Fundargerð - Aðalfundur 2016
Aðalfundur Eyþings 2016
Haldinn í Félagsheimilinu Þórsveri, Langanesbyggð
11. og 12. nóvember 2016
Fundargerð
Föstudagur 11. nóvember
1. Fundarsetning kl. 13:00.
Formaður Eyþings, Logi Már Einarsson, setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna til Þórshafnar. Dagskrá fundarins var með öðrum hætti en venja er t.d. var skýrsla stjórnar send á alla fundarmenn og því ekki lesin upp í heild sinni. Meiri áhersla var lögð á málefnavinnu en verið hefur. Logi Már bar kveðju frá Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra og frá starfsfólki innanríkisráðuneytisins sem komust ekki á fundinn vegna veðurs og sömuleiðis frá Karli Björnssyni, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga sem komst heldur ekki vegna veðurs.
Logi Már þakkaði stjórn Eyþings fyrir gott samstarf sérstaklega Arnóri Benónýssyni, varaformanni. Logi Már sóttist ekki eftir endurkjöri sem formaður Eyþings þar sem hann hafði sagt upp stöðu sinni sem bæjarfulltrúi á Akureyri í kjölfar alþingiskosninga. Hann hvatti fundarmenn áfram til samstarfs og sagði að samstarf og samstaða sveitarfélaga á svæðinu væri lykilatriði ef við ætluðum að halda stöðu okkar. Þá sagði hann að hagur eins sveitarfélags skipti nágranna þess líka máli. Okkur vegnar best þegar við stöndum saman. Einnig skiptir máli að eiga gott samstarf við önnur landshlutasamtök.
Logi Már þakkaði kærlega fyrir að fá að vinna á þessum vettvangi og sagðist hlakka til að koma á næsta aðalfund Eyþings sem þingmaður.
1.1. Starfsmenn fundarins og kjörnefnd.
Logi Már lagði eftirfarandi til um starfsmenn fundarins og kjörnefnd:
Fundarstjórnar:
Elías Pétursson
Eva Hrund Einarsdóttir
Samþykkt samhljóða
Ritarar:
Katý Bjarnadóttir
Sóley Björk Stefánsdóttir
Samþykkt samhljóða.
Ráðinn fundarritari Linda Margrét Sigurðardóttir.
Kjörnefnd:
Þröstur Friðfinnson
Jóhanna Dögg Stefánsdóttir
Sigurður Þór Guðmundsson
Samþykkt samhljóða.
1.2. Skýrsla stjórnar.
Arnór Benónýsson, varaformaður Eyþings, flutti stutta samantekt á skýrslu stjórnar sem send hafði verið á alla aðalfundarfulltrúa fyrir fundinn og mun fylgja með fundargerð aðalfundarins. Einnig greindi hann frá starfsemi Menningarráðs-fagráðs menningar sem formaður þess.
Það sem hefur mest hvílt á stjórninni síðastliðið ár er Sóknaráætlun Norðurlands eystra og Uppbyggingarsjóður. Það verkefni fékk Eyþing frá ríkisvaldinu og kallaði á breytingar á vinnulagi og hefur stjórnin lagt mikið á sig til þess. Að sögn Arnórs þurfa aðalfundarfulltrúar að ræða til lausnar hvernig haga ætti samstarfi okkar á næsta ári og næstu árum. Samþykkt hefur verið að taka umsýslu vegna Uppbyggingarsjóðs í auknum mæli inn til Eyþings líkt og rætt var á aðalfundi Eyþings 2015. Atvinnuþróunarfélögin er ekki sátt við það. Samkvæmt fjárhagsáætlun 2017 er gert ráð fyrir að 800.000 kr. renni til atvinnuþróunarfélagana til að fylgja eftir verkefnum frá 2015 og 2016.
Verkefnið um almenningssamgöngur hefur þokast í rétta átt en er ekki komið í höfn enn. Framkvæmdastjóri og formaður hafa lagt gríðarlega vinnu í þennan þátt.
Á síðasta aðalfundi voru samþykktar samþykktir fyrir Menningarráð Eyþings sem víkkuðu út starfssvið fagráðs menningar. Þær giltu til eins árs og eru því ekki lengur í gildi. Menningarráð er ekki lengur við lýði heldur fagráð menningar sem á að meta úthlutanir úr Uppbyggingarsjóði líkt og gert er í atvinnuþróunar- og nýsköpunarhlutanum. Þetta þýðir að skipulag og stefnumörkun er komið inn á borð stjórnar Eyþings og þarf að ræða hér hvernig á að haga því starfi sem var á höndum Menningarráðsins áfram, t.d. þátttöku í þremur þróunarverkefnum.
Stjórnin hefur sagt að það þurfi að einfalda skipurit Eyþings og sagði Arnór að aðalfundur þyrfti að ræða það. Tillaga um breytt skipurit og starfsemi lá fyrir í greinagerð stjórnarinnar um skipulag Eyþings og stoðstofnana.
Stjórnin hefur unnið mikið starf á þessu ári og þakkaði Arnór starfsmönnum Eyþings fyrir gott starf á árinu. Þá sagði hann að vegna breytinganna hafi verið mikil óvissa fyrir starfsmenn og að þeir hefðu staðið sig vel í því ástandi.
Arnór óskaði þess að fulltrúar ættu góðan fund, þar sem rætt yrði saman óhikað og hreinskilningslega og leitað lausna á þeim verkefnum sem blasa við því þau væru stór og fara stækkandi.
1.3. Samantekt um starfsemi Uppbyggingarsjóðs
Eva Hrund formaður úthlutunarnefndar Uppbyggingarsjóðs fór yfir úthlutanir úr sjóðnum síðast liðið ár en Uppbyggingarsjóður er samkeppnissjóður sem veitir verkefnastyrki til atvinnuþróunar og nýsköpunar og menningar sem og stofn- og rekstrarstyrki til menningarmála.
Uppbyggingarsjóði bárust 190 umsóknir, þar sem sótt var um 256,9 milljónir. 58 umsóknir bárust í atvinnuþróunar- og nýsköpunarhluta sjóðsins þar sem sótt var um 123,8 milljónir. Í menningarhluta sjóðsins bárust 132 umsóknir, þar af 119 um verkefnastyrki og 19 um stofn- og rekstrarstyrki, sótt var um 130,1 milljón. Áætlaður heildarkostnaður við verkefnin var rúmar 300 mkr.
Samkvæmt ákvörðun stjórnar Eyþings hafði Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra kr. 79.023.750. kr. til úthlutunar fyrir árið 2016. Atvinnuþróunar- og nýsköpunarhluti sjóðsins hafði til úthlutunar 42.750.000 kr. og menningarhluti 36.273.750 kr. Auk þess kom til úthlutunar fjármagn frá fyrra ári og lækkaðir og niðurfelldir styrkir að upphæð 4.425 þkr. í atvinnuþróunar- og nýsköpunarhluta sjóðsins og 4.410.700 kr. í menningarhluta. Alls hafði því atvinnuþróunar- og nýsköpunarhluti sjóðsins 47.175 þús. kr. til úthlutunar og menningarhluti 40.684.450 kr.
