Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 305. fundur - 2.5.2018

02.05.2018

Árið 2018, miðvikudaginn 2. maí, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Hafnarstræti 91, Akureyri. Mætt voru Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður, Arnór Benónýsson, Eiríkur H. Hauksson, Elías Pétursson, Eva Hrund Einarsdóttir, Gunnar I. Birgisson og Sif Jóhannesdóttir. Einnig sat fundinn Pétur Þór Jónasson framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð.

Fundur hófst kl: 15:00. 

Þetta gerðist helst.

 1.      Ársreikningur Eyþings 2017 ásamt endurskoðunarskýrslu.

Níels Guðmundsson endurskoðandi hjá Enor mætti á fundinn undir þessum dagskrárlið og var hann boðinn velkominn. Níels fór yfir ársreikninginn og svaraði fyrirspurnum ásamt framkvæmdastjóra.

Rekstartekjur ársins 2017 námu kr. 358 millj. samanborið við tekjur að fjárhæð kr. 407,3 millj. samkvæmt áætlun. Frávik í tekjum frá áætlun eru í heild kr. 49,2 millj. og skýrast að mestu af frestun tekan vegna sóknaráætlunar. Rekstrargjöld ársins námu kr. 359,5 millj. samanborið við gjöld að fjárhæð kr. 401,7 millj. samkvæmt áætlun. Helstu frávik koma fram í úthlutuðum styrkjum og öðrum rekstrarkostnaði. Rekstrarniðurstaða ársins 2017 var neikvæð um kr. 435 þúsund samanborið við kr. 6,2 millj. jákvæða afkomu skv. áætlun.
Heildareignir í árslok 2017 námu kr. 170,8 millj. samanborið við kr. 161,2 millj. í ársbyrjun og hefur efnahagur sambandsins haldið áfram að stækka.
Eigið fé var í árslok neikvætt um kr. 53,5 millj. samanborið við kr. 53,1 millj. neikvæða stöðu í ársbyrjun. Uppsafnað tap samgönguhlutans hafði í árslok 2017 lækkað í 73,1 millj. úr 73,6 millj.
Hlutur Eyþings í áætluðum lífeyrisskuldbindingum hjá B-deild LSR vegna starfsmanna skólaþjónustu Eyþings hækkaði um kr. 703 þúsund á árinu 2017 og nemur nú 24,5 millj. kr.

Endurskoðandi fór í framhaldi yfir endurskoðunarskýrsluna.
Stjórn Eyþings staðfesti ársreikninginn með undirskrift sinni og vísar honum til aðalfundar.

 2.      Starfsmannamál.
Umræðu var frestað.

 3.      Starfsreglur stjórnar Eyþings.
Framkvæmdastjóri fór yfir drög að starfsreglum. Fram komu nokkrar ábendingar og verða ný drög lögð fram fyrir næsta fund stjórnar.

4.      Þingmál.
(a)   Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (áhættumat erfðablöndunar, úthlutun eldissvæða, stjórnvaldssektir ofl.), 457. mál.
http://www.althingi.is/altext/148/s/0656.html
Lagt fram. 

(b)  Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun 2018 – 2024, 480. mál.
http://www.althingi.is/altext/148/s/0690.html
Stjórn Eyþings lýsir yfir ánægju með framkomna tillögu að stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 og fagnar því að tekið hefur verið tillit til ábendinga umsagnaraðila þar á meðal umsagnar Eyþings frá 21. mars sl.
Stjórn Eyþings ítrekar þá afstöðu sína að í tillögunni verði stutt við starfandi háskóla á landsbyggðinni. Einnig að nauðsynlegt sé að sá aðili sem mun annast framkvæmd verkefnis um fjarheilbrigðisþjónustu (A5) og héraðslækningar (A6) hafi góða þekkingu og yfirsýn á þeim aðstæðum sem eru á landsbyggðinni.
Ef staðsetja á nýja starfsemi á vegum ríkisins á höfuðborgarsvæðinu þá telur stjórn Eyþings að sýna þurfi fram á með gildum rökum að verulegt óhagræði sé af því að staðsetja hana á landsbyggðinni. (liður B j). 

