Fara í efni

Fundargerð - Skýrsla stjórnar 2010

08.10.2010

AÐALFUNDUR EYÞINGS 8. og 9. október 2010

Skýrsla stjórnar starfsárið 2009 - 2010.

 

Aðalfundur Eyþings var haldinn í Reykjahlíðarskóla Mývatnssveit dagana 25. og 26. september 2009. Í stjórn sambandsins sitja: Sigrún Björk Jakobsdóttir formaður Akureyrarbæ, Bergur Elías Ágústsson varaformaður Norðurþingi, Árni K. Bjarnason Svalbarðsstrandarhreppi, Marinó Þorsteinsson Dalvíkurbyggð og Ólína Arnkelsdóttir Þingeyjarsveit. Varamenn í sömu röð eru: Hermann Jón Tómasson Akureyri, Jón Helgi Björnsson Norðurþingi, Guðný Sverrisdóttir Grýtubakkahreppi, Guðmundur Sigvaldason Hörgársveit og Siggeir Stefánsson Langanesbyggð.

Stjórnin hefur á starfsárinu haldið 9 bókaða stjórnarfundi og tekið til umræðu og afgreiðslu um 160 mál.  Reynt hefur verið að halda fundi stjórnar til skiptis hjá stjórnarmönnum. Hér fer á eftir samantekt um helstu atriði í starfsemi Eyþings á liðnu starfsári, en að öðru leyti er vísað til fundargerða stjórnar og nefnda Eyþings.

 

Nefndir, ráð og starfshópar

Samráðsnefnd Eyþings og SSA. Af hálfu stjórnar Eyþings sitja í nefndinni formaður, varaformaður og framkvæmdastjóri. Samráðsnefndin var ekki kölluð saman á starfsárinu.

Heilbrigðismálanefnd Eyþings. Í nefndinni sitja Þorvaldur Ingvarsson framkvæmdastjóri lækninga á FSA, Jón Helgi Björnsson framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, Margrét Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri og Pétur Þór Jónasson framkvæmdastjóri Eyþings. Nefndin var ekki kölluð saman á starfsárinu. Áformað er að hún komi saman í tengslum við vinnu að sóknaráætlun landshlutans og þá er tilefnið ærið í kjölfar þeirra niðurskurðaráforma sem kynnt voru með fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Nefnd um endurskoðun fjallskilasamþykkta. Eftirtaldir voru kosnir í nefndina á síðasta aðalfundi: Ólafur G. Vagnsson ráðunautur, Guðmundur Skúlason Hörgársveit, Ásta Fönn Flosadóttir Grýtubakkahreppi, Sigurður Þór Guðmundsson Svalbarðshreppi og Sólveig Erla Hinriksdóttir Mývatnssveit. Sigurður Þór og Sólveig Erla fóru úr nefndinni eftir fyrsta fund hennar vegna ákvörðunar Þingeyinga um að vinna að endurskoðun á vettvangi héraðsnefndar Þingeyinga.

 

Aðgerðaáætlun Eyþings/Ályktanir aðalfundar

Ályktanir síðasta aðalfundar voru sendar þeim aðilum sem þær varða og eftir atvikum fylgt frekar eftir t.d. við þingmenn kjördæmisins. Hér verður gerð grein fyrir helstu verkefnum frá síðasta aðalfundi.


1. Sóknaráætlun fyrir Ísland.

Stærsta einstaka verkefni Eyþings á liðnu starfsári er vinna að sóknaráætlun fyrir landshlutann í samræmi við samþykkt síðasta aðalfundar. Samkvæmt þingsályktun um gerð sóknaráætlunar er henni ætlað að efla atvinulíf og samfélag um allt land. Framkvæmdastjóri situr í verkefnisstjórn um sóknaráætlanir landshluta sem er hluti 20/20 Sóknaráætlunar en framkvæmdastjórar landshlutasamtakanna eiga þar sæti ásamt fulltrúum ráðuneyta. Einnig má geta þess að Sigrún Björk Jakobsdóttir formaður Eyþings á sæti í stýrihópi 20/20 Sóknaráætlunar. Talverð umræða hefur farið fram um samþættingu hinna ýmsu áætlana ríkisins, endurskipulagningu opinberrar þjónustu og þjónustusvæði.

