Fundargerð - Stjórn Eyþings - 24.10.2013
Stjórn Eyþings
247. fundur
Árið 2013, fimmtudaginn 24. október, kom stjórn Eyþings saman til fundar að Strandgötu 29 Akureyri. Mætt voru Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður, Dagbjört Bjarnadóttir, Guðný Sverrisdóttir, Gunnlaugur Stefánsson, Siggeir Stefánsson, Sigurður Valur Ásbjarnarsonar og Ólafur Jónsson varamaður Höllu Bjarkar Reynisdóttur sem boðaði forföll. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.
Fundur hófst kl. 13:30.
Þetta gerðist helst.
Formaður vakti athygli á að þetta væri fyrsti fundur sjö manna stjórnar Eyþings en fjölgað var um tvo í stjórn á nýliðnum aðalfundi. Hann bauð nýja stjórnarmenn velkomna, þá Siggeir og Ólaf.
1. Fundargerð aðalfundar 2013 (fulltrúaráð, fjárhagsáætlun og ályktanir).
Farið var yfir nýtt ákvæði í lögum Eyþings um fulltrúaráð. Einnig farið yfir tillögur nefndar um skipulag Eyþings um fjölda fulltrúa einstakra sveitarfélaga. Framkvæmdastjóra falið að kalla eftir skipun fulltrúa í fulltrúaráðið.
Umræða varð um samþykkta fjárhagsáætlun fyrir árið 2014. Pétur vakti athygli á ætla megi að hækkun á framlagi sveitarfélaganna fari í að mæta auknum útgjöldum í yfirstjórn sem leiðir af samþykkt aðalfundar um fulltrúaráð og fjölgun í stjórn. Ekki hefði verið tekið tillit til aukins umfangs starfseminnar að örðu leyti. Hafa verði í huga að fjárhagsstaða Eyþings er því þröng miðað við aukin verkefni.
Farið var yfir allar ályktanir fundarins og hvernig einstökum ályktunum verður fylgt eftir. Varðandi ályktun um menningarsamninga þá samþykkir stjórnin að fela Menningarráði Eyþings og menningarfulltrúa að undirbúa gerð nýs menningarsamnings og hafa um það samráð við formann og framkvæmdastjóra. Stjórn Eyþings mun í framhaldi ganga frá nýjum samningi.
2. Almenningssamgöngur.
(a) Samantekt (glærur) frá Smára Ólafssyni á fundi Eyþings og Strætó 9. september sl.
Meðal annars koma fram athyglisverðar upplýsingar um fjárframlög ríkisins vegna einstakra leiða á þriggja ára tímabili fyrir yfirtöku landshlutasamtakanna á verkefninu. Þessar upplýsingar vekja upp spurningar um hvort rétt hafi verið gefið við yfirtökuna.
Samþykkt að leita til verkfræðistofu og fá áætlun um kostnað við greiningu á framlögunum, samanburð á einstökum leiðum og milli landshluta. Ábending hefur borist um samgönguverkfræðing hjá VSÓ í verkið. Ólafur lagði til að leitað verði eftir tilboðum frá heimaaðilum.
(b) Minnisblað Strætó bs. (SÓ) um farþegafjölda, dags. 11. september.
Lagt fram.
(c) Rekstraryfirlit 2013 og áætlun 2013-2017.
Lagt fram og farið yfir þá liði sem enn er eftir að semja um og þann aukaakstur sem var síðast liðið sumar.
(d) Fundargerð 1. fundar með Strætó b.s., dags. 2. október, almenn mál.
Lögð fram ítarleg fundargerð um fjölmörg mál. Meðal annars um markaðsmál og endurbætur á heimasíðu, þörf á reglum um ferðalög barna, breytt tímabil sumaráætlunar á Norðurlandi eystra sem verður 1. júní til 31. ágúst og um slæma aðstöðu og slysahættu á biðstöðinni við Hof.
(e) Fundargerð 2. fundar með Strætó b.s., dags. 2. október, gjaldskrármál.
Í niðurstöðu fundarins kemur fram: „Öll landshlutasamtökin eru samstíga varðandi þörf fyrir nýja og einfaldari gjaldskrá og er þess vegna stefnt á að hraða vinnunni eins og kostur er. Formlegt samstarf þarf að koma frá öllum landshlutasamtökum sem fyrst.“ Sjá afgreiðslu erindis í dagskrárlið 2j.
Þá felur stjórnin Smára Ólafssyni að útfæra frekar tillögur að skiptingu í sónur en þær eru grunnur að fargjöldum á einstökum leiðum. Í nokkrum tilvikum hefur komið í ljós ósamræmi milli leiða. Tillögurnar verði lagðar fyrir nefnd um almenningssamgöngur.
