Fundargerð - Skýrsla stjórnar 2013
AÐALFUNDUR EYÞINGS 27. og 28. september 2013
Skýrsla stjórnar starfsárið 2012 - 2013.
Aðalfundur Eyþings var haldinn í Menningarhúsinu Bergi Dalvík dagana 5. og 6. október 2012. Á fundinum var kosin ný stjórn og í henni sitja: Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður Akureyrarbæ, Dagbjört Bjarnadóttir varaforamaðurSkútustaðahreppi, Guðný Sverrisdóttir Grýtubakkahreppi, Gunnlaugur Stefánsson Norðurþingi og Sigurður Valur Ásbjarnarson Fjallabyggð. Varamenn í sömu röð eru: Halla Björk Reynisdóttir Akureyrarbæ, Siggeir Stefánsson Langanesbyggð, Jón Hrói Finnsson Svalbarðsstrandarhreppi, Soffía Helgadóttir Norðurþingi og Marinó Þorsteinsson Dalvíkurbyggð.
Stjórnin hefur á starfsárinu haldið 11 bókaða stjórnarfundi og tekið til umræðu og afgreiðslu liðlega 150 mál. Starfsemi Eyþings hefur haldið áfram að taka breytingum og verkefnin stöðugt umfangsmeiri. Hér fer á eftir samantekt um helstu atriði í starfsemi Eyþings á liðnu starfsári, en að öðru leyti er vísað til fundargerða stjórnar Eyþings.
Nefndir, ráð og starfshópar
Skólanefnd Framhaldsskólans á Laugum. Af Eyþingi voru tilnefnd sem aðalmenn Dagbjört Jónsdóttir Þingeyjarsveit og Guðrún María Valgeirsdóttir Mývatnssveit og til vara Bjarni Höskuldsson Þingeyjarsveit og Kolbrún Ívarsdóttir Mývatnssveit (241. fundur). Stjórnin hafði áður tilnefnt fulltrúa á 236. fundi en þeirri tilnefningu breytt að ósk ráðuneytis.
Vinnumarkaðsráð Norðurlands eystra. Í ráðinu situr Marinó Þorsteinsson varabæjarfulltrúi Dalvíkurbyggð og sem varamaður Halla Björk Reynisdóttir bæjarfulltrúi á Akureyri (220. fundur stjórnar).
Nefnd um almenningssamgöngur. Í nefndinni eru Sigurður Valur Ásbjarnarson formaður Fjallabyggð, Hjálmar Bogi Hafliðason Norðurþingi og Ólafur Jakobsson Akureyri ( 222. fundur).
Fjallskila- og markanefnd í Eyjafirði. Í nefndinni sitja Ólafur G. Vagnsson ráðunautur sem er formaður, Guðmundur Skúlason Hörgársveit og Þórarinn Ingi Pétursson Grýtubakkahreppi (226. fundur stjórnar).
Samráðsvettvangur um landsskipulagsstefnu. Hanna Rósa Sveinsdóttir Hörgársveit hefur verið fulltrúi Eyþings (226. fundur).
Vatnasvæðisnefnd (svæði 2). Jónas Vigfússon Eyjafjarðarsveit er fulltrúi fyrir sveitarfélögin í Eyjafirði (226. fundur).
Samráðshópur um gerð framkvæmdaáætlunar fyrir félagsmálasjóð Evrópu (ESF). Inda Björk Gunnarsdóttir Akureyri er fulltrúi Eyþings (241. fundur). Stjórnin hafði áður tilnefnt Dagbjörtu Bjarnadóttur (232. fundur) en hún baðst lausnar.
Aðgerðaáætlun Eyþings/Ályktanir aðalfundar
Ályktanir síðasta aðalfundar voru að venju sendar þeim aðilum sem þær varða og eftir atvikum fylgt frekar eftir t.d. við þingmenn kjördæmisins. Hér verður gerð grein fyrir helstu verkefnum sem unnið hefur verið að frá síðasta aðalfundi án þess að um sé að ræða neinn tæmandi lista.
