Fundargerð - Stjórn Eyþings - 13.01.2016
Árið 2016, miðvikudaginn 13. janúar, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Seiglu – miðstöð sköpunar (gamla Litlulaugaskóla) í Þingeyjarsveit. Mætt voru Logi Már Einarsson formaður, Arnór Benónýsson, Bjarni Theodór Bjarnason, Eva Hrund Einarsdóttir, Hilma Steinarsdóttir, Karl Frímannsson og Sif Jóhannesdóttir. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur. Menningarfulltrúi Eyþings, Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sat fundinn undir fyrstu tveimur dagskrárliðunum.
Fundur hófst kl. 16:15.
Þetta gerðist helst.
1. Uppbyggingarsjóður. Verklag umsýslu.
Ragnheiður Jóna menningarfulltrúi var boðin velkomin á fundinn. Hún greindi frá tildrögum þess að farið var í að semja reglur um verklag við umsýslu sjóðsins. Skýra þarf hlutverk hvers og eins þar sem atvinnuþróunarfélögin tvö koma að starfi sjóðsins auk Eyþings.
Verkefni á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar hafa farið hægt af stað, líklega þarf að skýra betur starfsár sjóðsins sem er frá janúar-desember. Nauðsynlegt er því að setja skýrari mörk í samræmi við starfsár sjóðsins. Rætt var um viðtalstíma, auglýsingar og úthlutunarathöfn. Að mati stjórnarinnar er æskilegt að starfsmenn hafi viðtalstíma á stöðum fjarri skrifstofu til að veita upplýsingar um sjóðinn, þó atvinnuþróunarfélögin ákveði það fyrir sína parta. Menningarfulltrúi mun eins og áður hafa slíka viðtalstíma, einnig Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga á austursvæði. Stjórnin telur æskilegt að hafa sameiginlega úthlutunarathöfn fyrir báða hluta sjóðsins en það kallar á að auglýsa þarf á sama tíma fyrir menningarverkefni og nýsköpunarverkefni. Halda má því opnu að hægt verði að auglýs aftur síðar á árinu ef talið er þörf á. Á þessu ári verða því tvær úthlutunarathafnir, Þingeyjarsveit bauðst til að hafa úthlutun á menningarstyrkjum og Dalvíkurbyggð úthlutun á styrkjum til atvinnuþróunar og nýsköpunar.
Munnleg beiðni hefur komið frá AFE um að Eyþing yfirtaki samning við Credit Info en grunnurinn er notaður til uppflettingar vegna verkefnasamninga. Stjórnin samþykkir það.
2. NPA verkefni: Creative momentum.
Ragnheiður Jóna gerði grein fyrir verkefninu Creative Momentum sem Menningarráð Eyþings er þátttakandi í ásamt stofnunum í Finlandi, Svíþjóð, Norður Írlandi og Írlandi sem leiðir verkefnið. Verkefnið hófst í júní 2015 og lýkur 2018.
Hún sagði sambærilegar áskoranir á þeim svæðum þessara landa sem verkefnið nær til. Megininntak verkefnisins væri að þróa leiðir til að stuðla að vaxandi hagkerfi skapandi greina. Hún vakti athygli á heimasíðu verkefnisins MyCreativeEdge sem er sameiginlegur kynningarvettvangur skapandi greina í samstarfslöndunum. Ísland leiðir þann hluta verkefnisins sem lýtur að því að þróa lista- og menningarslóðir (Crative trails).
3. Almenningssamgöngur.
(a) Minnisblað frá Þórarni V. Þórarinssyni hrl, dags. 26.11.2015, varðandi samning um almenningssamgöngur á Norðurlandi eystra og um áhrif breyttra forsenda.
Lagt fram.
(b) Minnisblað frá Þórarni V. Þórarinssyni hrl., dags. 01.12.2015, um rekstur leiðar 57.
Lagt fram.
(c) Drög að samkomulagi um uppgjör á leið 57.
