Fara í efni

Fundargerð - Skýrsla stjórnar apríl 2019

17.04.2019

Auka-aðalfundur Eyþings 9. Apríl 2019

Skýrsla stjórnar starfsárið 2018-2019

Auka-aðalfundur Eyþings var haldinn 9. apríl 2019 á Hótel KEA á Akureyri. Ný stjórn Eyþings tók til starfa í september 2018 og í henni sitja Hilda Jana Gísladóttir formaður Eyþings, Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings og varaformaður Eyþings, Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, Elías Pétursson sveitarstjóri Langanesbyggðar, Helgi Héðinsson oddviti Skútustaðahrepps, Axel Grettisson oddviti Hörgársveit og Sóley Björk Stefánsdóttir bæjarfulltrúi Akureyri.

1. Starfsmannamál

Hjá Eyþingi starfa þrír starfsmenn, Hilda Jana Gísladóttir starfandi framkvæmdastjóri, Helga María Pétursdóttir verkefnastjóri og Vigdís Rún Jónsdóttir menningarfulltrúi. Frá því að ný stjórn tók til starfa hafa bæði framkvæmdastjóri og verkefnastjóri látið af störfum og reynsluboltinn hjá Eyþingi því orðin Vigdís Rún Jónsdóttir menningarfulltrúi, en hún hefur þó aðeins starfað hjá Eyþingi í rúmt ár. Þessar miklu mannabreytingar hafa óneitanlega sett verulega mark sitt á störf Eyþings undanfarna mánuði.

Bæði fyrri stjórn og núverandi stjórn áttu í viðræðum við fyrrum framkvæmdastjóra um starfslok hans allt frá því í ágúst á liðnu ári. Vilji stjórnar til þess semja um eðlileg starfslok var fyrir hendi, bæði í fyrri stjórn og þeirri sem nú situr. Því miður skiluðu viðræður ekki árangri og ljóst varð að samningar myndu ekki nást um starfslok, þrátt fyrir að stjórn hefði teygt sig mjög langt. Þar sem trúnaðarbrestur var orðinn milli stjórnar og framkvæmdastjóra sá stjórn að lokum engan annan kost í stöðunni en að segja upp ráðningarsamningi við framkvæmdastjóra. Formaður Eyþings tók það fram að það var engum í stjórninni léttvæg ákvörðun, en algjör samhljómur var hins vegar um þau málalok.

Kostnaður við starfslokin eru líklega um 16 milljónir króna að orlofi meðtöldu, þá er ótalinn lögfræðikostnaður vegna málsins.

Þar sem samningar tókust ekki og vegna eðlis ráðningarsamnings framkvæmdastjóra, verður stjórn Eyþings að gera ráð fyrir að fyrrum framkvæmdastjóri kunni að láta reyna á lögmæti uppsagnarinnar fyrir dómstólum.  Það ætti þá að skýrast á næstu 2 mánuðum. Formaður Eyþings tók fram að stjórnin hefur ekki heimild til þess að ræða viðkvæm starfsmannamál utan þess sem fram hefur komið í þessari skýrslu stjórnar.

Fyrir utan þennan málaflokk er reksturinn í góðu jafnvægi, en nú er unnið að uppgjöri og verður ársreikningur kláraður í lok apríl og kynntur á aðalfundi Eyþings þann 15. nóvember nk.
Eins og fyrr segir eru þrjú stöðugildi hjá Eyþingi – staða framkvæmdastjóra, verkefnastjóra og menningarfulltrúa sem fjármagnað hefur verið hingað til úr sóknaráætlun.

Páll Björgvin Guðmundsson var í nóvember ráðinn tímabundið til starfa hjá Eyþingi og sinnti hann störfum framkvæmdastjóra Eyþings. Helga María Pétursdóttir var í janúar ráðin verkefnastjóri, hún kom frá AFE og reyndist það okkur mikill fengur að fá hana til starfa. Fyrir hönd stjórnar þakkaði formaður Eyþings starfsfólki og stjórn AFE fyrir að hafa verið einstaklega liðleg í tengslum við þá ráðningu. Páll Björgvin hætti hjá Eyþingi þann 15. mars sl. þegar hann var ráðinn framkvæmdastjóri landshlutasamtaka höfuðborgarsvæðisins og fyrir hönd stjórnar þakkaði formaður Eyþings honum fyrir vel unnin störf og afar ánægjulegt samstarf.

Stjórn ákvað í ljósi þess að aðeins tæpur mánuður væri til aukaaðalfundar þar sem afstaða yrði tekin til framtíðar félagsins að fela formanni tímabundið verkefni framkvæmdastjóra fram yfir auka aðalfund og gegnir hann því starfi nú. Sú staða er ekki heppileg til lengri tíma og er stjórn Eyþings sammála um að brýnt sé að nýr aðili taki við framkvæmdastjórninni eins fljótt og auðið er.

2. Almenningssamgöngur

Fyrir utan starfsmannamál hafa víða verið áskoranir. Sú fyrsta var vinna starfshóps um viðræður um almenningssamgöngur, en í þeim hópi sitja Hilda Jana Gísladóttir, formaður Eyþings, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, fyrrum formaður Eyþings og Elías Pétursson. Starfshópurinn gekk frá árs framlengingu á samningi við Vegagerðina um almenningssamgöngur á svæðinu og var það gert annars vegar til þess að tryggja að almenningssamgöngur myndu ekki falla niður á svæðinu um liðin áramót og hins vegar vegna þess að samningar náðust við Vegagerðina um að skuld Eyþings við Vegagerðina yrði greidd niður á tímabilinu, en skuldin hefur nú þegar verið lækkuð úr 43 milljónum í 36 milljónir á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Fjárhagsáætlun vegna almenningssamgangna virðist standast fyrstu þrjá mánuði ársins, að því undanskildu að farþegatekjur hafa lækkað nokkuð á árinu, auk þess sem gjaldtaka vegna Vaðalheiðarganga bættist við kostnaðinn við opnun þeirra.

Í samningi við Vegagerðina kemur fram að Eyþing muni ekki bera aukinn kostnað við Vaðlaheiðargöng, auk þess sem varnagli er í samningi um breyttar forsendur líkt og fækkun farþega og olíugjald og mun stjórn Eyþings fara yfir uppgjör fyrstu þriggja mánaða ársins með Vegagerðinni og óska eftir leiðréttingu í samræmi við þær breytingar. Eins og fram hefur komið í fréttum er rekstraraðili almenningssamgangna fyrir hönd Eyþings, HBA, í greiðslustöðvun. Eyþing vonast til að það takist að leysa farsællega úr þeirra rekstrarvanda, en allir sem að málum koma eru vel upplýstir um stöðuna og hefur Eyþing í samstarfi við lögmann farið yfir stöðuna og metið næstu skref. Málið er því í biðustöðu eins og staðan er í dag.

Töluverð óvissa er um framtíð almenningssamgöngukerfisins en Hilda Jana Gísladóttir situr fyrir hönd Eyþings í samráðshópi um framtíð almenningssamgöngukerfisins. Loksins er kominn til starfa hjá Vegagerðinni starfsmaður sem vinna mun sérstaklega að þessu málefni. Um þessar mundir er ræddur möguleiki á stofnun nýs rekstrarfélags um almenningssamgöngur sem ætti að verða einskonar grunnnet samgangna og yrði ohf. félag að stærstum hluta í eigu Vegagerðarinnar en mögulega einnig sveitarfélaganna. Engin afstaða hefur hins vegar verið tekin til málsins og verða ákvarðanir um framhaldið ekki teknar nema í góðu samráði stjórnar og fulltrúaráðs. Það mikilvægasta í huga stjórnar er að tryggja að grunnnet almenningssamgangna verði tryggt sem og svæðisbundin aðkoma við mótun leiðarkerfis sem byggi á að tryggt sé að kerfið sé tengt framhaldsskólum, heilbrigðisþjónustu, byggðakjörnum, ferjum, flugi auk tengingar milli landshluta.

3. Sóknaráætlun

Úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs var haldin á Ólafsfirði í byrjun febrúar og var þá úthlutað samtals 80 milljónum króna til 78 menningar-, atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna á starfssvæði Eyþings. Þess utan valdi stjórn Eyþings áhersluverkefni í samráði við fulltrúaráð, AFE, AÞ og MN sem fengu samtals 48,6 milljónir í sinn hlut og hafa þau verið staðfest af stýrihópi Stjórnarráðsins. Samtals var því úthlutað 128,6 milljónum króna.

Nánari upplýsingar um verkefnin má finna á heimasíðu Eyþings.