Uppbyggingarsjóður samþykkti að veita 93 verkefnum styrkvilyrði að upphæð 70,1 m.kr. Þar af voru 20 verkefni á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar sem hlutu 30,9 mkr. styrkvilyrði og 73 verkefni á sviði menningar sem hlutu 39,9 mkr. styrkvilyrði.
Atvinnuþróunar- og nýsköpunarhluti sjóðsins úthlutaði ekki öllu fjármagninu sem þeir höfðu yfir að ráða og því flytjast 11,85 milljónir yfir á árið 2017.
Síðasta árið hefur farið mikil vinna í að yfirfara gögn frá fyrri samningum, samræma og þróa ný gögn fyrir Uppbyggingarsjóð þar sem sameinaðir voru ólíkir sjóðir með ólíkar áherslur. Því var mikilvægt að vanda þessa vinnu. Náið samstarf var haft við atvinnuþróunarfélögin á svæðinu sem var grunnur að því hve vel tókst til. Einnig var gott samstarf við önnur svæði, sér í lagi Norðurland vestra og Vestfirði.
Við breytingar eins og þessar er stöðug endurskoðun og áframhaldandi þróun á ferlinu nauðsynleg. Við þurfum að meta ferlið, hvað hefur gengið vel og hvað má bæta. Nú liggur fyrir að reyna að einfalda umsóknarferlið og vinnuna við það. Nauðsynlegt er að taka upp rafrænt umsóknarkerfi og er stýrihópur Stjórnarráðsins að skoða möguleika á sameiginlegu kerfi á landsvísu í samvinnu við Rannís, einnig eru í skoðun fleiri möguleikar á rafrænu umsóknarkerfi. Yfirfara þarf heildarferlið og formgera það betur, bæði með hag umsækjanda í huga sem og kröfur stýrihóps Stjórnarráðsins vegna samnings um sóknaráætlun.
Áhugavert væri að gera þjónustukönnun meðal umsækjenda annars vegar og styrkþega hins vegar og fá þeirra sýn á ferlið sem væri hægt að nýta til frekari þróunar.
1.4. Ársreikningur og fjárhagsáætlun.
Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings, gerði grein fyrir helstu atriðum í ársreikningi. Aðalfundarfulltrúar fengu ársreikninginn sendan sem fundarskjal. Skýringar og sundurliðanir eru nákvæmar í ársreikningnum og einnig er skýrsla endurskoðanda yfirgripsmikil. Rekstrarniðurstaða ársins 2015 var neikvæð um rúmar 25 milljónir en sá halli var að öllu leyti vegna almenningssamgangna. Það var meiri halli en gert hafði verið ráð fyrir en það skýrist af því að ekki kom eins mikið í hlut Eyþings við uppgjör á leið 57 eins og gert hafði verið ráð fyrir. Hinsvegar fékkst þar farsæl og sanngjörn niðurstaða að mati stjórnar og framkvæmdarstjóra. Umfang rekstrarins hefur farið stækkandi.
Helstu niðurstöður ársreiknings eru þessar:
Rekstrarreikningur 2015
Rekstrartekjur 304.838.503
Rekstrargjöld 331.114.676
Rekstrarniðurstaða án fjármagnsliða (26.276.173)
Fjármunatekjur 929.463
Rekstrarniðurstaða ársins (25.346.710)
Efnahagsreikningur 31. des 2015
Eignarhlutir í félögum 2.749.127
Veltufjármunir 116.597.095
Eignir samtals 119.346.222
Eigið fé (44.253.662)
Lífeyrisskuldbindingar 18.964.743
Skammtímaskuldir 144.635.141
Eigið fé og skuldir samtals 119.346.222
Endurskoðuð fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 og fjárhagsáætlun 2017.
Pétur Þór lagði fram tillögu að endurskoðaðri fjárhagsáætlun 2016. Stjórn Eyþings hefur fundað meira á árinu 2016 en gert hafði verið ráð fyrir og því hækkar sá kostnaður um 32%, sama má segja um aðra fundi stjórnar sem hækkar um 25%. Í áætlun 2016 láðist að gera ráð fyrir auknu hlutafé í Greiðri leið ehf. og var því bætt inn við endurskoðunina. Ríkið hækkaði framlag sitt til Sóknaráætlunar um 13% og er tekið tillit til þess í endurskoðaðri fjárhagsáætlun. Einnig er gert ráð fyrir 28% starfshlutfalli í Sóknaráætlun vegna umsýslu Uppbyggingarsjóðs. Á árinu 2016 kom fram aukaframlag frá ríkinu til almenningssamgangna að upphæð 32 milljónir og þróunarstyrkur að upphæð 5 milljónir. Tekjur almenningssamgangna jukust því talsvert og er gert ráð fyrir rúmlega 10 milljóna hagnaði á rekstri þeirra á árinu 2016. Sú upphæð mun fara til niðurgreiðslu á láni Eyþings hjá Vegagerðinni.
Í fjárhagsáætlun ársins 2017 er gert ráð fyrir að Eyþing fái 29 milljónir frá Jöfnunarsjóði en það er samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum. Það er töluverð hækkun frá árinu áður. Pétur Þór sagði það vera vilja stjórnar að hækka laun fyrir fundarsetu á vegum Eyþings og því væri gert ráð fyrir að miða við hlutfall af þingfararkaupi þrátt fyrir umdeilda hækkun á því.
Eva Hrund vísaði ársreikningi 2015 og fjárhagsáætlunum til fjárhags- og stjórnsýslunefndar.
1.5. Tillögur og erindi frá stjórn og fulltrúum.
Arnór Benónýsson kynnti tillögu frá stjórninni að breytingum á 5. kafla laga Eyþings. Tillagan var send öllum fulltrúum fyrir aðalfund.
Arnór lagði til að tillögunni yrði vísað til fjárhags- og stjórnsýslunefndar.
Fundur samþykkti það samhljóða.
2. Ertu nokkuð Georg Bjarnferðarson?
Anna Lóa Ólafsdóttir, verkefnastjóri og ráðgjafi hjá Símey, fór með hugvekju um samstarf og samvinnu undir yfirheitinu Ertu nokkuð Georg Bjarnfreðarson?
Eva Hrund þakkaði Önnu Lóu fyrir skemmtilegt og fróðlegt erindi.
3. Samstarf og stoðstofnanir sveitarfélaga
Sif Jóhannesdóttir og Karl Frímannsson opnuðu umræðu fyrir málefnarvinnu.
Sif Jóhannesdóttir: Saman erum við sterk, er yfirskrift þessa aðalfundar Eyþings. Styrkurinn fæst ekki með því einu að vera saman, samstarf sem skilar árangri þarf að byggja á sameiginlegri sýn og markmiðum, vera vel mótað og skipulagt og hafa þrótt til að vinna að settum markmiðum.
Verkefni landshlutasamtakanna eru ólík og útfærslunar á starfsemi þeirra að sama skapi margskonar. Samtökin sjá um framkvæmd sóknaráætlana og þar með uppbyggingarsjóð. Sum samtök sveitarfélaga reka atvinnuþróunardeild. Á Suðurlandi er atvinnuþróun og ráðgjöf hluti starfseminnar, en þeim hluta hefur verið útvistað til ýmissa samstarfsaðila. Á Vestfjörðum var starfsemi Fjórðungssambandsins, Markaðsstofu Vestfjarða og menningarráðs sameinuð undir einum hatti. Mesta byltingin á seinni tímum hefur verið stofnun Austurbrúar á Austurlandi, þar er starf samtaka sveitarfélaga á Austurlandi hluti af stofnun sem sameinar atvinnuþróun, menningarmál, nýsköpun, símenntun, rannsóknir og sóknaráætlun undir einum hatti.
