Fundargerð - Stjórn Eyþings - 14.08.2017
Árið 2017, mánudaginn 14. ágúst, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Hafnarstræti 91, Akureyri. Mætt voru Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður, Arnór Benónýsson, Eiríkur H. Hauksson, Elías Pétursson, Eva Hrund Einarsdóttir og Sif Jóhannesdóttir. Gunnar I. Birgisson mætti á fundinn kl. 16. Einnig sátu fundinn, Pétur Þór Jónasson framkvæmdastjóri og Linda Margrét Sigurðardóttir verkefnastjóri. Þá mættu gestir til fundarins undir dagskrárliðum 1 og 2 og er þeirra getið þar.
Fundur hófst kl. 13:00
Þetta gerðist helst.
1. Fjölmenningarstefna Eyþings – útg. júní 2017.
Mætt voru Gunnar Gíslason og Linda Margrét Sigurðardóttir. Þau kynntu endurskoðaða fjölmenningarstefnu og gerðu grein fyrir þeim breytingum sem gerðar hafa verið frá upphaflegri útgáfu 2009. Auk Gunnars og Lindu vann Helga Hauksdóttir að endurskoðuninni.
Stjórnin samþykkir fjölmenningarstefnuna eins og hún liggur fyrir og hvetur sveitarfélögin til að nýta sér hana. Hún verður aðgengileg á heimasíðu Eyþings. Þá samþykkir stjórnin að bjóða sveitarfélögum upp á kynningu og umræðu um stefnuna og leita eftir að þau tilnefni ábyrgðaraðila í innflytjendamálum. Eyþing stefnir á að kalla árlega saman ábyrgðaraðila sveitarfélaganna til að vega og meta þjónustu við innflytjendur. Þá telur stjórnin rétt að taka stefnuna og hugsanlegt samráð í þessum málaflokki til umræðu á aðalfundi í haust.
2. Svæðisskipulag um ferðaþjónustu.
(a) Greinargerð um forverkefni.
Á fundinn mætti Matthildur Kr. Elmarsdóttir skipulagsráðgjafi hjá Alta og kynnti greinargerð um forverkefni um ferðamál á Norðurlandi eystra. Forverkefnið felur í sér verkefnistillögu að svæðisskipulagi.
Stjórnin samþykkir að greinagerð um forverkefnið verði kynnt á fulltrúaráðsfundi í september.
(b) Erindi frá svæðisskipulagsnefnd Eyjafjarðar.
Stjórnin felur formanni og framkvæmdastjóra að eiga fund með fulltrúum svæðisskipulags Eyjafjarðar og leggur til að í framhaldi eigi fulltrúar þessara aðila fund með Skipulagsstofnun.
3. Þingmál.
(a) Tillaga til þingsályktunar um mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir, 414. mál. http://www.althingi.is/altext/146/s/0547.html
Lögð fram.
(b) Drög að frumvarpi um póstþjónustu, sjá srn.is:
https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/?NewsId=feffdc97-670b-11e7-941c-005056bc530c
Stjórn Eyþings leggur áherslu á að í frumvarpinu verði íbúum í dreifbýli tryggt ásættanlegt þjónustustig og að verð á póstþjónustu eigi að vera það sama um allt land. Stjórn Eyþings hafnar því að dreifing alþjónustuveitanda skuli vera að lágmarki einu sinni í viku að því gefnu að hún sé yfirhöfuð framkvæmanleg. Stjórnin telur æskilegt að lágmarkið verði tvisvar sinnum í viku. Stjórn Eyþings hefur áhyggjur af því að póstdreifing í hinum dreifðu byggðum landsins muni minnka. Það er verulegt áhyggjuefni þegar litið er til svæða sem eru fjarri þjónustukjarna og langt er að sækja almenna þjónustu. Að mati stjórnar Eyþings getur slík skerðing haft veruleg áhrif á skilyrði til búsetu og atvinnurekstrar í dreifbýli.
