Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 23.05.2014

22.01.2015

Stjórn Eyþings

254. fundur

 

Árið 2014, föstudaginn 23. maí, kom stjórn Eyþings saman til fundar á veitingahúsinu Rauðku á Siglufirði. Mættir voru allir aðalmenn: Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður, Dagbjört Bjarnadóttir, Guðný Sverrisdóttir, Gunnlaugur Stefánsson, Halla Björk Reynisdóttir,  Sigurður Valur Ásbjarnarsonar og Siggeir Stefánsson sem tók þátt í fundinum í síma. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.

Fundur hófst kl. 13:35 að loknum hádegisverði í boð Fjallabyggðar.

 

Þetta gerðist helst.

 

  1. Kynning á NPP verkefnisumsókn.

Eiður Guðmundsson verkefnastjóri Orkuseturs Landbúnaðarháskóla Íslands mætti á fundinn undir þessum dagskrárlið. Hann gerði grein fyrir verkefninu sem felst í grófum dráttum í að kortleggja möguleika á notkun lífmassa og líforku í norðlægum landbúnaðarhéruðum og að vinna stefnumótun um hvaða leiðir verða farnar. Forverkefni er að ljúka og aðalverkefnið sem nú er til umfjöllunar fellur undir styrktímabilið 2014 – 2020.

Farið er fram á aðkomu og samstarf við landshlutasamtök sveitarfélaga vegna stefnumótunaráherslu verkefnisins. Áhugi er á þátttöku Vesturlands og Norðurlands eystra. Ekki er farið fram á fjárframlag. Bent var á mögulega samlegð við sóknaráætlunarverkefni um nýtingu sjálfbærra orkuauðlinda. Gerð er krafa um áþreifanlega afurð úr verkefninu, eitthvað sem hægt verður að nota og yfirfæra. Áætlað er að verkefnið gæti hafist í mars 2015 og staðið yfir í um tvö ár. Samkomulag þátttakenda (partnersamkomulag) þarf að liggja fyrir í haust þegar sótt verður um.

Ákveðið var að Eiður sendi nánari upplýsingar og útfærslu á verkefninu áður en ákvörðun verður tekin um þátttöku í verkefninu.

 

  1. Ársreikningur 2013, ásamt endurskoðunarskýrslu, dags. 23. maí 2014.

Rekstrartekjur ársins 2013 námu kr. 250,9 millj. en voru 134,3 millj. kr. árið 2012. Hækkun tekna skýrist af framlögum ríkisins til sóknaráætlunar að fjárhæð kr. 50,6 millj. og auknum tekjum vegna almenningssamgangna miðað við árið áður. Árið 2013 var fyrsta heila rekstrarárið skv. nýjum samningum um almenningssamgöngur. Tekjur árið 2013 voru áætlaðar kr. 288,7 millj. en rekstrargjöld voru nokkuð í takt við áætlanir.

Rekstrarniðurstaða ársins 2013 var neikvæð um kr. 40,1 millj. samanborið við kr. 2,5 millj. neikvæða afkomu skv. áætlun. Tap ársins má rekja til reksturs almenningssamgangna.

 

 

Heildareignir í árslok 2013 námu kr. 89,1 millj.  samanborið við kr. 78,4 millj. í ársbyrjun. Handbært fé nam í árslok kr. 57,7 millj. en þar af tilheyra kr. 40,6 millj. Menningarráðinu. Eigið fé var í árslok neikvætt um kr. 34,5 millj. samanborið við kr. 5,7 millj. jákvæða stöðu í ársbyrjun.

Heildarskuldir í árslok 2013 voru kr. 123,5 millj. samanborið við kr. 72,7 millj. í ársbyrjun. Viðskiptaskuldir hækka verulega milli ára en þær voru kr. 48,5 millj. í árslok samanborið við kr. 6,0 millj. í ársbyrjun. Af stöðu viðskiptaskulda í árslok eru kr. 46,6 millj. vegna almenningssamgangna.

Hlutur Eyþings í áætluðum lífeyrisskuldbindingum hjá B-deild LSR vegna starfsmanna skólaþjónustu Eyþings nam kr. 17,1 millj. en nam kr. 16,0 millj. í árslok 2012.

Í ársreikningum eru ítarlegar skýringar og sundurliðanir á einstakar rekstrareiningar í starfsemi samtakanna.

Stjórn Eyþings staðfesti ársreikninginn með undirskrift sinni og vísar honum til aðalfundar.

 

  1. Fundargerð fulltrúaráðs Eyþings 8. apríl, 2. fundur.

Fundagerðin samþykkt. Eins og þar kemur fram lagði fulltrúaráðið til að stjórn Eyþings sendi frá sér erindi um notkun efnis úr Vaðlaheiðargöngum í undirbyggingu nýs flughlaðs á Akureyrarflugvelli. Vegna þessa samþykkir stjórnin eftirfarandi bókun:

Stjórn Eyþings skorar á þingmenn NA-kjördæmis, stjórn Isavia og samgönguyfirvöld að bregðast strax við og finna lausn til að tryggja greiðslu fyrir flutning efnis úr Vaðlaheiðargöngum og fyllingarvinnu í flughlað á Akureyrarflugvelli. Að mati stjórnar verður að reyna allt til að nýta þetta tækifæri sem hefur skapast. Ekki eru líkur á öðru tækifæri til að fá ókeypis efni. Allt bendir til að skortur sé að verða á fyllingarefni í Eyjafirði, öðru en en dýru sprengdu efni.

 

  1. Samningur, dags. 12. maí 2014, um þróun til byggðaþróunar á Norðurlandi eystra árið 2014 og skipun í vaxtarsamningsnefndir (5-manna) fyrir árið 2014.

