Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 21.11.2012

21.11.2012
Stjórn Eyþings
236. fundur

Árið 2012, miðvikudaginn 21. nóvember, kom stjórn Eyþings saman til fundar að Strandgötu 29 Akureyri. Mætt voru Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður, Dagbjört Bjarnadóttir, Guðný Sverrisdóttir, Gunnlaugur Stefánsson og Sigurður Valur Ásbjarnarson. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur. 
Fundur hófst kl. 12:40.

 

Þetta gerðist helst.

 

1. Menningarráð Eyþings.
Arnór Benónýsson formaður menningarráðs og Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir menningarfulltrúi sátu fundinn undir þessum dagskrárlið og bauð formaður þau velkomin.
(a) Fundargerð Menningarráðs, dags. 6. nóvember, 40. fundur.
Lögð fram.
(b) Verklag og úthlutunarreglur.
Arnór og Jóna gerðu grein fyrir vinnulagi og viðmiðum ráðsins. Fram kom að góður hugur og samstaða er í nýkjörnu menningarráði. Þau greindu frá fundi sem þau áttu með Akureyrarstofu. Lögðu áherslu á gott samstarf við stjórn Eyþings, m.a. um að leita eftir auknu fjármagni í menningarsamningana.
Kynnt voru sjónarmið varðandi úthlutun stofnstyrkja og hugmynd um að taka sjálfbærni verkefna inn sem úthlutunarviðmið. Stofnstyrkirnir, sem fluttust af safnliðum fjárlaga, eiga eingöngu að fara í menningarverkefni en ekki ferðaþjónustu sem heyrir undir atvinnuvegaráðuneyti. Aðrar reglur gilda um verkefnastyrki. Stærstu verkefnin sem fluttust af safnliðum fjárlaga eru Skjálftasetrið, Gásir, Þjóðlagasetrið og Húni. Fram kom að áformað er að ráðast í þarfagreiningu fyrir svæðið sem lögð verður fram þegar kemur að  endurnýjun menningarsamnings.
Fram kom að illa hefur gengið að innheimta svör frá sveitarfélögunum vegna vinnu að gerð menningarstefnu sem unnið er að í tengslum við sóknaráætlun 2020. Stefna um starfsemi ráðsins liggur fyrir eins og kveðið er á um í menningarsamningi.
Nokkrar umræður urðu í lokin um áformaðar skipulagsbreytingar Eyþings.
Stjórnin þakkar menningarráðinu fyrir metnaðarfullt starf.

 

2. Almenningssamgöngur.
(a) Fundargerð nefndar um almenningssamgöngur, dags. 25. september, 11. fundur.
Sigurður fór yfir fundargerðina.

 
(b) Bréf frá skipulagsstjóra Akureyrar, dags. 2. nóvember, um samgöngumiðstöð á Akureyri.
Bréfið er svar við bréfi Eyþings frá 19. september. Í bréfinu koma ekki fram hugmyndir að lausnum. Stjórnin telur brýnt að komin verði viðunandi lausn varðandi biðstöð á Akureyri áður en akstur hefst skv. nýju leiðakerfi eftir næstu áramót.
(c) Drög að frumvarpi um almenningssamgöngur:
http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28294 
Fram kom að áformaður er kynningarfundur að frumkvæði Sambands ísl. sveitarfélaga fyrir landshlutasamtökin og fleiri aðila. Nokkrar athugasemdir hafa komið fram við drögin.
(d) Kynningarmál.
Pétur upplýsti að Strætó væri tilbúinn að koma að kynningarfundi með nefndinni, þar sem farið verði m.a. yfir þjónustu Strætó, leiðakerfi, þætti sem snúa beint að sveitarfélögunum.. Tilboð í leiðina milli Akureyrar, Mývatns og Egilsstaða verða opnuð 23. nóvember. Gengið hefur verið frá samningi við Hópferðabíla Akureyrar um leiðirnar milli Akureyrar, Dalvíkur og Siglufjarðar og milli Akureyrar, Húsavíkur og Þórshafnar.
Stjórnin telur rétt að bíða með kynningafund þar sem mikið álag er nú á sveitarfélögunum vegna vinnu við fjárhagsáætlanir.