(c)   Frumvarp til laga um Póst- og fjarskiptastofnun o.fl. (galdtaka fyrir tíðnir og alþjónustu), 454. mál.
http://www.althingi.is/altext/148/s/0653.html
Lagt fram. 

(d)  Tillaga til þingsályktunar um stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018 – 2029, 479. mál.
http://www.althingi.is/altext/148/s/0689.html 
Lagt fram. 

(e)   Frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða, 425. mál.
http://www.althingi.is/altext/148/s/0607.html 
Að mati stjórnar Eyþings er óeðlilegt að fulltrúum ríkisins í svæðisráði sé áskilið neitunarvald í ákvæði 5. mgr. 5. gr. frumvarpsins. Þess í stað mætti gera kröfu um að aukinn meirihluta atkvæða þurfi til samþykktar mála í svæðisráði. Jafnframt telur stjórn Eyþings mikilvægt að tryggja aukið vægi aðliggjandi sveitarfélags/sveitarfélaga í svæðisráðinu með fjölgun fulltrúa. 

(f)    Frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum (EES-reglur, stjórnvaldssektir o.fl.)
http://www.althingi.is/altext/148/s/0673.html  
Stjórn Eyþings tekur undir sérálit fulltrúa Samtaka atvinnulífsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna tillögu umhverfis – og auðlindaráðuneytis að breytingum á lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. 

(g)   Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2019 – 2022, 494. mál.
http://www.althingi.is/altext/148/s/0716.html  
Lögð fram.

5.      Sóknaráætlun.
(a)   Fundargerð stýrihóps Stjórnarráðsins, dags. 26. mars, 44. fundur.
Lögð fram.

(b)  Málþing um áhersluverkefni 15. maí.
Lögð var fram dagskrá sem framkvæmdstjóri kynnti. Málþingið verður haldið á Hótel KEA.

(c)   Staða áhersluverkefna.
Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir verkefnunum. 

(d)  Fulltrúar í fagráði Eims.
Lagðar voru fram upplýsingar um fulltrúa í fagráðinu, en skv. 5. grein í samþykktum Eims á Eyþing þar tvo fulltrúa. Núverandi fulltrúar eru Arnheiður Jóhannsdóttir og Sigurður Ingi Friðleifsson. Arnheiður hefur óskað eftir lausn frá setu í ráðinu.
Stjórnin samþykkti að fresta skipun í fagráðið.

6.      Tölvubréf frá ENVO ehf., dags. 28. mars, um verkefnið Sorporku.
Lagt fram til kynningar.

 7.      Bréf frá Greiðri leið ehf., dags. 26. apríl, boðun aðalfundar félagsins.
Stjórnin samþykkir að formaður fari með umboð Eyþings á fundinum sem haldinn verður 11. maí  í aðstöðu verkeftirlits Vaðlaheiðarganga hf. og að hluta í göngunum.

 8.      Bréf frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, dags. 20. apríl, um gerð nýrrar ferðamálaáætlunar 2020 – 2025.
Formanni og framkvæmdastjóra er falið að eiga fund með framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands og fulltrúa Ferðamálastofu og senda í framhaldi inn svör við þeim spurningum sem fram koma í bréfinu.  Stjórnarmönnum verði áður gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum.

 9.      Önnur mál.
(a)   Ársfundur Byggðastofnunar 25. apríl.
Ársfundurinn var haldinn á Laugarbakka í Miðfirði og sat framkvæmdastjóri fundinn. Samhliða var haldinn vorfundur atvinnuþróunar sem framkvæmdastjóri sat einnig að hluta. Mjög áhugaverð erindi voru flutt á ársfundinum s.s. um niðurstöður þjónustukönnunar á því hvert íbúar landsbyggðanna sækja þjónustu, erindi um nýja byggðaáætlun og um fyrirhugaða rannsókn á búferlaflutningum.

(b)  Ráðstefna um flugmál 3. maí.
Lögð fram dagskrá ráðstefnunnar „Flogið í rétta átt“ sem haldin verður í Menningarhúsinu Hofi, Akureyri.

 

Fundi slitið kl. 17:52.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

Getum við bætt síðuna?