Vinnufundur eða svokallaður „þjóðfundur“ var haldinn í Verkmenntaskólanum á Akureyri  þann 27. febrúar. Tilgangur fundarins var að draga fram sóknarfæri eða tækifæri landshlutans með þátttöku úr hinum ýmsu hópum samfélagsins á svæðinu. Þátttakendur á fundinum voru um 120 talsins að meðtöldu starfsliði en unnið var á 12 borðum. Í framhaldi tók við úrvinnsla hinna fjölmörgu hugmynda frá fundinum. Settur var á fót sérstakur sex manna vinnuhópur til þeirrar úrvinnslu og var að leitað eftir þátttöku framkvæmdastjóra atvinnuþróunarfélaganna og verkefnastjóra Nýsköpunarmiðstöðvar á Akureyri og Húsavík. Að auki sitja í hópnum formaður og framkvæmdastjóri Eyþings sem leiðir vinnuna. Megin niðurstöður voru síðan kynntar þann 7. apríl í Háskólanum á Akureyri, ásamt niðurstöðum annarra landshluta. Vinnu að sóknaráætlun landshlutans er ekki þar með lokið og mun frekari vinna halda áfram.

Umsýslu þessa stóra verkefnis 20/20 Sóknaráætlunar fyrir Ísland hefur nú verið komið í fastari farveg í stjórnsýslunni en áður var og er vistuð innan forsætisráðuneytis. Vinna er nú að fara í gang á ný eftir endurskipulagningu.  Ákveðið var að kynna þetta verkefni sérstaklega hér á aðalfundinum. Annars vegar að kynna framvindu verkefnisins í heild og stöðu þess í stjórnsýslunni og hins vegar að kynna vinnu að sóknaráætlun landshlutans. Ekki síst var talið mikilvægt að gefa nýjum fulltrúum tækifæri á að setja sig inn í verkefnið.


2. Byggðaáætlun.

Stjórn Eyþings gaf umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi  byggðaáætlun 2010 – 2013 (213. fundur). Að mati stjórnarinnar er hér um að ræða mjög miðstýrða áætlun sem felur fyrst og fremst í sér stefnu og áherslur iðnaðarráðuneytisins í atvinnumálum á Íslandi. Fram kom í skýringum með áætluninni að henni er ætlað að verða hluti af þeirri heildstæðu sóknaráætlun fyrir alla landshluta sem nú er í vinnslu. Stjórnin hafði áður komið á framfæri ýmsum athugasemdum og ábendingum við drög að byggðaáætlun.

Formaður stjórnar mætti síðar á fund iðnaðarnefndar Alþingis til að gera nánar grein fyrir sjónarmiðum stjórnarinnar.


3. Samgönguáætlun.

Stjórnin gaf umsögn um tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2009 – 2012. Stórum vegaframkvæmdum sem staðið hafa yfir í landshlutanum er nú nýlokið eða um það bil að ljúka, s.s. Héðinsfjarðargöngum og Hófaskarðsleið. Því ber að fagna. Í umsögn sinni lýsti stjórnin sérstaklega áhyggjum sínum yfir miklum niðurskurði á fé til viðhalds og þjónustu á vegakerfinu.  Einnig var bent á ýmis smærri verkefni sem æskilegt væri að ráðast í, tengsl Dettifossvegar við niðurstöður sóknaráætlunar, aðkallandi framkvæmdir við brýr og framkvæmdir á Akureyrarflugvelli.

Framkvæmdastjóri gerði nánar grein fyrir sjónarmiðum stjórnarinnar á fundi  með samgöngunefnd í maí sl.

Stjórnin kom á framfæri athugasemdum við aðalskipulagstillögur Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar varðandi Húnavallaleið og vakti athygli á ályktun aðalfundar Eyþings 2009 um mikilvægar vegstyttingar. Skorað var á sveitarfélögin að gera ráð fyrir Húnavallaleið á aðalskipulagi. Áður hafði stjórnin einnig tekið undir sjónarmið Vegagerðarinnar um að ný veglína með styttingu á Hringveginum í Skagafirði yrði sett á aðalskipulag.