- Sóknaráætlun Norðurlands eystra.
Á fundi stjórna Eyþings 11. desember 2012 var samþykkt verklag við undirbúning og gerð sóknaráætlunar 2013 fyrir landshlutann (sjá viðauka) og þar með verkefnið sett af stað með formlegum hætti.
Sem fyrsta skref í undirbúningi var að fá atvinnuþróunarfélögin tvö á starfssvæðinu til að taka saman stöðugreiningu hvort af sínu starfssvæði þ.e. úr Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Jafnframt var óskað eftir að félögin mótuðu hugmyndir til að leggja fyrir samráðsvettvang. Undirbúningur þessarar vinnu fór fram á fundi með atvinnuþróunarfélögunum 10. janúar. Félögin öfluðu síðan upplýsinga hvort með sínum hætti. Úr þeim upplýsingum og fleiri tillögum (s.s. frá þjóðfundi landshlutans 2010) var unnið á vinnufundi formanns og framkvæmdastjóra Eyþings með framkvæmdastjórum atvinnuþróunarfélaganna.
Stjórn Eyþings samdi við Bjarna Snæbjörn Jónsson ráðgjafa til að stýra samráðsfundi og vinnslu sóknaráætlunar og átti framkvæmdastjóri fundi með honum til undirbúnings.
Mikilvægur þáttur í vinnuferli um gerð sóknaráætlunar er samráðsvettvangur til að móta framtíðarsýn og tillögur um sóknaráætlun landshlutans. Samráðsfundurinn var haldinn 4. febrúar og voru um 75 manns boðaðir í samráðsvettvanginn og alls mættu 55 manns á fundinn sem stóð frá kl. 13 – 17. Fundurinn tókst afar vel og almenn ánægja með afrakstur hans. Fundarstjóri taldi heppilegt að byrja umræðu á gangsemi samráðsins og því hvað gæti sameinað svæðið. Leggja síðan í framhaldi áherslu á tillögur um verkefni sem best gætu gagnast svæðinu öllu. Megin niðurstaða umræðu um samráðsvettvangsins var að hann væri gott framtak og sameiginlegir hagsmunir landshlutans margþættir. Framtíðarhlutverk samráðsvettvangsins var markað með einni setningu: Efla samvinnu, hagræða og skerpa sameiginleg markmið með hagsmuni svæðisins að leiðarljósi. Á samráðsfundinum var unnið á sjö borðum um mismunandi málefni en sérstaklega horft til þriggja málaflokka í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 22. júní 2012. Þessir málaflokkar voru: Atvinnumál og nýsköpun, mennta- og menningarmál og markaðsmál. Afraksturinn í formi verkefnalista mjög góður og mjög skýrar línur í áherslum. Áhersla var á að verkefni væru skýr og raunhæf, en um leið að þau væru liður í stærri markmiðum í stað þess að vera sundurlaus „átaksverkefni“ sem ekki ættu sér samnefnara og ekki gögnuðust heildarhagsmunum.
Í framhaldi af samráðsfundinum tók sérstakur vinnuhópur til starfa til að draga saman tillögurnar og setja saman í skilgreind verkefni. Vinnuhópurinn var skipaður á samráðsfundinum og sátu í honum formaður og framkvæmdastjóri Eyþings, framkvæmdastjórar atvinnuþróunarfélaganna, forstöðumaður svæðisvinnumiðlunar Norðurlands eystra, forstöðumaður Símeyjar og fulltrúi frá atvinnulífinu. Fyrir lá að Eyþing hafði til úthlutunar 50.595.000 kr. Tillaga var gerð um sex verkefni í samræmi við megináherslur samráðins.
Drög að skýrslu um sóknaráætlun Norðurlands eystra ásamt tillögum að verkefnum og skiptingu framlagsins milli þeirra var síðan lögð fyrir aukaaðalfund Eyþings þann 12. febrúar. Að loknum umræðum og voru tillögurnar samþykktar og vísað til stjórnar til lokaafgreiðslu. Sóknarráætluninni var skilað til stýrinets stjórnarráðsins þann 15. febrúar. Eftir yfirferð stýrinetsins og símafund með stýrinetinu 5. mars voru gerðar smávægilegar breytingar á verkefnalýsingum í lokaskýrslu.