Stærstu verkefni Eyþings í dag eru almenningssamgöngur og sóknaráætlun sem hvoru tveggja eru verkefni sem ríkisvaldið hefur leitað beint til landshlutasamtakanna um framkvæmd á. Þó nokkur umræða hefur verið innan stjórnar Eyþings og vonandi víðar um breytta starfsemi. Einkum hefur þá verið horft til stoðstofnana á svæðinu, hlutverks þeirra og samspils. Að venju er horft til tveggja þátta, öflugra og markvissara starfs og bætta nýtingu fjármuna. Á starfssvæði Eyþings eru rekin tvö atvinnuþróunarfélög og Markaðsstofa Norðurlands starfar fyrir Norðurland allt. Þessi félög eða stofnanir eru fjármögnuð að stórum hluta af sveitarfélögunum. Það eru einnig fordæmi fyrir því hjá öðrum landshlutum að þær stofnanir séu reknar af eða með landshlutasamtökunum. Á vordögum kallaði stjórn Eyþings fulltrúa þessara félaga á sinn fund til skrafs og ráðagerða. Niðurstaða þeirra samræðna var nokkuð skýr, allir aðilar lögðu mikla áherslu á aukið og gott samstarf en töldu sameiningu ekki vera fýsilegan kost. Markaðsstofan hefur mjög skýra stefnu hvað það varðar og kýs að starfa sjálfstætt og þar eiga sveitarfélögin engan fulltrúa í stjórn.
Þegar horft er til samstarfs á starfssvæðinu þarf að horfa á sem flestar hliðar starfsemi sveitarfélaga og velta fyrir okkur hvar samlegðin liggur, hvar ákveðin fjarlægð kemur sér vel og jafnframt að hvaða leyti þarfirnar eru ólíkar. Í þessu samhengi taldi Sif að skoða ætti t.d. barnaverndarmál, náttúruverndarnefnd, söfn og sýningar, skólaþjónusta ýmiskonar, námsráðgjöf, sálfræðiþjónustu, tónlistarskóla og sérstaklega sorpmálin.
Sif sagði að aðalfundarfulltrúar ættu að hafa í huga að í þessu eins og öðru er ekkert eitt rétt svar, öllum útfærslum fylgja bæði kostir og gallar og væntanlega er engin þeirra endaleg í samfélagi breytinga.
Karl Frímannsson: Í vor ræddi stjórn Eyþings við alla samstarfsaðila sem eru að vinna í tengdum málum. Það hefur verið formleg og óformleg umræða innan stjórnar hvort við séum að ganga sömu leið. Árið 2012 hóf Eyþing innleiðingu að sóknaráætlunarsamningi við ríkið, samningurinn var undirritaður árið 2015. Eyþing ber ábyrgð á þessu verkefni og þeim skuldbindingum sem það stofnar til vegna samningsins. Ábyrgðarhlutverk Eyþings er mjög skýrt og stjórninni fannst að staða framkvæmdastjóra yrði að vera skýr einnig og því var lögð fram tillaga um lagabreytingu sem skýrir stöðu hans. Stjórnin lagði fram greinargerð um starfsemi Eyþings og stoðstofnana. Karl fór yfir helstu atriði greinargerðarinnar en í henni eru úrbótatillögur sem allar snúa inn á við. Að mati stjórnar er einnig nauðsynlegt að rýna í hvaða samninga Eyþing hefur skrifað undir og hvaða markmið lágu þar að baki.
4. Málefnavinna.
Pétur Þór, framkvæmdastjóri, gerði grein fyrir málefnavinnunni sem var með öðru sniði en áður hefur verið. Fulltrúum var skipt upp í fjárhags- og stjórnsýslunefnd, kjörnefnd og fjóra málefnahópa. Búið var að tilnefna formenn í hverri nefnd/hóp. Áhersla var lögð á samræður en ekki ályktanir í hópunum. Stjórn Eyþings er með drög að einni ályktun sem tekur á stærstu málefnum svæðisins með skírskotun til sóknaráætlun landshlutans. Stefnt er að því að úr málefnavinnunni komi gott veganesti til handa nýrri stjórn.
Málefnavinna hófst kl. 14:30.
Kaffihlé kl. 16:30
5. Ávörp
Kristján Þór Júlíusson 1. þingmaður Norðausturkjördæmis.
Kristján Þór bar kveðju þeirra þingmana sem ekki komust. Kristján Möller bað fyrir góðar kveðjur og þakkir fyrir samstarfið. Það varð töluverð endurnýjun í þingmannahópnum eftir síðustu kosningar. Kristján Þór þakkaði fráfarandi þingmönnum samstarfið. Hann sagði að þingmenn og sveitarstjórnarmenn ynnu að sameiginlegum málum, þingmenn ynnu að framfaramálum kjördæmisins, jafnframt því sem þeir tækju þátt í störfum fyrir landið allt. Samgöngur, orkumál, fjarskipti og fleira eru verkefni sem þingmenn og sveitarstjórnarmenn þurfa að vinna að í sameiningu. Kristján Þór sagðist myndi vilja eiga fleiri fundi með sveitarstjórnarmönnum utan hinna hefðbundnu skipulögðu túra um kjördæmið. Einnig væri nauðsynlegt að hans mati að taka sameiginlegt spjall sveitarstjórnarmanna og þingmanna um einstök mál. Þá væri afar brýnt að efla tengslin við Austfirðinga, ekki síst í samgöngumálum. Sveitarstjórnarmenn þyrftu einnig að takast á um málin og ná sameiginlegri sýn í stað þess að vísa ágreiningi í þingmannahópinn. Þingmannahópurinn hefur átt mjög gott samstarf um meginmál kjördæmisins og ekkert bendir til að það muni breytast nú. Fyrir hönd þingmanna þakkaði Kristján Þór fyrir samstarfið á síðasta kjörtímabili og óskaði þess að svo yrði einnig á því næsta.
Fundarhlé kl. 17:15
Laugardagur 12. nóvember.
6. Samstarf um úrgangsmál.
Fulltrúar starfshóps um úrgangsmál komust ekki á fundinn og var því byrjað á erindi frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra.
7. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra.
Alfreð Schiöth framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.
Alfreð sagði rekstur Heilbrigðiseftirlitsins í góðu jafnvægi. Fjárhagsáætlun 2017 gerir ráð fyrir 11,4% hækkun milli ára og er hækkunin að mestu til komin vegna nýlegra kjarasamninga. Gert væri ráð fyrir að gjaldskrá hækki um sama hlutfall á milli ára og að tekjur aukist nokkuð vegna fjölgunar fyrirtækja og þannig muni kostnaðarhlutur sveitarfélaga hækka óverulega milli ára.
Alfreð fór yfir nokkur atriði sem hafa komið upp í starfi Heilbrigðiseftirlitsins undanfarið ár.
