Fundargerð - Skýrsla stjórnar 2012
AÐALFUNDUR EYÞINGS 5. og 6. október 2012
Skýrsla stjórnar starfsárið 2011 - 2012
Aðalfundur Eyþings var haldinn á Fosshóteli Húsavík dagana 7. og 8. október 2011. Í stjórn sambandsins sitja: Bergur Elías Ágústsson formaður Norðurþingi, Dagbjört Bjarnadóttir Skútustaðahreppi, Geir Kristinn Aðalsteinsson varaformaður Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir Hörgársveit og Sigurður Valur Ásbjarnarson Fjallabyggð. Varamenn í sömu röð eru: Jón Helgi Björnsson Norðurþingi, Siggeir Stefánsson Langanesbyggð, Halla Björk Reynisdóttir Akureyrarbæ, Guðný Sverrisdóttir Grýtubakkahreppi og Jón Hrói Finnsson Svalbarðsstrandarhreppi.
Stjórnin hefur á starfsárinu haldið 9 bókaða stjórnarfundi og tekið til umræðu og afgreiðslu nálægt 170 mál. Starfsemi Eyþings hefur haldið áfram að taka breytingum sem getið var um í fyrra og verkefni sambandsins orðin miklu umfangsmeiri en áður var. Hér fer á eftir samantekt um helstu atriði í starfsemi Eyþings á liðnu starfsári, en að öðru leyti er vísað til fundargerða stjórnar Eyþings.
Nefndir, ráð og starfshópar
Samráðsnefnd Eyþings og SSA. Af hálfu stjórnar Eyþings sitja í nefndinni formaður, varaformaður og framkvæmdastjóri. Ekki hefur verið um að ræða formlega fundi en formenn og framkvæmdastjórnar hafa hist á óformlegum fundum vegna verkefnisins um starfsemi ríkisins í Norðausturkjördæmi.
- Skólanefnd Framhaldsskólans á Laugum. Af Eyþingi voru tilnefnd sem aðalmenn Margrét Hólm Valsdóttir Mývatnssveit og Erlingur Teitsson Þingeyjarsveit og til vara Guðrún María Valgeirsdóttir Mývatnssveit og Sif Jóhannesdóttir Þingeyjarsveit (198. fundur).
- Vinnumarkaðsráð Norðurlands eystra. Í ráðinu situr Marinó Þorsteinsson varabæjarfulltrúi Dalvíkurbyggð og sem varamaður Halla Björk Reynisdóttir bæjarfulltrúi á Akureyri (220. fundur stjórnar).
- Nefnd um almenningssamgöngur. Í nefndinni eru Sigurður Valur Ásbjarnarson formaður Fjallabyggð, Hjálmar Bogi Hafliðason Norðurþingi og Ólafur Jakobsson Akureyri ( 222. fundur).
- Fjallskila- og markanefnd í Eyjafirði. Í nefndinni sitja Ólafur G. Vagnsson ráðunautur sem er formaður, Guðmundur Skúlason Hörgársveit og Þórarinn Ingi Pétursson Grýtubakkahreppi (226. fundur stjórnar).
- Samráðsvettvangur um landsskipulagsstefnu. Hanna Rósa Sveinsdóttir Hörgársveit er fulltrúi Eyþings (226. fundur).
- Vatnasvæðisnefnd (svæði 2). Jónas Vigfússon Eyjafjarðarsveit er fulltrúi fyrir sveitarfélögin í Eyjafirði (226. fundur).
- Nefnd um skógarkerfil, bjarnarkló og fleiri umhverfismál. Nefndina skipa Guðmundur Sigvaldason formaður Hörgársveit, Brynhildur Bjarnadóttir Eyjafjarðarsveit og Bergþóra Kristjánsdóttir Mývatnssveit (227. fundur).
- Samráðshópur um gerð framkvæmdaáætlunar fyrir félagsmálasjóð Evrópu (ESF). Dagbjört Bjarnadóttir Skútustaðahreppi er fulltrúi Eyþings (232. fundur).
