Fundargerð - Skýrsla stjórnar 2011
08.10.2011
AÐALFUNDUR EYÞINGS 7. og 8. október 2011
Skýrsla stjórnar starfsárið 2010 - 2011.
Aðalfundur Eyþings var haldinn í Bátahúsinu Siglufirði dagana 8. og 9. október 2010. Á fundinum var kosin ný stjórn sambandsins og í henni sitja: Bergur Elías Ágústsson formaður Norðurþingi, Dagbjört Bjarnadóttir Skútustaðahreppi, Geir Kristinn Aðalsteinsson varaformaður Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir Hörgársveit og Sigurður Valur Ásbjarnarson Fjallabyggð. Varamenn í sömu röð eru: Jón Helgi Björnsson Norðurþingi, Siggeir Stefánsson Langanesbyggð, Halla Björk Reynisdóttir Akureyrarbæ, Guðný Sverrisdóttir Grýtubakkahreppi og Jón Hrói Finnsson Svalbarðsstrandarhreppi.
Stjórnin hefur á starfsárinu haldið 8 bókaða stjórnarfundi og tekið til umræðu og afgreiðslu milli 160 og 170 mál. Starfsemi Eyþings hefur tekið miklum breytingum undanfarin misseri og er orðin miklu umfangsmeiri en áður var. Hér fer á eftir samantekt um helstu atriði í starfsemi Eyþings á liðnu starfsári, en að öðru leyti er vísað til fundargerða stjórnar Eyþings.
Stjórnin hefur á starfsárinu haldið 8 bókaða stjórnarfundi og tekið til umræðu og afgreiðslu milli 160 og 170 mál. Starfsemi Eyþings hefur tekið miklum breytingum undanfarin misseri og er orðin miklu umfangsmeiri en áður var. Hér fer á eftir samantekt um helstu atriði í starfsemi Eyþings á liðnu starfsári, en að öðru leyti er vísað til fundargerða stjórnar Eyþings.
Nefndir, ráð og starfshópar
Samráðsnefnd Eyþings og SSA. Af hálfu stjórnar Eyþings sitja í nefndinni formaður, varaformaður og framkvæmdastjóri. Ekki hefur verið um að ræða formlega fundi en formenn og framkvæmdastjórnar hafa hist á óformlegum fundum vegna samstarfsverkefna.
Nefnd um endurskoðun fjallskilasamþykktar fyrir sveitarfélög við Eyjafjörð. Í nefndinni sátu Ólafur G. Vagnsson ráðunautur sem var formaður, Guðmundur Skúlason Hörgársveit og Ásta Fönn Flosadóttir Grýtubakkahreppi. Nefndin lauk störfum í janúar og ný fjallskilasamþykkt staðfest af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í kjölfarið.
Vinnumarkaðsráð Norðurlands eystra. Í ráðinu situr Marinó Þorsteinsson varabæjarfulltrúi Dalvíkurbyggð og sem varamaður Halla Björk Reynisdóttir bæjarfulltrúi á Akureyri (220. fundur stjórnar).
Aðgerðaáætlun Eyþings/Ályktanir aðalfundar
Ályktanir síðasta aðalfundar voru sendar þeim aðilum sem þær varða og eftir atvikum fylgt frekar eftir t.d. við þingmenn kjördæmisins. Hér verður gerð grein fyrir helstu verkefnum sem unnið hefur verið að frá síðasta aðalfundi.
-
Ísland 2020 – sóknaráætlanir landshluta.
Stærsta einstaka verkefni Eyþings á liðnu starfsári var vinna að sóknaráætlun og þátttaka í samráðsferli um sóknaráætlanir landshluta og breytt verklag í stjórnsýslu hins opinbera. Þessi vinna er í samræmi við samþykkt aðalfundar í fyrra. Ríkisstjórnin samþykkti í ársbyrjun framtíðarsýnina og stefnumörkunina Ísland 2020 sem byggir á niðurstöðum úr vinnu innan 20/20 Sóknaráætlunar, þar með talið frá „þjóðfundunum´“ úti í landshlutunum. 20/20 Sóknaráætlun lauk með skýrslu í nóvember 2010. Þá samþykkti ríkisstjórnin 31. maí sl. skipulag, tímaáætlun og vinnulag þriggja aðgerða í tengslum við Ísland 2020. Um er að ræða sóknaráætlanir landshluta, fjárfestingaáætlun og samþættingu opinberra stefna og áætlana.
