefni að upphæð kr. 49.995.000.- Nokkrar umræður urðu um tillöguna sem var samþykkt samhljóða. 

Úthlutunarathöfn Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra mun fara fram á Fosshótel Húsavík fimmtudaginn 1. febrúar kl. 15.

Linda Margrét Sigurðardóttir fór af fundi kl. 18:20.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:24

Úthlutunarnefnd samþykkti í tölvupóstsamskiptum þær breytingar er fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar lagði til í fundargerð sinni þann 18.01.2018.

Linda Margrét Sigurðardóttir og Eva Hrund Einarsdóttir rituðu fundargerð.

 

Endanleg úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra.

Getum við bætt síðuna?