(f) Fundargerð 3. fundar með Strætó b.s., dags. 2. október, kostnaðarskipting leiðarinnar Reykjavik – Akureyri.
Lögð fram. Sjá afgreiðslu á dagskrárlið 2i.
(g) Drög að greiðsluáætlun og samkomulagi við Vegagerðina (15.10.2013).
Stjórnin lýsir yfir ánægju með viðbrögð Vegagerðarinnar og felur Geir, Sigurði og Pétri að fara á fund vegamálastjóra til að fara yfir áætlanir og ganga frá samkomulagi.
(h) Tillaga að samkomulagi við SSA vegna leiðar 56 (23.10.2013).
Pétur fór yfir tillöguna en meginatriði í henni eru að Eyþing ber allan kostnað vegna aukaaksturs sl. sumar og sömuleiðis allan kostnað vegna aukaaksturs milli Akureyrar og Mývatns tímabilið janúar – maí.
Stjórnin væntir þess að hægt verði að ganga frá samkomulaginu sem fyrst.
(i) Minnisblað Strætó bs. (EK), dags. 3. október, um tillögur að kostnaðarskiptingu á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur (leið 57).
Stjórnin óskar skýringa á því af hverju ekki er hægt að nota sömu skiptingu milli landshluta og gildir við skiptingu á framlagi Vegagerðarinnar en þar er hlutur Eyþings 36,73%. Sé sá kostur ekki til staðar felst stjórnin á tillögu 2 (leiðin ekin með sér leiðarnúmeri) með 75% vægi íbúafjölda eins og Strætó b.s. leggur til, og til vara með 50% vægi íbúafjölda verði það niðurstaða annarra landshlutasamtaka sem hlut eiga að máli.
(j) Minnisblað Strætó bs. (EK), dags. 8. október, með tillögu að breyttri gjaldskrá.
Stjórnin hefur þegar samþykkt tillöguna að breyttri og einfaldari gjaldskrá og tilkynnt Strætó bs. Í tillögunni felst að afsláttarkjör verða samræmd þannig að farmiðagjald fyrir börn, ungmenni, aldraða og öryrkja verði 50% af farmiðagjaldi fyrir fullorðna.
Stjórn Eyþings skorar á stjórnir annarra landshlutasamtaka sem reka almenningssamgöngur í samstarfi við Strætó b.s. að samþykkja fyrirliggjandi tillögu að breytingu á afsláttarkjörum. Mikilvægt er að landshlutasamtökin séu samstíga í að bæta rekstrargrundvöll almenningssamgangna í öllum landshlutum þó aðstæður séu að nokkru leyti misjafnar. Að mati stjórnar Eyþings var því miður í upphafi lagt af stað með óeðlileg og óraunhæf afsláttarkjör.
(k) Bréf frá hverfisráðum Grímseyjar og Hríseyjar, dags. 18. september, um rútusamgöngur.
Samþykkt að vísa bréfinu til nefndar um almenningssamgöngur og nefndinni falið að skoða hvort einhverjar útbætur eru mögulegar án aukins kostnaðar.
(l) Bréf frá Akureyrarbæ, dags. 14. október, með bókun úr fundargerð hverfisnefndar Grímseyjar.
Samþykkt að vísa bréfinu til nefndar um almenningssamgöngur.
(m) Minnisblað frá Guðjóni Bragasyni, dags. 16, október, með ábendingum við frumvarpsdrög um farþegaflutninga á landi.
Stjórnin lýsir yfir ánægju með greinargóðar ábendingar Guðjóns. Mikilvægt er að sjónarmiðum landshlutasamtakanna verði fylgt fast eftir.
(n) Tillaga frá Ólafi Sveinssyni, dags. 28. september, um uppgjör vegna leiðar 57.
Stjórnin frestar afgreiðslu tillögunnar þar sem enn eru margir óvissuþættir í málinu. Stjórnin ítrekar að engar samþykktir liggja fyrir um ábyrgð Eyþings á öðrum leiðum sem fara um Vesturland en leið 57, þ.e. milli Akureyrar og Reykjavíkur.
Þá samþykkir stjórnin að fela Geir, Sigurði og Pétri að eiga fund með Smára Ólafssyni og Einari Kristjánssyni hjá Strætó b.s. um uppgjör á leið 57 og þær áætlanir sem gerðar voru.
3. Minnispunktar frá samráðsfundi stjórnar sambandsins og formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtaka sveitarfélaga 4. október sl.
Lagðir fram.
4. Sóknaráætlun.
(a) Fjárlög 2014 og sóknaráætlanir landshluta.