Kynningarfundur um Ísland 2020 og áform um sóknaráætlanir landshluta var haldinn á Akureyri í byrjun maí. Á fundinnmættu fulltrúar ráðuneyta og Sambands ísl. sveitarfélaga og kynntu verkefnið fyrir fulltrúum sveitarstjórna og stoðstofnana þeirra. Formenn og framkvæmdastjórar landshlutasamtakanna hafa tekið þátt í reglubundnum samráðsfundum um Ísland 2020 og sóknaráætlanir landshluta. Þessir fundir hafa verið leiddir af innanríkisráðuneytinu, framan af með þátttöku forsætisráðuneytis og Sambands ísl. sveitarfélaga en síðar með þátttöku annarra ráðuneyta og Byggðastofnunar. Rætt hefur verið um þessa vinnu sem lærdómsferli, því hér er um að ræða nýja hugsun og nýtt verklag sem þróa þarf áfram. Það er mat þeirra sem tekið hafa þátt í þessari vinnu að í nýju verklagi og sóknaráætlunum landshluta felist tækifæri sem mikilvægt sé að tileinka sér. Í verkefninu felst að aukið frumkvæði og aukin áhrif færast út í landshlutana. Eftir því hefur verið kallað en því fylgir um leið sú krafa að heimamenn ræði sín á milli og komi sér saman um áherslur og forgangsröðun til hagsbóta fyrir landshlutann í heild. Til þess er mikilvægt að þróa ákveðið samráð og verklag. Stjórn Eyþings hefur samþykkt ákveðið skipurit fyrir verkefnið í heild sem byggir á að unnið verði í verkefnahópum sem síðan verði dregnir saman. Get er ráð fyrir að það verði nánar kynnt hér í nefndarstarfi síðar á fundinum.
Í áætluninni Ísland 2020 ber fjármálaráðuneytið ábyrgð á gerð fjárfestingaráætlunar fyrir Ísland. Landshlutasamtökin fengu það verkefni að gera hvert um sig tillögu um 5 – 7 verkefni sem komi til skoðunar við gerð fjárlaga 2012 og samræmast áherslum Íslands 2020. Litið er á þetta sem tilraunaverkefni og að framvegis verði undirbúningsferlið skýrara. Stjórnin varð sammála um eftirfarandi áhersluverkefni sem byggja á niðurstöðum „þjóðfundar“ landshlutans 2010 og ályktunum síðasta aðalfundar:
-
Uppbygging innviða vegna orkufreks iðnaðar.
-
Uppbyggingu við Sjúkrahúsið á Akureyri.
-
Norðurslóðamiðstöð Íslands.
-
Flughlað á Akureyrarflugvelli.
-
Dettifossveg.
-
Fjarskipti og gagnaflutninga.
-
Íþróttabæinn Akureyri, en það verkefni var einungis sent inn til lauslegrar kynningar þar sem ýmiss konar forvinna liggur ekki fyrir.
Upplýsingar á sérstökum eyðublöðum fylgdu hverju verkefni og var leitað aðstoðar atvinnuþróunarfélaganna, Markaðsskrifstofu ferðamála og þeirra stofnana sem verkefnin varða við frágang þeirra. Tillögunum var skilað í síðasta mánuði.
Gert er ráð fyrir að umræða um forgangsverkefni landshlutans fari fram í nefndum aðalfundarins.
