Fundargerð - Stjórn Eyþings - 26.10.2016
Árið 2016, miðvikudaginn 26. október, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Hafnarstræti 91 Akureyri. Mætt voru Arnór Benónýsson varaformaður, Bjarni Theódór Bjarnason, Eva Hrund Einarsdóttir og Karl Frímannsson. Þá var mætt Sigríður Huld Jónsdóttir í forföllum Loga Más Einarssonar formanns. Sif Jóhannesdóttir og Olga Gísladóttir voru forfallaðar. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.
Fundur hófst kl. 16:00. Varaformaður stýrði fundi.
Þetta gerðist helst.
1. Svæðisskipulag fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi eystra.
Fyrir liggja tilboð frá þeim tveimur skipulagsráðgjöfum sem leitað var til í fyrri áfanga verkefnisins sem felst í gerð verkefnislýsingar. Í bréfi Eyþings þar sem leitað var eftir tilboðum kom fram að tilboðin yrðu metin út frá verðtölum og öðrum upplýsingum sem kunna að fylgja.
Í upphafi fundar var Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir verkefnisstjóri hjá Ferðamálastofu í síma og gerði í stuttu máli grein fyrir samspili svæðiskipulagsins og DMP-verkefnisins (stefnumótandi stjórnunaráætlun í ferðaþjónustu) sem er að fara af stað á vegum Ferðamálastofu og Stjórnstöðvar ferðamála. Áður hafði framkvæmdastjóri átt fundi með Ferðamálstofu um verkefnin. Niðurstaðan er sú að verkefnin falli vel saman og mikilvægt að koma á góðu samstarfi og að verkefnin verði unnin saman.
Í umræðu stjórnar um tilboðin kom fram að erfitt væri að bera þau saman en nálgun tilboðsgjafanna á verkefnið er ólík, þar á meðal varðandi tengsl við DMP. Samþykkt var að skipa nefnd til að yfirfara tilboðin og setja fram rökstuðning fyrir vali. Samþykkt var að Karl Frímannsson og Sif Jóhannesdóttir sitji í nefndinni og óska eftir að Arnheiður Jóhannesdóttir Markaðsstofu Norðurlands ásamt fulltrúa Ferðamálastofu taki þar sæti. Framkvæmdastjóra var falið að ræða við þessa aðila og óska eftir að málinu verði hraðað eins og kostur er.
2. Aðalfundur 2016.
Lögð var fram skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra. Engar athugasemdir komu fram og verður hún send aðalfundarfulltrúum.
Þá fór framkvæmdastjóri yfir drög að fjárhagsáætlun, einkum ýmsar forsendur og breytingar á framsetningu. Fram komu nokkrar ábendingar sem teknar verða til skoðunar. Þá vakti Karl athygli á að stjórnin þyrfti að afgreiða með skýrum hætti ráðstöfun fjár í erlendum samstarfsverkefnum í samræmi við ábendingu endurskoðanda.
Lagðar voru fram tillögur um starfsmenn aðalfundar, s.s. fundarstjóra og umræðustjóra fyrir samtal við þingmenn, um formenn kjörnefndar og fjárhags- og stjórnsýslunefndar. Framkvæmdastjóra var falið að hafa samband við þessa aðila.
Loks var rætt um fyrirkomulag annarra nendastarfa og var framkvæmdastjóra og Arnóri falið að skoða nánar möguleg gögn fyrir málefnanefndir fundarins.
3. Bréf frá Greiðri leið ehf., dags. 4. október, um árlega aukningu hlutafjár.
Í samræmi við lánasamning ríkisins og Vaðalaheiðarganga þá er komið að árlegri 40 milljón kr. hlutafjáraukningu Greiðrar leiðar ehf. Yfirstandandi ár er næst síðasta ár þess samkomulags. Forkaupsréttur Eyþings í aukningu ársins nemur 750.623 kr.
Stjórnin samþykkir að Eyþing nýti forkaupsrétt sinn.
4. Fundargerð haustfundar landshlutasamtaka sveitarfélaga, dags. 21. september.
Framkvæmdastjóri fór í stuttu máli yfir þau mál sem voru til umfjöllunar en hann sat fundinn ásamt formanni. Helstu mál voru heilbrigðisþjónusta í dreifðum byggðum, starfsemi Stjórnstöðvar ferðamála og uppbygging innviða ferðaþjónustu, gjaldskrármál almenningssamgangna og gerð nýrrar byggðaáætlunar.
5. Almenningssamgöngur – tillaga að gjaldskrárbreytingu.
Lagt var fram minnisblað frá Strætó bs., dags. 20. september, um mögulegar breytingar á gjaldskrá strætó á landsbyggðinni. Minnisblaðið var tekið saman í framhaldi af fundi framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna og Strætó bs. þann 6. september sl. Í minnisblaðinu eru kynntir þrír valmöguleikar.
