Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 22.08.2017

22.08.2017

Árið 2017, þriðjudaginn 22. ágúst, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Hafnarstræti 91, Akureyri. Mætt voru Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður, Arnór Benónýsson, Eiríkur H. Hauksson, Eva Hrund Einarsdóttir og Gunnar I. Birgisson. Elías Pétursson og Sif Jóhannesdóttir tóku þátt í fundinum í síma. Einnig sat framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, fundinn.

Fundur hófst kl. 18:00 

 

Þetta gerðist helst.

 

 1. Starfsemi Eyþings.

(a)     Starfsemi Eyþings og stoðstofnana. Greinargerð samþykkt af stjórn 22. september 2016 og lögð fram á aðalfundi 2016.

Farið var yfir greinargerðina og framgang þeirra tillagna sem þar voru settar fram. Lagðar voru fram tillögur að endurskoðuðum starfslýsingum sem unnar voru af Vaxandi – ráðgjöf.

Stjórnin ítrekar þörfina á betri upplýsingum um framgang áhersluverkefna. Þá samþykkir stjórnin að vinna að gerð verklagsreglna fyrir stjórn. Óskað er eftir því að framkvæmdastjóri komi upp skjalavistunarkerfi sem fyrst. Einnig felur stjórn framkvæmdastjóra að klára vinnu við handbók fyrir stjórn.

Framkvæmdastjóri upplýsti að verið er að vinna úr tilboðum í gagnavistun o.fl.

(b)     Minnisblöð frá framkvæmdastjóra.

Lögð voru fram minnisblöð um framkvæmd verkefna á vegum Eyþings. M.a. lögð fram skýringarmynd um mögulega verkaskiptingu Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna og minnisblað um skipulag umsýslu Uppbyggingarsjóðs.

Framkvæmdastjóri fór yfir minnisblöðin, aðgerðir í kjölfar starfslokasamnings, breytingar í starfsmannahaldi, endurskoðaða verkefnislýsingu á áhersluverkefninu Þróun og ráðgjöf í menningarmálum. Rætt var um fjárhagslegt svigrúm, starfshlutfall, kosti og galla þess að útvista áhersluverkefninu frekar en að ráða menningarrágjafa til starfa hjá Eyþingi.

Að lokinni umræðu samþykkti stjórnin að fela framkvæmdastjóra að ganga frá starfslýsingu og auglýsa fullt starf menningarráðgjafa. Starfið er áhersluverkefni til ársloka 2019.

 

 2. Almenningssamgöngur.

Lögð var fram samantekt, dags. 22. ágúst,  um rekstur verkefnisins hjá Eyþingi. Frá upphafi hefur rekstur verkefnisins verið í járnum  og langt frá þeim áætlunum sem gerðar voru í upphafi. Nú hefur Vegagerðin kallað eftir aðgerðum af  hálfu  Eyþings til að draga úr hallarekstri ellegar fáist ekki fyrirgreiðsla til þess að halda verkefninu áfram.  Fyrir stjórn liggur því að skera niður kostnað og virðist eini raunhæfi möguleikinn vera að fella niður akstur milli Húsavíkur og Þórshafnar sem lækka mun kostnað um liðlega 12 milljónir á ári. Samkvæmt upplýsingum frá Strætó bs. þá eru farþegatekjur litlar af umræddri leið.

Stjórn harmar að þurfa að grípa til þessara aðgerða en meirihluti stjórnar Eyþings samþykkir að leita samkomulags við verktakann um að hætta akstri milli Húsavíkur og Þórshafnar, þ.e. leið 79-B, frá og með vetraráætlun sem hefst í september. Framkvæmdastjóra er falið að tilkynna Vegagerðinni og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti þessa ákvörðun.

Þá samþykkir stjórnin að óska eftir viðræðum við SSA um hlutdeild sambandsins í rekstri leiðar 56, milli Akureyrar og Egilsstaða.

Jafnframt er framkvæmdstjóra falið að afla gagna vegna ákvörðunartöku um rekstur almenningssamgangna á vegum Eyþings.

 

Elías og Sif lögðu fram svohljóðandi bókun:    

Um leið og við hörmum mjög þá ákvörðun meirihluta stjórnar Eyþings að hætta akstri milli Húsavíkur og Þórshafnar, leið 79-B viljum við koma því á framfæri að ekki verður séð að horft hafi verið til annarra leiða til hagræðingar. Þá leið sem varð fyrir valinu er ekki hægt að kalla neitt annað en hreinan niðurskurð á þjónustu. Við lýsum yfir miklum vonbrigðum með að þessi niðurskurðarleið sé farin. Með henni er almannaþjónusta skert á jaðarsvæði sem að stórum hluta hefur verið skilgreint sem brothætt byggð. Augljóst má vera að niðurskurðurinn mun hafa neikvæð  áhrif á líf íbúa og ferðaþjónustu.

Við teljum einnig óásættanlegt hve seint umræddur niðurskurður kemur fyrir stjórn, þ.e. þegar rekstur þjónustunnar er í raun kominn upp að vegg. Einnig má benda á að augljóst má vera að niðurskurður þessi, sem spara á liðlega 12 milljónir á ári, er ekki nægjanlegur til að mæta þeim viðvarandi hallarekstri sem hefur verið á almenningssamgögnum sem eru í umsjá Eyþings. Að síðustu tökum við undir með meirihluta að öll gögn er varða núverandi rekstur, greiningar á honum sem og þau gögn er lágu til grundvallar allri ákvarðanatöku í upphafi, svo sem  rekstraráætlanir, verði gerð stjórn aðgengileg hið fyrsta.

3. Menningarlandið 2017 – ráðstefna um barnamenningu.

Lögð var fram kynning á ráðstefnunni sem haldin verður í menningarhúsinu Bergi, Dalvík, 13. og 14. september nk.

  

Fundi slitið kl. 20:50.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

Getum við bætt síðuna?