Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 11.09.2012

11.09.2012
Stjórn Eyþings
232. fundur

Árið 2012, þriðjudaginn 11. september, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Stjórnsýsluhúsinu á Húsavík. Mætt voru Bergur Elías Ágústsson formaður, Geir Kristinn Aðalsteinsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir og Sigurður Valur Ásbjarnarson. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.
Dagbjört Bjarnadóttir var veðurteppt í Reykjavík en tók þátt í fundinum í síma.

 

Fundinum seinkaði um hálftíma þar sem Víkurskarð var lokað vegna ófærðar og aka þurfti um Dalsmynni. Fundur hófst kl. 11:00.

 

Þetta gerðist helst.

 

1. Málefni Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi.
Ásbjörn Björgvinsson forstöðumaður Markaðsstofunnar tók þátt í þessum dagskrárlið í síma en hann hafði óskað eftir viðræðum við stjórn. Tilefnið er að komið er að endurnýjun samninga sveitarfélaga á Norðurlandi eystra við Markaðsstofuna. Ásbjörn kynnti fyrirkomulag sem tekið var upp á Norðurlandi vestra þar sem SSNV er samningsaðili fyrir hönd allra sveitarfélaga á svæðinu og hafa einn mann í stjórn. Spurning Ásbjörns er hvort það fyrirkomulag henti á svæði Eyþings eða hvort áfram eigi að semja við hvert sveitarfélag fyrir sig. Ásbjörn fór síðan yfir rekstur Markaðsstofunnar, yfir stöðuna og þróunina í ferðaþjónustu á Norðurlandi og greindi frá stærstu verkefnum. Fram kom að sveitarfélögin greiða 500 kr. á íbúa til Markaðsstofunnar. Það þýðir að sveitarfélögin á Norðurlandi greiða um 18 mkr. af 44 – 45 mkr. heildarveltu Markaðsstofunnar. Frá fyrirtækjum koma um 8 mkr. Annað kemur frá opinberum aðilum. Þá kynnti Ásbjörn einnig flugklasann. Akureyrarbær er langstærsti aðilinn að því verkefni en tíu sveitarfélög taka þátt í því. Þá eru 26 fyrirtæki aðilar að klasanum.
Ásbjörn kvaddi fundinn kl. 11:30.
Afstaða stjórnar til fyrirspurnar Ásbjörns er að eðlilegra sé að sveitarfélögin eigi áfram beina aðild að Markaðsstofunni.

 

2. Almenningssamgöngur.
(a) Kynning frá fulltrúa Strætó bs.
Einar Kristjánsson sviðsstjóri skipulags- og þróunarsviðs var í síma og fór yfir gögn sem lágu fyrir fundinum og skýrði þá þjónustu sem stendur til boða frá Strætó bs. Einar yfirgaf fundinn kl. 12:10.
Stjórnin samþykkir að gerður verði þjónustusamningur við Strætó bs. í tengslum við útboð á almenningssamgöngum á Norðurlandi eystra. Slíkur
 samningur hefur þegar verið gerður varðandi leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur. Með samningnum fæst m.a. aðgangur að fullkomnu tækni- og  upplýsingakerfi Strætó. Að mati stjórnar felst í því mikilvæg þjónusta við notendur.
 
(b) Fundargerð nefndar um almenningssamgöngur, dags. 25. júlí, 10. fundur.
Fundargerðin samþykkt.

 

(c) Samningur við Hópferðabíla Akureyrar, dags. 31. ágúst, um almenningssamgöngur milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar.
Samningurinn kveður á um akstur milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar á tímabilinu 03.09.2012 - 01.01.2013.
Stjórnin samþykkir samninginn en málið hafði áður verið borið undir stjórn.

 

(d) Samningur við Hópbíla, dags. 31. ágúst, um almenningssamgöngur milli Akureyrar og Reykjavíkur.
Stjórnin staðfestir samninginn, en SSV kemur fram gagnvart verktaka í umboði þeirra landshlutasamtaka sem eiga aðild að honum.

 

(e) Fundargerð frá fundi Sigurðar Vals og Péturs Þórs með fulltrúum Strætó bs. og VSÓ ráðgjafar, dags. 10. ágúst.
Lögð fram.

