Fundargerð - Stjórn Eyþings - 21.10.2015
Árið 2015, miðvikudaginn 21. október, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Stjórnsýsluhúsinu á Húsavík. Mætt voru Logi Már Einarsson formaður, Arnór Benónýsson, Bjarni Theodór Bjarnason, Eva Hrund Einarsdóttir, Hilma Steinarsdóttir, Karl Frímannsson og Sif Jóhannesdóttir. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.
Fundur hófst kl. 13:30.
Þetta gerðist helst.
Formaður bauð Karl Frímannsson, nýjan stjórnarman, velkominn til starfa.
1. Ályktanir og samþykktir aðalfundar 2015.
Formaður fór yfir ályktanir fundarins. Í framhaldi var rætt um að draga fram ákveðin lykilmál sem stjórnin mundi leggja sérstaka áherslu á. Stjórnin varð sammála um eftirtaldar fjórar ályktanir:
Ályktun um almenningssamgöngur. Fylgja þarf ályktuninni fast eftir við innanríkisráðherra, þingmenn kjördæmisins og fleiri aðila.
Ályktun um heildstæða sýn í ferðamálum. Með ályktuninni er stjórn Eyþings falið að hefja undirbúning að gerð svæðisskipulags í ferðaþjónustu á svæði Eyþings. Vakin er athygli á að málefnið kom til umræðu á svæðafundum sóknaráætlunar síðastliðið vor. Stjórnin samþykkir að fela Sif að móta fyrstu skref í vinnunni.
Ályktun um menntun fyrir atvinnulífið. Ályktuninni var beint til stjórnar sem vill vekja athygli á að margt af því sem þar kemur fram er þegar í vinnslu. Má þar nefna starf svokallaðrar framhaldsskólanefndar, vinnu sem er í gangi hjá Háskólanum á Akureyri og loks viðamikið verkefni sem unnið hefur verið að hjá símenntunarmiðstöðvunum innan sóknaráætlunar. Stjórnin mun áfram fylgja þessum verkefnum eftir.
Ályktun um Háskólann á Akureyri. Stjórnin mun vinna að málefnum skólans í nánu samstarfi við rektor og fylgja málum eftir við þingmenn kjördæmisins. Eitt af áhersluverkefnum sóknaráætlunar, Skapandi skólastarf, verður unnið undi forystu Háskólans á Akureyri.
2. Þingmál.
Lögð var fram samantekt frá Lindu Margréti Sigurðardóttur um fyrirliggjandi þingmál.
(a) Tillaga til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu 2015 – 2026, 101. mál.
Lagt fram.
(b) Frumvarp til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, 133. mál.
Lagt fram.
(c) Frumvarp til laga um náttúruvernd (varúðarregla, almannaréttur, sérstök vernd, framandi tegundir o.fl.), 140. mál.
Lagt fram.
(d) Tillaga til þingsályktunar um styrkingu leikskóla og fæðingarorlofs, 16. mál.
Lagt fram.
(e) Tillaga til þingsályktunar um lýðháskóla, 17. mál.
Lagt fram.
(f) Frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum (grenndarkynning), 225. mál.
Lagt fram.
3. Almenningssamgöngur.
Formaður og framkvæmdastjóri greindu frá fundi í innanríkisráðuneytinu þann 16. október. Þar voru ræddar hugsanlegar lausnir varðandi erfiða stöðu Eyþings í verkefninu.
Framkvæmastjóra var falið að fylgja málinu eftir við ráðuneytið, vegmálastjóra og þingmenn. Honum var einnig falið að leita til Þórarins V. Þórarinssonar hrl. um lögfræðilega ráðgjöf.
4. Sóknaráætlun.
Framkvæmastjóri kynnti hugmynd að skipun 40 manna samráðsvettvangs í samræmi við ósk stjórnar um fámennari hóp en áður var áætlað. Í honum er gert ráð fyrir fulltrúaráði Eyþings, fulltrúum af svæðafundunum og fulltrúum nemenda úr framhaldsskólum og Háskólanum á Akureyri. Gert er ráð fyrir að embættismenn stoðstofnana taki ekki þátt í samráðsvettvangnum en hægt verði að kalla þá til um upplýsingagjöf. Þeir munu koma að gerð áætlunarinnar á öðrum stigum.
Samþykkt var að fela framkvæmdastjóra að vinna málið áfram og senda stjórn lista yfir fulltrúa til kynningar þegar hann verður tilbúinn.
Þá óskaði framkvæmdastjóri eftir heimild til að ræða við Björgu Ágústsdóttur ráðgjafa hjá Alta um að stýra fundi samráðsins og vera til ráðgjafar við undirbúning og samantekt. Það var samþykkt af stjórn.
5. Önnur mál.
(a) Ýmsar ráðstefnur. Framkvæmdastjóri vakti athygli á nokkrum ráðstefnum sem hafa verið boðaðar. Sjálfur mun hann sækja ráðstefnuna Sveitarstjórnarstigið á 21. öldinni, sem fjallar um norræn umbótaverkefni. Nokkur umræða varð um offramboð á ráðstefnum á næstu vikum, bæði innan og utan landshlutans, og að ógerlegt væri fyrir sveitarstjórnarmenn að sækja nema lítinn hluta þeirra.
(b) Verkefnið Raufarhöfn og framtíðin. Framkvæmdastjóri greindi frá íbúafundi sem haldinn var 14. október.
(c) Mál frá Karli Frímannssyni. Karl bar upp nokkur mál sem hann óskaði eftir að yrðu tekin til skoðunar:
Hugbúnaður fyrir fjarfundi. Samþykkt að fela framkvæmdastjóra að skoða þá kosti sem helst eru í notkun.
Fundargögn. Karl lagði áherslu á að öll fundargögn hefðu borist innan tveggja sólarhringa fyrir fund.
Upplýsingar á heimasíðu. Benti á að eftir væri að gera leiðréttingar bæði á stjórn og fulltrúaráði.
Fyrirkomulag aðalfundar. Karl benti á að m.a. þurfi að auka vægi skoðanaskipta og umræðu milli aðalfundarfulltrúa. Samþykkt var að fela Karli að gera tillögu að formi næsta aðalfundar.
Fundi var slitið kl. 15:40.
Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerðir.