Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 19.11.2014

22.01.2015

  

Stjórn Eyþings

261. fundur

 Árið 2014, miðvikudaginn 19. nóvember, kom stjórn Eyþings saman til fundar. Mætt voru í Hafnarstræti 91 þau Logi Már Einarsson formaður, Eva Hrund Einarsdóttir, Hilma Steinarsdóttir og Jón Stefánsson en í síma voru Arnór Benónýsson, Sif Jóhannesdóttir og Sigurður Valur Ásbjarnarson. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.

Fundur hófst kl. 14:00.

Þetta gerðist helst.

 

  1. Tillaga að samkomulagi um uppgjör á leið 57 (Reykjavík - Akureyri).

Geir Kristinn Aðalsteinsson fulltrúi Eyþings í samninganefnd mætti á fundinn undir þessum dagskrárlið. Lögð var fram fundargerð sáttanefndar um ágreining Eyþings og SSV, dags. 5.11.2014, um uppgjör á leið 57. Í fundargerðinni kemur fram sáttatillaga sem nefndin varð sammála um að mæla með. Geir Kristinn gerði grein fyrir tillögunni og aðdraganda hennar. Í henni felst að Eyþing haldi eftir 12 mkr. á ári af framlagi Vegagerðarinnar, en sameiginlegt félag SSV, SSNV og FV haldi eftir öllum farþegatekjum af leið 57. Einnig að umsýsla með leið 57 verði áfram hjá SSV. Lagt er til að samkomulagið gildi frá og með 1. janúar 2014 til 31. desember 2015 og verði endurskoðað að þeim tíma liðnum. Jafnframt verði á gildistíma samkomulagsins unnið að varanlegri lausn þar sem tekið verði tillit til hagsmuna allra aðila.

Geir Kristinn upplýsti að ekki væri tekið á uppgjöri frá upphafi aksturs 1. september 2012 til ársloka 2013 þar sem formaður nefndarinnar Ásgeir Eiríksson væri í viðræðum við innanríkisráðuneytið varðandi lausn fyrir það tímabil.

Í umræðu kom fram ánægja með það að í tillögunni fælist viðurkenning á þeim áætlunum sem lagðar voru fram af sérfræðingi VSÓ og síðar Strætó bs. sem gerðu ráð fyrir hlutdeild Eyþings í tekjum af leið 57.

Stjórnin samþykkir eftirfarandi bókun:

Stjórn Eyþings samþykkir samkomulagið um uppgjör fyrir árin 2014 og 2015 þannig að ágreiningur um rekstur á leið 57 valdi ekki töfum á lausn annarra mála sem lúta að rekstrarumhverfi almenningssamgangna. Stjórnin telur miður að ekki varð samkomulag um framtíðarlausn á rekstri leiðarinnar. Stjórnin telur því brýnt að strax verði gengið í að gera samkomulag þar sem rekstri leiðarinnar milli Reykjavíkur og Akureyrar verði haldið aðskildum frá öðrum leiðum. Lengi hafa legið fyrir tillögur þar um, sem ræddar voru á fundi með landshlutasamtökunum og kynntar í minnisblaði frá Strætó bs., dags. 3. október 2013. Ítrekað hefur komið fram að ekkert er því tæknilega til fyrirstöðu að aðgreina tekjur og kostnað á umræddri leið.

 

  1. Umsókn um NPA-verkefni um vinnslu og nýtingu líforku (Bioenergy and organic fertilizers in Rural Areas – BofRA). Ósk um þátttöku Eyþings.

Lagt var fram minnisblað, dags. 31. október, í samantekt Eiðs Guðmundssonar þar sem gerð er grein fyrir verkefninu og aðkomu einstakra þátttakenda en verkefnið tekur yfir tímabilið 2015 - 2018. Einnig lögð fram nánari fjárhagsáætlun. Verkefnið verður leitt af Háskólanum á Akureyri. Auk Eyþings munu Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, Orkusetur og Flokkun verða aðilar að verkefninu.

