Fagráð menningar - 1. fundur
Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra
Fagráð menningar
1. fundur
Árið 2015, þriðjudaginn 7. apríl kl. 13:00, kom Menningarráð Eyþings saman til fundar að Hafnarstræti 91. Mætt voru: Arnór Benónýsson, Guðný Sverrisdóttir, Hildur Stefánsdóttir, Sóley Björk Stefánsdóttir, Kjartan Ólafsson og Kristinn Kristjánsson í forföllum Freys Antonssonar. Forföll boðaði Jóhanna S. Kristjánsdóttir ekki náðist í varamann. Einnig var mætt Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir menningarfulltrúi.
Formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna, síðan var gengið til dagskrár.
1. Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015-2019
Skrifað hefur verið undir sóknaráætlun til 5 ára. Markmið sóknaráætlana landshluta er að ráðstöfun þeirra fjármuna sem varið er til verkefna í einstökum landshlutum á sviði atvinnu-, byggða- og menningarmála byggi á svæðisbundnum áherslum og markmiðum sem fram koma í sóknaráætlun landshlutans.
Markmið samningsins er að stuðla að jákvæðri samfélagsþróun, treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni landshlutans og landsins alls. Markmiðið er jafnframt að einfalda samskipti ríkis og sveitarfélaga og tryggja gagnsæi við úthlutun og umsýslu opinberra fjármuna.
Menningarsamningar og vaxtarsamningar eru hluti af sóknaráætlun og eru færðir undir nýjan sjóð sem ber heitið Uppbyggingasjóður sóknaráætlunar Norðurlands eystra. Tvö fagráð munu leggja mat á umsóknir í sjóðinn, annarsvegar fagráð menningar og hins vegar fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar. Samninginn má lesa á heimasíðu Eyþings.
Ragnheiður Jóna og Arnór kynntu úthlutunarreglur þessa nýja sjóðs. Fyrir fundinum lá beiðni stjórnar Eyþings um að skipa þriggja manna fagráð úr röðum stjórnarmanna í menningarráði. Formaður lagði fram tillögu um þriggja manna fagráð sem mun starfa til haustsins, verður það ráðgefandi við úthlutun úr sjóðinum til menningarverkefna. Samþykkt var einróma að Arnór Benónýsson, Sóley Björk Stefánsdóttur og Kjartan Ólafsson myndu skipa fagráðið.
2. Önnur mál
Farið yfir stöðu þróunarverkefna sem Menningarráð Eyþings vinnur að um þessar mundir. Um er að ræða tvö verkefni sem ganga undir heitunum Aftur heim og Grunngerð og mannauður. Bæði verkefnin eru enn í góðum gangi, en óljóst er um fjármögunun á Aftur heim. Grunngerð og mannauður tengist nú NPA verkefninu Creative Momentum sem menningarráðið er aðili að ásamt Írlandi, Norður Írlandi, Svíþjóð og Finnlandi.
Fleira ekki gert og fundi slitið 14:40
Sóley Björk Stefánsdóttir fundaritari.