Aðgerðaáætlun Eyþings/Ályktanir aðalfundar
Ályktanir síðasta aðalfundar voru sendar þeim aðilum sem þær varða og eftir atvikum fylgt frekar eftir t.d. við þingmenn kjördæmisins. Hér verður gerð grein fyrir helstu verkefnum sem unnið hefur verið að frá síðasta aðalfundi án þess að um sé að ræða neinn tæmandi lista.
1. Ísland 2020 – sóknaráætlanir landshluta.
Af hálfu Eyþings, eins og annarra landshlutasamtaka, hefur áfram verið unnið að framgangi sóknaráætlunar. Unnið hefur verið að því að koma einstökum verkefnum í farveg og þá hafa formaður og framkvæmdastjóri mætt á samráðsfundi um sóknaráætlanir landshluta og breytt verklag í stjórnsýslu hins opinbera. Þessi vinna er í samræmi við samþykkt aðalfundar í fyrra og stefnumörkunina Ísland 2020. Sóknaráætlun var til umfjöllunar á síðustu tveimur aðalfundum og verður á þessum fundi til enn ítarlegrar umræðu. Það hefur sýnt sig að hér um að ræða flókið mál og sem býður upp á mistúlkanir ef ekki er að gáð. Í þeim breyttu vinnubrögðum sem felast í sóknaráætlun felast tækifæri ef rétt er á haldið. Mikilvægt er að týna sér ekki í þeim vanköntum sem má finna heldur einbeita sér að því að bæta úr því þörf er á að færa til betri vegar.
Tillaga að innihaldi og framkvæmd sóknaráætlana landshluta hefur tekið býsna miklum breytingum frá upphafi og áður hafa verið kynntar. Ef til vill má horfa á sóknaráætlunina sem tvíþætta og að framan af hafi sjónir einkum beinst að stefnumörkun og áherslum einstakra landshluta. Ekki síst þeim áherslum sem heimamenn áttu að ná samstöðu um inn í fjárfestingaáætlun ríkisins. Fjárfestingaáætlunin hefur nú verið tekin út fyrir sviga í þessari vegferð. Hinn þáttur sóknaráætlana, sem meira hefur verið til umræðu síðustu mánuði, er samþætting allra samninga og ólögbundinna verkefna hvers landshluta í þá veru að fjármagn til þeirra fari um eina gátt í hverjum landshluta. Þessi hluti sóknaráætlunar sem byggir á samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 22. júní sl. hefur valdið tortryggni og óróleika.
Aðalfundur fyrir ári síðan beindi því til stjórnar Eyþings að halda aukafund um sóknaráætlun landshlutans. Við því var ekki orðið þar sem fram eftir vetri var verkefnið í mikilli þróun og gerjun í stjórnarráðinu. Í stað þess var horft til þess að gera verkefninu góð skil hér á aðalfundi.
Mikið hefur verið rætt um skipulag í kringum vinnu að sóknaráætlun landshlutans, en lögð er áhersla á víðtækt samráð út fyrir raðir sveitarstjórnarfólks. Mikilvægt er að finna skipulag sem hentar fyrir slíkt samráð en ljóst er að á endanum mun ábyrgðin liggja hjá kjörnum fulltrúum innan Eyþings. Líkt og hjá öðrum landshlutasamtökum hefur sóknaráætlunin einnig kallað fram umræðu um skipulag sambandsins. Vikið verður nánar að því síðar.
Á aðalfundinum í fyrra var rætt um forgangsröðun verkefna í landshlutanum. Landshlutasamtökin höfðu þá fengið það tilraunaverkefni að gera hvert um sig tillögur um 5 -7 verkefni sem kæmu til skoðunar við gerð fjárlaga 2012. Gerð var tillaga um eftirfarandi verkefni sem byggðu m.a. á niðurstöðum „þjóðfundar“ landshlutans 2010:
1.Uppbyggingu innviða vegna orkufreks iðnaðar.