Rétt er að geta þess hér að sl. sumar kynnti formaður fjárlaganefndar fyrir fulltrúum landshlutasamtakanna áform um breytingar á úthlutun ríkisstyrkja á safnliðum fjárlaga og að nefndin mundi ekki úthluta styrkjum til einstakra verkefna frá og með fjárlögum 2012. Áformað væri að færa úthlutunarvaldið að hluta út í landshlutana. Þannig mundi hluti þeirra fjárveitinga sem veitt hefur verið af safnliðum færast inn í menningarsamninga landshlutanna, auk sjóða sem starfa á landsvísu s.s. Safnasjóð, Tónlistarsjóð og Húsafriðunarsjóð. Stjórn Eyþings hefur ekki frekari vitneskju um þessi áform og leggur áherslu á að breyting sem þessi verði vel undirbúin.
Vegna stóraukinna verkefna og álags er rétt að fram komi að stjórn Eyþings hefur tekið undir tillögur nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins um að reglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði breytt þannig að landshlutasamtök sveitarfélaga geti fengið greiddan kostnað vegna verkefna sem þau taka að sér með samningum við ríkið.
-
Byggðaáætlun.
Alþingi samþykkti þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010 – 2013 þann 15. apríl 2011. Eins og þar segir þá byggist áætlunin á aðgerðum í nýsköpun og atvinnuþróun í samræmi við aðra stefnumótun við gerð Sóknaráætlunar 2020.
-
Samgönguáætlun.
Að undaförnu hefur staðið yfir vinna við gerð samgönguáætlunar 2011 – 2022 og tilheyrandi fjögurra ára framkvæmdaáætlunar fyrir árin 2011 – 2014. Sú vinna er nátengd sóknaráætlunum landshluta eins og skýrt kemur fram í drögum að stefnumótun samgönguráðs. Í samræmi við það óskaði samgönguráð eftir því að landshlutasamtökin skiluðu inn tillögum um 3 – 5 megináherslur í samgöngumálum sem telja má mikilvæg fyrir framþróun og hagsmuni landshlutans í heild.
Stjórn Eyþings ákvað að leita eftir sjónarmiðum sveitarfélaganna þrettán á starfssvæðinu. Ábendingar þeirra um áherslur voru síðan ræddar á fundi stjórnar (224. fundur), þar sem einnig voru mættir fulltrúar Vegagerðarinnar, og í framhaldi boðað til fundar með fulltrúum sveitarfélaganna þann 15. september sl. til að tryggja samráðið og leitast við að ná sameiginlegri niðurstöðu. Talsverð umræða varð um umboð stjórnar Eyþings til að skila inn tillögum að forgangsverkefnum fyrir hönd allra sveitarfélaga á svæðinu. Jafnframt kom almennt fram sú skoðun að mikilvægt væri að sveitarfélögin stæðu undir þeirri kröfu að ná sameinginlegri niðurstöðu um meginverkefni í þágu landshlutans. Málið er því til áframhaldandi umræðu hér á fundinum og um það fjallað í einni af nefndum hans.
Í framhaldi af fyrrnefndum fundi með fulltrúum sveitarfélaganna varð niðurstaða stjórnar Eyþings að leggja áherslu á eftirfarandi verkefni sem telja má mikilvæg fyrir framþróun og hagsmuni landshlutans í heild:
1.-2. Iðnaðarvegur milli Húsavíkurhafnar og iðnaðarsvæðis að Bakka.
1.-2. Flughlað á Akureyrarflugvelli.
3-.5. Dettifossvegur frá Dettifossi í Ásbyrgi.
3.-5. Snjóflóðavarnir (og endurbætur) milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar.
3.-5. Ný brú á Jökulsá á Fjöllum (Hringvegur).
Þá var í bréfi með tillögunum getið um þau tvö verkefni önnur sem einkum komu til álita á forgangslistann, annars vegar ný brú á Skjálfandafljót á vegi 85 og hins vegar nýr eða endurbyggður vegur um Brekknaheiði. Þá varð það niðurstaðan að horfa til vinnu Siglingamálastofnunar varðandi forgangsröðun hafnarframkvæmda.
-
Vaðlaheiðargöng.
