Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 16.12.2016

20.12.2016

 Árið 2016, föstudaginn 16. desember, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Hafnarstræti 91 Akureyri. Mætt voru Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður, Arnór Benónýsson, Eiríkur H. Hauksson, Elías Pétursson, Eva Hrund Einarsdóttir, Gunnar I. Birgisson og Sif Jóhannesdóttir. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.

Fundur hófst kl. 09:57. 

Þetta gerðist helst.

1. Svæðisskipulag fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi eystra.
Formaður og framkvæmdastjóri fóru yfir rammasamning við Alta um ráðgjafarþjónustu, ásamt viðauka sem kveður nánar á um atriði sem lúta að verkefninu sem Alta mun vinna fyrir Eyþing.

Stjórnin samþykkir samninginn og felur framkvæmdastjóra að undirrita hann fyrir hönd Eyþings. Þá samþykkir stjórnin að fela Alta að útbúa sérstakan kynningavef um verkefnið líkt og fram kemur í viðaukanum.

2. Orkumál.
Formaður reifaði málið og vék sérstaklega að stöðu skipulagsmála varðandi línulagnir. Ræddir voru ýmsir smærri virkjunarkostir (undir 10 Mw) sem kynntir hafa verið í landshlutanum.

Gunnar lagði til að komið verði á sameiginlegum fundi stjórna Eyþings og SSNV um raforkumál og fá fulltrúa Orkustofnunar, Landsnets og Rarik á fundinn. Stjórnin samþykkti að fela framkvæmdastjóra að koma fundinum á.

Þá samþykkti stjórnin eftirfarandi bókun:

Stjórn Eyþings leggur áherslu á mikilvægi þess að tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norðausturlandi og auka afhendingaröryggi og skapa þannig möguleika fyrir eðlilegan vöxt atvinnulífs á svæðinu. Mikilvægt er í þessu sambandi að vinna að krafti að uppbyggingu Hólasandslínu 3 sem og Blöndulínu 3. Enn fremur hvetur stjórn Eyþings til þess að sveitarfélög á svæðinu horfi til þeirra möguleika sem eru í smærri virkjunarkostum og samstarfs við Orkustofnun í þeim efnum. 

3. Frumvarp til fjárlaga 2017.
Að lokinni umræðu samþykkti stjórnin eftirfarandi bókun:

Á fundi með umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í apríl sl. kynntu fulltrúar Eyþings tvö mál fyrir nefndinni sem lögð var rík áhersla á að færi inn í fjögurra ára samgönguáætlun. Undir sjónarmið Eyþings var tekið og lagði nefndin til að þessi verkefni færu inn á áætlun, annars vegar að lokið yrði við gerð Dettifossvegar og hins vegar að áfram yrði unnið að undirbyggingu flughlaðs á Akureyrarflugvelli með því að nýta til þess efni sem til fellur úr Vaðlaheiðargöngum.
Báðar þessar framkvæmdir eru gríðarlega mikilvægur þáttur í uppbyggingu innviða fyrir ferðaþjónustu og atvinnulíf á Norðurlandi eystra og raunar fyrir landið allt. Um er að ræða framkvæmdir sem eru forgangsmál í sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015 – 2019. Í því samhengi er minnt á eftirfarandi markmið samgönguáætlunar: „Í samræmi við sóknaráætlanir landshluta verði við forgangsröðun framkvæmda tekið mið af þörfum einstakra svæða fyrir bættar samgöngur til að efla sveitarfélög, styrkja vinnusóknarsvæði og landið allt“. Í ljósi þessa leggur stjórn Eyþings ríka áherslu á að fjárveiting verði tryggð til þessara verkefna í samræmi við samgönguáætlun og skorar á Alþingi að tryggja að svo verði.

Þá vill stjórn Eyþings að lokum lýsa yfir ánægju sinni með að gert er ráð fyrir 75 mkr. aukaframlagi til almenningssamgangna á landsbyggðinni til að mæta erfiðum rekstrarskilyrðum.

4. Fundur formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna 12. desember.
Formaður greindi frá mjög gagnlegum vinnufundi formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtaka þar sem farið var ítarlega yfir skipulag og starfsemi samtakanna. Áformaður er framhaldsfundur þar sem horft verður nánar til framtíðarverkefna og mögulegrar samræmingar á ýmsum þáttum í starfi þeirra.

