Fundargerð - Stjórn Eyþings - 23.01.2013
Stjórn Eyþings
238. fundur
Árið 2013, miðvikudaginn 23. janúar, kom stjórn Eyþings saman til fundar að Strandgötu 29 Akureyri. Mætt voru Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður, Dagbjört Bjarnadóttir, Guðný Sverrisdóttir, Gunnlaugur Stefánsson og Sigurður Valur Ásbjarnarson. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.
Fundur hófst kl. 15:00.
Þetta gerðist helst.
1. Almenningssamgöngur.
(a) Fundargerðir nefndar um almenningssamgöngur, dags. 23. nóvember og 7. janúar, 11. og 12. fundur.
Sigurður fór yfir fundargerðirnar. Rætt var um næstu skref s.s. hugmyndir um sumaráætlun og pöntunarþjónustu.
Stjórnin samþykkir tillögu nefndarinnar um að stjórnin ræði við fulltrúa Akureyrarbæjar um tengingu milli flugstöðvar og stoppistöðvar innan Akureyrar.
Þá hvetur nefndin stjórnina til að ræða við fulltrúa Vegagerðarinnar um breyttar reglur sem hafa tekið gildi um endurgreiðslu olíugjalds vegna almenningssamgangna. Stjórnin samþykkir að taka málið til frekari skoðunar.
(b) Samningur, dags. 19. desember 2012, um tilraunaverkefni til að efla og þróa skipulag almenningssamgangna milli byggðakjarna og tengingu við höfuðborgarsvæðið.
Sem fylgiskjal með samningnum er afrit af bréfi innanríkisráðuneytisins til Vegagerðarinnar, dags. 4. júlí, um samninga við landshlutasamtök utan höfuðborgasvæðisins. Í bréfinu kemur fram skipting árlegs 100 milljón kr. viðbótarframlags milli landshlutasamtakanna.
Samningurinn gildir frá 1.1.2013 til 31.12.2018 og samkvæmt honum greiðir Vegagerðin árlegan styrk til Eyþings sem nemur 3.250.000 kr.
(c) Bréf frá Grýtubakkahreppi, dags. 15. janúar, varðandi almenningssamgöngur til Grenivíkur.
Sigurður upplýsti að pöntunarþjónusta verði til skoðunar í tengslum við gerð sumaráætlunar og þegar frekari upplýsingar liggja fyrir um fjárhag verkefnisins.
Stjórnin samþykkti að taka nýjan dagskrárlið næst á dagskrá, sem ætlunin hafði verið að ræða undir liðnum önnur mál.
2. Afrit af bréfi frá Fjallabyggð, dags. 17. janúar, með bókun bæjarráðs um úrgangsmál.
Stjórnin samþykkir að verða við tilmælum bæjarráðs um að halda samráðsfund um úrgangsmál. Leitað verði erfir samstarfi við SSNV og hugsanlega SSA um slíkan fund.
Sigurður Valur yfirgaf fundinn kl. 15:45.
3. Sóknaráætlun.
(a) Drög að samningi um greiðslur til verkefna samkvæmt sóknaráætlun landshlutans.
Lögð fram.
(b) Fundargerð samráðsfundar stýrinets sóknaráætlana landshluta og landshlutasamtaka sveitarfélaga, dags. 14. desember.
Geir fór yfir fundargerðina.
(c) Fundargerðir stýrinets Stjórnarráðsins um sóknaráætlanir landshluta, 7. – 11. fundur.
Lagðar fram.
(d) Starfsemi Norðurslóðanets Íslands.
Norðurslóðnetið hefur hafið starfsemi og var Embla Eir Oddsdóttir ráðin forstöðumaður. Fyrsti fundur stjórnar var haldinn 18. janúar sl. og sat framkvæmdastjóri Eyþings fundinn sem áheyrnarfulltrúi. Á fundinum var kynnt starfsáætlun. Áformað er að formleg vígsla Norðurslóðanetsins verði í byrjun febrúar.
(e) Vinna að sóknaráætlun Norðurlands eystra.