Því ber sérstaklega að fagna að eftir áralangt undirbúningsstarf þá eru Vaðlaheiðargöng loks komin á framkvæmdastig, en tilboð í sjálfa gangagerðina verða opnuð 11. október í næstu viku. Framkvæmdastjóri Eyþings hefur verið formaður stjórnar Greiðrar leiðar ehf. – félags um Vaðlaheiðargöng – frá stofnun félagsins 2003. Hluthafar eru nú 22 talsins, þar á meðal Eyþing og öll sveitarfélög innan þess. Þann 29. desember sl. náðist sá áfangi að skrifað var undir samning um kaup. Nýtt félag, Vaðlaheiðargöng hf., var stofnað 9. mars sl. og er það 49% í eigu Greiðrar leiðar og 51% í eigu Vegagerðarinnar. Félagið er stofnað í samræmi við lög nr. 97/2010 um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir. Framkvæmdastjóri Eyþings situr í stjórn félagsins fyrir hönd Greiðrar leiðar og er jafnframt skráður framkvæmdastjóri þess tímabundið.
-
Almenningssamgöngur.
Í drögum að stefnumótun samgönguráðs vegna samgönguáætlunar 2011 – 2022 er áhersla lögð á eflingu almenningssamgangna. Sú áhersla er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en í honum kemur fram að almenningssamgöngur verði stórefldar og verði sjálfsagður hluti samgönguáætlunar.
Leitað hefur verið eftir að landshlutasamtökin taki yfir almenningssamgöngur hvert á sínu svæði með samningum. Ein landshlutasamtök, SASS, hafa þegar tekið verkefnið yfir frá Vegagerðinni. Önnur samtök eru með verkefnið í vinnslu og mislangt komið. Eins og verkefnið er lagt upp er þó óhjákvæmilegt að fleiri en ein samtök vinni saman að ákveðnum leiðum s.s. á Hringveginum.
Formaður, varaformaður og framkvæmdastjóri hafa tekið þátt í fundum um verkefnið. Þá hefur stjórn Eyþings fjallað um það en beðið átekta og haft efasemdir um það vegna takmarkaðra fjárframlaga ríkisins og fleiri þátta. Á síðasta fundi (224. fundur) samþykkti stjórnin að leggja til að ríkið annist og beri ábyrgð á meginleiðinni um þjóðveg 1 umhverfis landið. Landshlutarnir annist síðan skipulagningu almenningssamgangna út frá meginleiðinni hvert á sínu svæði.
Stjórn Eyþings skipaði þriggja manna nefnd til að fjalla sérstaklega um og gera tillögur um almenningssamgöngur á svæðinu og í henni eiga sæti Sigurður Valur Ásbjarnarson Fjallabyggð formaður, Ólafur Jakobsson Akureyri og Hjálmar Bogi Hafliðason Húsavík. Nefndin hefur ný hafið störf og má vænta þess að framhald starfs hennar velti á þeim skilaboðum sem aðalfundurinn gefur henni. Rétt er að minna á að fyrir liggja skýrslur varðandi almenningssamgöngur á svæðinu sem nýtast í frekari vinnu.
-
Efling sveitarstjórnarstigsins.
Í byrjun maí var haldinn fundur í vinnuhópi um eflingu sveitarstjórnarstigsins, en í honum situr einn fulltrúi frá hverju sveitarfélagi á svæðinu. Á fundinum var ákveðið að undirbúa ráðstefnu um samstarf sveitarfélaga og eflingu sveitarstjórnarstigsins í samræmi við ákvörðun síðasta aðalfundar. Sökum anna reyndist ekki fært að koma ráðstefnunni á í september eins og til stóð. Drög að dagskrá liggja.
Geta má þess að nefnd um eflingu sveitarstjórnarstigsins hefur tekið saman gátlista og umræðuskjal þar sem kynntar eru mjög athyglisverðar hugmyndir.
-
Nýr menningarsamningur.