5. Verkefnið Staða og framtíð íslenskra sveitarfélaga.
Verkefnið var sett af stað af innanríkisráðherra. Sif situr í 20 manna bakhóp verkefnisins sem fulltrúi Eyþings. Hún gerði grein fyrir verkefninu og umræðu á fyrsta fundi hópsins sem var í gær, 15. desember.

Gunnar lagði til að Eyþing standi fyrir málþingi um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga og reifaði nánar hugmyndir um umræðuefni málþings.

Stjórnin samþykkti að fela framkvæmdastjóra að undirbúa málþingið.

6. Verkefnið „Ísland ljóstengt“ 2017.
Sjá frétt: http://www.fjarskiptasjodur.is/frettir/umsoknarferli-vegna-verkefnisins-island-ljostengt-2017-hafid-1

Arnór kynnti umsóknarreglur og skilyrði sem Fjarskiptasjóður hefur samþykkt fyrir styrkveitingar á árinu 2017. Ekki liggja fyrir upplýsingar um sérstakan byggðasjóð sem ætlað er að mæta erfiðum byggðaaðstæðum sem Fjarskiptasjóður getur ekki sinnt.

Stjórnin hvetur sveitarfélögin til að kynna sér verkefnið og vekur athygli á tímaramma vegna umsókna.

7. Uppbyggingarsjóður.
(a)     Tímasetningar og verklag.
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir menningarfulltrúi mætti á fundinn undir þessum dagskrárlið. Hún fór ítarlega yfir breytingar á verklagsreglum og vinnulagi við umsýslu sjóðsins. Hún vakti sérstaklega athygli á skýrari tímaramma verkefna sem sótt er um styrk til og um mikilvægi samræmdrar upplýsingagjafar. Þá ræddi hún nauðsyn þess að stjórnin ákveði með hvaða hætti atvinnuþróunarfélögin komi að umsýslu sjóðsins. Það þurfi að liggja fyrir áður en auglýst verður og vinna við sjóðinn skipulögð.

Formaður mun boða til fundar með fulltrúum atvinnuþróunarfélaganna í næstu viku um aðkomu þeirra að uppbyggingarsjóði. 

(b)     Skipun í fagráð og úthlutunarnefnd.
Samþykkt var að fresta þessum lið til símafundar í byrjun janúar.

7. Fundaáætlun stjórnar.
Stjórnin samþykkti eftirfarandi áætlun um fundi:
Miðvikudagur 25. janúar
Miðvikudagur 15. febrúar
Miðvikudagur 15. mars
Miðvikudagur 19. apríl
Miðvikudagur 17. maí
Miðvikudagur 14. júní

Fundirnir hefjast kl. 16.

Þá mun stjórnin halda símafund upp úr áramótum til umfjöllunar um mál sem lúta að uppbyggingarsjóði  sbr. m.a. lið 7b.

8. Önnur mál.
(a)  Verkefnið Creative momentum.
Menningarfulltrúi sat fundinn undir þessum dagskrárlið og gerði grein fyrir  verkefninu. Starfsmaður hefur verið í 30% starfshlutfalli við verkefnið sem fjármagnað er af verkefninu. Þá kom fram að eftir væri að ljúka vinnu við áhersluverkefnið Grunngerð og mannauður í menningarmálum og æskilegt væri að sami starfsmaður sinnti því.

Stjórnin samþykkir heimild til að verkefnaráða áfram starfsmann í fyrrnefnt starfshlutfall á árinu 2017 en jafnframt er framkvæmdastjóra falið að skoða möguleika á því að tengja það starf við tímabundna vinnu við áhersluverkefnið Grunngerð og mannauður í menningarmálum.

(b) Breytt starfshlutfall Lindu Margrétar Sigurðardóttur.
Formaður og framkvæmdastjóri greindu frá að Linda verði í 75% starfi frá næstu áramótum.

(c)  Heimsókn stjórnar SASS.
 Stjórn SASS hefur lýst áhuga sínum að heimsækja Eyþing og stefnir á fyrri hluta marsmánaðar.

 Stjórn Eyþings býður stjórn og starfsmenn SASS velkomna og felur framkvæmdastjóra að fastsetja hentuga dagsetningu.

Fundi slitið kl. 12:40.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

Getum við bætt síðuna?