4. Vaðlaheiðargöng.

Framkvæmdastjóri Eyþings hefur verið formaður stjórnar Greiðrar leiðar ehf. – félags um Vaðlaheiðargöng – frá stofnun félagsins 2003. Hluthafar eru nú 22 talsins, þar á meðal Eyþing og öll sveitarfélög innan þess. Þann 29. desember sl. náðist sá áfangi að skrifað var undir samning um kaup Vegagerðarinnar á rannsóknargögnum og skýrslum Greiðrar leiðar ehf. Greiðsla nam 117.639.320 kr., þ.m.t. virðisaukaskattur að fjárhæð 23.149.906 kr. sem Greið leið skilaði í ríkissjóð. Í framhaldi var gert ráð fyrir að hlutafé yrði fært niður og greitt yrði út til eigenda félagsins.

Mál tóku nýja stefnu í kjölfar samþykktar Alþingis á lögum nr. 97/2010 sem heimilar Vegagerðinni að taka þátt í stofnun hlutafélags um gerð Vaðlaheiðarganga. Í kjölfarið hófust viðræður við hluthafa Greiðrar leiðar um aukningu hlutafjár í félaginu samhliða viðræðum samgönguyfirvalda við lífeyrissjóðina um fjármögnun verkefnisins. Þessi áform miða að því að Greið leið stofni umrætt framkvæmdafélag með Vegagerðinni. Þess er vænst að niðurstöður fáist í viðræður við lífeyrissjóðina á næstu vikum. Það er vissulega umhugsunarefni að sveitarfélög hér á svæðinu skuli þurfa að sanna mikilvægi samgönguverkefnis eins og Vaðlaheiðarganga með því að leggja fé til verkefnisins meðan slíkt þarf ekki varðandi áformaðar framkvæmdir út frá höfuðborgarsvæðinu.


5. Almenningssamgöngur.

Nefnd sem samgönguráðherra skipaði með þátttöku Eyþings til að gera tillögur um hvernig almenningssamgöngum verði best háttað á svæðinu skilaði af sér rétt fyrir aðalfund í fyrra. Stjórn Eyþings tilnefndi þrjá fulltrúa í nefndina en þeir eru Hermann Einarsson Fjallabyggð, Reinhard Reynisson Norðurþingi og Ólafur Jakobsson Akureyri sem var jafnframt formaður nefndarinnar. Nefndin hafði m.a. hliðsjón af skýrslu sem RHA vann fyrir Eyþing 2008. Fulltrúar nefndarinnar gerðu síðan stjórn Eyþings grein fyrir tillögum sínum (210. fundur). Nefndin gerði m.a. tillögu um að sveitarfélögin sem standa að Eyþingi stofni sérstakt samgöngufélag  sem byggi upp samhæfðar almenningssamgöngur á svæðinu og að gerður verði þróunarsamningur við samgönguráðuneytið. Samgönguráðuneytið hefur síðan nýtt sér vinnu nefndarinnar en í ráðuneytinu hefur verið unnið að mótun stefnu ráðuneytisins í almenningssamgöngum, ásamt því sem unnið er að mótun tillögu fyrir landið allt. Formaður og framkvæmdastjóri mættu á fund í ráðuneytinu í ágúst þar sem vinna ráðuneytisins var kynnt.


6.Efling sveitarstjórnarstigsins – sameining sveitarfélaga.

Þann 29. september 2009 undirrituðu Kristján L. Möller þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Halldór Halldórsson formaður Sambands ísl. sveitarfélaga yfirlýsingu um vinnu við mótun tillagna um leiðir til frekari sameiningar sveitarfélaga. Fjögurra manna samstarfsnefnd fékk það hlutverk að ræða og meta sameiningarkosti í hverjum landshluta. Nefndin kynnti sínar hugmyndir á landsþingi Sambands ísl. sveitarfélaga á Akureyri í síðustu viku. Á landsþinginu kom einnig fram í máli Ögmundar Jónassonar nýs ráðherra sveitarstjórnarmála að hann muni ekki mæla fyrir lögþvingaðri sameiningu sveitarfélaga.

Skipuð var verkefnisstjórn um sameiningarkosti á svæði Eyþings og situr einn fulltrúi í verkefnisstjórninni frá hverju sveitarfélagi. Fyrsti fundur var haldinn 3. september sl. þar sem skipst var á skoðunum og upplýsingum um afstöðu einstakra sveitarstjórna. Almennt má segja að ekki hafi komið fram mikill vilji til frekari sameiningar á svæðinu að svo stöddu, en þrjár sameiningar voru samþykktar á svæðinu á síðasta kjörtímabili og þær einu á landinu. Fulltrúar samstarfsnefndarinnar mættu síðar á fund með verkefnisstjórninni og kynntu hugmyndir sínar. Á fundinum komu fram fleiri kostir sem í einhverjum tilvikum var lauslega getið um í greinargerð til landsþingsins. Að mati stjórnar Eyþings er eðlilegt að verkefnisstjórnin taki allar þessar hugmyndir til frekari umræðu og skoðunar.