Þau sex verkefni sem veitt var fé til innan sóknaráætlunar eru eftirfarandi:
- Norðurland – hlið inn í landið. 15.000.000 kr. Framkvæmdaaðili Markaðsstofa Norðurlands/Flugklasinn Air 66N.
- Orkuauðlindasamstarf (klasaundirbúningur). 5.000.000 kr. Framkvæmdaaðili Atvinnuþróunarfélögin.
- Náin tengsl atvinnulífs og menntunar – ný nálgun í símenntun. 12.595.000 kr. Framkvæmdaaðilar Símey og Þekkingarnet Þingeyinga.
- Kynningarefni og fjölmiðlun. 10.000.000 kr. Framkvæmdaaðili N4 í samstarfi við sveitarfélög.
- Grunngerð og mannauður. 4.000.000 kr. Framkvæmdaaðili Menningarráð Eyþings.
- Aftur heim. 4.000.000 kr. Framkvæmdaaðili Menningarráð Eyþings.
Samningar milli fjármálaráðherra og landshlutasamtakanna um fjárframlag og framkvæmd sóknaráætlunar og þeirra verkefna sem tillaga var gerð um voru undirritaðir í Þjóðmenningarhúsinu þann 22. mars.
Undirbúningur að gerð samninga við framkvæmdaaðila verkefnanna sex fór af stað í byrjun maí. Ákveðið var að fara þá leið að formaður og framkvæmdastjóri Eyþings áttu fundi með forsvarsmönnum allra verkefnanna og í nokkrum tilvikum fleiri fundi sem fóru fram í maí og júní. Tilgangurinn var að vanda undirbúninginn og skýra verklag áður en skrifað væri undir samninga. Í raun hafði því í sumum tilvikum talsverð vinna við verkefnin hafist áður en skrifað var undir og fyrsta greiðsla fór fram.
Verkefnin sex fóru öll af stað, flest staðist vel áætlun og um þau skapast jákvæð og góð stemming. Af hálfu Eyþings eru því mjög jákvæðar væntingar til árangurs af þessum verkefnum og þess að áfram verði haldið á þessari braut og verklag sóknaráætlunar verði þróað áfram. Miðað við yfirlýsingar forsætisráðherra á aðalfundi SSA fyrir tveimur vikum má ætla að svo verði.
Formaður og framkvæmdastjóri hittu fulltrúa Stýrinets Stjórnarráðsins nú í vikunni, eða 24. september, þar sem gerð var grein fyrir framgangi verkefnanna og þeirri reynslu sem er fengin. Áður höfðu framkvæmdaaðilar skilað mati á stöðu og framvindu verkefnanna. Stjórn Eyþing hefur þegar búið sig undir vinnu við gerð sóknaráætlunar fyrir árið 2014 og samið aftur við Bjarna Snæbjörn Jónsson að stýra þeirri vinnu.
- Almenningssamgöngur.
Ekkert verkefni hefur tekið jafn mikið á í starfi Eyþings og almenningssamgönguverkefnið. Þann 1. janúar sl. tókum við að reka verkefnið að undangengnu útboði og samningum. Samið var við Hópferðabíla Akureyrar um akstur á leiðum milli Akureyrar og Siglufjarðar (leið 78), Akureyrar, Húsavíkur og Þórshafnar (leið 79) og milli Akureyrar og Egilsstaða um Mývatn (leið 56). Áður,, eða í september 2012 var hafinn akstur skv. útboði á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur (leið 57). Þessi leið er rekin í samstarfi fjögurra landshlutasamtaka og var SSV falið að annast samskipti við verktakann, Hópbíla, fyrir þeirra hönd.
