Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 301. fundur - 13.12.2017

13.12.2017

Árið 2017, miðvikudaginn 13. desember, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Hafnarstræti 91, Akureyri. Mætt voru Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður, Arnór Benónýsson, Eiríkur H. Hauksson, Elías Pétursson, Eva Hrund Einarsdóttir og Sif Jóhannesdóttir. Heiða Hilmarsdóttir mætti í forföllum Gunnars I. Birgissonar. Einnig sátu fundinn Pétur Þór Jónasson framkvæmdastjóri og Linda Margrét Sigurðardóttir verkefnastjóri sem ritaði fundargerð.

Fundur hófst kl. 11:15

Þetta gerðist helst.

 1. Erindi (tölvupóstur) frá Arnóri Benónýssyni, dags. 1. desember.

Á aðalfundi Eyþings 10. - 11. nóvember sl. sagði Arnór af sér sem varaformaður í stjórn, formaður fagráðs menningar og stjórnarsetu í Eim. Með erindinu dregur Arnór afsagnir sínar til baka og óskar eftir að stjórn Eyþings samþykki það. Jafnframt leggur Arnór fram eftirfarandi bókun: 

Í framhaldi af erindi mínu vil ég lýsa því yfir að orð mín á aðalfundi 10. og 11. nóvember beindust alls ekki að samstarfsfólki mínu í stjórn eða einstaklingum. 

Stjórn samþykkir einróma erindi Arnórs.

 2. Fundargerð aðalfundar Eyþings 2017.

(a)   Ályktun aðalfundar.
Ályktun hefur verið send til þeirra ráðherra sem ályktunin varðar og jafnframt þingmanna og fleiri aðila. 

(b)  Álit málefnahópa.
Stjórn felur framkvæmdastjóra og formanni að draga saman úr áliti málefnahópa þau atriði sem snúa að stjórn og leggja fyrir næsta fund. 

(c)   Frestun áhersluverkefnis um svæðisskipulag ferðaþjónustu.
Stjórn samþykkir að fresta áhersluverkefni um svæðisskipulag ferðaþjónustu til aðalfundar 2018 í samræmi við umræðu á aðalfundi 10.-11. nóvember sl. 

(d)  Tillaga Siggeirs Stefánssonar um innri greiningu á Eyþingi.
Stjórn felur framkvæmdastjóra og formanni að skilgreina viðfangsefnið og ræða við mögulega ráðgjafa vegna verkefnisins og leggja fyrir næsta fund. 

Formaður leggur til að framvegis verði umræða á aðalfundi tekin upp og sett á vef Eyþings og fundarritun verði einfölduð.
Stjórn samþykkir tillöguna.

 3. Sóknaráætlun.

(a)   Fundargerð stýrihóps Stjórnarráðsins, dags. 23. október, 40. fundur.
Lögð fram til kynningar. 

(b)  Greinargerð stýrihóps um framvindu sóknaráætlana árið 2016 (september 2017). http://www.samband.is/media/soknaraaetlun-2020/Greinargerd-2016_Endanleg.pdf
Lögð fram til kynningar. 

(c)   Áhersluverkefni.
Lagðar voru fram tillögur og verkefnislýsingar að nýjum áhersluverkefnum.

Raforkuöryggi á Norðurlandi eystra. Kostnaðaráætlun 5.000.000 auk vinnuframlags atvinnuþróunarfélaganna. Framlag Sóknaráætlunar 5.000.000 kr.

Innviðagreining á Norðurlandi eystra. Kostnaðaráætlun 14.800.000 kr. Framlag úr Sóknaráætlunar 12.000.000 kr.

SinfoniaNord - þjónusta og upptaka á sinfónískri kvikmyndatónlist í Hofi. Kostnaðaráætlun 50.060.000 kr. Framlag úr Sóknaráætlun 25.000.000 kr.

Norðurlandsappið. Kostnaðaráætlun 13.000.000 kr. Framlag úr Sóknaráætlun 10.000.000 kr.

Ofangreind fjögur áhersluverkefni verða fjármögnuð af Sóknaráætlun 2017. 

Þá er gerð tillaga um eitt áhersluverkefni sem fjármagnað verði af Sóknaráætlun 2018. Okkar áfangastaður – markaðsgreining fyrir Norðurland. Kostnaðaráætlun 20.000.000 kr. Verkefnið er fjármagnað af Sóknaráætlunum Norðurlands eystra og Norðurlands vestra. Framlag úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra 15.000.000 kr. 