2.Uppbyggingu við Sjúkrahúsið á Akureyri.
3.Norðurslóðamiðstöð Íslands.
4.Flughlað á Akureyrarflugvelli.
5.Dettifossveg.
6.Fjarskipti og gagnaflutninga.
7.Íþróttabæinn Akureyri, en það verkefni var einungis sent inn til lauslegrar kynningar þar sem ýmiss konar forvinna liggur ekki fyrir.
Fjárveiting fékkst til tveggja af þessum verkefnum, þ.e. Norðurslóðamiðstöðvar Íslands og Fjarskipta og gagnaflutninga á Norðurlandi eystra. Hinn verkefnin fóru í flokk gildra verkefna til áframhaldandi vinnslu. Til verkefnisins um Norðurslóðamiðstöð fengust 67 mkr. sem deilast á fjögur ár en til fjarskiptaverkefnisins 35 mkr. Unnið hefur verið að stofnun Norðurslóðamiðstöðvar og hefur skipulagsskrá verið samþykkt en skv. henni hefur miðstöðin fengið nafnið Norðurslóðanet Íslands – þjónustumiðstöð norðurslóðamála. Stofnunin mun hefja störf á næstunni. Verkefnið um fjarskipti er skammt á veg komið en þess vænst að hægt verði að hrinda því úr vör eftir fund með Póst- og fjarskiptastofnun á næstu dögum. Fyrsti áfangi þess lýtur að stöðugreiningu.
Það er mat stjórnar Eyþings að í nýju verklagi og sóknaráætlunum landshluta felist tækifæri sem mikilvægt sé að nýta. Í verkefninu felst að aukið frumkvæði og aukin áhrif færast út í landshlutana. Eftir því hefur verið kallað en því fylgir um leið sú krafa að heimamenn ræði sín á milli og komi sér saman um áherslur til hagsbóta fyrir landshlutann í heild. Til þess er mikilvægt að þróa ákveðið samráð og verklag.
2.Vaðlaheiðargöng.
Þann 11. október í fyrra voru tilboð opnuð í sjálfa gangagerðina. Fljótlega fóru að koma í ljós ýmsir annmarkar við fjármögnun verkefnisins og samninga við verktakann. Sem kunnugt er þurfti að leggja fram frumvarp um heimild til handa ráðherra f.h. ríkissjóðs til að fjármagna gerð jarðganga undur Vaðlaheiði. Formaður Eyþings mætti á fund fjárlaganefndar um málið í apríl. Frumvarpið var samþykkt undir þinglok í júní sl. Síðan hefur verið unnið að gerð lánasamnings milli fjármálaráðuneytisins og Vaðlaheiðarganga hf. Sú vinna hefur reynst tafsöm og margar brekkur reynst á leiðinni. Staðan er sú að lánasamningur er enn óundirritaður og samningur við verktakann ófrágenginn. Lánasamningurinn er nú til yfirferðar í fjármálaráðuneytinu og verktakinn bíður þess að lánasamningur verði frágenginn. Framkvæmdastjóri Eyþings hefur verið formaður stjórnar Greiðrar leiðar ehf. – félags um Vaðlaheiðargöng – frá stofnun félagsins 2003, auk þess sem hann situr í stjórn Vaðlaheiðarganga hf. fyrir hönd Greiðrar leiðar og er jafnframt skráður framkvæmdastjóri þess tímabundið.