4. Málefni Greiðrar leiðar ehf.
(a) Fundargerð aðalfundar Greiðrar leiðar ehf. 2017.
Lögð fram.
(b) Bréf frá Greiðri leið ehf., dags. 25. júlí, um lokaáfanga hlutafjáraukningar.
Stjórn samþykkir að nýta sér forkaupsrétt sem nemur kr. 942.213.
5. Fundargerð fulltrúaráðs 8. júní, 6. fundur.
Lögð fram.
6. Sóknaráætlun.
(a) Fundargerðir stýrihóps Stjórnarráðsins, dags. 22. maí 13. júní, 35. og 36. fundur.
Lagðar fram.
(b) Viðfangsefni næstu mánuði.
Framkvæmdastjóri greindi frá áhersluverkefnum sem eru í undirbúningi.
Framkvæmdastjóra er falið að undirbúa samráðsfund og fund í fulltrúaráði um miðjan september á Húsavík.
7. Erindi (tp) frá Sambandi ísl. sveitarfélag (Guðjóni Bragasyni), dags. 16. júní, um nýja persónuverndarlöggjöf.
Lagt fram til kynningar.
8. Starfsemi Eyþings.
(a) Starfsemi Eyþings og stoðstofnana. Greinargerð samþykkt af stjórn 22. september 2016 og lögð fram á aðalfundi 2016.
Frestað til aukafundar stjórnar í næstu viku.
(b) Minnisblöð frá framkvæmdastjóra.
Frestað til aukafundar stjórnar í næstu viku.
9. Bréf frá Norðurþingi, dags. 22. júní, með bókun byggðarráðs um atvinnumál – stöðu ýmissa verkefna.
Fram kemur að byggðarráð Norðurþings telur kosti sameiningar atvinnuþróunarfélaganna og Eyþings ekki vega upp þá galla sem af því hlýst og mun ekki skoða þann kost frekar að svo stöddu.
Sif Jóhannesdóttir vék af fundi undir þessum lið.
Stjórn Eyþings harmar þessa ótímabæru afstöðu byggðarráðs Norðurþings.
10. Bréf frá samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu, dags. 19. júní, um samgönguáætlun 2018 – 2029 og endurskoðun stefnu í samgöngumálum.
Eins og fram kemur í bréfinu þá eru landshlutasamtök sveitarfélaga helsti samstarfsaðili samgönguráðs á vettvangi sveitarfélaga.
Stjórn felur framkvæmdastjóra að taka saman áherslur svæðisins í samgöngumálum og leggja fyrir stjórn.
11. Tillögur starfshóps um framtíðarskipan byggðakvóta, sjá anr.is:
https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2017/07/13/Tillogur-starfshops-um-framtidarskipan-byggdakvota/
Lagt fram til kynningar.
12. Erindi (tp) frá Dalvíkurbyggð, dags. 10. ágúst, um breytingar sem varða Fjallskilasamþykkt Eyjafjarðar vegna aukafjárréttar í Árskógsdeild.
Samþykkt hefur verið að fjárréttin að Stóru-Hámundarstöðum verði skráð sem aukarétt samkvæmt gr. 26. í fjallskilasamþykkt Eyjafjarðar.
Stjórnin samþykkir að fela framkvæmdastjóra að tilkynna breytinguna til Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis.
13. Almenningssamgöngur.
Formaður og framkvæmdastjóri greindu frá alvarlegri stöðu sem uppi er í rekstri almenningssamgangna. Þeir munu eiga fund með fulltrúum Vegagerðarinnar næstkomandi föstudag og ræða róttækar aðgerðir sem að óbreyttu er óhjákvæmilegt að grípa til.
14. Önnur mál til kynningar.
(a) Málþing um innanlandsflug 4. október nk.
(b) Breytt vefsíða Eyþings.
(c) Stefnt er að næsta fundi stjórnar þriðjudaginn 22. ágúst.
Fundi slitið kl. 16:25.
Linda Margrét Sigurðardóttir og
Pétur Þór Jónasson rituðu fundargerð.