Stjórnin hafði áður samþykkt eftirfarandi bókun sem send var til ráðherra, þingmanna o.fl. 11. október sl.:
„Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2014 verða 15 milljónir kr. veittar til sóknaráætlana landshluta. Þetta kemur stjórn Eyþings undarlega fyrir sjónir í ljósi þeirrar góðu reynslu sem fengin er af því nýja verklagi, og þeirri nýju nálgun í byggðamálum, sem felst í gerð sóknaráætlunar. Ekki síður koma þessi tíðindi mönnum í opna skjöldu eftir ræður forsætisráðherra á tveimur aðalfundum landshlutasamtaka nýverið. Þar lagði hann áherslu á að gert væri ráð fyrir áframhaldandi fjármögnun landshlutaáætlana. Jafnframt að hugmyndin væri að áætlanir landshlutanna verði nú aftur til eins árs en síðan taki við þriggja ára áætlun frá 2015 – 2017.
Þau skilaboð eru afleit sem felast í fjárlagafrumvarpinu til þeirra fjölmörgu, sveitarstjórnarmanna og annarra, sem tekið hafa þátt í þeirri gríðarlegu vinnu sem lögð hefur verið í að þróa þetta verklag. Sú vinna hefur falist í undirbúningi og samráði um stefnumörkun og val á verkefnum til hagsbóta fyrir viðkomandi landshluta. Veitt var 400 milljónum kr. til verkefna á grunni sóknaráætlana landshluta á yfirstandandi ári. Afraksturinn er mjög áhugaverð og mikilvæg verkefni í samræmi við áherslur hvers landshluta. Í hlut Eyþings komu 50.595.000 kr. sem varið var til sex verkefna sem nú er unnið að og miklar væntingar eru til. Hér er um að ræða jákvætt skref í byggðamálum þar sem það er lagt í hendur heimamanna að móta áherslur og forgangsraða verkefnum í viðtæku samráði.
Stjórn Eyþings skorar á ríkisstjórn og Alþingi að tryggja í fjárlögum að það mikilvæga lærdómsferli slitni ekki sem felst í þróun sóknaráætlana landshluta.“
(b) Greinargerð stýrinets Stjórnarráðsins um framvindu og eftirfylgni, dags. 21. október.
Lögð fram.
Sigurður yfirgaf fundinn kl. 15:40 vegna viðtalstíma þingmanna.
5. Þingmál.
(a) Tillaga til þingsályktunar um hlutdeild sveitarfélaga í veiðigjaldi og tekjum að orkuauðlindum, 44. mál.
http://www.althingi.is/altext/142/s/0106.html
Lögð fram.
(b) Tillaga til þingsályktunar um leikskóla að loknu fæðingarorlofi,
6. mál. http://www.althingi.is/altext/143/s/0006.html
Lögð fram.
(c) Tillaga til þingsályktunar um bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi, 5. mál. http://www.althingi.is/altext/143/s/0005.html
Lögð fram.
6. Bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, dags. 25. september, um framlag vegna umsýslu sóknaráætlunar.
Í bréfinu kemur fram að framlag til Eyþings nemur 3.918.556 kr. í ár.
7. Bréf frá fjárlaganefnd, dags. 26. september, um viðtalstíma.
Stjórnin samþykkir að óska ekki eftir viðtalstíma.
Geir yfirgaf fundinn og fól Dagbjörtu að taka við fundarstjórn.
8. Leigusamningur um skrifstofuhúsnæði í Hafnarstræti 91 Akureyri.
Pétur fór yfir teikningar af húsnæðinu. Fyrir liggja drög að leigusamningi og skilalýsingu sem farið verður yfir á fundi á morgun. Geir mun mæta á fundinn ásamt Pétri.
9. Viðtalstímar þingmanna.
Lögð fram dagskrá þingmannaviðtala en Eyþing á tíma kl. 16:30 – 17 í dag. Samþykkt að taka tvö mál til umfjöllunar, þ.e. almenningssamgöngur og sóknaráætlanir landshluta. Meirihluti stjórnar mun mæta ásamt framkvæmdastjóra.
10. Árangursmat á menningarsamningum 2013.
Menningarsamningur Eyþings kemur mjög vel út úr matinu. Stjórnin þakkar menningarráði og menningarfulltrúa fyrir gott starf og óskar þeim til hamingju með niðurstöðuna.
11. Önnur mál.
Samþykkt að næstu fundir stjórnar verði miðvikudaginn 13. nóvember og miðvikudaginn 11. desember. Jafnframt samþykkir stjórnin að halda fyrsta fund fulltrúaráðs þann 11. desember.
Fundi slitið kl. 16:05.
Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.