Fundargerð - Stjórn Eyþings - 26.06.2015
Árið 2015, föstudaginn 26. júní, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Hafnarstræti 91, Akureyri. Mætt voru Logi Már Einarsson formaður, Arnór Benónýsson, Bjarni Theodór Bjarnason, Eva Hrund Einarsdóttir, Hilma Steinarsdóttir, Jón Stefánsson og Sif Jóhannesdóttir. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.
Fundur hófst kl. 14:00.
Þetta gerðist helst.
1. Ársreikningur Eyþings 2014, ásamt endurskoðunarskýrslu.
Framkvæmdastjóri hóf umræðu um ársreikninginn sem er fram settur með líku sniði og fyrir árið 2013. Vakti athygli á að í ársreikningnum eru ítarlegar skýringar og sundurliðanir á einstakar rekstrareiningar í starfsemi samtakanna.
Davíð Búi Halldórsson endurskoðandi hjá ENOR sat fundinn undir þessum dagskrárlið og skýrði ársreikninginn og fór yfir skýrslu endurskoðanda.
Davíð Búi sagði afkomuna verulega betri en árið 2013. Rekstartekjur ársins 2014 námu kr. 253,4 millj. samanborið við tekjur að fjárhæð kr. 284,2 millj. samkvæmt áætlun. Tekjur hækka lítillega milli ára en í því sambandi þarf að horfa til þess að tekjur ársins 2014 voru lækkaðar um kr. 15 millj. vegna endurgreiðslu til ríkissjóðs vegna verkefnis sem fékk úthlutun á sóknaráætlun en hefur ekki farið af stað. Sambærileg kr. 15 millj. lækkun er á rekstrargjöldum vegna þessa. Að öðru leyti eru rekstrargjöld heilt yfir nokkuð í takt við áætlanir.
Rekstrarniðurstaða ársins 2014 var neikvæð um kr. 9,8 millj. samanborið við kr. 11,7 millj. neikvæða afkomu skv. áætlun. Tap ársins má rekja til reksturs almenningssamgangna sem skiluðu kr. 15,2 millj. tapi á árinu.
Heildareignir í árslok 2014 námu kr. 119,3 millj. samanborið við kr. 89,1 millj. í ársbyrjun. Handbært fé nam í árslok 2014 kr. 62,2 millj. en þar af tilheyra kr. 42,9 millj. Menningarráðinu. Eigið fé var í árslok neikvætt um kr. 44,3 millj. samanborið við kr. 34,5 millj. neikvæða stöðu í ársbyrjun.
Heildarskuldir í árslok 2014 voru kr. 163,6 millj. samanborið við kr. 123,5 millj. í ársbyrjun. Viðskiptaskuldir hækka lítillega milli ára en þær voru kr. 52,7 millj. í árslok samanborið við kr. 48,5 millj. í ársbyrjun. Af stöðu viðskiptaskulda í árslok eru kr. 43,6 millj. vegna skuldar almenningssamgangna við Vegagerðina.
Hlutur Eyþings í áætluðum lífeyrisskuldbindingum hjá B-deild LSR vegna starfsmanna skólaþjónustu Eyþings nam kr. 19,0 millj. en nam kr. 17,1 millj. í árslok 2013.
Stjórn Eyþings staðfesti ársreikninginn með undirskrift sinni og vísar honum til aðalfundar.
2. Sóknaráætlun.
(a) Drög að stefnu 2015 - 2019.
Framkvæmdastjóri fór yfir drögin að sóknaráætlun. Stjórnin mun fá lokadrög til yfirlestrar 29. júní en áætluninni verður skilað til stýrihóps Stjórnarráðsins 1. júlí.
(b) Fundargerð úthlutunarnefndar Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra, dags. 21. júní, 2. fundur.
Stjórnin samþykkir fundargerðina.
3. Skipun í vinnuhóp um stöðu og framtíð framhaldsskólanna á norðaustursvæði (frestað á 268. fundi).
Formaður rifjaði upp umræðu á fulltrúaráðsfundi 26. maí sl. en málið hefði síðan óvænt farið í annan farveg heldur en þar var rætt. Fyrir liggja upplýsingar um skipun fulltrúa AFE í vinnuhópinn.
Stjórn Eyþings samþykkir að óska eftir því við ráðherra menntamála að Eyþing fái að skipa tvo fulltrúa í vinnuhópinn þannig að hægt verði að mæta ólíkum sjónarmiðum við val á fulltrúum.
4. Önnur mál. Tímasetning aðalfundar.
Framkvæmdastjóra var falið að ræða við forsvarsmenn Hörgársveitar um þær tímasetningar sem koma til greina.
Fundi slitið kl. 15:50.
Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.