7.Endurnýjun menningarsamnings.

Skýrsla um störf menningarráðsins er undir sérstökum dagskrárlið. Upplýsingar um rekstur ráðsins er að finna í ársreikningi Eyþings. Þá liggur fyrir fundinum tillaga að breytingum á samþykktum menningarráðsins.

Formaður og framkvæmdastjóri Eyþings ásamt framkvæmdastjóra SASS áttu fund með fulltrúum menntamálaráðuneytisins í febrúar sl. um drög að nýjum menningarsamningi fyrir árið 2010. Af hálfu landshlutasamtakanna var lögð áhersla á einföldun samninganna einkum hvað varðar útreikninga á framlögum sveitarfélaganna þannig að túlkun þeirra verði ekki með misjöfnum hætti. Formaður menningarráðs fór í byrjun júní á fund ráðuneytisfólks til að skýra þessi sjónarmið frekar. Sjónarmið Eyþings náðu ekki fram að ganga og að lokum ekki annar kostur í stöðunni en að ganga að samningnum. Samkvæmt núgildandi samningi nemur framlag ríkisins 25 mkr.

Hafin er undirbúningur að endurnýjun samninganna frá næstu áramótum og hefur tímasetning allra menningarsamninganna sjö þá verið samræmd. Formenn og framkvæmdastjórar landshlutasamtakanna samþykktu á sumarfundi sínum að fylgjast að við samningagerðina og leita eftir einföldun þeirra.

 

8. Svæðisútvarp RÚV.

Stjórnin kom á framfæri áhyggjum sínum og vonbrigðum með þær breytingar sem ákveðnar voru á rekstri svæðisstöðva Ríkisútvarpsins (211. fundur). Þær breytingar höfðu m.a. í för með sér að svæðisfréttir RÚVAK lögðust af. Jafnframt óskaði stjórnin eftir fundi á Akureyri með stjórn Ríkisútvarpsins ohf. um framtíðarskipulag svæðisfrétta  og aðra þjónustu stofnunarinnar við landshlutann. Fundurinn var haldinn þann 11. maí og til fundarins mættu stjórnarformaður og útvarpsstjóri. Á fundinum vor m.a. kynntar hugmyndir og hugleiðingar sem Þóroddur Bjarnason prófessor hafði látið stjórninni í té. Fram kom að vilji stæði til að hefja svæðisútsendingar á ný en með Norður- og Austurland undir einum hatti. Jafnframt óskuðu þau aðstoðar við að draga fram hagkvæmar lausnir. Í framhaldi var boðað til fundar til umræðu um ýmsa kosti í svæðisútsendingum. Á hann mættu fulltrúar frá RÚV á Akureyri, HA, SSNV auk Eyþings. Engar beinar tillögur komu út úr fundinum. Stjórnin ákvað síðar að setja af stað nefnd með fulltrúum frá Eyþingi, starfsstöð RÚV á Akureyri, HA, SSNV og SSA  til að freista þess að móta ákveðnar tillögur til stjórnar Ríkisútvarpsins. Enn vantar á tilnefningar og nefndin því ekki komið saman. Fulltrúi Eyþings í nefndinni er Bergur Elías Ágústsson.

 

9. Endurskoðun fjallskilasamþykkta.

Eins og fram hefur komið þrengdist verksvið nefndar um endurskoðun fjallskilasamþykkta frá upphaflegum hugmyndum og tók því eingöngu til endurskoðunar á fjallskilasamþykkt fyrir Eyjafjörð. Nefndin vann að mati stjórnar Eyþings mjög gott verk í góðu samráði við sveitafélögin við Eyjafjörð. Tillaga að nýrri fjallskilasamþykkt fyrir sveitarfélög við Eyjafjörð liggur hér fyrir fundinum til endanlegrar afgreiðslu aðalfundarfulltrúa úr Eyjafirði. Ný fjallskilasamþykkt tekur þó ekki gildi fyrr en að fenginni staðfestingu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis.