Vöðvasullur í sauðfé kom upp í Bakkafirði og Þistilfirði og sagði Alfreð afar mikilvægt að öll sveitarfélög haldi skrá yfir alla hunda, jafn í þéttbýli sem til sveita og framkvæmi lögboðna hundahreinsun að lokinni sláturtíð ár hvert. Sömuleiðis væri mikilvægt að hundar komist hvergi í sláturúrgang og hræ. Þetta þyrfti að taka alvarlega.
Þá sagði Alfreð að á Akureyri væru góðir hlutir að gerast í fráveitumálum en aðrir staðir þyrftu líka að taka á sínum málum. Fráveitusamþykkt væri til endurskoðunar og hugsanlega yrðu gerðar breytingar en það yrðu engar stórkostlegar tilslakanir. Úrbætur á fráveitum yrðu að fá forgang hjá sveitarstjórnum og að mati Alfreðs væri sóknarfæri í að sækja stuðning fyrir fráveituframkvæmdum til ríkisins. Það hvíli ákveðin kvöð á sveitarstjórnarmönnum að skapa t.d. matvælafyrirtækjum viðunandi aðstæður. Það gengur ekki að skólpmengaður sjór gangi yfir landið í slæmum veðrum. Fyrirtækin eru að selja gæðavöru oft á hærra verði en gengur og gerist og þurfa að standa undir þeim kröfum. Þá nefndi Alfreð að sveitarfélög sem keyptu þjónustu við losun rotþróa þyrftu að setja þá kvöð á tæmingaraðila að hann upplýsi sveitarfélagið um ef hann sæi einhver frávik svo hægt væri að gera úrbætur.
Alfreð sagði að vatnsból lítilla sveitarfélaga hafi verið til vandræða, búið væri að endurbæta allmörg vatnsból en eitthvað væri enn eftir. Það þyrfti að fara og skoða öll vatnsból að hverju vori og helst aftur að hausti.
Alfreð sagði frá því að í farvatninu væru breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Tilgangurinn væri að einfalda regluverk atvinnulífsins og auka skilvirkni, minnka skrifræði, einfalda samskipti við opinbera aðila og um leið að halda kostnaði niðri. Gert væri ráð fyrir að allt eftirlit yrði hjá heilbrigðisnefndum og að samræmingarhlutverk Umhverfisstofnunar yrði aukið m.a. hvað varðaði gerð eftirlistáætlana og áhættumats. Einnig væru hugmyndir uppi um sameiningu og stækkun heilbrigðiseftirlitssvæða. Þessar breytingar væru háðar stefnumótun og vilja ráðherra.
Umræður:
Ólafur Rúnar Ólafsson spurði hvort yfirsýn og snerting við samfélagið myndi tapast ef af sameiningu heilbrigðiseftirlitana yrði.
Alfreð Schiöth sagðist halda að það væri ákveðin hætta. Það væri auðvelt að sameina á stór Reykjavíkursvæðinu þar sem vegalengdir væru stuttar. Alfreð taldi skynsamlegt að sameina heilbrigðiseftirlitin á Reykjavíkursvæðinu en ekki æskilegt að flýta sér að hrófla við landsbyggðinni. Nærþjónusta og staðþekking skipti máli.
Að lokum nefndi Alfreð atvik þar sem hann hafi kallað til lögreglu vegna hótana sem hann hafði fengið vegna vinnu sinnar.
Málefnavinna hófst kl. 9:45.
7. Aðalfundarstörf (hófust kl. 10:30).
(Samantekt nefnda og málefnahópa. Afgreiðsla tillagna og ályktana, kosningar o.fl.).
Málefnahóparnir áttu að ræða um starfsemi Eyþings og samstarf stoðstofnana og helstu samstarfsverkefni landshlutans auk annarra sérmálefna hvers hóps.
7.1. Málefnahópur um mennta- og menningarmál.
Eiríkur H. Hauksson, formaður
Snorri Finnlaugsson
Njáll Trausti Friðbertsson
Sigurlaug Hanna Leifsdóttir
Arnór Benónýsson
Olga Gísladóttir
Karl Frímannsson
Málefni:
Starfsemi Eyþings og samstarf stoðstofnana
Helstu samstarfsverkefni landshlutans
Samstarf framhaldsskólanna
Samstarf um menningarmál
Símenntun
Eiríkur H. Hauksson sagði frá umræðum hópsins.
Hagsmunagæsla fyrir landshlutann þarf að vera til staðar og þar gegnir Eyþing lykilhlutverki. Hópurinn var sammála um að fara varlega í breytingar en framþróun væri mikilvæg. Að mati hópsins ætti Eyþing að halda kynningarfund um hlutverk og starfsemi samtakanna fyrir nýja sveitarstjórnarmenn að loknum kosningum. Mikill samstarfshugur var í hópnum.
Rætt var um að auka samvinnu í brunavörnum, barnavernd og í úrgangsmálum. Huga þurfi að því að halda dreifingu starfseminnar um svæðið. Þá vakti hópurinn athygli á mismunandi skipulagi varðandi stjórnir samstarfverkefna og nefndi t.d. skólanefndir framhaldsskólana þar sem AFE tilnefnir í nefndir í skólanna í Eyjafirði en annað skipulag er annars staðar t.d. tilnefnir Eyþing í skólanefnd Laugaskóla. Einfaldara að samræma þetta og hafa tilnefningar í skólanefndir framhaldsskóla á könnu Eyþings.
Sátt var í hópnum með það ferli sem er í gangi varðandi samstarf framhaldsskólanna. Menningarmál eru í góðu horfi í dag. Símenntunarmál eru í góðum farvegi en nauðsynlegt að vera vakandi og bregðast við ef aðstæður breytast. Nokkur umræða var um Markaðsstofu Norðurlands og að sveitarfélög eigi ekki mann í stjórn.
Þá sagði Eiríkur óásættanlegt að starfsmaður Heilbrigðiseftirlitsins fái hótanir og senda þurfi skýr skilaboð um að það verði ekki liðið. Alltaf eigi að kæra þegar svo er. Að mati Eiríkis þurfa sveitarfélögin að vera Heilbrigðiseftirlitinu mikið og traust bakland.
7.2. Málefnahópur um velferðarmál
Steinunn María Sveinsdóttir, formaður
Logi Már Einarsson
Ásta Fönn Flosadóttir
Gunnlaugur Stefánsson
Elías Pétursson
Málefni:
Starfsemi Eyþings og samstarf stoðstofnana
Helstu samstarfsverkefni landshlutans
Öldrunarmál
Heilbrigðisþjónusta, þ.m.t. sálfræðiþjónusta
Málefni fatlaðra
Steinunn María Sveinsdóttir gerði grein fyrir umræðum innan hópsins.
Hópurinn gerði alvarlegar athugasemdir við hversu seint greinargerð um starfsemi Eyþings og stoðstofnana barst. Sveitarstjórnarfulltrúar fengu ekki tækifæri til að hafa samráð við sínar sveitarstjórnir um efni greinargerðarinnar. Þá gagnrýndi hópurinn að fulltrúaráð Eyþings hafi ekki verið kallað saman til að ræða skipurit Eyþings og skiptingu umsýslufjárhæðar Uppbyggingarsjóðs. Þá spurði Steinunn María út í bókun framkvæmdastjóra á stjórnina og lýsti yfir undrun sinni. Steinunn María hvatti fundarmenn til að vanda sig því það væri mikið undir og miklar breytingar í farvatninu. Fundarmenn þurfi að standa saman og tala einni röddu.
