Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 27.09.2017

27.09.2017

Árið 2017, miðvikudaginn 27. september, kom stjórn Eyþings saman til fundar á Hótel Norðurljós, Raufarhöfn. Mætt voru Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður, Arnór Benónýsson, Eiríkur H. Hauksson, Eva Hrund Einarsdóttir, Sif Jóhannesdóttir og Heiða Hilmarsdóttir varamaður Gunnars I. Birgissonar sem boðaði forföll. Elías forfallaðist óvænt. Einnig sat framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, fundinn.

Fundur hófst kl. 15:00

Formaður bauð Heiðu sérstaklega velkomna en hún situr nú sinn fyrsta fund í stjórn Eyþings. 

Þetta gerðist helst.

1. Fundargerð fulltrúaráðs, dags. 20. september, 7. fundur.

Lögð fram. Talsverðar umræður urðu um efni hennar. 

2. Almenningssamgöngur.

(a)   Staða mála.
Lagðar voru fram upplýsingar um farþegafjölda mánuðina janúar – ágúst. Einnig lagt fram minnisblað framkvæmstjóra frá 2. september vegna fundar með samgönguráðherra.

Formaður og framkvæmdastjóri gerðu nánari grein fyrir stöðunni. Fundur verður með fulltrúum SSA, í tengslum við fjármálaráðstefnuna í næstu viku, um óuppgerða hlutdeild þeirra í rekstri leiðar 56.

(b)   Viðbrögð sveitarfélaga.
Lagðar voru fram bókanir sem borist höfðu frá Fjallabyggð, Eyjafjarðarsveit og Skútustaðahreppi.

(c)    Fundargerð starfshóps um almenningssamgöngur, dags. 8. september, 17. fundur.
Stjórn Eyþings gerir alvarlegar athugasemdir við fundargerðina. Í henni koma fram rangfærslur og ávirðingar gagnvart Eyþingi sem ekki hafa við rök að styðjast. Ekki hefur verið kallað eftir þeim skýringum frá Eyþingi sem rætt er um í fundargerðinni.

Stjórnin samþykkir að fela formanni og framkvæmdastjóra að eiga fund með lögfræðingi Eyþings og koma leiðréttingum og athugasemdum við fundargerðina á framfæri við starfshópinn í samráði við hann. 

3. Sóknaráætlun.

(a)     Staða verkefna.
Lagt var fram yfirlit um stöðu verkefna sem fengið hafa styrki úr Uppbyggingarsjóði 2017. Upplýsingar vantar um tvö verkefni en staða annarra verkefna er góð.

(b)     Fjárhagsstaða.
Lagðar voru fram upplýsingar um fjárhagsstöðu Sóknaráætlunar. Fyrir liggur að verulegir fjármunir munu flytjast til næsta árs. Í ljósi þess er þörf á að yfirfara áherslur Uppbyggingarsjóðs. Þá er framkvæmdastjóra falið að kynna betur aðgerðaáætlun Eyþings og þá möguleika sem í henni felast til að ráðast í áhersluverkefni.

(c)      Tillögur að nýjum áhersluverkefnum.
Lagðar voru fram tillögur og verkefnislýsingar að þremur nýjum áhersluverkefnum:

Smávirkjanir á Norðurlandi eystra – frumúttekt. Kostnaðaráætlun 10 -11 mkr. Framlag sóknaráætlunar 6,5 mkr.

Stjórnin samþykkir að fresta afgreiðslu og felur framkvæmdastjóra að ræða þær ábendingar sem komu fram við framkvæmdastjóra atvinnuþróunarfélaganna. Stjórnin leggur sérstaka áherslu á að atvinnuþróunarfélögin fái afstöðu allra sveitarfélaganna til verkefnisins.

Raforkuöryggi á Norðurlandi eystra. Kostnaðaráætlun 7 mkr. Framlag sóknaráætlunar 5 mkr.

Stjórnin samþykkir að fresta afgreiðslu og óska eftir nánari skilgreiningu á þeim gögnum sem áætlað er að afla. Að mati stjórnar ber að hafa hið pólitíska samráð á vettvangi Eyþings, þannig að meginhlutverk stoðstofnana séu virt.

GERT – grunnmenntun efld í raunvísindum og tækni. Kostnaðaráætlun 9 mkr. Framlag sóknaráætlunar 9 mkr.

Stjórnin samþykkir verkefnið.

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga eru skráð framkvæmdaaðilar allra verkefnanna.

(d)     Fundargerðir stýrihóps Stjórnarráðsins um byggðamál, 37. og 38. fundur.
Lagðar fram.

(e)      Bréf frá Andreu Hjálmsdóttur, dags. 12. september.
Með bréfinu biðst Andrea lausnar frá setu í fagráði menningar.

Stjórnin samþykkir beiðnina og þakkar Andreu fyrir gott starf.

(f)      Aðrar upplýsingar.
Alls bárust 35 umsóknir um starf verkefnisstjóra menningarmála. Framkvæmdastjóri greindi frá að hann hefði í samráði við formann samið við Capacent um að annast ráðningarferli í starfið. Hann lagði til að kostnaður vegna þess ásamt auglýsingakostnaði, áætlaður 575 þúsund kr., verði greiddur úr verkefninu Þróun og ráðgjöf í menningarmálum þar sem svigrúm er.

Stjórnin samþykkti tillögu framkvæmdastjóra. 

4. Aðalfundur 2017.

Vegna Alþingiskosninganna 28. október reyndist nauðsynlegt að seinka aðalfundinum. Hann verður dagana 10. og 11. nóvember á Siglóhótel, Siglufirði.

Rætt var um efnistök og fyrirkomulag fundarins sem einnig var til umræðu á fundi fulltrúaráðsins 20. september.

Framkvæmdastjóra var falið að vinna úr fram komnum hugmyndum.

5. Boð á haustfund landshlutasamtakanna 4. október.

Að þessu sinni er öllum aðalmönnum í stjórnum landshlutasamtaka boðið til fundarins. Stjórnarmenn eru hvattir til að mæta og tilkynna þátttöku til framkvæmdastjóra. 

6. Brothættar byggðir.

Silja Jóhannesdóttir verkefnisstjóri mætti á fundinn og greindi frá framvindu verkefnanna Raufarhöfn og framtíðin og Öxarfjörður í sókn.

Góðar umræður urðu í kjölfarið um ávinning af verkefnum af þessu tagi. 

7. Kynnisferð um Raufarhöfn.

Farið var um Raufarhöfn undir leiðsögn Silju og m.a. sýnd ýmis dæmi um afrakstur verkefnisins um Brothættar byggðir. 

 

Fundi slitið að lokinni skoðunarferð kl. 18:50.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

Getum við bætt síðuna?