Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 17.02.2016

25.02.2016

 Árið 2016, miðvikudaginn 17. febrúar, kom stjórn Eyþings saman til fundar á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar. Mætt voru Logi Már Einarsson formaður, Arnór Benónýsson, Bjarni Theodór Bjarnason, Hilma Steinarsdóttir, Karl Frímannsson og Sif Jóhannesdóttir. Eva Hrund Einarsdóttir boðaði forföll sem og varamaður hennar. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur. Undir 1. dagskrárlið sátu fundinn stjórn og framkvæmdastjóri Norðurorku, ásamt Viðari Helgasyni frá Íslenska jarðvarmaklasanum og Sigurði H. Markússyni frá Landsvirkjun.

Fundur hófst kl. 16:10.
Þetta gerðist helst. 

Formaður sett fund og bauð gesti velkomna. 

1. Samstarfsverkefni um bætta nýtingu orkuauðlinda. Sigurður H. Markússon Landsvirkjun kynnir verkefnið.

Sigurður H. Markússon hafði framsögu og var með ítarlega og greinargóða kynningu á verkefninu sem lýtur að samstarfi um bætta nýtingu orkuauðlinda á Norðurlandi eystra. Verkefnið felur í sér áherslu á sjálfbærni og er liður í því að stuðla að öflugu og umhverfisvænu samfélagi. Þá felur það í sér ýmsa möguleika á tengingu við ferðaþjónustu. Undirbúningsvinna við verkefnið hófst í október 2015 og hefur verkefnið fengið vinnuheitið LOGI. Sérstakur fókus er á jarðhitann en engu að síður öll nýting orkuauðlinda undir, m.ö.o. lítið á alla orku sem hráefni. Mikil tækifæri liggja víða í nýtingu auka- eða afgangsorku. Nefndi sem dæmi að í Kröflu er dælt niður um 200 MW af varmaorku eftir að búið er að keyra vökvann í gegnum kerfið.

Mikil áhersla er á nýsköpun og fór Sigurður yfir fjölmörg dæmi um verðmætasköpun og nýsköpunarverkefni sem byggja á orkunýtingu með einum eða öðrum hætti. Gert er ráð fyrir þriggja ára verkefni og var lögð fram kostnaðaráætlun og hugmynd að kostnaðarskiptingu nokkurra aðila sem æskilegt væri að fá að verkefninu. Hugmyndin er að ráða verkefnisstjóra sem fyrst hér fyrir norðan en að Jarðvarmaklasinn annist rekstur verkefnisins.

Talsverðar umræður spunnust í framhaldi af kynningu Sigurðar og var það mál manna að hér væri um að ræða mjög áhugavert verkefni þar sem vandað væri til undirbúnings. Stjórnir Eyþings og Norðurorku munu taka verkefnið til nánari umfjöllunar á fundum sínum.

2. Fundargerð fulltrúaráðs Eyþings, dags. 28. janúar 2016, 5. fundur.

Lögð fram. Í fundargerðinni kemur m.a. fram að framkvæmdastjóra er falið að boða til málþings og samráðsfundar í samstarfi við SSNV í framhaldi af ný samþykktri Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs. Framkvæmdastjóri greindi frá að rætt hefði verið við fulltrúa SSNV sem muni standa að fundinum ásamt Eyþingi.

3. Fundargerð Eyþings, SSA og þingmanna Norðausturkjördæmis, dags. 9. febrúar 2016.
Lögð fram.

4. Almenningssamgöngur.

(a)     Samkomulag um uppgjör og rekstur leiðar 57, dags. 5. febrúar 2016.
Framkvæmdastjóri fór yfir samkomulagið og einkum þær breytingar sem gerðar voru frá þeim drögum sem kynnt voru á síðasta fundi stjórnar. Samkomulagið nær yfir tímann frá upphafi aksturs 1. september 2012 og til loka samningstíma við Vegagerðina 31. desember 2018.

Stjórnin samþykkir samkomulagið og felur framkvæmdastjóra að undirrita það fyrir hönd Eyþings.

(b)     Breytingar á gjaldskrá.
Framkvæmdastjóri fór yfir boðaðar gjaldskrárbreytingar, sem taka munu gildi 1. mars nk. Í þeim er stigið skref til einföldunar á gjaldskrá eins og lagt var til í tillögu stjórnar Eyþings frá síðasta fundi stjórnar. Farmiðar hafa þó enn ekki verið aflagðir. Staðgreiðslufargjöld munu hækka um 5%.

(c)      Aðrar upplýsingar um stöðu verkefnisins.
Framkvæmdastjóri greindi frá að hægt miðaði í þeim aðgerðum sem kynntar hefðu verið til að bæta úr rekstrarvandanum. Sérstöku framlagi var veitt á fjárlögum og samkvæmt upplýsingum frá vegamálastjóra verður því ráðstafað fljótlega.

5. Þingmál.

(a)     Tillaga til þingsályktunar um stefnu um nýfjárfestingar, 372. mál.
Lagt fram.

(b)     Frumvarp til laga um vatsveitur sveitarfélaga (skilgreining og álagning vatnsgjalds), 400. mál.
Lagt fram.

(c)      Frumvarp til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna (gjaldtökuheimildir, réttindi og skyldur fráveitna), 404. mál.
Lagt fram.

(d)     Frumvarp til laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald (heimagisting, veitingastaðir án áfengisveitinga, ótímabundin rekstrarleyfi), 457. mál.
Lagt fram.

6. Mál frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra til kynningar.

Lagðar voru fram umsagnir um drög að frumvarpi til laga um breytingar á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

7. Aðalfundur 2016.

Samþykkt að fundurinn verði haldinn dagana 30. september og 1. október. Fundurinn verður í félagsheimilinu Þórsveri á Þórshöfn.

8. Erindi frá innanríkisráðuneytinu (Stefaníu Traustadóttur), dags. 5. febrúar, með beiðni um skipan í 20 manna bakhóp verkefnisins Staða og framtíð íslenskra sveitarfélaga.

Skipuð hefur verið fimm manna verkefnisstjórn en bakhópnum er ætlað að vera henni til samráðs. Landshlutasamtökin munu eiga einn fulltrúa hvertí bakhópnum og er óskað eftir að þau tilnefni bæði karl og konu þannig að hægt verði að gæta jafnræðis kynjanna.

Stjórnin samþykkir að tilefna Loga Má Einarsson og Sif Jóhannesdóttur. 

Fundi slitið kl. 18:10.                                                                                            

Getum við bætt síðuna?