Að mati hópsins eru helstu samstarfsverkefni landshlutans samgöngumál, almenningssamgöngur, menntamál, svæðisskipulag og barnaverndarmál.
Verkefni innan öldrunarmála munu halda áfram að vaxa. Nauðsynlegt að Eyþing og sveitarfélögin standi saman í því að þrýsta á ríkið um meira fjármagn til stofnananna svo þær standi undir rekstrarkostnaði en einnig er nauðsynlegt að þrýsta á ríkið um að sinna fólki heima hjá sér eins lengi og hægt er.
Þá setti hópurinn fram hugmynd um átaksverkefni sem fæli í sér kostnaðargreiningu og lausnir til að fólk geti verið lengur heima, í samstarfi við ríkið.
Nauðsynlegt að fjármagna uppbyggingu grunnþjónustu í heimabyggð og tryggja fjármagn til Sjúkrahússins á Akureyri. Mikilvægt að tryggja að landsbyggðinni sé ekki mismunað þegar sækja þarf læknisþjónustu til Reykjavíkur eigi hátæknisjúkrahús að vera eingöngu þar.
Sálfræðiþjónusta þarf að vera tryggð bæði ungum og öldnum.
Hópurinn taldi að skoða ætti hvort hægt sé að samnýta ákveðna þætti í málefnum fatlaðra. Hópurinn hvatti stjórnina til að skoða þessi mál.
Að mati hópsins væri gott að auka samstarf í barnaverndarmálum. Það getur verið mjög erfitt að eiga við mál af þessu tagi vegna smæðar. Hópurinn gagnrýndi að fulltrúar í barnaverndarnefnd séu pólitískt skipaðir af sveitarstjórnum. Við skipun fólks í barnaverndarnefndir er nauðsynlegt að hafa einungis hæfni fólks í huga enda afar krefjandi starf. Hópurinn lagði mikla áherslu á að sveitarfélögin taki þetta alvarlega.
7.3. Málefnahópur um atvinnu- og umhverfismál
Dagbjört Jónsdóttir, formaður
Heiða Hilmarsdóttir
Eva Hrund Einarsdóttir
Böðvar Pétursson
Örlygur Hnefill Örlygsson
Málefni:
Starfsemi Eyþings og samstarf stoðstofnana
Helstu samstarfsverkefni landshlutans
Úrgangsmál
Brunavarnir
Atvinnuþróun og markaðsmál.
Þá mættu Sigmundur Einar Ófeigsson, framkvæmdarstjóri AFE og Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri AÞ á fund hópsins.
Dagbjört Jónsdóttir tók saman umræðu hópsins.
Flestir voru sammála um að vert væri að skoða sameiningu atvinnuþróunarfélaganna og Eyþings. Við þá skoðun væri mikilvægt að markmiðið yrði aukið samstarf, samvinna, skilvirkni, samlegðaráhrif sem skila ætti betri árangri fyrir sveitarfélögin.
Mikilvægt væri að hafa samtal um hvernig standa ætti að sameiningunni og gera það þannig að það skili betri árangri fyrir svæðið í heild og horft sé til ólíkra þarfa á hverju svæði fyrir sig.
Þá taldi hópurinn vert að hafa í huga að viðhalda góðu samstarfi milli Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna um uppbyggingarsjóð og nýta þá þekkingu sem félögin búa yfir.
Nefndarmenn voru sammála um ábendingar sem fram hafa komið um að breyta þurfi því að sami aðili leiðbeini við gerð umsókna og útdeili styrkjum.
Þá var rætt um mikilvægi þess að aðgerðarhluti sóknaráætlunar yrði einnig lagður fyrir fulltrúaráð Eyþings en ekki bara fyrir stjórn, það myndi veita aðhald og eftirfylgni.
Hópnum fannst mikilvægt að gera Eyþing mun sýnilegra en það er og einnig mætti efla fulltrúaráðið.
Hópurinn ræddi um samstarfsverkefni sem möguleg væru innan landshlutans t.d. úrgangsmál, brunavarnir, atvinnu- og markaðsmál. Mest var rætt um samstarf í brunavörnum. Hópurinn taldi tækifæri þar til sameiningar sérstaklega með tilkomu Vaðlaheiðaganga. Mikilvægt væri að tryggja raforku. Hópurinn ræddi um línulagnir og hversu mikilvægt væri að standa saman um að línur séu lagðar í jörðu.
Það eru mikil tækifæri í landshlutanum og mikilvægt að standa saman að stórum verkefnum en horfa líka til ólíkra þarfa hjá hverju sveitarfélagi fyrir sig. Mikilvægt að stoðstofnanir standi saman að verkefnum, Eyþing, atvinnuþróunarfélögin, og Markaðsstofa Norðurlands, til að vinna að hagsmunum og markaðsmálum fyrir svæðið. Megum ekki missa okkur í að keppast um of okkar á milli og missa þannig tækifærin og verkefnin í burtu af svæðinu. Verkefni eins og Vaðlaheiðargöng, Bakki, millilandaflugvöllur, sameiginlegt skipulag ferðaþjónustu, háskólinn, heilbrigðisstofnunin, almenningssamgöngur o.fl. Allt eru þetta miklir hagsmunir sem nýtast okkur öllum sameiginlega og Eyþing er vettvangur til samvinnu á þessum sviðum.
7.4. Málefnahópur um samgöngumál
Gunnar Gíslason, formaður
Gunnar I. Birgisson
Dagbjört Pálsdóttir
Sigurður Hlynur Snæbjörnsson
Sif Jóhannesdóttir
Málefni:
Starfsemi Eyþings og samstarf stoðstofnana
Helstu samstarfsverkefni landshlutans
Almenningssamgöngur og þ.m.t. þáttur sveitarfélaga
Hafnasamlög
Samgönguáætlun
Gunnar Gíslason greindi frá umræðum hópsins.
Rætt var um samstarf og/eða sameiningu Eyþings og stoðstofnana. Innan hópsins urðu nokkrar umræður um stöðu Markaðsskrifstofu Norðurlands í þessu mengi og komu fram hugmyndir um að sveitarfélögin ættu a.m.k. að eiga þar fulltrúa í stjórn. Einnig var rætt um skörun verkefna Markaðsstofunnar og atvinnuþróunarfélaganna. Ekki voru allir á eitt sáttir um að sameina bæri atvinnuþróunarfélögin og Eyþing undir eina stjórn til að auka samlegð og skilvirkni starfseminnar. Var óttast að slík stofnun kallaði á of mikla miðstýringu.
Hópurinn gagnrýndi lækkun umsýslufjárhæðar Uppbyggingarsjóðs til atvinnuþróunarfélaganna og hvernig staðið var að þeirri ákvörðun.
Mikil áhersla kom fram hjá hópnum á að komið verði á reglulegu millilandaflugi um Akureyri og að lokið verði við framkvæmdir við flughlaðið á Akureyrarflugvelli sem fyrst. Allir voru sammála um að líta beri á flug sem almenningssamgöngutæki og lögðu til að flug verði niðurgreitt fyrir íbúa og má þar líta til þess sem gert er í Skotlandi.