Stjórnin samþykkir þátttöku í verkefninu og telur það geta skilað verulegum ávinningi fyrir svæðið án þess að hafa mikil áhrif á rekstur Eyþings.

  1. Tilnefning (karl og konu) í ráðgjafarnefnd heilbrigðisumdæmis Norðurlands sbr. ósk frá Sambandi ísl. sveitarfélaga.

Lagt var fram bréf velferðarráðuneytisins, dags. 30. október, til Sambands ísl. sveitarfélaga. Í bréfinu er óskað eftir tilnefningu í ráðgjafarnefndir sjö heilbrigðisumdæma. Heilbrigðisumdæmi Norðurlands nær yfir svæði tveggja landshlutasamtaka og er samkomulag um að SSNV og Eyþing tilnefni hvort sinn fulltrúa.

Stjórnin samþykkir að tilnefna Sigríði Huld Jónsdóttur bæjarfulltrúa á Akureyri sem aðalmann og Þorstein Ægi Egilsson sveitarstjórnarmann í Langanesbyggð sem varamann.

  1. Þingmál.

(a)     Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum (kerfisáætlun; EES-reglur), 305. mál.          www.althingi.is/altext/144/s/0372.html

Að mati stjórnar Eyþings ber að fagna því að komið verði á heilsteyptri áætlanagerð fyrir raforkuflutning í landinu með kerfisáætlun. Stjórn Eyþings vill sérstaklega koma á framfæri athugasemd við 9. grein (c – lið) frumvarpsins. Með greininni er verulega gengið á skipulagsvald sveitarfélaga. Til að slíkt sé gert þurfa að liggja fyrir mjög ríkir almannahagsmunir. Stjórnin telur rangt að Landsneti sem framkvæmdaaðila sé jafnframt veitt skipulagsvald eins og felst í greininni. Leggja ber áherslu á að skipulagsvaldið sé hjá sveitarfélögunum. Komi til ágreinings milli aðila án þess að niðurstaða náist þarf að kveða á um leið til lausnar. Stjórnin telur að skoða megi þá leið að í slíkum tilvikum verði skipaður gerðardómur. Þeirri hugmynd var varpað fram að slíkur gerðardómur gæti t.d. verið skipaður með eftirfarandi hætti: Tveir þingmenn viðkomandi kjördæmis, einn frá viðkomandi héraðsdómi, einn frá Landsneti og einn frá Sambandi ísl. sveitarfélaga.

Að örðu leyti vísar stjórn Eyþings til umsagnar Sambands ísl. sveitarfélaga.

(b)     Tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, 321. mál.          www.althingi.is/altext/144/s/0392.html

Samþykkt að fela framkvæmdastjóra að ganga frá umsögn á grundvelli umræðna á fundinum. Athugasemdirnar lúta fyrst og fremst að ýmsum atriðum í grein 1.3 í tillögunni.

           

(c)      Frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga (afnám lágmarksútsvars), 29. mál.  www.althingi.is/altext/144/s/0029.html

Lagt fram.

(d)     Tillaga til þingsályktunar um millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll, 32. mál.  www.althingi.is/altext/144/s/0032.html  

Lagt fram.  

  1. Önnur mál.

(a)     Sameiginlegur fundur Eyþings og SSA með þingmönnum NA-kjördæmis.

       Kynnt var hugmynd að sameiginlegum fundi. Stjórnin samþykkir að stefnt verði að fundinum í janúar og felur framkvæmdastjóra að hafa samband við SSA og þingmenn.

(b)     Fundur í fulltrúaráði.

       Stjórnin telur rétt að fulltrúaráðið verði kallað saman þegar samningar um sóknaráætlun liggja fyrir. Á fundinum verði verkefnið um almenningssamgöngur einnig á dagskrá.

 

 

Fundi slitið kl. 15:10.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

Getum við bætt síðuna?