Þar sem tímabil gildandi sóknaráætlunar er að renna út um næstu áramót, er þegar hafinn undirbúningur við gerð nýrrar sóknaráætlunar. Sóknaráætlun er sameiginleg stefna landshlutans og þurfa öll verkefni sem úthlutað er úr þeim sjóði að eiga skýrskotun í sóknaráætlun og er því um að ræða einskonar leiðarvísi þegar kemur að úthlutun fjármagns. Því er um að ræða mjög mikilvægt samstarfsverkefni á svæðinu. Stjórn Eyþings hefur tekið þá ákvörðun að ganga til samninga við Capacent við að mótun nýrrar sóknaráætlunar og mun vinnan hefjast hjá fulltrúaráði Eyþings í ágúst. Því næst tekur við fundur með samráðsvettvangi um form og áherslur. Stórfundur verður síðar haldinn þar sem framtíðarsýn, gildi, meginmarkmið og mælanleg markmið verða rædd, vinnuhópar verða haldnir þar sem unnið verður að samhæfingu opinberra stefna, stefnur sveitarfélaga, alþjóðlegar skuldbindingar og stefnur landshlutans og kynnt verða drög að sóknaráætlun sem fara í samráðsgátt, sem fer síðan fyrir stjórn Eyþings og að lokum aðalfund Eyþings í nóvember 2019.

Sóknaráætlun er stærsta verkefni landshlutasamtakanna og telur stjórn ákaflega mikilvægt að gott samstarf verði um gerð nýrrar sóknaráætlunar sem mun gilda til næstu fimm ára. Stjórn Eyþings hlakkar ákaflega til þessarar vinnu og telur að landshlutinn geti nýtt sér þetta ferli til að efla samstarfið og gera Norðurland eystra sterkara en áður.

4. Stefnumótandi byggðaáætlun

Í Stefnumótandi byggðaáætlun setur ríkið fram sín verkefni á þremur sviðum sem skiptast í:

A: Jafna aðgengi að þjónustu, 20 skilgreind verkefni.

B: Jafna tækifæri til atvinnu, 18 skilgreind verkefni.

C: Stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt, 16 skilgreind verkefni.

Í byggðaáætlun eru verkefnin skilgreind, sem og ábyrgðaraðilar og í flestum tilfellum fjármagn sem ríkið er reiðubúið að setja í verkefni. Mörg þessara verkefna eru nú þegar farin af stað og þegar kemur að því að sækja þangað fjármagn þá skiptir samstarf miklu máli. Samstarf kjörinna fulltrúa í landshlutum, samstarf atvinnuþróunarfélaga og landshlutasamtaka, samstarf við ríkisstofnanir, samstarf sveitarfélaga á milli og samstarf við atvinnulífið svo eitthvað sé nefnt.

Í mörgum tilfellum hefur ríkið skilgreint landshlutasamtök sem umsóknaraðila, en er hins vegar augljóslega atvinnumál og má líklega skýra það ferli með því að í öllum landshlutum utan Eyþings svæðisins, starfa landshlutasamtök og atvinnuþróunarfélög formlega saman.

Dæmi um slíkt verkefni er verkefni til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum – C1. Árið 2018 var úthlutað í fyrsta sinn 120 milljónum króna úr þessum lið Byggðaáætlunar. Tvö verkefni á okkar starfssvæði fengu styrki, annars vegar Stórskipahöfn í Finnafirði sem fékk 18 milljónir og hins vegar framleiðsla rafmagns með lághitavatni úr borholu við Skógarlón í Öxarfirði sem fékk 3,5 milljónir króna. Starfssvæði Eyþings fékk því 21,5 milljón króna af 120 milljónum sem úthlutað var til landshlutasamtaka. Eyþing fékk styrki fyrir bæði verkefnin sem sótt var um á okkar starfssvæði.

Við úthlutun sem nú stendur yfir fyrir árið 2019 sóttum við um styrki í fimm verkefni; verkefni um áningar- og ferðamannastaði frá Kelduhverfi til og með Bakkafirði, Heimskautsgerði á Raufarhöfn, Verksmiðjuhúsin á Hjalteyri, Sjálfbæra raforkuframleiðslu í Grímsey og uppbyggingu Hríseyjar sem ferðamannastaðar. Svo á eftir að koma í ljóst hvort að þessi verkefni fái framgöngu.

C1 er hins vegar aðeins dæmi um eitt verkefni af þessum 54 skilgreindum verkefnum sem ríkið hefur skilgreint í stefnumótandi byggðaáætlun. Tækifærin eru því til staðar en við þurfum að sýna frumkvæði ef við viljum ná árangri.

Stjórn Eyþings telur algjört lykilatriði að efla til muna markvissa samvinnu á svæðinu, þannig geti Norðurland eystra m.a. sótt mun betur í þá fjármuni sem finna má í stefnumótandi byggðaáætlun.