Lykilatriði fyrir áframhaldandi innanlandsflug og flugöryggi í landinu er að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni í Reykjavík verði óskertur frá því sem nú er þar til jafn góð eða betri lausn finnst.
Hópurinn taldi að þjónusta strætó væri nauðsynleg fyrir íbúa á svæðinu. Hins vegar þyrfti að leita hagkvæmari leiða til að reka þjónustuna og nauðsynlegt að geta notað app til að auðvelda notkun.
Ekki kom fram vilji til að sameina hafnasamlög en full ástæða til að eiga gott samstarf eftir því sem tækifæri gefast til. Umræða og samtal þurfa að eiga sér reglulega stað og nýta þarf tækifærin þegar og ef þau gefast.
Að mati hópsins er forsenda atvinnu og búsetu að hafa trygga og mikla flutningsgetu og öryggi varðandi netsamband um allt svæðið. Öflugt og tryggt netsamband er orðin ein af grunnforsendum lífsgæða í dag og gríðarlega mikilvægt fyrir alla atvinnustarfsemi. Það gefur einnig möguleika til búsetu óháð staðsetningu vegna atvinnu.
Þá lagði hópurinn áherslu á mikilvægi þess að inn í Samgönguáætlun verði sett fjármagn til að ljúka við uppbyggingu vega á Brekknaheiði og Langanesströnd og leggja á þá bundið slitlag.
7.5. Samantekt úr málefnavinnunni.
Arnór Benónýsson lýsti yfir ánægju sinni með umræðurnar sem áttu sér stað í málefnavinnunni og sagði að tilganginum á breyttri uppsetningu aðalfundar hefði að hluta til náðst. Hann sagðist taka til sín þá gagnrýni sem kom fram á vinnubrögð stjórnarinnar. Þá sagði Arnór að skýra þyrfti hvenær og í hvaða tilgangi ætti að kalla saman fulltrúaráð Eyþings. Kringumstæður hafa verið sérstakar á síðasta hluta þessa stjórnartímabils sem skýrir að hluta til hvernig staðið var að málunum. Stjórnin vildi koma fram með tillögur hvort sem þær teldust sanngjarnar eða ekki. Tillögur aðalfundar fara til stjórnar sem mun vinna úr þeim og kvaðst Arnór vera sannfærður um að Eyþing muni standa sterkara sem samstarfsgrundvöllur eftir þennan fund.
Kaffihlé kl. 11:00
7.6. Fjárhags- og stjórnsýslunefnd
Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður
Bjarni Th. Bjarnason
Sóley Björk Stefánsdóttir
Jón Stefánsson
Katý Bjarnadóttir
Siggeir Stefánsson
Málefni:
Ársreikningur 2015, ásamt endurskoðunarskýrslu.
Endurskoðuð fjárhagsáætlun 2016.
Fjárhagsáætlun 2017.
Tillögu að breytingu á lögum Eyþings.
Greinargerð um stjórnkerfi Eyþings.
Einnig störfuðu Ólafur Rúnar Ólafsson og Linda Margrét Sigurðardóttir með nefndinni.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson fór yfir umræður nefndarinnar.
Ársreikningur 2015 hefur legið lengi fyrir og var samþykktur af stjórn þann 27. júní sl. Miklar umræður spunnust um hann sérstaklega um meðferð á fé til almenningssamgangna. Pétur Þór upplýsti nefndina um að skuld við Vegagerðina stæði í um 63 milljónum kr. Gert er ráð fyrir að þegar í árslok 2016 verði farið að greiða niður þá skuld.
Nefndin lagði til að fundurinn samþykki ársreikning 2015
Guðmundur Baldvin fór yfir endurskoðaða fjárhagsáætlun 2016 og lagði nefndin til að hún yrði samþykkt af aðalfundi.
Guðmundur Baldvin fór yfir fjárhagsáætlun 2017. Gert er ráð fyrir að framlög sveitarfélaga hækki um 5%. Gert er ráð fyrir rúmum 10 milljóna kr. hagnaði af almenningssamgöngum og verður sá hagnaður notaður til að greiða niður skuld við Vegagerðina. Verkefni nýrrar stjórnar verður að leysa málin í lok samnings almenningssamgangna en hann rennur út í árslok 2018. Að mati Guðmundar Baldvins á ríkið að greiða fyrir almenningssamgöngur og ekki eðlilegt að Eyþing sitji uppi með tapið vegna reiknivillu í upphafi.
Nefndin lagði til að fjárhagsáætlun 2017 yrði samþykkt þrátt fyrir deilur um hvernig staðið var að ákvörðun varðandi umsýslufjárhæð Uppbyggingarsjóðs. Ný stjórn muni þurfa að taka upp viðræður við atvinnuþróunarfélögin.
Umræður:
Gunnari Gíslasyni fannst ótækt að fá í hendurnar fjárhagsáætlun sem byggð væri á samandregnum tölum og fá ekki upplýsingar um hvað liggur þeim að baki. Hann lagði til að framvegis fái allir aðalfundarfulltrúar senda sundurliðaða áætlun með skýringum. Hann ítrekaði niðurstöðu nefndarinnar um að stjórnin ræði sameiningu atvinnuþróunarfélagana og að fjárhagsáætlun 2017 verði samþykkt með fyrirvara um að hugsanlega verði framlög til atvinnuþróunarfélaganna vegna umsýslu Uppbyggingarsjóðs endurskoðuð.
Guðmundur Baldvin sagði sjálfsagt mál og eðlilegt að aðalfundarfulltrúar fái þessi gögn send og tekið verði tillit til þess fyrir næsta fund.
Eva Hrund bar eftirfarandi upp til samþykktar.
Ársreikning 2015
Samþykkt samhljóða
Fjárhagsáætlun 2016 endurskoðuð
Samþykkt samhljóða
Fjárhagsáætlun 2017 með fyrirvara um að stjórn taki til umræðu umsýslu Uppbyggingarsjóðs.
Samþykkt samhljóða
Tillaga stjórnar að breytingum á lögum Eyþings var lesin upp og er svohljóðandi:
5.1.
Stjórn Eyþings skal skipuð sjö mönnum. Kjósa skal sérstakan varamann fyrir hvern aðalmann í stjórn.
Aðalfundur kýs stjórn til tveggja ára í senn og skal formaður kosinn sérstaklega.
Stjórnin kýs varaformann úr sínum hópi. Í forföllum formanns stýrir varaformaður fundum stjórnar og gegnir formannsstörfum.
Stjórnin getur kosið ritara úr sínum hópi eða falið framkvæmdastjóra ritun fundargerða stjórnar.
Sá sem kjörinn hefur verið aðalmaður í stjórn í þrjú kjörtímabil í röð, þ.e. sex ár, er ekki kjörgengur til stjórnar næstu tvö ár. Formaður sem kjörinn hefur verið tvö kjörtímabil í röð, þ.e. fjögur ár, er ekki kjörgengur til formennsku næstu tvö árin.
Skýring:
Feitletrað ákvæði hér að ofan kemur í stað núgildandi ákvæðis sem hljóðar svo: „Stjórnin kýs varaformann og ritara úr sínum hópi og skiptir að öðru leyti með sér verkum“.