Formaður Eyþings undirritaði nýjan menningarsamning þann 15. apríl sl. Samningurinn gildir fyrir árin 2011 – 2013. Framlag til samningsins er áætlað 37,2 m.kr. á ári og þar af leggur mennta- og menningarmálaráðuneytið til 20,9 m.kr., iðnaðarráðuneytið 5,7 m.kr. og sveitarfélögin leggja til 10,6 m.kr. Að venju eru framangreind framlög ráðuneyta til samningsins með fyrirvara um fjárveitingar í fjárlögum hvers árs. Áfram er því hægt að halda því faglega starfi sem byggt hefur verið upp á grundvelli samningsins. Greint er frá störfum Menningarráðsins undir sérstökum dagskrárlið á fundinum
-
Svæðisútvarp RÚV.
Framhald varð á þeirri umræðu sem varð um á rekstur svæðisstöðva Ríkisútvarpsins á síðasta ári. Nefnd með fulltrúum frá Eyþingi, SSA, SSNV og HA hittist síðast liðinn vetur. Fulltrúi Eyþings í nefndinni er Bergur Elías Ágústsson. Beðið var tilnefningar fulltrúa frá starfsstöð RÚV á Akureyri en niðurstaðan varð að hann var ekki skipaður. Nefndin ákvað að móta ákveðnar tillögur, m.a. um breytingar á lögum um Ríkisútvarpið. Nefndarmenn skiptu með sér verkum við öflum gagna og skrif á greinargerð en frágangi er enn ólokið.
-
Evrópumálefni.
Formaður og framkvæmdastjóri tóku þátt í tveggja daga námsstefnu á vegum ESB (TAIEX) um stjórnsýslu evrópskra byggðamála. Þá sátu tveir stjórnarmenn fund sem haldinn var á Akureyri um hliðstæð mál í ágúst sl. Formaður Eyþings er varafulltrúi á sveitarstjórnarvettvangi EFTA en formenn landshlutasamtakanna skipta með sér sætum fjögurra aðal- og fjögurra varafulltrúa.
Á aðalfundi í fyrra var samþykkt að fela stjórn að standa fyrir kynningu á fyrir sveitarstjórnarmenn á starfssvæði Eyþings á áhrifum hugsanlegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga kom síðar fram hugmynd um fræðslufundi í landshlutunum um evrópsk byggðamál. Þessir fundir eru áformaðir nú síðar í haust eða vetur.
-
Atvinnumál - verkefni og störf á vegum ríkisins.
Lengi hefur ein af áherslum í byggðamálum verið að fá aukinn hlut í starfsemi ríkisins utan höfuðborgarinnar. Hér á landi hefur það reynst afar torsótt. Störf á vegum ríkisins á svæðinu hafa verið lögð niður og í vissum tilvikum hafa störf verið flutt suður. Eðlilega velta menn því fyrir sér hvort hlutdeild í störfum ríkisins fari lækkandi.
Í september voru birtar athyglisverðar tölur um breytingar á fjölda stöðugilda hjá stofnunum ríkisins frá 2008 til 2010. Þar má m.a. annars sjá að fækkun starfsmanna við Háskólann á Akureyri nam 17,1% meðan fækkun starfsmanna Háskóla Íslands nam 1,4%. fækkun starfsmanna við Sjúkrahúsið á Akureyri nam 9,1% meðan fækkun starfsmanna Landspítalans nam 7,7%. Þá vekur athygli að starfsmönnum umboðsmanns skuldara fjölgaði úr 9,5 stöðugildum í 43,3 og að sú þjónusta við skattborgarana skuli öll hafa verið byggð upp á höfuðborgarsvæðinu. Við verðum að vona að þingmenn Norðausturkjördæmis séu að minnsta kosti hugsi yfir þessum upplýsingum.