 

3. Fundargerðir nefndar um skipulag Eyþings, dags.  6. og 13. nóvember, 1. og 2. fundur.
Lagðar fram. Stjórnin óskar eftir því að nefndin leggi áherslu á að ljúka vinnu við tillögu að skipulagi Eyþings.

 

4. Þingmál.
(a) Frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.(heildarlög), 194. mál.

www.althingi.is/altext/141/s/0197.html
Þó frestur til athugasemda sé liðinn telur stjórnin mikilvægt að koma athugasemdum á framfæri, m.a. við þingmenn kjördæmisins. Stjórnin samþykkir eftirfarandi:
Stjórnin gerir alvarlegar athugasemdir við 2. tölulið 3. greinar þar sem segir:“Ríkisútvarpið skal gera ráðstafanir til að hægt sé að flytja fréttir og framleiða efni utan höfuðborgarsvæðisins.“ Í skýringum með greininni kemur fram að með ákvæðinu sé ekki gert að skilyrði að Ríkiútvarpið hafi starfsstöð eða starfseiningu utan höfuðborgarsvæðisins.
Vandséð er hvernig Ríkisútvarpið á með þessu móti að geta gegnt því fjölþætta hlutverki sem því ber að gegna skv. 3. grein. Í þessu samhengi vekur athygli að í frumvarpinu virðist engin tilraun gerð til að skilgreina almannarými, þ.e. það svæði þar sem opinber umræða fer fram um samfélagsleg málefni. Ástæða er til að velta því fyrir sér hvort það sé fullnægjandi út frá öryggishlutverki Ríkisútvarpsins að það hafi aðeins eina starfsstöð.
Vel má hugsa sér að Ríkisútvarpið geri samninga við svæðisbundna fjölmiðla um fréttaöflun og framleiðslu efnis en um það er ekki getið. Leggja mætti áherslu á að efla svæðisbundna fjölmiðla, sem leggja áherslu á það sem gerist á nærsvæðinu og með því skapað vandaða og gagnrýna umræðu um það sem skiptir máli á því svæði. Með því væri fjölmiðlunin færð nær fólkinu í landinu. Hluti nefskattsins sem ætlaður er Ríkisútvarpinu gæti þá runnið til svæðisbundinna fjölmiðla. 
(b) Frumvarp til laga um félagslega aðstoð (bifreiðastyrkir hreyfihamlaðra), 36. mál.
www.althingi.is/altext/141/s/0036.html
Lagt fram.
(c) Tillaga til þingsályktunar um mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum, 154. mál.
www.althingi.is/altext/141/s/0154.html
Lögð fram.
(d) Tillaga til þingsályktunar um menningarstefnu, 196. mál.
www.althingi.is/altext/141/s/0199.html
Menningarráði var falið að taka tillöguna til umsagnar.
(e) Frumvarp til laga um verndar- og orkunýtingaráætlun (flokkun virkjunarkosta og gerð orkunýtingaráætlunar), 3. mál.
 
www.althingi.is/altext/141/s/0003.html 
Lagt fram.
(f) Frumvarp til laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum (selir), 46. mál.
 
www.althingi.is/altext/141/s/0046.html   
Lagt fram.
(g) Tillaga til þingsályktunar um breytingar á skattkerfi til að styrkja íslenskan hugverkaiðnað, 118. mál.
 
www.althingi.is/altext/141/s/0118.html    
Lagt fram.