Formaður og framkvæmdastjóri fóru yfir drögin sem byggja á viðræðum Geirs Kristins Aðalsteinssonar fyrir hönd Eyþings og Páls Brynjarssonar fyrir hönd SSV og uppgjöri sem nú liggur fyrir um rekstur leiðar 57 árin 2014 og 2015. Drögin hafa verið send SSV til umfjöllunar. Fyrir liggur samkomulag frá nóvember 2014 fyrir árin 2014 og 2015 en drögin taka jafnframt til áranna 2016 til ársloka 2018 og til reksturs leiðarinnar árin 2012 og 2013.
Stjórnin samþykkir drögin og væntir þess að hægt verði að ljúka samkomulagi á þeim grunni. Þá leggur stjórnin sérstaka áherslu á að samkomulaginu verði lokið sem fyrst.
(d) Tillaga að breytingu á gjaldskrá (afsláttarkjörum).
Framkvæmdastjóri fór yfir tillöguna sem miðar að einföldun og samræmingu afsláttarkjara á þann veg að afsláttur verði í öllum tilvikum 50% af farmiðagjaldi. Tillagan byggir á eldri tillögu sem formenn og framkvæmdastjórar landshlutasamtakanna sameinuðust um í október 2013 en náði ekki fram að ganga.
Stjórnin samþykkir tillöguna og felur framkvæmdastjóra að senda landshlutasamökunum tillöguna til umfjöllunar og afgreiðslu í samræmi við samkomulag sem landshlutasamtökin hafa gert.
(e) Staða verkefnisins og akstursáætlanir.
Framkvæmdastjóri fór yfir þær upplýsingar sem fram hafa komið síðustu daga um úrbætur í rekstri almenningssamgangna. Einnig fór hann yfir hugsanlegar breytingar á akstri sem eru til skoðunar innan svæðis.
Þá hafa landshlutasamtökin verið boðuð til fundar hjá Strætó bs. þann 26. janúar og mun framkvæmdastjóri mæta á fundinn.
4. Sóknaráætlun.
(a) Bréf frá stýrihópi Stjórnarráðsins, dags. 21. nóvember, varðandi minnisblað Eyþings til stýrihópsins.
Í bréfinu kemur fram að stýrihópurinn hafnar hugmyndum um að úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóðs Eyþings verði lögð niður í núverandi mynd og að tvö fagráð, fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar og fagráð menningar, fái umboð úthlutunarnefndar. Vísað er til þess að hugmyndin gangi gegn ákvæðum samnings um sóknaráætlun Norðurlands eystra.
(b) Fundargerð stýrihóps, dags 11. nóvember, 18. fundur.
Lögð fram.
(c) Staða áhersluverkefna.
Framkvæmdastjóri greindi frá stöðunni í áhersluverkefnunum fimm sem samþykkt voru á árinu 2015.
(d) Undirbúningur samráðsfundar 28. janúar.
Framkvæmdastjóri greindi frá undirbúningi fundarins og lagði fram tillögur að skipan samráðshópsins. Björg Ágústsdóttir verkefnisstjóri Alta mun skipuleggja og stýra fundinum. Hún mun ásamt framkvæmdastjóra ganga frá vinnuplaggi á grundvelli fyrirliggjandi sóknaráætlunar og leggja fyrir fundinn til umræðu og áframhaldandi vinnu.
Stjórn Eyþings samþykkir tillögu að skipan samráðshópsins og felur framkvæmdastjóra að boða til fundarins.
5. Samþykktir Menningarráðs Eyþings, dags. 10. október 2015, og skipun fulltrúa.
Auk þess að vera ráðgefandi um menningarmál mun menningaráðið taka við hlutverki fagráðs menningar fyrir Uppbyggingarsjóð Norðurlands eystra. Stjórnin skipar fimm fulltrúa, þar af einn fulltrúa samkvæmt tilnefningu Háskólans á Akureyri.
Stjórn Eyþings samþykkir að skipa eftirtalda í Menningarráðið:
Valdimar Gunnarsson Eyjafjarðarsveit.
Þórgunni Oddsdóttur Akureyri.
Hildi Stefánsdóttur Svalbarðshreppi.
Arnór Benónýsson Þingeyjarsveit.
Samkvæmt samþykktunum ber að skipa tvo til vara en samþykkt var að fresta skipun þeirra til næsta fundar. Þá var framkvæmdastjóra falið að óska eftir tilnefningum Háskólans.