5. Hlutverk landshlutasamtaka

Töluvert hefur verið rætt um hlutverk landshlutasamtaka, sem virðist sífellt aukast, á sama tíma og rætt hefur verðið um lagalega skilgreiningu á hlutverki þeirra. Nú er að störfum starfshópur sem vinnur að breyttu hlutverki landshlutasamtaka. Hópurinn tekst á við spurningar eins og: Hver er stjórnsýsluleg staða landshlutasamtaka? Hvaða þjónustu eiga þau að geta veitt og/eða geta veitt sveitarstjórnum/íbúum? Hvaða verkefnum geta þau sinnt/eiga þau að sinna fyrir sveitarfélögin? Hvaða hlutverk geta þau haft? Hvaða hlutverk geta þau haft eða eiga að hafa í svæðisbundinni samvinnu? Hvaða hlutverki eiga þau að gegna eða geta gegnt í samskiptum ríkis og sveitarfélaga? Hvernig getur starfsemi og skipulag landshlutasamtaka tryggt lýðræðislega aðkomu kjörinna fulltrúa og upplýsingar til íbúa?

Stjórn Eyþings leggur áherslu á að stefnumótandi aðilar á starfssvæðinu séu kjörnir fulltrúar og hefur í því skyni lagt áherslu á að auka vægi fulltrúaráðs, enda sé félagið ekki málpípa ríkisvaldsins, heldur þjónustuaðili við sveitarfélögin og íbúa þess.

6. Önnur verkefni

Eyþing tekur þátt í verkefnum um Brothættar byggðir og á fulltrúa í verkefnastjórnum í Öxarfirði, Bakkafirði, Hrísey og Grímsey. Þau verkefni eru unnin af Byggðastofnun og eru okkar svæði verðmæt.

Eyþing tilnefnir í ýmsar stjórnir fyrir hönd landshlutans og má þar nefna fulltrúa í stjórn Eims og tilnefningu í minjaráð. Fyrir liggur verkefni að uppfæra upplýsingar á heimasíðunni um þær nefndir og ráð sem Eyþing kemur að.

Tveir starfshópar hafa verið að störfum fyrir hönd Eyþings; starfshópur um framtíðarskipan í sorpmálum og starfshópur um samvinnu Eyþings, AÞ og AFE. Fyrir fundinum liggur tillaga um þóknun fyrir þátttöku í starfshópum, en um vinnu starfshópa hafa ekki verið skrifaðar reglur hingað til.

Stjórn Eyþings hefur í nokkrum tilfellum skrifað umsagnir í samráðsgátt stjórnvalda og má þar m.a. nefna umsögn um samgönguáætlun, en fulltrúar landshlutasamtakanna hafa tvívegis farið fyrir umhverfis- og samgöngunefnd þingsins til að ræða áherslurnar. Stjórn telur að með betri samvinnu kjörinna fulltrúa og sveitarfélaga verði hægt að setja meiri vigt í umsagnir í samráðsgátt og þingsályktunartillögur og þannig staðið sterkari sem landshluti og stutt hvert annað þegar við á.

Fjölmargar leiðir eru til að efla samstarf og samvinnu, sem dæmi má nefna að skólastjórnendur hafa óskað eftir vettvangi fyrir samstarf skóla á starfssvæðinu, Íbúðalánasjóður hefur óskað eftir samtali um mögulegt samstarf á svæðinu og svo mætti í raun lengi telja.

Þá má geta þess að stjórn Eyþings og stjórn SSNV hafa óskað eftir því að fá áheyrnarfulltrúa í stjórn Markaðsstofu Norðurlands og vonumst við til þess að orðið verði við þeirri beiðni til að auka samtal og samstarf vegna ferðaþjónustu, en svar hefur enn ekki borist vegna málsins.

Norðurland eystra er eini landshlutinn þar sem ekki er formlegt samstarf milli landshlutasamtaka og atvinnuþróunarfélaga og í nokkrum landshlutum hefur starfið vaxið og sameiginleg verkefni aukist með betri samvinnu og minni skörun verkefna. Litlar einingar eru þess utan mjög brothættar og skörun milli stoðstofnana oftar en ekki augljós. Stjórn Eyþings er sannfærð um að ef við náum í dag samstöðu um ályktun sem færir okkur nær sameiningu Eyþings, AÞ og AFE þá getum við brett upp ermar og tekið fyrstu skrefin í að Norðurland eystra verði sterkara, atvinnulífinu, sveitarfélögum og okkur öllum íbúum til heilla. Sameinuð stöndum við.

Akureyri 9. apríl 2019

Stjórn Eyþings.

 

Getum við bætt síðuna?