 

3. Menningarráð Eyþings.
(a) Fundargerð Menningarráðs, dags. 22. júní, 38. fundur.

Lögð fram.
(b) Niðurstöður fundar í mennta- og menningarmálaráðuneytinu 25. júlí.
Fundurinn varðaði flutning verkefna og fjármagns af safnliðum fjárlaga. Á hann mættu formaður Eyþings, menningarfulltrúi og fulltrúi menningarráðsins. Samkomulag varð um þrjú verkefni sem ekki verða flutt til menningarráðsins. Stjórnin telur niðurstöðu fundarins ásættanlega. Samningur við ráðuneytið var undirritaður í kjölfar fundarins eftir að málið var borið undir stjórnarmenn. Framlag til Menningarráðs Eyþings vegna þessara verkefna verður því 12.400.000 í ár en vonir standa til að hægt verði að auka það á næsta ári. Menningarráðið hefur auglýst eftir umsóknum.

 

4. Fundargerð frá sumarfundi landshlutasamtaka sveitarfélaga 14. og 15. júní.
Formaður fór yfir fundargerðina en hann sótti fundinn ásamt framkvæmdastjóra. Þrjú meginmál voru til umræðu á fundinum, þ.e. sóknaráætlanir landshluta, samskipti fjárlaganefndar og sveitarfélaga og menningarsamningar.

 

5. Erindi frá fjárlaganefnd Alþingis.
(a) Bréf, dags. 18. júní, um breytt vinnulag við fjárlagagerð.

Í bréfinu er greint frá breyttum áherslum fjárlaganefndar á fundum með sveitarfélögum.

 

(b) Bréf, dags. 3. september, um fundi sveitarstjórna með fjárlaganefnd haustið 2012.
Með bréfinu er landshlutasamtökum og sveitarfélögum boðið upp á viðtalstíma hjá nefndinni um tiltekin málefnasvið sem tilgreind eru í bréfinu.
Stjórnin samþykkir að óska eftir fjarfundi með nefndinni og ræða sóknaráætlun og áherslur svæðisins.

 

6. Sóknaráætlun landshlutans.
(a) Samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 22. júní.
Í samþykktinni felast nokkuð nýjar og breyttar áherslur í vinnu að sóknaáætlun. Ljóst er að landshlutasamtakanna býður stórt verkefni.

 

(b) Tölvupóstar frá verkefnisstjóra sóknaráætlana landshluta, dags. 9. og 19. júlí.
Í póstunum er fyrrnefnd samþykkt ríkisstjórnarinnar kynnt fyrir hinum ýmsu stofnunum og stoðstofnunum landshluta. Annars vegar er kynnt að „allt“ styrkjafyrirkomulag s.s. til menningarsamninga, vaxtarsamninga, atvinnuþróunarfélaga o.fl. eigi að sameina undir eitt regluverk og renna um eina verkefnastoð i hverjum landshluta. Heimamenn í hverjum landshluta, undir forystu landshlutasamtaka sveitarfélaga í samráði við stýrinet stjórnarráðsins eru beðin að gera tillögu um hvernig staðið verði að þessum breytingum. Hins vegar er kynnt vinna við sóknaráætlanir landshluta sem er framundan og landshlutasamtökin eru ábyrg fyrir.
Eyþing og stýrinetið hafa boðað formenn og framkvæmdastjóra svokallaðra stoðstofnana sveitarfélaga til fundar 13. september þar sem fulltrúar stýrinetsins munu kynna áformaðar breytingar.

 

(c) Fundargerðir stýrinets sóknaráætlana landshluta, 1. – 6. fundur.
Lagðar fram.

 

(d) Kynningarefni frá Hólmfríði Sveinsdóttur verkefnisstjóra.
Lagt fram.

 

7. Bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, dags. 13. júní, um kostnað í tengslum við sóknaráætlun.
Lagt var fram svarbréf framkvæmdastjóra, dags. 31. ágúst. Stjórnin tekur undir nauðsyn þess að leita eftir framlagi til tímabundinnar ráðningar starfsmanns vegna verkefna sem tengjast sóknaráætlun.
8. Erindi frá velferðarráðuneytinu, dags. 6. júlí, með ósk um fulltrúa í samráðshóp um gerð framkvæmdaáætlunar fyrir félagsmálasjóð Evrópu (ESF).
Óskað er eftir að stjórnin tilnefni bæði konu og karl en ráðuneytið muni síðan ákveða hvort þeirra verður aðalfulltrúi og hvort varafulltrúi í samræmi við lög um jafnan rétt karla og kvenna.
Stjórnin samþykkir að tilnefna Dagbjörtu Bjarnadóttur en engin tilnefning kom fram um karl.

9. Bréf frá umhverfisráðuneytinu, dags. 15. júní, varðandi landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013-2024.
Lagt fram.