3. Almenningssamgöngur.
Hér framar er getið um nefnd Eyþings til að fjalla um og þróa almenningssamgöngur á svæði Eyþings. Eyþing tók um síðustu áramót, eins og önnur landshlutasamtök, yfir almenningssamgöngur á starfssvæðinu með samningi við Vegagerðina. Samningsupphæðin hljóðaði upp á 59 mkr. miðað við verðalag í janúar. Samningar voru í framhaldi gerðir við þá verktaka sem sinna akstrinum og var í flestum tilvikum samið um óbreytt fyrirkomulag út árið, nema hvað samið var um að bæta við akstri milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar f.o.m. 3. september sl. Einnig var hafin vinna við að þróa leiðakerfið og þjónustuna fyrir útboð á akstursleiðum. Sú vinna hefur verið í höndum VSÓ ráðgjafar í samstarfi við nefnd um almenningssamgöngur og framkvæmdastjóra Eyþings. Jafnframt var tekin ákvörðun um að semja við Strætó bs. um margháttaða sértæka þjónustu s.s. aðgang að upplýsinga- og tæknikerfi og um kynningarmál. Þegar er hafinn akstur á einni leið að loknu útboði. Akstur hófst á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur þann 2. september og þrátt fyrir vissa byrjunarhnökra er svo að heyra að almenn ánægja sé með verulega bætta þjónustu. Þessi leið er rekin í samstarfi fjögurra landshlutasamtaka og hefur það samstarf verið leyst farsællega.
Aðrar leiðir hafa nú verið boðnar út og verða tilboð í leiðirnar milli Akureyrar og Siglufjarðar og Akureyrar, Húsavíkur og Þórshafnar opnuð 19. október. Tilboð í leiðina milli Akureyrar, Mývatns og Egilsstaða verða opnuð síðar en sú leið verður rekin í samstarfi Eyþings og SSA. Þess er vænst að fólk merki verulega bætta þjónustu þegar nýtt fyrirkomulag hefur tekið gildi. Áfram verður síðan unnið að frekari þróun. Gerð verður nánari grein fyrir þessari vinnu og þeim breytingum sem framundan eru undir sérstökum dagskrárlið á fundinum
4. Undirbúningur IPA umsókna.
Stjórn Eyþings ákvað að semja við Önnu Margréti Guðjónsdóttur (AM ráðgjöf) sérfræðing í Evrópumálum um vinnu við að undirbúa umsóknir um IPA – styrki (Instrument for Pre-Accession) af starfssvæðinu. Gerðar eru miklar kröfur til umsóknanna sem þarf að undirbúa í nánu samstarfi við alla hagsmunaaðila og byggja á vönduðum gögnum ásamt raunhæfri verk- og fjárhagsáætlun. Vinna Önnu Margrétar felst í að undirbúa raunhæfar umsóknir, en í því felst m.a. að greina verkefni, eiga fundi með hagsmunaaðilum og nauðsynleg gagnasöfnun.
Haldinn var kynningarfundur 23. ágúst fyrir svokallaða hagsmunaaðila, þ.e. fulltrúa hinna ýmsu stofnana og fyrirtækja, og mættu liðlega 50 manns. Undirbúningur og úrvinnsla frá fundinum var gerð í samstarfi við atvinnuþróunarfélögin. Anna Margrét hefur í framhaldi unnið með hópum sem hafa verið myndaðir um einstakar verkefnishugmyndir. Hún mun kynna eftir hverju er að slægjast og niðurstöðu sinnar vinnu nánar hér á fundinum. Þess er vænst að úr verði nokkrar formlegar umsóknir sem hóparnir muni vinna að nú í framhaldi.
5. Menningarsamningurinn.
Í ársbyrjun var hluti verkefna ásamt fjármagni sem verið hafði á safnliðum fjárlaga fluttur til menningarráðanna. Vegna ágreinings um fjárhæðina og hluta þeirra verkefna sem flutt voru yfir af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytisins var ekki skrifað undir samning fyrr en í lok júlí. Formaður Eyþings ásamt menningarfulltrúa og fulltrúa úr menningarráðinu fóru á fund ráðherra þann 25. júlí og náðist á þeim fundi niðurstaða sem talin var ásættanleg fyrir yfirstandandi ár. Samningurinn sem undirritaður var er viðaukasamningur við menningarsamninginn svonefnda. Samkvæmt honum bætast við í ár 12,4 mkr. sem veitt skal til að efla sérstaklega starfsemi á sviði lista, safna og menningarstarfs. Heimilt er að verja fjárhæðinni til stofnstyrkja og/eða rekstrarstyrkja. Ítarlega verður fjallað um starfsemi Menningarráðs Eyþings undir sérstökum dagskrárlið aðalfundarins.