6. Minnisblað um stjórnarlaun.
Lagðar fram upplýsingar um stjórnarlaun nokkurra fyrirtækja og stofnana sveitarfélaga, ásamt upplýsingum um nefndalaun Akureyrarbæjar.
7. Minnisblað um fjarfundakerfi.
Lagðar fram upplýsingar um fjarfundakerfin GoTo Meeting og Skype for Business. Framkvæmdastjóra falið að kanna möguleika á námskeiði um skipulag og stjórnun funda um fjarfundakerfi.
8. Bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, dags. 17, október, um framlag vegna samstarfsverkefna árið 2015.
Lagt fram.
9. Erindi frá bæjarráði Fjallabyggðar, dags. 22. desember, varðandi tilnefningu fulltrúa í Legatsjóð Jóns Sigurðssonar.
Stjórnin samþykkir að fresta erindinu.
10. Bréf frá Halldóri Valdimarssyni, dags. 17. desember, um greiðslur vegna setu í nefnd um stöðu og framtíð framhaldsskóla á svæði Eyþings.
Þar sem mennta- og menningarmálaráðuneytið mun hvorki greiða fyrir fundarsetu né ferðakostnað samþykkir stjórnin að Eyþing greiði fundaþóknun og ferðakostnað fyrir bókaða fundi sinna tveggja fulltrúa í nefndinni.
11. Boð á samráðsfund starfshóps um Ísland ljóstengt föstudaginn 15. janúar í innanríkisráðuneytinu. Fundarefni er framkvæmd ljósleiðaravæðingar og fyrirkomulag við úthlutun styrkja á árinu 2016.
Samþykkt að fela Arnóri Benónýssyni og Lindu Margréti Sigurðardóttur að mæta á fundinn fyrir hönd Eyþings.
12. Fulltrúaráðsfundur 28. janúar.
Samþykkt að halda fund í fulltrúaráði kl. 12 – 13:30 þar sem m.a. verði kynnt staðan í verkefninu um almenningssamgöngur. Fulltrúaráðið mun síðan halda áfram fundi kl. 14 – 17 en það skipar hluta samráðshóps um sóknaráætlun.
13. Fundur SSA og Eyþings með þingmönnum NA-kjördæmis.
Stjórnin samþykkir tillögu sem fram hefur komið um að fundurinn verði haldinn þriðjudaginn 9. febrúar í Mývatnssveit. Samþykkt að fela formanni og framkvæmdastjóra að undirbúa fundarefni í samstarfi við SSA en jafnframt er óskað eftir ábendingum stjórnarmanna.
14. Áætlun um stjórnarfundi.
Samþykkt að næstu stjórnarfundir verði eftirtalda daga:
Miðvikudaginn 17. febrúar í Eyjafjarðarsveit
Miðvikudaginn 16. mars. Óskað verði eftir að halda fundinn á Grenivík.
Miðvikudaginn 20. apríl.
15. Aðalfundur 2016.
Rætt var um mögulega tímasetningu og fyrirkomulag. Venja hefur verið að halda fundinn í byrjun október. Ákvörðun frestað.
16. Sameiginleg áskorun landshlutasamtaka sveitarfélaga, dags. 9. nóvember 2015, til ráðherra og alþingismanna.
Skorað er á ráðherra og þingmenn að tryggja aukin framlög til fimm mikilvægra málaflokka sem eru mikilvægir fyrir byggðaþróun til framtíðar, þ.e. þjónustu við fatlað fólk, samninga um sóknaráætlun, samgöngumála (nýframkvæmda, viðhalds og þjónustu), almenningssamgangna, og ljósleiðaravæðingar.
Áskorunin var áður borin undir stjórnarmenn í tölvupósti.
17. Önnur mál.
Framkvæmdastjóri greindi frá íbúaþingi sem haldið verður í Öxarfirði helgina 16. og 17. janúar í verkefninu Brothættar byggðir. Stjórnarmenn eru boðnir velkomnir þangað. Framkvæmdastjóri mun sitja íbúaþingið.
Fundi slitið kl. 18:55.
Að loknum formlegum fundi kynnti Aníta Guttesen starfsemi Seiglu og aðstaðan skoðuð undir leiðsögn hennar. Stjórn Eyþings þakkar fyrir áhugaverða kynningu.
Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.