 

10. Erindi frá Kristínu Þorleifsdóttur landslagsarkitekt hjá Vist og veru ehf, dags. 28. júní, beiðni um rannsóknarstyrk.
Beðið er um styrk vegna rannsóknar á ásýnd og aðkomu þéttbýliskjarna á landsbyggðinni. Stjórnin sér sér ekki fært að styrkja verkefnið en telur verkefnið áhugavert og þakkar greinargóða lýsingu á verkefninu.

 

11. Bréf frá innanríkisráðuneytinu, dags. 30. ágúst,
Í bréfinu er boðið til samráðs um mótun innanríkisstefnu landsmanna með réttlæti, lýðræði og sterka innviði að leiðarljósi.
Stjórnin leggur til að erindinu verði vísað til nefndar á aðalfundi.

 

12. Minnisblað formanns, dags. 6. september, um starfsemi og skipulag Eyþings.
Kveikjan að minnisblaði Bergs er að síðastliðin tvö ár hefur orðið umtalsverð breyting á vægi og hlutverki Eyþings gagnvart ríkisvaldinu. Ástæður þess er að finna í 20/20 Sóknaráætlun og síðar sóknaráætlun landshluta (Ísland 2020). Fjallað er um vinnu sem er framundan við sóknaráætlun landshlutans. Bergur varpar fram hugmynd að framtíðarskipulagi Eyþings. Þar á meðal eru viðraðar hugmyndir um breytingar sem miða að virkari áhrifum allra sveitarfélaga innan Eyþings.
Samþykkt að formaður fari yfir málið á aðalfundi.

 

13. Aðalfundur Eyþings 2012, haldinn á Dalvík 5. og 6. október.
Pétur fór yfir þær hugmyndir og óskir sem fram hafa komið og var að loknum umræðum falið að ganga frá dagskrá.
Þá var rætt um fyrirkomulag nefndastarfa, m.a. í ljósi áherslu fundarins á sóknaráætlun og skipulag og aukin verkefni Eyþings. Framkvæmdastjóra falið að taka það til frekari skoðunar og leggja fyrir stjórn.

14. Þingmál.
(a) Frumvarp til laga um framkvæmdavald og stjórnsýslu í héraði (heildarlög), 738. mál.
www.althingi.is/altext/140/s/1176.html
Lagt fram.
(b) Frumvarp til lögreglulaga (fækkun umdæma), 739. mál.
www.althingi.is/altext/140/s/0039.html
Lagt fram.

 

15. Til kynningar.
(a) Fundagerðir frá landshlutasamtökum, dagskrár aðalfunda SSA og FV, fréttir frá nýafstöðnum aðalfundi SSV.
Lagðar fram.

 

(b) Umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga, dags. 31. ágúst, um reglugerð ESB um réttindi farþega í hópbifreiðum.
Lögð fram.

 

16. Bréf frá Greiðri leið ehf., dags. 31. ágúst, um aukningu hlutafjár um 100.000.000 kr.
Stjórnin samþykkir áskrift að hlut Eyþings í aukningunni,1.325.436 kr.

17. Undirbúningur að umsóknum um IPA styrki. Staðan og næstu skref.
Pétur greindi frá þeim verkefnishugmyndum sem komnar eru fram og unnið er með áfram.
Stjórnin óskar eftir að Anna Margrét Guðjónsdóttir kynna niðurstöðu sína um umsóknarhæf verkefni á aðalfundinum.

 

18. Námsferðir.
Eins og fram kemur í 231. fundargerð stendur Eyþingi til boða námsferð fyrir þrjá.
Samþykkt að fresta ákvörðun um hverjir fara í TAIEX námsferð þar til að loknum aðalfundi.

 

19. Skýrslan „Starfsemi ríkisins í Norðausturkjördæmi“, útg. 31. ágúst 2012. Unnin fyrir Eyþing og SSA. Höfundar Þóroddur Bjarnason og Jón Þorvaldur Heiðarsson.
Skýrslan var lögð fram. Ákveðið hefur verið að höfundar kynni helstu niðurstöður skýrslunnar á aðalfundi.

 

20. Húsnæðismál Eyþings.
Pétur greindi frá breytingum sem orðnar eru og framundan eru í Strandgötu 29 en fyrir liggur að meiri hluti hússins, þ.e. 1. og 2. hæð, verður laus á næstu vikum. Þá sagði hann frá fundi sem hann ásamt forstöðumanni Ferðamálastofu á Akureyri átti með leigusala.

 

Fundi slitið kl. 14:45.
Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.
Getum við bætt síðuna?