Þrátt fyrir að almennt virðist ánægja meðal íbúanna með þessa þjónustu þá hafa áætlanir um rekstur ekki gengið eins og væntanlega hefur ekki farið fram hjá neinum. Þrátt fyrir að farþegafjöldi sé meiri, einkum á vissum leiðum, en áætlað var þá hafa farþegatekjur reynst umtalssvert minni. Skýringin virðist einkum liggja í mjög miklum afsláttarkjörum sem birtist í því að mjög lágt hlutfall farþega greiðir fullt gjald. Þetta virðist ekki síst eiga við okkar landshluta. Þá kom í ljós að sumarið skilaði ekki þeirri tekjuaukningu sem áætlað hafði verið. Í ljós kom að sumarið hér reyndist mun styttra og farþegatoppurinn lægri en á Suðurlandi sem áætlanir tóku mið af. Þá er ekki vitað hve mikil áhrif það hefur að einkaleyfið sem kveðið er á um í samningi við Vegagerðina hefur ekki haldið í öllum tilvikum.
Hér verður ekki kafað öllu dýpra í þetta mál þar sem stjórnin ákvað að taka það fyrir í sérstakri greinargerð til umfjöllunar á fundinum. Nauðsynlegt er þó að geta þess hér að sú ánægjulega niðurstaða náðist á fundi með innanríkisráðherra þann 11. september sl. að það væri sameiginlegt úrlausnarefni ríkisins og Eyþings, sem og annarra landshlutasamtaka, að leysa úr þeim erfiðleikum sem eru upp og tryggja framtíð og þróun þessarar mikilvægu þjónustu. Hjá ráðherra og vegamálastjóra kom fram góður skilningur á þessu máli.
Ekki verður hjá því komist í lok þessarar umfjöllunar að greina frá ágreiningi sem upp er kominn milli SSV og Eyþings varðandi samrekstur á leið 57. Stjórnin staðfesti á sínum tíma samning við Hópbíla um akstur á fyrrnefndri leið (232. fundur) og hafði áður samþykkt að fela SSV að koma fram gagnvart verktaka. Nú nýverið kom í ljós það álit SSV að Eyþing bæri fyrir vikið hlutdeild í ábyrgð á öllum almenningssamgöngum á Vesturlandi. Þar með hlut í um 20 mkr. tapi meðan áætlanir okkar ráðgjafa gera ráð fyrir 13,5 mkr. tekjum af leið 57 sem er sú leið sem við teljum okkur vera að reka í samstarfi. Hér hefur því ofan á annað bæst erfitt úrlausnarefni.
- Vaðlaheiðargöng.
Við gleðjumst nú yfir því að loks eru framkvæmdir komnar á fullt við gerð Vaðlaheiðarganga sem verið hefur eitt af stóru sameiginlegu hagsmunamálum Eyþingssvæðisins um árabil. Þann 1. febrúar voru samningar undirritaðir við verktakann, 2. maí hóf nýráðinn framkvæmdastjóri störf og 12. júlí var svokölluð viðhafnarsprenging framkvæmd af forsætisráðherra sem jafnframt er 1. þingmaður kjördæmisins, til að innsigla að sjálf gangagerðin væri hafin. Framkvæmdin hefur til þessa gengið með ágætum og þegar verið sprengdir um 700 metrar. Þess skal getið að framkvæmdastjóri Eyþings gegnir formennsku í stjórn Vaðalheiðarganga hf. og í Greiðri leið ehf.
- Afdrif IPA umsókna.
Á aðalfundi í fyrra kynnti Anna Margrét Guðjónsdóttir ráðgjafi hugmyndir að fimm verkefnum fyrir umsóknir af starfssvæðinu um svonefnda IPA – styrki (Instrument for Pre-Accession. Eyþing samdi við Önnu Margréti að vinna með heimaaðilum að því að undirbúa umsóknir. Við lokaafgreiðslu fékk einungis eitt verkefnanna jákvætt svar, en það er verkefnið Matur og heilsuvörur sem byggir m.a. á nýtingu jarðhita í Þingeyjarsýslu. Eftir breyttar áherslur stjórnvalda í Evrópusambandsviðræðum er ekki reiknað með að styrkurinn berist.
- Menningarsamningurinn.