Pétur fór yfir endurskoðaða verkáætlun. Samráðsvettvangur verður kallaður saman 4. febrúar. Stjórnin samþykkir að fela framkvæmdastjóra að semja við Bjarna Snæbjörn Jónsson ráðgjafa um verkstjórn á samráðsfundinum og úrvinnslu tillagna að sóknaráætlun.
Þá samþykkir stjórnin að halda aukaaðalfund Eyþings 12. febrúar í Menningarhúsinu Hofi Akureyri. Á fundinum verða lögð fram drög að sóknaráætlun, ásamt því að fjalla um skipulag Eyþings í samræmi við samþykkt aðalfundar 2012. Framkvæmdastjóra falið að ganga frá dagskrá í samráði við formann.
(f) Bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, dags. 15. janúar, um framlag árið 2012 vegna vinnu að sóknaráætlun.
Í bréfinu er gerð grein fyrir skiptingu 25 milljón kr. framlags milli landshlutasamtakanna og þeim viðmiðum sem lögð eru til grundvallar. Í hlut Eyþings komu samtals 3.918.556 kr.
4. Drög að matsviðmiðum við úttekt á menningarsamningum (sbr. 8. grein menningarsamninga).
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir menningarfulltrúi mætti á fundinn undir þessum dagskrárlið og fór yfir matsviðmiðin. Í menningarsamningunum er kveðið á um mat á framkvæmd samninganna.
Stjórnin gerir engar athugasemdir við matsviðmiðin en bendir á að óeðlilegt sé að leggja aðeins mat á annan samningsaðilann. Skoða verði einnig þátt ráðuneytisins.
5. Erindi frá Guðjóni Bragasyni Sambandi ísl. sveitarfélaga, dags. 14. desember, um frumvarp til stjórnskipunarlaga.
Vakin er athygli á þeim greinum sem fjalla um sveitarfélögin og um kjördæmaskipan og kosningar til Alþingis.
6. Árlegur þingmannafundur.
Stjórnin samþykkir að leita ekki eftir fundi að þessu sinni í ljósi þess að skammt er til Alþingiskosninga.
7. Þingmál.
(a) Frumvarp til laga um fjármálafyrirtæki, 501. mál.
www.althingi.is/altext/141/s/0643.html
Lagt fram.
(b) Frumvarp til laga um náttúruvernd (heildarlög), 429. mál.
www.althingi.is/altext/141/s/0537.html
Farið var yfir nokkur atriði í frumvarpinu, einkum sem lúta að stjórnsýslu náttúruverndarmála. Stjórnin samþykkir að senda frá sér umsögn um frumvarpið.
8. Verðkönnun vegna endurskoðunar og ársreiknings.
Leitað hefur verið eftir verði frá fjórum endurskoðunarfyrirtækjum í endurskoðun og gerð ársreiknings fyrir Eyþing. Fyrirtækin sem um ræðir eru: Deloitte, ENOR, KPMG (sem verið hefur endurskoðandi Eyþings) og PriceWaterhouseCoopers.
Stjórnin lítur svo á að með þessu sé samþykkt aðalfundar 2012 svarað en talið var of kostnaðarsamt og umfangsmikið að ráðast í formlegt útboð. Niðurstöður verðkönnunarinnar verða kynntar fyrir aukaaðalfundi Eyþings 12. febrúar nk.
9. Vatnasvæðisnefnd. Drög að stöðuskýrslu fyrir vatnasvæði Íslands, 07-12-2012.
Jónas Vigfússon sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit mætti á fundinn en hann er fulltrúi í vatnasvæðisnefnd. Hann gerði grein fyrir áhersluþáttum í væntanlegri vatnaáætlun og skýrði ýmis hugtök. Hann fór einnig sérstaklega yfir skilgreiningar í álags- og áhættumati. Jónas óskaði eftir því að stjórnarmenn færu yfir upplýsingar af sínum svæðum og kæmu með ábendingar ef einhverjar væru.
10. Önnur mál.
Pétur sagði frá að áformað væri að undirrita samninga við verktaka og eftirlitsaðila Vaðlaheiðaganga 1. febrúar nk. í Hofi Akureyri.
Fundi slitið kl. 17:20
Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.