Fréttir bárust í lok maí af flutningi atvinnustarfsemi og fjölda starfa frá Akureyri. Ástæða er til að grennslast fyrir um ástæður þegar ekki þykir fýsilegt að reka atvinnustarfsemi í stærsta þéttbýlisstað utan Suðvesturhornsins. Sérstaklega kom á óvart þegar Já – 118 ákvað að leggja niður starfsstöð sína á Akureyri með 18,5 stöðugildum og efla þess í stað starfsstöðvar sínar í Reykjanesbæ og Reykjavík í hagræðingarskyni. Já er fyrirtæki sem tók við starfsemi ríkisins og þjónustar íbúa alls landsins. Athygli vekur að þetta er sú tegund starfsemi sem haldið hefur verið á lofti að geti verið nánast hvar sem er. Þrátt fyrir gríðarlegar væntingar á sínum tíma til Saga fjárfestingarbanka kom flutningur á allri starfsemi hans til Reykjavíkur ef til vill síður á óvart, enda nú svo komið að nær öll starfsemi bankans hefur verið seld. Þegar best lét störfuðu á þriðja tug manns í við bankann á Akureyri í vel launuðum sérhæfðum störfum.
-
Skatttekjur og útgjöld ríkisins.
Formaður og framkvæmdastjóri áttu fund á Egilsstöðum með fulltrúum SSA í febrúar sl. og kynntu hugmynd að samstarfverkefni. Verkefnið felst í að greina fjárlög ársins 2011 og finna út hversu miklu af skattfé ríkisins er aflað og eytt í Norðausturkjördæmi. Með öðrum orðum hverju skilar kjördæmið (Norðausturríkið) í sköttum og hvaða þjónustu er fólk að fá fyrir skattana sína? Gerður var verksamningur við RHA. Verkefnisstjóri er Jón Þorvaldur Heiðarsson hagfræðingur og með honum í verkefnisstjórn þeir Þóroddur Bjarnason prófessor og Vífill Karlsson hagfræðingur. Ýmsar áhugaverðar niðurstöður liggja þegar fyrir en talið var æskilegt að vinna verkefnið til enda áður en farið væri að kynna niðurstöður en gert er ráð fyrir skilum í nú í lok október.
-
Stoðkerfi atvinnulífsins.
Eyþing átti samstarf við framkvæmdastjóra atvinnuþróunarfélaganna tveggja og fulltrúa Nýsköpunarmiðstöðvar á Akureyri og Húsavík við lokaúrvinnslu verkefna frá þjóðfundinum innan 20/20 Sóknaráætlunar. Í vinnu að sóknaráætlun landshlutans er gert ráð fyrir verkefnahópum og að forsvarsmenn hinna ýmsu stofnana s.s. í stoðkerfinu leiði þá. Hafa verður í huga að lögð er sérstök áhersla á að horfa á hagsmuni landshlutans í heild í því starfi, auk þess sem horfa þarf til samstarfs við aðliggjandi landshluta í vissum tilvikum. Þetta kallar á aukið samstarf og/eða breytt vinnubrögð innan landshlutans frá því sem verið hefur.
Ýmsir fundir og verkefni
Framkvæmdastjóri hefur sótt ýmsa fundi og viðburði fyrir samtökin auk þeirra sem getið er um í tengslum við einstök mál hér í skýrslunni. Í mörgum tilvikum hefur formaður samtakanna einnig sótt þá fundi. Nefna má fjármálaráðstefnu, ársfund Jöfnunarsjóðs, haustfund AFE, vígslu Hófaskarðsleiðar, ársfund HA, fund um landsskipulag, ráðstefnu um ímynd Norðurlands, Landsþing Sambands ísl. sveitarfélaga í mars, ráðstefnu í Þingeyjarsveit um orkuauðlindir sveitarfélaga, fund um millilandaflug um Akureyrarflugvöll og fund um Vestnorden verkefnið um framtíðarsýn byggðarlaga en þátttakendur í því eru Borgarbyggð og Fjallabyggð, auk sveitarfélaga á Grænlandi og í Færeyjum. Þá var framkvæmdastjóri í síðustu viku viðstaddur athöfn Háskólans á Akureyri og utanríkisráðuneytisins sem tileinkuð var norðurslóðsamstarfi Íslands og Noregs.
Eyþing, ásamt stjórnlaganefnd, stóð fyrir borgarafundi í Menningarhúsinu Hofi 20. október í fyrra og sótti fundinn um 60 manns. Þá stóð Eyþing fyrir fundi með innanríkisráðherra í janúar um fjármögnun framkvæmda með veggjöldum og stóð fyrir kynningarfundi með Skipulagsstofnun og fleirum um skipulags- og mannvirkjalög í byrjun mars.