Komið er að endurnýjun menningarsamnings en hann rennur út um næstu áramót. Vænta má þess að nú að loknum aðalfundi hefjist viðræður um endurnýjun og með hvaða hætti verður staðið að gerð nýs samnings og um tengsl hans við sóknaráætlun. Takmarkað er vitað um afstöðu ríkisins en ekki þarf að dylja áhyggjur af hugsanlegum árvissum niðurskurði sem verið hefur á samningnum. Samfara því hafa birst auknar kröfur á sveitarfélögin að standa við sitt. Hér á dagskrá fundarins er kynning á menningarstefnu og mati á menningarsamningnum auk þess sem málefni Menningarráðs Eyþings eru sérstaklega til umfjöllunar.
- Skipulag Eyþings
Á aðalfundi í fyrr varð mikil umræða um skipulag Eyþings í ljósi aukinna verkefna. Í framhaldi var skipuð nefnd til að móta hugmyndir að fyrirkomulagi sem tryggði virkari aðkomu kjörinna fulltrúa og allra sveitarfélaga að starfi Eyþings. Skipuð var sjö manna nefnd og var hún undir forystu Bergs Elíasar Ágústssonar. Nefndin vann gott starf og skilaði tillögum með greinargerð til stjórnar. Þær fólu í sér fjölgun úr fimm í sjö manna stjórn ásamt tillögu um að sett yrði á fót fulltrúaráð úr hópi aðalfundarfulltrúa sem fengi til umfjöllunar mikilvæg mál sem koma á borð stjórnar og varða hagsmuni sveitarfélaganna.
Tillögur nefndarinnar og sjónarmið stjórnar Eyþings voru lagðar fyrir aukaaðalfund sem haldinn var 12. febrúar. Fyrir aðalfundinum liggur tillaga stjórnar að breytingu á lögum Eyþings í samræmi við samþykkt aukaaðalfundarins. Stjórn Eyþings væntir þess að breytt skipulag styrki starf Eyþings og tryggi virkari tengsl við sveitarfélögin.
Ýmsir fundir og verkefni
Framkvæmdastjóri, og einnig formaður í mörgum tilvikum, hefur sótt ýmsa fundi og viðburði fyrir samtökin auk þeirra sem tengjast einstökum málum sem getið er hér í skýrslunni. Nefna má fjármálaráðstefnu, ársfund Jöfnunarsjóðs, ársfund Byggðastofnunar, undirbúningsfund um gerð nýrrar byggðaáætlunar, aðalfund SSNV, haustfund AFE og fund um norðurslóðaáætlun. Þá ber þess að geta að framkvæmdastjóri á sæti sem áheyrnarfulltrúi í stjórn Norðurslóðanets Íslands sem varð til á grunni sóknaráætlunar 2012.
Í byrjun mars fóru formaður, varaformaður og framkvæmdastjóri í kynnisferð til Ulricehamn í Svíþjóð fyrir svokallaðan TAIEX-styrk. Þessi ferð var einstaklega vel heppnuð og lærdómsrík þar sem við kynntumst áhugaverðum verkefnum sem unnið er að ýmist á sveitarfélagagrunni eða svæðisgrunni. Formaður hélt erindi á málþingi í Reykjavík 14. mars þar sem hann kynnti afrakstur ferðarinnar.
Samstarf við þingmenn
Stjórn og framkvæmdastjóri hafa að venju átt margháttað samstarf við þingmenn Norðausturkjördæmis um ýmis málefni landshlutans. Að þessu sinni var ákveðið að fella niður árlegan fund stjórnar og þingmanna sem venja hefur verið að halda í janúar febrúar. Það var gert í ljósi þess að stutt var í kosningar. Hlutfall nýrra þingmanna er hátt í kjördæminu og væntir stjórnin þess að eiga gott samstarf við þá sem og eldri þingmenn kjördæmisins.
Aðsend þingmál
Á dagskrá stjórnar komu 37 þingmál til umsagnar. Reynt hefur verið að hafa samráð við Samband ísl. sveitarfélaga og í nokkrum tilvikum kom stjórnin ábendingum á framfæri.