 

5. Bréf frá SÁÁ, ódags., um átakið Betra líf – mannúð og réttlæti! (frestað á 235. fundi).
Með bréfinu er leitað eftir stuðningi við að 10% af áfengisgjaldinu, sem ríkið innheimtir, verði varið í þjónustu við þolendur áfengis- og vímuefnavandans.
Stjórn Eyþings telur tillögu SÁÁ allrar athygli verða og tekur undir mikilvægi þess að stórefla aðstoð við vímuefnaneytendur og aðstandendur þeirra.
Stjórnin tekur undir bókun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem samþykkti að fela formanni og framkvæmdastjóra að taka upp viðræður við velferðarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og innanríkisráðuneytið til að fá fram með hvaða hætti ríkisvaldið geti stutt sveitarfélögin til að byggja upp nauðsynlega þjónustu fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga, fjölskyldur þeirra og börn.
Stjórnin tekur jafnframt undir áskorun bæjarráðs Akureyrar til SÁÁ um að efla starfsemi sína á Akureyri sem brýn þörf er á.
Stjórnin vísar að örðu leyti til bókunar sinnar á 235. fundi.

 

6. Bréf frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, dags. 26. október, tilnefning í skólanefnd Framhaldsskólans á Laugum.
Stjórnin samþykkir að tilefna eftirtalda:
Aðalmenn:
Erlingur Teitsson, Brún, Þingeyjarsveit
Margrét Hólm Valsdóttir, Gautlöndum I, Skútustaðahreppi
Varamenn:
Dagbjört Jónsdóttir, Hólavegi 7, Þingeyjarsveit
Guðrún María Valgeirsdóttir, Reykjahlíð 1, Skútustaðahreppi

 

7. Bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, dags. 7. nóvember, um framlag vegna sóknaráætlana landshluta.
Í bréfinu eru upplýsingar um skiptingu 25 milljón kr. framlags sem skiptast mun á landshlutasamtökin átta.

 

8. Erindi frá Skipulagsstofnun um landsskipulagsstefnu 2013-2024, dags. 16. nóvember.
Lagt fram. Í bréfinu er minnt á frest til að skila umsögnum. Upplýst var að einstök sveitarfélög á svæðinu hafa sent inn athugasemdir.

 

9. Rekstraryfirlit til októberloka.
Pétur gerði grein fyrir rekstrinum, sem er í samræmi við áætlanir.

 

10. Sóknaráætlun landshlutans.
(a) Stöðugreining 2012.
Lögð fram drög að stöðugreiningu fyrir svæðið sem Byggðastofnun hefur tekið saman.
(b) Samráðsvettvangur og skipulag.
Pétur fór yfir tillögu að skipan samráðsvettvangs og skipulagi fyrir vinnuferlið. Stjórnin er samþykk tillögunni og að leitað verði eftir tilnefningum frá Samtökum atvinnulífsins um þá sem verða fulltrúar atvinnulífsins.

 

11. Minnisblað frá framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga, dags. 23. október, um skipun nefndar um hlutverk landshlutasamtaka sveitarfélaga og stjórnsýslustig á Íslandi.
Minnisblaðið er tekið saman í tengslum við samþykkt stjórnar sambandsins um að setja á fót fimm manna nefnd til að fjalla um hlutverk landshlutasamtaka sveitarfélaga og þróun í svæðasamvinnu á Íslandi.

 

12. Önnur mál.
(a) Málþing um skýrsluna „Starfsemi ríkisins í Norðausturkjördæmi“.

Eyþing hefur boðað til málþings síðar í dag á Akureyri undir yfirskriftinni Norðausturkjördæmi eða Norðausturríki. Þar munu Þóroddur Bjarnason prófessor og Jón Þorvaldur Heiðarsson lektor kynna áhugaverðar niðurstöður úr skýrslu um ríkisútgjöld og tekjur ríkisins á Austurlandi og Norðurlandi eystra en skýrslan var unnin að frumkvæði Eyþings og SSA.
(b) Endurskoðun reikninga Eyþings.
Pétur vakti athygli á samþykkt aðalfundar um að leitað verði eftir tilboðum í endurskoðun.
(c) Aukafundur Eyþings, sbr. ákvörðun aðalfundar 2012.
Stjórnin samþykkir að stefna að fundinum í janúar, en nánari ákvörðun verður tekin þegar allar tillögur nefndar um skipulag Eyþings liggja fyrir.

Fundi slitið kl. 14:45.
Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.
Getum við bætt síðuna?