Samstarf við þingmenn
Stjórn og framkvæmdastjóri hafa að venju átt margháttað samstarf við þingmenn Norðausturkjördæmis. Eyþing sá um að skipuleggja viðtalstíma þingmanna fyrir sveitarstjórnarmenn í lok október. Stjórn og framkvæmdastjóri hittu þá þingmenn og áhersla lögð á fjögur mál, þ.e. niðurskurð fjárveitinga til heilbrigðisþjónustu, rekstur og sjálfstæði Háskólans á Akureyri, almenningssamgöngur og Vaðlaheiðargöng. Árlegur fundur stjórnar og þingmanna var síðan haldinn þann 7. febrúar. Á fundinum voru fimm málefni tekin til ítarlegrar umfjöllunar: Málefni sparisjóðanna, skatttekjur og útgjöld ríkisins á landsbyggðinni ásamt umræðu um auðlindaskatt, heilbrigðisþjónustu, Háskólann á Akureyri og loks samgöngumál og jöfnun flutningskostnaðar.
Aðsend þingmál
Á dagskrá stjórnar komu 63 þingmál til umsagnar, auk draga að reglugerðum. Stjórnin tók eftir efni og ástæðum afstöðu til þeirra og kom á framfæri ábendingum. Sem dæmi um mál sem stjórn Eyþings fjallaði ítarlega um má nefna frumvarp til laga um mannvirki, frumvarp til sveitarstjórnarlaga, frumvarp til umferðarlaga, frumvarp til laga um breytingu á lögregluumdæmum, þingsályktunartillögur um stefnumótandi byggðaáætlun 2010 – 2013, um staðbundna fjölmiðla, um uppbyggingu Náttúrugripasafns Íslands, um ferðamálaáætlun 2011 – 2020 og loks drög að reglugerð um landsskipulagsstefnu.
Samstarf við ráðuneyti sveitarstjórnarmála, Samband ísl. sveitarfélaga og við önnur landshlutasamtök
Náið samstarf hefur verið við innanríkisráðuneytið á síðasta starfsári og sama á við um Samband ísl. sveitarfélaga og landshlutasamtökin. Þau samskipti hafa sérstaklega tengst Íslandi 2020 og undirbúningi að sóknaráætlunum landshluta en reglulegir samráðsfundir þessara aðila hafa verið haldnir. Fulltrúar annarra ráðuneyta og Byggðastofnunar hafa einnig tekið þátt í þessum fundum.
Að venju hafa einnig verið margháttuð samskipti við Samband ísl. sveitarfélaga um ýmis önnur málefni s.s. um Evrópumálefni og svæðasamstarf og um námskeið fyrir sveitarstjórnarfólk sem haldin voru síðast liðinn vetur. Formenn og framkvæmdastjórar landshlutasamtaka sitja landsþing, auk þess sem árlega er haldinn a.m.k. einn samráðsfundur formanna og framkvæmdastjóra með stjórn sambandsins og sviðsstjórum þess.
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) hafa leitt samstarf formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna undanfarna mánuði. Haldnir hafa verið nokkrir samráðsfundir, bæði óformlegir og formlegir, auk þess sem árlegur sumarfundur var haldinn í Húnaþingi vestra 23. og 24. júní sl. Meðal mála sem hafa verið til umræðu má nefna samstarf sveitarfélaga í Skandinavíu, sóknaráætlanir landshluta, almenningssamgöngur og sveitarstjórnarvettvang EFTA. Þá hafa vaxandi verkefni landshlutasamtakanna og fjármögnun þeirra verið til umræðu.
Sérstakt samstarf hefur jafnan verið við SSA umfram önnur landshlutasamtök, enda þessi samtök innan sama kjördæmis. Nokkrir óformlegir fundir hafa verið haldni í tengslum við sameinginlegt verkefni samtakanna um skatttekjur og ríkisútgjöld í kjördæminu og sem áður hefur verið getið um. Formaður og framkvæmdastjóri sóttu aðalfund SSA sem haldinn var 30. september og 1. október sl.