 

10. Drekasvæðið og norðurslóðaverkefni.

Eyþing stóð fyrir mjög vel heppnaðri ráðstefnu í nóvember um Drekasvæðið og tækifæri á norðurslóðum. Samstarf var haft við atvinnuþróunarfélögin og var ráðstefnan haldin á Húsavík. Í tengslum við ráðstefnuna áttu formaður og framkvæmdastjóri fund með Ragnari Baldurssyni frá utanríkisráðuneytinu og Halldóri Jóhannssyni frá Arctic Portal (upplýsingakerfi Norðurheimskautaráðsins) um vinnu á vegum ráðuneytisins að norðurslóðamálefnum og um tækifæri landshlutans. Greinargóða samantekt er að finna í skýrslu utanríkisráðuneytisins um Ísland á norðurslóðum. Áherslur á þjónustuverkefni á norðurslóðum koma m.a. fram í vinnu að sóknaráætlun landshlutans.

 

11. Evrópumálefni.

Framkvæmdastjóri sat tveggja daga ráðstefnu sem haldin var í apríl sem miðaðist einkum við starfsfólk ríkis og sveitarfélaga og stoðstofnana þeirra.

Eyþingi bauðst í janúar að finna með skömmum fyrirvara tvo úr hópi kjörinna fulltrúa í kynnisferð til Brussel á vegum ESB að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Til fararinnar völdust Fjóla V. Stefánsdóttir Grýtubakkahreppi og Jón Helgi Björnsson Norðurþingi og kynntu þau sér starfsemi Evrópusambandsins í byrjun febrúar ásamt fulltrúum annarra landshluta.

 

12. Uppbygging opinberrar þjónustu - verkefni og störf á vegum ríkisins.

Eins og áður hefur stjórnin reynt að fylgjast með verkefnum og störfum ríkisins á svæðinu, m.a. með hliðsjón af áherslu byggðaáætlunar á aukna hlutdeild opinberra starfa utan höfuðborgarinnar. Erfitt hefur reynst að fá starfsemi á vegum ríkisins staðsetta utan höfuðborgarinnar. Einnig gætir þeirrar tilhneigingar að flytja störf af svæðinu og er stjórninni kunnugt um slík dæmi. Tæplega hefur þó nokkurn órað fyrir þeim skilaboðum sem felast í nýframkomnu fjárlagafrumvarpi og bitna allra harðast á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Augljóslega verða þessi tíðindi sérstaklega rædd hér á fundinum. Ýmsir höfðu vissulega viðrað áhyggjur sínar yfir að niðurskurður á vegum ríkisins mundi bitna harðar á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

 

13. Sameining atvinnuþróunarfélaga.

Stjórn Eyþings hefur lagt áherslu á samstarf við atvinnuþróunarfélögin við úrvinnslu sóknaráætlunar, enda má gera ráð fyrir að ýmis verkefni hennar muni enda á borði atvinnuþróunarfélaganna til frekari vinnslu. Á aðalfundi fyrir tveimur árum var stjórn Eyþings falið að skoða möguleika á því að sameina atvinnuþróunarfélögin tvö á svæðinu. Í augum stjórnarinnar er það ekki auðvelt viðfangsefni, en telur á hinn bóginn farsælt að fá félögin saman að vinnu eins og hér var nefnd.

 

14. Símenntun – námskeiðahald.

Ákveðið hefur verið að Eyþing í samstarfi við Símenntun HA bjóði upp á námskeið í lestri og greiningu ársreikninga sveitarfélaga, sem haldin verði í beinu framhaldi af námskeiðum sem Samband ísl. sveitarfélaga mun standa fyrir nú í haust og síðar í vetur.

 

 

15.Málefni fatlaðra.

Undirbúningur að yfirtöku sveitarfélaganna á málefnum fatlaðra f.o.m. næstu áramótum hefur ekki verið á borði Eyþings, enda hafa sveitarfélögin um árabil annast málaflokkinn samkvæmt samningum annars vegar fyrir Eyjafjörð og hins vegar fyrir Þingeyjarsýslur. Stjórnin hefur hins vegar fylgst með framvindunni, m.a. á grundvelli kröfunnar um 8000 íbúa lágmarksþjónustusvæði. Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð hafa óskað eftir þjónustusamningi við SSNV. Sú hugmynd hefur verið viðruð í stjórn Eyþings að heppilegt væri að skilgreina svæði Eyþings að öðru leyti sem eitt þjónustusvæði með um 25 þúsund íbúum, þó með tveimur undirsvæðum líkt og verið hefur, þ.e. Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Komið yrði á fót samstarfsráði til að tryggja faglegt samstarf á þjónustusvæðinu.