Ástæða er til að hafa hlutverk aðila skýrari en er í núgildandi ákvæði.
5.7.
Stjórn Eyþings ræður framkvæmdastjóra sem fer með umboð stjórnar, er forstöðumaður skrifstofu Eyþings, stjórnar henni og ber ábyrgð á daglegum rekstri samtakanna gagnvart stjórn. Framkvæmdastjóri er yfirmaður allra starfsmanna Eyþings og fer með mannaforráð. Framkvæmdastjóri á sæti á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétti.
Skýring:
Feitletrað ákvæði hér að ofan kemur í stað núgildandi ákvæðis sem hljóðar svo: „Stjórn Eyþings ræður framkvæmdastjóra og gerir við hann skriflegan ráðningarsamning. Sama á við um aðra fastráðna starfsmenn. Framkvæmdastjóri á sæti á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétti“.
Þörf er á að skýra og festa í sessi stöðu framkvæmdastjóra Eyþings þar sem óvissa hefur ríkt um hvort eða hvenær hann er yfirmaður allra starfsmanna Eyþings eða ekki.
Ákvæði til bráðabirgða verði fellt á brott þar sem ekki er þörf á því lengur:
Skýring:
Núgildandi ákvæði hljóðar svo: „Á aðalfundi 2013 verða þeir sem kosnir verða nýir í stjórn Eyþings kosnir til eins árs. Fulltrúaráð verður sömuleiðis kosið til eins árs.“
Þröstur Friðfinnsson sagði þessar tillögur bera þess merki að verið væri að leysa innri ágreining en tillögurnar hefðu enga merkingu og taldi þær óþarfar.
Sigurður Þór Guðmundsson tók undir það.
Tillaga um lagabreytingu borin til samþykktar
Samþykkt, einn á móti.
Guðmundur Baldvin gerði grein fyrir að honum hefði borist athugasemd, þó ekki frá aðalfundarfulltrúa, vegna setu einstaklings í stjórn Eyþings sem hættur er störfum fyrir sveitarfélag. Hvort ekki væri eðlilegt að viðkomandi hefði vikið úr stjórn Eyþings um leið og hann hætti störfum.
7.7. Tillögur frá kjörnefnd
Þröstur Friðfinnson formaður
Jóhanna Dögg Stefánsdóttir
Sigurður Þór Guðmundsson
Þröstur Friðfinnsson gerði grein fyrir niðurstöðum og tillögum nefndarinnar.
Nefndin lagði til að Enor ehf. yrði áfram endurskoðandi Eyþings.
Samþykkt samhljóða.
Þröstur sagði að nefndin teldi að samkvæmt lögum Eyþings væru eingöngu mættir aðalfulltrúar kjörgengir. Vegna þessara reglna og þeirri staðreynd að sveitarfélögin sendu ekki fleiri konur á fundinn væru ekki nema tvær konur í tillögu að stjórn. Sveitarfélögin ættu að taka þetta til sín og senda fleiri konur á aðalfund.
Þröstur beindi því til stjórnar Eyþings að endurskoða lögin með þetta í huga.
Þröstur bar tillögu nefndarinnar um stjórn upp til samþykktar, þar af formann sérstaklega.
Aðalmenn:
Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður Akureyri.
Samþykkt samhljóða
Eva Hrund Einarsdóttir, Akureyri.
Sif Jóhannesdóttir, Norðurþingi.
Eiríkur Haukur Hauksson, Svalbarðsstrandarhreppi.
Elías Pétursson, Langanesbyggð.
Gunnar I. Birgisson, Fjallabyggð.
Arnór Benónýsson, Þingeyjarsveit.
Samþykkt samhljóða.
Varamenn ( í sömu röð og aðalmenn):
Sigríður Huld Jónsdóttir, Akureyri.
Gunnar Gíslason, Akureyri.
Olga Gísladóttir, Norðurþingi.
Ásta Fönn Flosadóttir, Grýtubakkahreppi.
Sigurður Þór Guðmundsson, Svalbarðshreppi.
Heiða Hilmarsdóttir, Dalvíkurbyggð.
Yngvi Ragnar Kristjánsson, Skútustaðahreppi.
Samþykkt samhljóða.
7.8. Ákvörðun um fundarstað næsta aðalfundar.
Steinunn María Sveinsdóttir tók til máls og bauð alla velkomna til Fjallabyggðar á næsta ári.
Fundarmenn samþykktu það með lófaklappi.
7.8. Önnur mál
Karl Frímannsson brást við málflutningi og gagnrýni Steinunnar Maríu (sjá kafla 7.2). Hann sagði að stjórnarmenn væru búnir að gangast við því að starfshættir í stjórn hafi ekki verið eins og skildi. Greinagerð um starfsemi Eyþings og stoðstofnana var tekin fyrir hjá stjórn þann 22. september en ekki birt sem fylgiskjal á heimasíðunni. Innan stjórnsýslu Eyþings hafi verið ákveðinn hlutverkaruglingur sem markaðist af því að þegar menningarfulltrúi var ráðinn 2007 var næsti yfirmaður hans, formaður menningarráðs, en ekki framkvæmdarstjóri. Þegar sóknaráætlun var undirrituð blasti það við að það yrði að breytast, það hafi tekið tíma sem hefur valdið hlutverkaruglingi og óöryggi sem skýrir bókun framkvæmdastjóra sem áður var nefnd. Áherslan er á að stjórnsýslan geti verið örugg og með ákveðnum hætti framvegis.
Karl ítrekaði að það væri ekki verið að staðfesta nýtt skipurit, heldur væri verið að hnykkja á því skipuriti sem var samþykkt á aðalfundi 2013. Hvað varðar atvinnuþróunarfélögin þá hafi aldrei komið fram tillaga um að sameina eitt né neitt. Þá sagði hann að sá ágreiningur og órói sem uppi væri stafaði af ákvörðun stjórnar um að draga úr vinnu atvinnuþróunarfélaganna vegna umsýslu á uppbyggingarsjóði og framlögum til þeirra. Að mati Karls væri það eðlilegt að farið yrði yfir þá ákvörðun. Það væri þó á ábyrgð stjórnar Eyþings að reka uppbyggingarsjóðinn ekki með tapi, hvernig sem það væri gert.
Þröstur Friðfinnsson sagði töluverða gagnrýni hafi komið fram og tók undir margt. Hann þakkaði fyrir breytingar á aðalfundarformi. Þá sagði hann að samstarf á svæðinu væri misvísandi og brotakennt. Það lægi að hluta til í kjördæmaskipaninni, sumt samstarf væri þvert á allt kjördæmið en annað ekki. Svæði Eyþings nær yfir Norðurland eystra, Markaðsstofan nær yfir Norðurland í heild og svo eru aðskilin atvinnuþróunarfélög sem eru á mismunandi formi. Að mati Þrastar liggur vandinn í þessum flækjustigum. Þröstur velti upp hvort þriðja stjórnsýslustigið væri valkostur. Þá væri samstarf á fyrirframgefnum svæðum af hæfilegri stærðargráðu. Þriðja stjórnsýslustigið gæti verið góð lausn til að færa hluta af verkefnum nær okkur og önnur verkefni fjær.