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra
Gerð verður grein fyrir störfum heilbrigðisnefndar og starfsemi eftirlitsins hér á fundinum eins og kveðið er á um í samstarfssamningi sveitarfélaganna. Breyting varð á starfssvæði eftirlitsins f.o.m. síðustu áramótum í kjölfar ákvörðunar bæjarstjórnar Fjallabyggðar að nýta sér frekar þjónustu Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra.
Ný sveitarstjórnarlög
Þann 17. september samþykkti Alþingi ný sveitarstjórnarlög sem fela í sér viðamiklar breytingar ýmsum sviðum. Meðal annars fela lögin í sér umtalsverða breytingu varðandi landshlutasamtök sveitarfélaga, en 97. gr. laganna hljóðar svo:
„Sveitarfélögum er heimilt að starfa saman innan staðbundinna landshlutasamtaka sveitarfélaga er vinni að sameiginlegum hagsmunamálum sveitarfélaganna í hverjum landshluta.
Starfssvæði landshlutasamtaka fer eftir ákvörðun aðildarsveitarfélaga sem staðfest hefur verið af ráðuneytinu. Landshlutasamtök skulu þó aldrei vera fleiri en átta á landinu öllu. Sveitarfélög sem liggja innan starfssvæðis landshlutasamtaka eiga rétt á aðild að þeim. Ráðuneyti og opinberar stofnanir skulu ávallt leita umsagnar hlutaðeigandi landshlutasamtaka um stefnumótun eða ákvarðanir sem varða viðkomandi landsvæði sérstaklega.
Landshlutasamtök geta með samningum eða samkvæmt heimildum í sérlögum tekið að sér verkefni eða aðra starfsemi sem tengist hlutverki þeirra skv. 1. mgr., svo sem verkefni tengd byggðaþróun eða öðrum sameiginlegum hagsmunum sveitarfélaga.“
Þær breytingar sem felast í þessari og fleiri greinum verða skýrðar hér á fundinum. Ný sveitarstjórnarlög taka gildi 1. janúar nk.
Aðalfundur Eyþings 2011
Rétt til setu á aðalfundi Eyþings eiga nú 40 fulltrúar úr 13 sveitarfélögum með alls 29.006 íbúa m.v. 1. desember 2010. Fulltrúum hefur fjölgað um fjóra frá síðasta aðalfundi vegna breytinga sem gerðar voru á lögum félagsins sem þá voru samþykktar. Þá var einnig gerð sú veigamikla breyting á lögunum að auk kjörinna aðalfundarfulltrúa eiga nú aðalmenn í sveitarstjórn og framkvæmdastjórar sveitarfélaganna seturétt á aðalfundinum með málfrelsi og tillögurétti. Sveitarfélögin eru nú sjö í Eyjafirði og sex austan Vaðlaheiðar. Í hópi aðalfulltrúa eru einungis 13 konur, eða tæpur þriðjungur.
Á aðalfundinum í ár er áherslan á umfjöllun um stefnumörkunina Ísland 2020 og sóknaráætlanir landshluta innan hennar, ásamt því að fjalla um leið um breytt vinnuumhverfi og viðfangsefni landshlutasamtaka sveitarfélaga. Þá mun vinna í nefndum fyrst og fremst beinast að því að skilgreina áherslur landshlutans. Með öðrum orðum hvaða verkefni og áherslur eru mikilvægastar miðað við framtíðarsýn og framþróun landshlutans í heild.
Stjórn og framkvæmdastjóri Eyþings þakka sveitarstjórnarmönnum og starfsmönnum sveitarfélaga á starfssvæði sínu gott samstarf á liðnu starfsári og væntir áfram góðs samstarfs við þá í krefjandi verkefnum sem framundan eru.
Akureyri 7. október 2011
Stjórn og framkvæmdastjóri Eyþings.