 

Ýmsir fundir og verkefni

Framkvæmdastjóri hefur sótt ýmsa fundi fyrir samtökin auk þeirra sem getið er um í tengslum við einstök mál hér í skýrslunni. Nefna má fjármálaráðstefnu, ársfund Jöfnunarsjóðs, ársfund Byggðastofnunar sem haldinn var í Varmahlíð, málþing í HA um samgöngumál, ráðstefnu um atvinnumál sem haldin var á Akureyri og Fræðaþing landbúnaðarins. Þá má nefna fund með forsvarsmönnum RHA um möguleg rannsóknarverkefni, s.s. um áhrif Vaðlaheiðarganga og stjórnsýslu stórra sveitarfélaga.

Eins og greint var frá í skýrslu stjórnar í fyrra var óskað eftir endurskoðun á samningi um þjónustu kennslugagnadeildar Háskólans á Akureyri við grunn- og leikskóla á svæðinu. Óskað var eftir að framlög sveitarfélaganna yrðu lækkuð í 1 milljón kr. eða um u.þ.b. helming. Orðið var við þeirri ósk í ljósi breyttrar notkunar og þrengri fjárhags sveitarfélaganna. Skýrsla kennslugagnadeildar var sent til allra sveitarfélaganna, auk grunn- og leikskóla á svæðinu.

 

Samstarf við þingmenn

Stjórn og framkvæmdastjóri hafa að venju átt margháttað samstarf við þingmenn Norðausturkjördæmis. Að þessu sinni féll þó niður árlegur janúarfundur stjórnar Eyþings með þingmönnum. Eyþing sá um að skipuleggja viðtalstíma þingmanna fyrir sveitarstjórnarmenn í lok október. Formaður og framkvæmdastjóri hittu þá þingmenn og fylgdu eftir áherslum síðasta aðalfundar.

 

Aðsend þingmál

Á dagskrá stjórnar komu 44 þingmál til umsagnar. Stjórnin tók eftir efni og ástæðum afstöðu til þeirra og kom á framfæri ábendingum. Sem dæmi um mál sem stjórn Eyþings fjallaði ítarlega um má nefna frumvarp til laga um kosningar til sveitarstjórna (persónukjör), frumvarp til laga um friðlýsingu Skjálfandafljóts, frumvarp til laga um dómstóla (sameining héraðsdómstóla), frumvarp til laga um tekjuskatt o.fl. (landið eitt skattumdæmi), frumvarpa til skipulags- og mannvirkjalaga, frumvarp til lögreglulaga, frumvarp til laga um sameiningu þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands, frumvarp um almenningssamgöngur, frumvarp til lögreglulaga (fækkun lögregluumdæma) og loks frumvarp til laga um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og háhitasvæða. Einnig komu til umfjöllunar ýmsar veigamiklar þingsályktunartillögur s.s. um náttúruverndaráætlun 2009 – 2013, um sóknaráætlun og um olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi. Þá ber sérstaklega að nefna tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2009 – 2012 og tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun 2010 – 2013 en um þessar áætlanir hefur áður verið getið.

 

Samstarf við ráðuneyti sveitarstjórnarmála, Samband ísl. sveitarfélaga  og við önnur landshlutasamtök

Eftir að málefni sveitarfélaga fluttust úr félagsmálaráðuneyti í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, og fengu hærri sess í stjórnsýslu ríkisins, hafa samskipti við ráðuneytið aukist verulega. Bæði er um að ræða sameiginlega fundi með öðrum landshlutasamtökum og bein samskipti varðandi ýmis verkefni. Í ágúst var haldinn fundur með framkvæmdastjórum landshlutasamtakanna um verkefni samtakanna og aukið samstarf þeirra og ráðuneytisins. Fram kom að ráðuneytið leggur til grundvallar skýrslu starfshóps samgönguráðherra um endurskoðun á starfsemi landshlutasamtaka sveitarfélaga frá júlí 2009.

Að venju hafa einnig verið margháttuð samskipti við Samband ísl. sveitarfélaga. Formenn og framkvæmdastjórar landshlutasamtaka sitja landsþing, auk þess sem árlega er haldinn a.m.k. einn samráðsfundur formanna og framkvæmdastjóra með stjórn sambandsins.