Minnisblaðið var til umfjöllunar á haustfundi landshlutasamtakanna (sbr. hér dagskrárlið 4) og var samþykkt á fundinum að mæla með því við stjórnir landshlutasamtakanna að samþykkja valmöguleika þrjú. Í honum felst að um verði að ræða tvö fargjöld, fullt fargjald og 50% fargjald (börn og ungmenni, aldraðir og öryrkjar) en að auki verði boðið upp á frístundakort fyrir börn og ungmenni innan ákveðinna svæða. Áfram verða í boði langtíma- og tímabilakort fyrir stórnotendur eins og verið hefur. Þá er stefnt að því að breytingin taki gildi um næstu áramót samhliða því að greiðsluapp Strætó fyrir farsíma verði gert virkt í landsbyggðarstrætó.
Stjórn Eyþings samþykkir valmöguleika þrjú og leggur áherslu á að samhliða breytingunni verði greiðsluappið aðgengilegt.
6. Umsýsla sóknaráætlunar 2016 og 2017.
Eyþing hefur skv. samningi til umráða 9 mkr. til að mæta kostnaði við umsýslu sóknaráætlunar, þ.m.t. uppbyggingarsjóðs. Stjórn Eyþings samþykkir að árið 2016 verði upphæðinni skipt með eftirfandi hætti:
Atvinnuþróunarfélögin 4.750.000 kr.
Eyþing 4.250.000 kr.
Framlag til atvinnuþróunarfélaganna tveggja skiptist jafnt milli Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, 2.375.000 kr. á hvort félag vegna umsýslu atvinnuþróunarhluta uppbyggingarsjóðs. Það sem eftir stendur, 4.250.000 kr. fer til umsýslu Eyþings á sóknaráætlun í heild, menningarhluta uppbyggingarsjóðs og sameiginlegra þátta við umsýslu sjóðsins.
Stjórn Eyþings samþykkir einnig að árið 2017 verði umsýsla uppbyggingarsjóð að mestu leyti komin til Eyþings, en að greiddar verði 800.000 kr. til hvors atvinnuþróunarfélags vegna eftirfylgni eldri samninga. Með því er vænst að umsýslufé nægi til að standa undir megin hluta kostnaðar Eyþings.
7. Skipun í fjallskila- og markanefnd fyrir fjallskilaumdæmi Eyjafjarðar.
Stjórnin samþykkir að skipa eftirtalda í samræmi við 2. grein fjallskilasamþykktar fyrir sveitarfélög í Eyjafirði, sem staðfest var af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu 10. febrúar 2011:
Ólafur G. Vagnsson Eyjafjarðarsveit, markavörður, sem gegna mun formennsku.
Árni Sigurður Þórarinsson Dalvíkurbyggð, fjallskilastjóri.
Þórarinn Ingi Pétursson Grýtubakkahreppi, fjallskilastjóri.
Nefndin er skipuð til loka yfirstandandi kjörtímabils sveitarstjórna.
8. Tölvupóstur frá Rannsóknasmiðju Reykjavíkurakademíunnar, dags. 3. október, með ósk um stuðning við málþing um fjölmiðlun í almannaþágu.
Stjórnin telur sér ekki fært að veita umbeðinn styrk.
9. Tölvupóstur frá Ungmennafélaginu Eflingu í Reykjadal, dags. 17. október, um stuðning fyrir Íslandsmót í blaki.
Stjórnin telur sér ekki fært að veita umbeðinn styrk.
10. Bréf frá Skipulagsstofnun, dags. 29. júní, um landsskipulagsstefnu 2015 – 2026.
Lagt fram.
11. Stofnsamningur og samþykktir um nýsköpunarverkefnið Eim.
Framkvæmdastjóri gerð grein fyrir samþykktunum sem hafa verið all lengi í vinnslu. Um þær er samstaða meðal þeirra sem unnið hafa að gerð þeirra fyrir hönd stofnaðila.
Stjórnin samþykkir samninginn.
12. Önnur mál.
(a) Ljósleiðaravæðing.
Framkvæmdastjóri sagði frá hugmyndum sem kynntar hafa verið um útdeilingu fjármagns í verkefninu „Ísland ljóstengt“. Ákvörðun hefur ekki verið kynnt ennþá.
(b) Sveitarstjórnarvettvangur EFTA.
Fundur verður í sveitarstjórnarvettvangi EFTA 14. og 15. nóvember nk. Formaður Eyþings er meðal fulltrúa.
(c) Úttekt á starfsemi Eyþings.
Framkvæmdastjóri lagði fram eftirfarandi bókun:
Á fundi í stjórn Eyþings 22. september sl. var samþykkt greinargerð ásamt tillögum um starfsemi Eyþings og þar með talin starfsmannamál. Mér sem framkvæmdastjóra hefur hvorki verið afhent greinargerðin né samráð verið haft um framkvæmd þeirra tillagna sem þar koma fram. Óska ég eftir að fá skýringu á þeirri ákvörðun.
Eva og Arnór sögðu að vinnan hefði dregist á langinn og því hefði farist fyrir að afhenda greinargerðina. Stefnt væri að því að ganga frá starfsmannamálum á næstu dögum með framkvæmdastjóra.
Fundi slitið kl. 18:50.
Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.