Samstarf við ráðuneyti sveitarstjórnarmála, Samband ísl. sveitarfélaga og við önnur landshlutasamtök
Náið samstarf hefur verið við innanríkisráðuneytið og stýrinet Stjórnarráðsins um sóknaráætlun á síðasta starfsári og sama á við um Samband ísl. sveitarfélaga og landshlutasamtökin. Þau samskipti hafa tengst vinnu að sóknaráætlunum landshluta, almenningssamgöngum o.fl..
Að venju hafa verið margháttuð samskipti við Samband ísl. sveitarfélaga um ýmis. Formenn og framkvæmdastjórar landshlutasamtaka sitja landsþing, auk þess sem árlega er haldinn a.m.k. einn samráðsfundur formanna og framkvæmdastjóra með stjórn sambandsins og sviðsstjórum þess.
Eyþing hefur leitt samstarf formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna síðast liðið starfsár og mun skila því hlutverki af sér í næstu viku.Haldnir hafa verið nokkrir samráðsfundir, bæði óformlegir og formlegir, auk þess sem árlegur sumarfundur var haldinn á Akureyri 13. og 14. júní sl. Farið var í kynnisferð út með firði auk ferðar til Grímseyjar sem féll í góðan jarðveg. Helstu mál sem hafa verið til umræðu eru sóknaráætlun og skipulag byggðamála, almenningssamgöngur, Evrópumálefni, aukin verkefni og skipulagsbreytingar landshlutasamtaka.
Formaður Eyþings, ásamt formönnum þriggja annarra landshlutasamtaka, hafa sl. starfsár verið aðalfulltrúar á sveitarstjórnarvettvang EFTA. Þeir munu sitja áfram þar til um mitt næsta ár þegar formenn annarra fjögurra landshlutasamtaka taka við. Að jafnaði eru fundir haldnir tvisvar á ári.
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra
Að venju verður gerð grein fyrir störfum heilbrigðisnefndar og starfsemi eftirlitsins hér á fundinum eins og kveðið er á um í samstarfssamningi sveitarfélaganna.
Húsnæðismál
Ákveðið hefur verið að Eyþing ásamt nokkrum stofnunum færi sig um set og flytji í Hafnarstræti 91 Akureyri í janúar nk. að loknum gagngerum endurbótum og breytingum á húsnæðinu. Leigusamningi vegna núverandi húsnæðis að Strandgötu 29 hefur verið sagt upp.
Ný heimasíða
Áformað hafði verið að opna nýja heimasíðu sem Stefna hugbúnaðarhús á Akureyri hefur unnið að fyrir Eyþing. Það reyndist því miður ekki gerlegt en ýmislegt hefur orðið undan að láta að undanförnu vegna mikils álags, einkum við úrlausn þeirra vandamála sem upp komu við rekstur almenningssamgangna. Vonandi tekst að koma nýrri síðu í notkun á næstu dögum enda ný og bætt heimasíða löngu orðin tímabær.
Aðalfundur Eyþings 2013
Rétt til setu á aðalfundi Eyþings eiga 40 fulltrúar úr 13 sveitarfélögum með alls 29.026 íbúa m.v. 1. desember 2012. Sveitarfélögin eru sjö í Eyjafirði og sex austan Vaðlaheiðar.
Á aðalfundinum í ár er áherslan á umfjöllun um innri mál og meginverkefni Eyþings, þ.e.a.s. skipulag Eyþings sbr. tillögu að lagabreytingu, sóknaráætlun, almenningssamgöngur og menningarsamninginn.
Stjórn og framkvæmdastjóri Eyþings þakka sveitarstjórnarmönnum og starfsmönnum sveitarfélaga á starfssvæði sínu gott samstarf á liðnu starfsári og væntir áfram góðs samstarfs við þá í þeim krefjandi verkefnum sem samtökin, og þar með sveitarfélögin, þurfa að takast á við.
Akureyri 27. september 2013
Stjórn og framkvæmdastjóri Eyþings.