6. Skýrslan Starfsemi ríkisins í Norðausturkjördæmi.
Eins og greint var frá á aðalfundi í fyrra og fram kemur í fundargerðum stjórnar hefur undanfarna mánuði verið unnið að því að greina fjárlög 2011 og finna hversu miklu af skattfé ríkisins er aflað og hversu mikið af því er nýtt á Norðurlandi eystra og Austurlandi. Verkefnið er unnið fyrir Eyþing og SSA skv. samningi við RHA. Höfundar skýrslunnar eru Þóroddur Bjarnason prófessor og Jón Þorvaldur Heiðarsson lektor við HA.
Ætlunin var að kynna niðurstöður skýrslunnar hér á fundinum en það reyndist ekki unnt og munu Eyþing og SSA væntanlega standa fyrir sérstökum kynningum á þeim á næstunni. Fullyrða má að efni skýrslunnar er mjög áhugavert.
7.Skýrslan Skógarkerfill, Bjarnarkló o.fl. umhverfismál.
Fyrir fundinum liggur ítarleg skýrsla frá nefnd sem skipuð var í samræmi við ályktun aðalfundar 2011. Gerð hefur verið grein fyrir nefndinni hér að framan. Skýrslan verður kynnt hér undir sérstökum dagskrárlið og tillögur nefndarinnar verða til umfjöllunar í einni af nefndum aðalfundarins og verða ekki raktar hér.
8. Markaðsstofa ferðamála.
Á fundi sínum í desember samþykkti stjórnin að Eyþing setti eina milljón kr. í verkefnið Ísland allt árið. Aðalfundur 2011 hafði lýst sterkum vilja til að þess að sveitarfélög á Norðurlandi yrðu sýnilegir þátttakendur í verkefninu og skorað á sveitarstjórnir að leggja til það fjármagn sem þyrfti. Sýnt þótti að það mundi ekki ganga eftir. Þessi ákvörðun er umdeilanleg þar sem Eyþing er ekki aðili að Markaðsstofunni heldur sveitarfélögin hvert um sig.
Málefni Markaðsstofunnar voru einnig til umræðu á fundi stjórnar nú í september. Forstöðumaður hennar leitaði álits stjórnar á því hvort vilji væri til þess að Markaðsstofan semdi við Eyþing líkt hún gerir við SSNV eða hvort áfram verði samið við hvert sveitarfélag fyrir sig. Afstaða stjórnar Eyþings er að eðlilegt sé að áfram verði samið við hvert sveitarfélag fyrir sig.
9. Aukin verkefni og skipulag Eyþings
Eins og fram hefur komið þá hafa verkefni Eyþings vaxið umtalsvert. Segja má að það sé í samræmi við áherslur síðasta landsþings Sambands ísl. sveitarfélaga og ný sveitarstjórnarlög. Eins og fram hefur komið mun sóknaráætlun leiða til yfirgripsmikillar vinnu og stefnumörkunar sem á að kristallast í þeim málefnum og verkefnum sem við teljum hafa hvað mestu áhrif á samkeppnishæfni landshlutans. Þetta þýðir einnig að við munum keppa við önnur landshlutasamtök um fjármagn til stoðkerfis og fjárfestinga. Allt þetta mun gerast á sviðið landhlutasamtaka, ekki einstakra sveitarfélaga. Ljóst er að við þurfum að leggja í umtalsverða vinnu við framsetningu á okkar áherslum. Samstaða og samráð er það sem skiptir máli.
Hvað er þá til ráða? Þörf er á að endurskipuleggja Eyþing og samræma starfsemi þess við sameiginlegar stoðstofnanir. Mikilvægt er að tryggja aðkomu allra sveitarfélaganna að þeim ákvörðunum sem teknar verða, m.ö.o. að sveitarfélögin verði virkari þátttakendur í Eyþingi. Í dag er stjórnin samansett af fimm fulltrúum, en aðildarsveitarfélögin eru þrettán og hafa þau því misjafna aðkomu að ákvörðunum samtakanna.