Í samningnum felst umsjón og ábyrgð Eyþings á framkvæmd verkefna í sóknaráætlun landshlutans og umsjón og ábyrgð á úthlutun á framlagi ríkisins til eflingar atvinnulífs í landshlutanum, svonefndum vaxtarsamningsfjármunum.

Til Eyþings renna á árinu 2014 alls kr. 59.848.000, þar af 12.348.000 í sóknaráætlunarverkefni og 47.500.000 til vaxtarsamningsverkefna, sem skiptist jafnt til vaxtarsamningsverkefna á svæðum Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar (AFE) og Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga (AÞ), 23.750.000 til hvors félags.

Þá ber Eyþingi að skipa fimm manna nefnd sem tekur við hlutverki verkefnisstjórnar vaxtarsamninga. Leitað hefur verið eftir tilnefningum frá atvinnuþróunarfélögunum vegna vaxtarsamninga 2014.

Tilnefningar Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar eru eftirtaldar:

Sigríður Bjarnadóttir

     Sigríður María Róbertsdóttir

     Jón Hrói Finnsson

     Sigurður Steingrímsson

     Ögmundur Knútsson

Eftirtaldir eru tilnefndir af Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga:

     Kristján Þ Halldórsson

     Hilmar Dúi Björgvinsson

     Ólína Arnkelsdóttir

     Óli Halldórsson

     Sigríður Ingvarsdóttir

 

Stjórn Eyþings samþykkir að skipa nefndirnar skv. tilnefningunum.

 

  1. Menningarsamningur fyrir árið 2014.

Veittar eru 35.471 þús.kr. til samningsins. Þar af eru 14.485 þús.kr. ætlaðar í stofn- og rekstrarstyrki en 40% lágmarksmótframlag sveitarfélaganna tekur ekki til þeirra.

Geir Kristinn formaður undirritaði samninginn að lokinni yfirferð.

  1. Bréf frá Landsneti, dags. 12. maí, kynning á drögum að umhverfisskýrslu kerfisáætlunar 2014-2023.

Stjórnin samþykkir að taka drögin til nánari skoðunar á næsta fundi stjórnar.

  1. Þingmál.

(a)     Frumvarp til laga um losun og móttöku úrgangs frá skipum  (EES-reglur), 376. mál.

http://www.althingi.is/altext/143/s/0688.html

Lagt fram.

(b)     Frumvarp til laga um örnefni (heildarlög), 481. mál.

http://www.althingi.is/altext/143/s/0832.html

Lagt fram.

(c)      Tillaga til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun 2013-2016, 495. mál.

       http://www.althingi.is/altext/143/s/0855.html

       Tillagan var ekki afgreidd fyrir þinglok. Stjórnin mun taka hana til nánari skoðunar síðar.

(d)     Frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum (fjölgun tilkynningaskyldra framkvæmda, EES-reglur), 467. mál.

       http://www.althingi.is/altext/143/s/0813.html

       Lagt fram.

(e)      Frumvarp til laga um opinber fjármál, 568. mál.

       http://www.althingi.is/altext/143/s/0869.html

       Lagt fram.

 

  1. Fundargerðir landshlutasamtaka.

Lagðar fram til kynningar.

 

  1. Almenningssamgöngur.

(a)     Upplýsingar vegna áfangaskýrslu nefndar um almenningssamgöngur.

       Lagðar fram upplýsingar til nefndarinnar, annars vegar frá Eyþingi 6. maí og hins vegar frá Strætó bs. 7. maí.

(b)     Staða og framhald verkefnisins.

       Lögð fram fundargerð frá fundi í innanríkisráðuneytinu 13. maí sl. Einnig lögð fram greiðsluáætlun fram til loka júní 2014.

  1. Sóknaráætlun 2014.

(a)     Minnisblað 8.4. um útdeilingu fjármagns sem tilheyrir vaxtarsamningum og sóknaráætlunum landshluta.

       Minnisblaðið var lagt fram og kynnt á fundi stýrihóps Stjórnarráðsins og landshlutasamtakanna 11. apríl sl.

(b)     Framlag og verkefni 2014.

       Eins og fram kemur í 4. dagskrárlið þá fær Eyþing 12.348.000 kr. til ráðstöfunar í verkefni innan sóknaráætlunar. Verkefnin skulu byggja á sóknaráætlun 2013 og mælst til að þau verði að hámarki þrjú.

       Stjórnin ræddi möguleg verkefni og áherslur. Samþykkt að fela framkvæmdastjóra og formanni að vinna tillögur með hlutaðeigandi aðilum í samræmi við umræðu fundarins.

 

  1. Tilnefningar í minjaráð Norðurlands eystra (sjá 253. fund).

Lagt fram minnisblað um skipan og hlutverk minjaráða, dags. 9. apríl, frá Sigurði Bergsteinssyn minjaverði. Framkvæmdastjóri upplýsti að skv. samtali við minjavörð væru komnar fram nýjar hugmyndir um að ráðið verði sjö manna og þar af verði tveir tilnefndir af Eyþingi.

Stjórnin samþykkir að fresta tilnefningu þar til endanleg ákvörðun um fjölda liggur fyrir.

 

  1. Önnur mál.

(a)     Opið hús. Pétur greindi frá að opið hús verði í Hafnarstræti 91 þann 5. júní nk. hjá þeim stofnunum sem þangað hafa flutt. Við þetta tækifæri munu stofnanirnar undirrita samninga við Reiti um svokallaða græna leigu (Græna reiti).

(b)     Finnafjörður. Siggeir skýrði frá samningi sem Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur undirrituðu nýlega við þýska fyrirtækið Bremenport um rannsóknir í Finnafirði vegna stórskipahafnar.

 

Fundi slitið kl. 16:00.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð 

Getum við bætt síðuna?