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) hafa leitt samstarf formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna undanfarna mánuði. Haldnir hafa verið nokkrir samráðsfundir, bæði óformlegir og formlegir, auk þess sem árlegur sumarfundur var haldinn í Borgarbyggð 3. og 4. júní sl. Meðal mála sem hafa verið til umræðu má nefna 20/20 Sóknaráætlun, eflingu sveitarstjórnarstigsins, menningarsamninga ríkis og sveitarfélaga, hlutverk landshlutasamtakanna, Evrópumálefni sveitarfélaga og námskeið fyrir sveitarstjórnarfulltrúa.

Sérstakt samstarf hefur jafnan verið við SSA umfram önnur landshlutasamtök, enda þessi samtök innan sama kjördæmis. Engir samráðsfundir voru þó haldnir á starfsárinu. Á samráðsfundi Eyþings og SSA í ársbyrjun 2009 var skipuð verkefnisstjórn til að skoða mögulegt samstarf í úrgangsstjórnun og samnýtingu lausna bæði innan og milli landshlutanna. Austfirðingar ákváðu síðar að draga sig út úr samstarfinu í ljósi niðurstöðu hagkvæmniathugunar sem unnin var. Stjórnin fékk á fundi sínum í mars sl. greinargóðar upplýsingar um stöðu úrgangsmála í landshlutanum. Formaður og framkvæmdastjóri sóttu aðalfund SSA sem haldinn var 24. og 25. september sl.

Í byrjun nóvember hittust stjórnir Eyþings og SSNV á fundi Varmahlíð. Meginefni fundarins var að ræða hagsmuni landshlutanna í vegamálum og skoðanaskipti um hugmyndir að styttingum og breyttri legu Hringvegarins í Húnavatnssýslu og í Skagafirði í samræmi við ályktun síðasta aðalfundar.

 

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra

Gerð verður grein fyrir störfum heilbrigðisnefndar og starfsemi eftirlitsins hér á fundinum eins og kveðið er á um í samstarfssamningi sveitarfélaganna. Um það varð samkomulag að Heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra sinnti eftirliti á Siglufirði til  ársloka 2010, m.ö.o. fram yfir opnun Héðinsfjarðarganga.

 

Aðalfundur Eyþings 2010

Rétt til setu á aðalfundi Eyþings eiga nú 36 fulltrúar úr 13 sveitarfélögum með alls 28.909 íbúa m.v. 1. desember 2009. Fulltrúum hefur fækkað um einn frá síðasta aðalfundi í kjölfar sameiningar Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar. Sveitarfélögin eru nú sjö í Eyjafirði og sex austan Vaðlaheiðar. Athygli vekur mikill fjöldi nýrra aðalfundarfulltrúa enda varð mikil endurnýjun í hópi sveitarstjórnarmanna hér á svæðinu í kosningunum í maí sl. Nýir fulltrúar á aðalfundi eru 25 talsins, eða 69%. fulltrúa. Í hópi aðalfulltrúa eru einungis 12 konur, eða þriðjungur.

Á aðalfundinum í ár er áherslan á að upplýsa um framkvæmd aðildarviðræðna Íslands og ESB og þær áherslur sem þar eru. Einnig að kynna hvað felst í 20/20 Sóknaráætlun fyrir Ísland og þá umgjörð sem komin er um verkefnið ásamt því gera grein fyrir vinnu að sóknaráætlun fyrir landshlutann. Þá verður hér fjallað um mál sem sérstaklega brennur á sveitarstjórnarmönnum þessa dagana, en það eru áhrif þeirra breytinga á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem boðaðar hafa verið.

Mikilvæg og gagnleg umræða hefur jafnan farið  fram í nefndum aðalfundarins og er þess vænst að svo verði einnig nú. Ekki síst er sú umræða mikilvæg fyrir nýja fulltrúa. Í nefndunum eru lagðar línur um samstarf og helstu hagsmunamál svæðisins um leið og ný stjórn fær vegarnesti fyrir næsta starfsár.

Stjórn og framkvæmdastjóri Eyþings þakka sveitarstjórnarmönnum og starfsmönnum sveitarfélaga á starfssvæði sínu gott samstarf á liðnu starfsári og væntir góðs samstarfs við nýja sveitarstjórnarmenn.

 

Akureyri  8. október 2010

Stjórn og framkvæmdastjóri Eyþings.

Getum við bætt síðuna?