Fundargerð - Fulltrúaráð - 07.09.2018
Samráðsvettvangur Eyþings
Fundur á Hótel KEA, Akureyri kl. 10:00
7. september 2018
Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður Eyþings setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna fyrir hönd stjórnar Eyþings.
Á dagskrá fundarins var eftirfarandi:
- Almenningssamgöngur
- Samrekstur AFE og Eyþings
- Aðalfundur 2018
Fulltrúar allra sveitarfélaga nema Tjörneshrepps, Svalbarðshrepp og Langanesbyggðar voru mættir.
1. Almenningssamgöngur
Guðmundur Baldvin fór vel yfir sögu almenningssamgangna hjá Eyþingi í ljósi þess að margir nýir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn. Guðmundur Baldvin skýrði frá því að engin lausn væri komin vegna hallareksturs almenningssamgangna en stjórnarmenn áttu von á því að geta kynnt hana á þessum fundi. Ráðuneytið hefur beðið um framlengingu á samningum út 2019. Í raun eru tveir valkostir í stöðunni. Annars vegar að uppsögn Eyþings á samningnum taki gildi um áramót en þá er engin trygging fyrir uppgjöri á uppsöfnuðu tapi og óvissa um áframhald á almenningssamgöngum innan svæðisins. Hins vegar að halda áfram rekstri almenningssamgangna út árið 2019. Það myndi væntanlega lækka skuld Eyþings að öðru óbreyttu og gæfi stjórnvöldum tíma til að leysa úr vandanum.
Miklar umræður urðu eftir erindi Guðmundar Baldvins. Fundarmenn voru sammála um nauðsyn almenningssamgangna á svæðinu og lögðu ríka áherslu á að landshlutasamtökin nái samkomulagi við ríkið um uppgjör á uppsöfnuðu tapi.
2. Samrekstur AFE og Eyþings
Guðmundur Baldvin fór yfir málið en hugmynd að samrekstri Eyþings og atvinnuþróunarfélaga á sér langan aðdraganda. Á aðalfundi Eyþings 2016 var samþykkt eftirfarandi ályktun: „Aðalfundur Eyþings samþykkir að fela stjórn að kanna kosti og galla sameiningar Eyþings, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar“ RHA var falið að vinna skýrslu í samræmi við þessa ályktun. Niðurstöður skýrslunnar var kynnt á fulltrúaráðsfundi í júní 2017. Skýrslan var einnig til umræðu á fulltrúaráðsfundi í september 2017 þar sem fulltrúar gerðu grein fyrir afstöðu sinna sveitarfélaga. Eftir þann fund var ljóst að ekki næðist samstæða um framhaldið.
Á aðalfundi AFE 2018 var gerð eftirfarandi ályktun:
„Aðalfundur AFE telur nauðsynlegt að breyta hvernig sveitarfélög standa að sameiginlegri hagsmunagæslu, framsækni, atvinnuþróun og samstarfi á sínum vettvangi.
Auk starfsfólks atvinnuþróunarfélaganna í Eyjarfirði og Þingeyjarsýslum, ásamt starfsfólki Eyþings, samtaka sveitarfélaga í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslu, koma kjörnir fulltrúar aðildarsveitarfélaga að verkefnum á þessum vettvangi, beint eða óbeint, með stjórnarsetu, þátttöku í fundum og beinni aðild að vinnu einstakra verkefna.
Mannauði, krafti og opinberu fé er ráðstafað í þessi verkefni. Skylda sveitarstjórnarfólks er því að hámarka skilvirkni og tryggja að afrakstur af þessari starfsemi verði árangursríkur, samfelldur og heildstæður. Núverandi fyrirkomulag felur í sér skörun milli stofnana og verkefna sem dregur úr möguleikum á besta mögulega árangri af starfseminni.
Því ályktar aðalfundur AFE og felur stjórn að leita eftir því við Eyþing og aðildarsveitarfélögin, að Eyþing og AFE taki upp viðræður um samrekstur til að annast þau verkefni og skuldbindingar sem þessir aðilar hafa“
Á fundi stjórnar Eyþings 28. ágúst sl. var bréfi frá stjórn AFE, dags. 15. ágúst, með ósk um formlegar viðræður um samrekstur Eyþings og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar vísað til umræðu á samráðsfundi og á aðalfundi 21. og 22. september nk.
Líkt og á fyrri fundi gerðu fulltrúar grein fyrir afstöðu sinni sem og síns sveitarfélags. Skiptar skoðanir voru á samrekstri félaganna þó voru flestir á því að það væri skynsamlegt að samreka félögin en margir töldu að æskilegt væri að bæði atvinnuþróunarfélögin myndu vera með í samrekstrinum. Áhersla var lögð á að byrjað yrði á viðræðum milli aðila sem fyrsta skref.
3. Aðalfundur 2018
Guðmundur Baldvin fór yfir helstu mál sem fjallað verður um á aðalfund Eyþings 21. – 22. september nk. Fundurinn verður haldinn í Skútustaðahreppi.
Fundi slitið kl 12:00.
Fundarritari: Linda Margrét Sigurðardóttir