Fara í efni

Fagráð menningar - 3. fundur - 09.03.23

09.03.2023

Rafrænn fundur haldinn fimmtudaginn 9. mars 2023. Fundur var settur kl. 9:30 og slitið kl. 11:15.

Allir boðaðir voru mættir: Hulda Sif Hermannsdóttir formaður fagráðs, Anita Elefsen, Guðni Bragason, Sigurður Guðni Böðvarsson og Sigríður Örvarsdóttir. Starfsmaður SSNE var Hildur Halldórsdóttir. Um fundarritun sáu starfsmaður SSNE og formaður ráðsins.  

1. Starfsáætlun fagráðs menningar; tímalína funda og næstu skref
Farið var yfir starfsáætlun ársins til samþykktar og drög lögð að starfsáætlun næsta árs. Seinni fundur ársins verður í maí 2023, þá með áherslu á Uppbyggingarsjóð til að styðja við þá straumlögun að starfsfólk SSNE geti unnið forvinnusjóðsins fyrr, umsækjendum í hag.

2. Tillaga stjórnar SSNE um áhersluverkefni til stýriráðs stjórnarráðsins
Fagráðið fór yfir verkefnin líkt og þau birtast í frétt á heimasíðu SSNE og bíða þess að sjá ítarlegri verkefnalýsingar þegar þær verða birtar. Fagnar ráðið þeim tveimur menningarverkefnum sem þar megi finna þó rúm hefði verið fyrir fleiri. Þá sá ráðið tilefni til þess að ítreka ályktun sína frá 17.10.22 til að tryggja sóknartækifæri landshlutans og þann hag sem fólginn væri í því að skilgreina einhvern hluta áhersluverkefna til tveggja ára (eða fjölárstyrki) upp á betri nýtingu á fjármagni. Rætt var hvort eðli einstakra áhersluverkefna væri það umfangsmikið að gagnlegt væri að þau næðu yfir lengri tíma en eitt ár, til að tryggja að þau færu af byrjunarreit yfir á næsta skref. Dæmi um slíkt fyrirkomulag eru til dæmis verkefni tengd börnum eða ungmennum, þar sem skipulag þyrfti að snúa að verkefnum sem tengjast skólastarfi, sem hafa annan takt en gert er ráð fyrir í núverandi fyrirkomulagi áhersluverkefna á ársgrundvelli. Þá gætu verkefnastjórar nýtt tímann og/eða stöðugleikann til að mynda flæði innan veggja skólans, með hag barnanna í forgrunni.

Niðurstaða umræðu var að senda stjórn ályktun svo hljóðandi:

,,Fagráð menningar hvetur stjórn til að skoða hvort skilgreina megi ákveðið fjármagn til tveggja ára verkefna, þá með fyrirvara um fjármögnun Sóknaráætlunar, til handa verkefnum sem þurfa ákveðin tíma og stöðugleika til að komast á legg. Skilgreining slíkra verkefna gæti verið samfélagsleg verkefni sem ekki eru lögbundin. Fordæmi fyrir áhersluverkefnum til tveggja ára eða fleiri megi finna hjá öðrum landshlutasamtökum svo sem SSNV og SASS.“

Fagráðið bendir jafnframt á að annað opinbert styrktarfé er veitt með slíkum hætti. Má þar nefna sem dæmi Öndvegisstyrki Safnasjóðs, en sú þróun varð árið 2019 á Safnasjóði að veita styrki til 2-3 ára (þá kallaðir Öndvegisstyrkir) ásamt því að veita tvisvar á ári styrki til eins árs. Fyrsta slíka úthlutunin var árið 2020. Sjá nánar í verklagsreglum Safnasjóðs. Þessu til stuðnings er bent á að mörg verkefni eru þess eðlis, að nauðsynlegt er fyrir frumkvöðla og verkefnastjóra að sjá lengra en almannaksárið til að ráðast af stað í verkefnið.

3. Starfsáætlun SSNE 2023
Ráðið fór yfir starfsáætlun SSNE líkt og hún birtist í þinggögnum ársþings 2023. Taldi ráðið starfið umfangsmikið og þarft. Engar athugasemdir voru gerðar við áætlunina.

4. Úthlutun úr Uppbyggingarsjóði
Ráðið fór yfir töluleg gögn úthlutunar. Vakti ráðið athygli á því að áhugavert væri að fá greiningu á því hvaða lögaðilar hafa fengið stofn- og/eða rekstrarstyrki og hversu oft. Hvort að þessir styrkir séu að viðhalda verkefnum sem að öðrum kosti myndu lognast út af eða hvort að annað fjármagn eða sjóðir gætu gripið verkefnin. Þá var rætt hvort stofn- og rekstrarstyrkir gætu hindrað að ný verkefni fengju framgang. Eins taldi ráðið gott að fá upplýsingar frá þeim landshlutasamtökum sem hætt eru að veita stofn- og rekstrarstyrki og þá hvernig þau verkefni hafa verið fjármögnuð í framhaldinu sem hingað til hafa hlotið stofn- og eða rekstrarstyrk.

5. Önnur mál
Sóknaráætlun 2025-2029, m.t.t. vinnunnar sem fram undan er.

Ráðið ræddi möguleg markmið og árangursmælikvarða til skoðunar þegar vinna við næstu Sóknaráætlun hefst.

Ráðið bíður fregna hvort boðað verði til þriðja fundar þessa árs, til undirbúnings nýrrar Sóknaráætlunar.

Fagráð menningar hvetur stjórn SSNE að skoða flokka Sóknaráætlunar fyrir mótun þeirrar næstu, með tilliti til þess hvort markmið og verkefni/aðgerðir á borð við ungmennaþing og fjölmenningarráð ættu að eiga sess í sér flokki sem gengi þvert á eðli allra flokka, mögulega einhvers konar samfélagsflokki.

Rætt um að formaður fagráðs menningar eigi samtal við framkvæmdastjóra SSNE varðandi hvernig stjórn SSNE hyggst beita sér fyrir auknu fjármagni gagnvart þeim ráðuneytum sem greiða nú þegar í sóknaráætlun, sem og því ráðuneyti sem hefur ekki lagt fram fjármagn.

Fagráðið vill þessu tengt taka undir bæði bókun stjórnar SSNE frá 23. september 2022 þar sem skorað var á stjórnvöld að auka fjármögnun til Sóknaráætlun Norðurlands eystra í stað þess að draga úr henni enn eitt árið, líkt og boðað er í fjárlögum 2023, og bókun bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 4. október 2022, þar sem umræða fór fram um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir 2023 og hvatti bæjarstjórn til þess að lögð verði fram fjármögnuð aðgerðaáætlun sem styðji við svæðisbundið hlutverk Akureyrarbæjar og að aukið fjármagn verði sett í sóknaráætlun landshlutans.

Fundi slitið

Getum við bætt síðuna?