Stjórnin samþykkir verkefnið um raforkuöryggi á Norðurlandi eystra af fjárveitingu 2017 og tekur jákvætt í önnur verkefni og heimilar framkvæmdarstjóra að kynna þau fyrir stýrihóp Stjórnarráðsins en stjórnin mun fjalla frekar um verkefnin á næsta fundi. 

(d)  Uppbyggingarsjóður.
Fjöldi umsókna í Uppbyggingarsjóð vegna 2018 voru 133 og heildarupphæð sem sótt var um 271.000.000 kr. Stefnt er að úthlutun 1. eða 2. febrúar. 

(e)   Viðaukasamningur við samning um sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015-2019 um sérstakt framlag til undirbúnings stórskipahafnar í Finnafirði.
Stjórnin staðfestir samninginn. 

Sif Jóhannesdóttir yfirgaf fundinn. 

(f)    Ráðstöfunarfé sóknaráætlunar 2018.
Ráðstöfunarfé 2018 er 137.310.056 kr. Þegar er áætlað að ráðstafa til áhersluverkefna 20.225.000 kr. Óráðstafað vegna sóknaráætlun 2018 er því 117.085.056 kr. Stjórn ákveður að setja til úthlutunar í Uppbyggingarsjóð samtals 100.000.000 kr. sem skiptist jafnt milli menningar og atvinnuþróunar og nýsköpunar. Jafnframt heimilar stjórn úthlutunarnefnd að færa fjármuni á milli verkefnaflokka ef svigrúm skapast. 

g) Skipun í fagráð menningar
Stjórnin samþykkir að skipa Huldu Sif Hermannsdóttur í fagráð menningar. 

4. Almenningssamgöngur.
Lögð fram fundargerð starfshóps um almenningssamgöngur dags. 24. nóvember 18. fundur. Formaður fór yfir stöðu mála. 

Elías Pétursson yfirgaf fundinn.

5. Sveitarstjórnarvettvangur EFTA.
Formaður fór yfir helstu mál sem hafa verið til umræðu á þessum vettvangi.

6. Forsendur fyrir stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Lokaskýrsla nefndar (7. nóvember 2017).
https://www.stjornarradid.is/gogn/rit-og-skyrslur/stakt-rit/2017/11/08/Lokaskyrsla-um-forsendur-fyrir-stofnun-thjodgards-a-midhalendi-Islands-afhent-radherra/
Stjórn Eyþings leggur áherslu á það hvað varðar hugmyndir um þjóðgarð á miðhálendi Íslands að raforkuflutningar og raforkuöryggi verði tryggt um land allt. 

7. Bréf frá vinnuhópi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, dags. 17. október, um rekstur flugsamgöngukerfis innanlands (frestað á 300. fundi).
Stjórnin tekur undir álit málefnahóps um samgöngur frá aðalfundi Eyþings. Áríðandi er að litið sé til landsins alls í uppbyggingu innviða, sbr. slagorðið Allt Ísland allt árið. Mikilvægt er að rekið sé eitt flugvallakerfi á Íslandi og hluti af tekjum Isavia af Keflavíkurflugvelli verði nýttar til uppbyggingar á öðrum flugvöllum. Líta má til norsku aðferðarinnar (Avinor).

Innanlandsflug er stór hluti af almenningsamgöngum á Íslandi og nauðsynlegt er að flugfargjöld séu á viðráðanlegu verði, þannig að flugsamgöngur sé raunverulegur valkostur fyrir íbúa svæðisins. Mikilvægt er að aðferð líkt og „skoska leiðin“ verði komið á og hið opinbera niðurgreiði flugfargjöld íbúa á skilgreindum svæðum. Nauðsynlegt er að íbúar landsbyggðanna eigi greiðan aðgang að þjónustu stofnana og fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu.

8. Aðalfundur 2018.
Framkvæmdastjóri lagði fram tillögu um að aðalfundur verði haldinn dagana 21.-22. september 2018.
Stjórnin samþykkir tillöguna.

9. Önnur mál.
Stjórn Eyþings hvetur Samband íslenskra sveitarfélaga til að halda áfram vinnu varðandi mótun verkferla og innleiðingu nýrra persónuverndarlaga.

 

Fundi lokið 13.51.

Getum við bætt síðuna?