Stjórnvöld hafa lagt ríka áherslu á að landshlutasamtökin búi sig vel undir nýtt hlutverk og skipuleggi sína starfsemi með þeim hætti sem þau telji að þjóni þeirra hagsmunum sem best. Miðað við þau verkefni sem áformað er að landshlutasamtökin taki að sér verður að telja að um eðlilega kröfu sé að ræða. Geta má þess að öll landshlutasamtökin standa nú í þessum sporum að vera að skoða hvernig skipulag þeirra verði best upp byggt.
Að lokum er hér sett fram hugmynd að skipulagi. Hún kann að þykja róttæk í þessum landshluta en er fyrst og fremst sett fram til að skapa umræðu. Falli hún ekki í kramið er ljóst að þróa verður samstarf milli Eyþings og hinna ýmsu stoðstofnana sveitarfélaganna eftir öðrum leiðum. Eftir sem áður þarf að styrkja stjórnskipulag Eyþings.
Ársfundur Eyþings – æðsta vald sambandsins.
Fulltrúaráð Eyþings – skipað að lágmarki þrettán fulltrúum, einum frá hverju sveitarfélagi.
Stjórn Eyþings – skipuð fimm fulltrúum.
Sameiginleg verkefni Eyþings – sóknaráætlun, almenningssamgöngur, menningarsamningur, atvinnuþróun, úrgangsmál og markaðsmál.
Ýmsir fundir og verkefni
Framkvæmdastjóri hefur sótt ýmsa fundi og viðburði fyrir samtökin auk þeirra sem getið er um í tengslum við einstök mál hér í skýrslunni. Í mörgum tilvikum hefur formaður samtakanna einnig sótt þá fundi. Nefna má fjármálaráðstefnu, ársfund Jöfnunarsjóðs, fund um landsskipulag, málþing Orkuseturs, þrjár ráðstefnur um evrópsk byggðamál og málþing um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Þá er rétt að geta þess að framkvæmdastjóri stundaði nám síðast liðinn vetur í verkefnastjórnun og leiðtogafærni og útskrifaðist úr því í maí.
Samstarf við þingmenn
Stjórn og framkvæmdastjóri hafa að venju átt margháttað samstarf við þingmenn Norðausturkjördæmis um ýmis málefni landshlutans. Eyþing sá um að skipuleggja viðtalstíma þingmanna fyrir sveitarstjórnarmenn í lok október í fyrra og í byrjun október í ár. Árlegur fundur stjórnar og þingmanna var síðan haldinn þann 3. febrúar. Á fundinum voru fimm málefni tekin til ítarlegrar umfjöllunar: Skatttekjur og ríkisútgjöld í Norðausturkjördæmi, Vaðlaheiðargöng, sóknaráætlun landshlutans og samgönguáætlun, breytt úthlutun af safnliðum fjárlaga og loks atvinnumál. Að auki varð nokkur umræða um yfirstjórn Vatnajökulsþjóðgarðs.
Aðsend þingmál
Á dagskrá stjórnar komu 45 þingmál til umsagnar, auk draga að reglugerðum. Þessu verkefni hefur verið sinnt í minna mæli en áður vegna anna við önnur verkefni. Reynt hefur verið að hafa samráð við Samband ísl. sveitarfélaga og í nokkrum tilvikum kom stjórnin ábendingum á framfæri.
Samstarf við ráðuneyti sveitarstjórnarmála, Samband ísl. sveitarfélaga og við önnur landshlutasamtök
Náið samstarf hefur verið við innanríkisráðuneytið á síðasta starfsári og sama á við um Samband ísl. sveitarfélaga og landshlutasamtökin. Þau samskipti hafa ekki síst tengst hugmyndum og undirbúningi að sóknaráætlunum landshluta.
