Fundargerð - Stjórn Eyþings - 306. fundur - 27.06.2018
Árið 2018, miðvikudaginn 27. júní, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Hafnarstræti 91, Akureyri. Mætt voru Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður, Arnór Benónýsson, Eiríkur H. Hauksson, Eva Hrund Einarsdóttir, Gunnar I. Birgisson og Sif Jóhannesdóttir. Elías Pétusson boðaði forföll skömmu fyrir fund. Einnig sat fundinn Pétur Þór Jónasson framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð.
Fundur hófst kl. 13:10.
Þetta gerðist helst.
1. Almenningssamgöngur.
Lögð voru fram eftirfarandi gögn: Minnisblað frá fundi í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu um almenningssamgöngur 22.06.2018, drög að skýrslu KPMG um almenningssamgöngur á landsbyggðinni (25. júní 2018), grein 0.3.2 úr verksamningi, gögn um þróun farþegafjölda og farþegafjölda á leiðum Eyþings það sem af er árs 2018.
Stjórn Eyþings lýsir yfir vonbrigðum yfir því að ríkið sé ekki komið lengra á veg með þá vinnu að leysa málefni almenningssamgangna á landsbyggðinni.
Stjórnin telur sig ekki getað framlengt að svo stöddu samninga vegna almenningssamgangna nema að til komi staðfesting frá ríkisstjórn um aukið fjármagn til rekstrarins og gefið verði vilyrði fyrir fjármagni vegna uppsafnaðra skulda verkefnisins ásamt fyrirsjánlegu tapi 2018 og 2019. Er þetta í samræmi við ályktun aðalfundar Eyþings 11. nóvember 2017. Stjórn Eyþings óskar svara frá stjórnvöldum sem allra fyrst vegna málsins.
2. Samningur milli HA og Eyþings um bókasafnsþjónustu við grunn- og leikskólakennara.
Stjórnin samþykkir að beina því til aðalfundar Eyþings 2018 að samþykkja að segja upp samningnum í samræmi við 6. grein hans.
3. Sóknaráætlun.
Framkvæmdastjóri greindi frá stöðu áhersluverkefna og fjármálum sóknaráætlunar.
4. Bréf frá Fjallabyggð, dags. 23. maí, varðandi hugmynd að sorporkustöð.
Í bréfinu kemur fram bókun bæjarráðs þann 22. maí sl. þar sem því er beint til stjórnar Eyþings að taka málið upp.
Stjórnin telur rétt að skoða möguleika á sorporkustöð á Norðurlandi og vísar til áhersluverkefnis um úrgangsmál. Þá samþykkti stjórnin að skipa Kristján Þór Magnússon og Gunnar I. Birgisson í starfshóp í tengslum við áhersluverkefnið. Óskað er eftir að SSNV skipi fulltrúa í starfshópinn.
5. Starfsreglur stjórnar.
Drög að starfsreglum voru lagðar fram með breytingum sem fram komu á 305. fundi.
Stjórnin samþykkti starfsreglurnar með áorðnum breytingum.
6. Starfsmannamál og sameiginleg mannauðsstefna landshlutasamtakanna.
Umræðu um þennan dagskrárlið var ólokið á 305. fundi. Framkvæmdastjóri óskaði eftir að bókað yrði í trúnaðarmálabók og var það samþykkt.
Lögð var fram samræmd mannauðsstefna landshlutasamtakanna sem framkvæmdastjórar þeirra sameinuðust um að vinna. Stefnan var unnin í nánu samstarfi við Samband ísl. sveitarfélaga, en hún tekur bæði til framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna. Mannauðsstefnan inniheldur bæði almenna stefnu og sértækar starfsreglur.
Stjórnin staðfestir mannauðsstefnuna.
7. Tölvubréf frá Greiðri leið ehf., dags. 22. júní, boðun hluthafafundar.
Boðað er til hluthafafundar mánudaginn 2. júlí nk. til að bregðast við ábendingum sem bárust frá RSK.
Samþykkt að fela framkvæmdastjóra að fara með hlut Eyþings á fundinum.
8. Önnur mál.
(a) Frá fundi formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna 6. og 7. júní.
Formaður og framkvæmdastjóri sögðu frá fundinum,
(b) Fundur í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis 1. júní sl. vegna frumvarps til laga um skipulag haf- og strandsvæða.
Þröstur Friðfinnsson sveitarstjóri Grýtubakkahrepps mætti á fundinn fyrir hönd þeirra aðila sem boðaðir voru en þar á meðal var Eyþing.
(c) Persónuvernd.
Framkvæmdastjóri fór yfir hvernig málið snéri að Eyþingi.
(d) Kosningar 2018 – aðalfulltrúar í sveitarstjórnum.
Lagður var fram listi yfir nýkjörna aðalmenn í sveitarstjórnum innan Eyþings. Samkvæmt honum þá eru konur nú 46% aðalmanna í landshlutanum og nýliðar í sveitarstjórnum 52%. Í þeim hópi eru samt nokkrir sem eru að koma inn á ný eftir hlé frá sveitarstjórnarmálum.
(e) Samgönguþing 2018.
Formaður og framkvæmdstjóri sátu þingið. Formaður greindi frá því helsta sem þar kom fram.
Fundi slitið kl. 15:10.
Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.