Að venju hafa verið margháttuð samskipti við Samband ísl. sveitarfélaga um ýmis önnur málefni s.s. um Evrópumálefni og svæðasamstarf. Formenn og framkvæmdastjórar landshlutasamtaka sitja landsþing, auk þess sem árlega er haldinn a.m.k. einn samráðsfundur formanna og framkvæmdastjóra með stjórn sambandsins og sviðsstjórum þess.
Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) hafa leitt samstarf formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna undanfarna mánuði. Haldnir hafa verið nokkrir samráðsfundir, bæði óformlegir og formlegir, auk þess sem árlegur sumarfundur var haldinn í Grímsnesi 14. og 15. júní sl. Helstu mál sem hafa verið til umræðu, auk sóknaráætlunar, eru almenningssamgöngur, menningarsamningar og úthlutun framlaga til menningarmála og Evrópumálefni.
Á fundi landshlutasamtakanna 26. september sl. tók Eyþing við því hlutverki að leiða samstarf landshlutasamtakanna næsta starfsárið. Á sama fundi var formaður Eyþings, ásamt formönnum þriggja annarra landshlutasamtaka, skipaður aðalfulltrúi á sveitarstjórnarvettvang EFTA. Nýs formanns bíða því mörg skemmtileg verkefni.
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra
Að venju verður gerð grein fyrir störfum heilbrigðisnefndar og starfsemi eftirlitsins hér á fundinum eins og kveðið er á um í samstarfssamningi sveitarfélaganna.
Ný sveitarstjórnarlög
Þann 1. janúar sl. tóku gildi ný sveitarstjórnarlög nr. 138/2011 sem fela m.a. í sér umtalsverða breytingu varðandi landshlutasamtök sveitarfélaga, og eru grunnur að þeim auknu verkefnum sem verið er að færa til landshlutasamtakanna. 97. gr. laganna hljóðar svo:
„Sveitarfélögum er heimilt að starfa saman innan staðbundinna landshlutasamtaka sveitarfélaga er vinni að sameiginlegum hagsmunamálum sveitarfélaganna í hverjum landshluta.
Starfssvæði landshlutasamtaka fer eftir ákvörðun aðildarsveitarfélaga sem staðfest hefur verið af ráðuneytinu. Landshlutasamtök skulu þó aldrei vera fleiri en átta á landinu öllu. Sveitarfélög sem liggja innan starfssvæðis landshlutasamtaka eiga rétt á aðild að þeim. Ráðuneyti og opinberar stofnanir skulu ávallt leita umsagnar hlutaðeigandi landshlutasamtaka um stefnumótun eða ákvarðanir sem varða viðkomandi landsvæði sérstaklega.
Landshlutasamtök geta með samningum eða samkvæmt heimildum í sérlögum tekið að sér verkefni eða aðra starfsemi sem tengist hlutverki þeirra skv. 1. mgr., svo sem verkefni tengd byggðaþróun eða öðrum sameiginlegum hagsmunum sveitarfélaga.“
Aðalfundur Eyþings 2012
Rétt til setu á aðalfundi Eyþings eiga nú 40 fulltrúar úr 13 sveitarfélögum með alls 29.041 íbúa m.v. 1. desember 2011. Sveitarfélögin eru nú sjö í Eyjafirði og sex austan Vaðlaheiðar.
Á aðalfundinum í ár er áherslan á umfjöllun um sóknaráætlanir landshluta (Ísland 2020) og skipulag Eyþings en þessi tvö mál eru óhjákvæmilega nátengd.
Stjórn og framkvæmdastjóri Eyþings þakka sveitarstjórnarmönnum og starfsmönnum sveitarfélaga á starfssvæði sínu gott samstarf á liðnu starfsári og væntir áfram góðs samstarfs við þá í þeim krefjandi verkefnum sem framundan eru.
Akureyri 5. október 2012
Stjórn og framkvæmdastjóri Eyþings.