Ólafur Rúnar Ólafsson þakkaði fyrir móttökurnar í Langanesbyggð. Hann sagði að umræða um samskipti og hlutverkaskipti milli Eyþings og atvinnuþróunarfélagana væri mikilvæg. Hann lagði fram eftirfarandi tillögu við aðalfund.
Aðalfundur Eyþings samþykkir að fela stjórn að kanna kosti og galla sameiningar Eyþings, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar.
Hann beindi því til stjórnar að niðurstöður af vinnu stjórnar og tillögur myndu liggja fyrir í sumarbyrjun og yrðu kynntar í fulltrúaráði tímalega fyrir aðalfund Eyþings árið 2017.
Gunnar Gíslason fagnaði þessari tillögu. Hann þakkaði Þresti fyrir að nefna þriðja stjórnsýslustigið. Hins vegar telur hann að það sé það versta sem hægt væri að gera. Norðurland eystra væri fámennt svæði og að búa til þriðja stjórnsýslustigið til að viðhalda kerfi sem getur ekki staðist til lengdar væri ekki gott. Hann sagðist hafa snúist í afstöðu sinni gegn sameiningum sveitarfélaga. Það væru til margar leiðir til að takast á við stjórnun sveitarfélags sem næði yfir stórt svæði. Hann hvatti stjórn Eyþings til að standa fyrir fundum á næsta ári um það hvernig hægt væri að halda samstarfi áfram.
Sigurlaug Hanna Leifsdóttir lýsti yfir ánægju sinni með nýtt fyrirkomulag aðalfundarins. Hún taldi að allir starfsmenn Eyþings ættu að mæta á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga og alla þá fundi sem væru brýnir fyrir starfsemina. Hún ítrekaði þá hugmynd sem kom fram í málefnahóp um mennta- og menningarmál að Eyþing myndi bjóða nýkjörnum fulltrúum í samtal til að auka skilning á starfseminni og efla umræðuna sem fram ætti að fara í sveitarfélögunum. Einnig benti hún á að ekkert væri fjallað á handverk og menntun í handverki í aðgerðaráætlun sem er viðauki I með Sóknaráætlun. Þá benti Sigurlaug á að fundargerðir stjórnar væru að berast sveitarfélögum seint og brýndi fyrir stjórn og framkvæmdastjóra að setja fundargerðir inn mun fyrr. Þá velti hún upp þeirri hugmynd hvort Eyþing ætti að vera með fjölmiðlafulltrúa sem væri tilbúinn að svara og bregðast við með faglegum hætti út á við.
Sif Jóhannesdóttir taldi að umræðan á aðalfundinum væri sú að sameining atvinnuþróunarfélaga væri ekki forgangsverkefni. Hún sagði að verkefni stjórnar væru næg og nefndi þar svæðisskipulag fyrir ferðaþjónustu og innra starf. Í umræðunni um Uppbyggingarsjóð hefur verið talað út frá þeirri tölu sem ríkið ákvað okkur eða 9 milljónir. Að mati Sifjar ætti að berjast fyrir því að Eyþingi verði heimilt að taka þá fjárhæð sem þarf til að halda því fyrirkomulagi sem hentar Eyþingi best.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson þakkaði fyrir það traust sem honum hafði verið sýnt sem nýkjörinn formaður Eyþings. Hann þakkaði Langanesbyggð fyrir móttökuna. Guðmundur Baldvin sagði ýmislegt hafa komið fram á fundinum sem verður verkefni nýrrar stjórnar t.d. sameining atvinnuþróunarfélaga. Nauðsynlegt sé að setja fram kosti og galla þeirrar tillögu svo hægt verði að taka meðvitaða ákvörðun um hvernig haga skuli þeim málin. Ýmsu þarf að breyta sem varðar innra starf og upplýsingargjöf til fulltrúa. Einnig þarf að skapa traust milli stjórnar og starfsmanna. Það eru mikilvæg mál framundan. Guðmundur tók undir með kjörnefnd hversu slæmt það sé að hafa ekki kynjajafnvægi í stjórninni en hét því að vinna sem áður á jafnréttisgrundvelli. Guðmundur þakkaði fráfarandi stjórnarmönnum fyrir þeirra ágætu störf og lýsti ánægju með uppsetningu aðalfundarins.
Eva Hrund bar tillögu Ólafs Rúnars Ólafssonar upp til samþykktar. Hún var samþykkt með 7 mótatkvæðum.
Fundarhlé kl. 11:40
Stjórn Eyþings setti fram eina sameiginlega ályktun sem tók til nokkurra lykilmála. Arnór Benónýsson kynnti hana.
Ábendingar komu fram frá eftirtöldum: Siggeiri Stefánssyni, Gunnlaugi Stefánssyni, Gunnari I. Birgissyni og Gunnari Gíslasyni
Samþykkt var að bæta ábendingum þeirra inn í ályktunina.
Hádegisverður kl. 12:00
8. Samtal við þingmenn NA- kjördæmis
Þingmennirnir Bjarkey Gunnarsdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Steingrímur Sigfússon og Þórunn Egilsdóttir sátu fyrir svörum. Aðrir þingmenn höfðu boðað forföll. Sigríður Ólafsdóttir markþjálfi og viðskiptastjóri hjá Gallup stýrði umræðum.
Fyrirspurnir um eftirfarandi komu fram:
- Um sérfræðiþjónustu á sviði heilbrigðismála og kostnað fólks á landsbyggðinni vegna hennar.
- Hvort auka ætti aðkomu sveitarfélaga að ákvörðunum í samgöngumálum í gegnum Eyþing.
- Um flutning og dreifingaröryggi raforku og lagaumhverfi vegna framkvæmdaleyfa.
- Hvaða skoðun þingmenn höfðu á því að hrinda af stað átaki í sameiningu sveitarfélaga.
- Hvort þingmenn töldu koma til greina að byggja upp þriðja stjórnsýslustig?
- Hvaða verkefni þingmenn sáu fyrir sér að verði flutt næst til sveitarfélaga?
- Hvort þingmenn væru sammála núverandi sjávarútvegskerfi óbreyttu, ef ekki hverju myndu þeir vilja breyta?
- Hvort þingmenn væru sammála landbúnaðarsamningnum sem var nýlega samþykktur, ef ekki hverju myndu þeir vilja breyta?
- Hver staðan væri á nýrri legudeild við Sjúkrahúsið á Akureyri?
- Um tekjuöflun sveitarfélaga.
- Um skiptingu tekna af ferðamönnum.
Eva Hrund þakkaði Sigríði Ólafsdóttur og þingmönnunum fyrir svör sín.
Eva Hrund þakkaði Langanesbyggð fyrir að taka vel á móti fundarmönnum og gaf Elíasi orðið.
Hann þakkaði Evu Hrund fyrir fundarstjórnina sem var mest í hennar höndum. Hann þakkaði öllum fyrir komuna og sagði fundi slitið.
Fundi slitið kl. 14:15.
Á Þórshöfn ég göturnar þræði um kvöld
þyngist við hvert nei mín lund
Eins og trésmiður forðum á fyrstu öld
sem í fjárhúsi hírðist um stund
Hroll að mér setur mér er hreint ekki rótt
háskaleg nóttin og dimm
á lögreglustöðinni ligg ég í nótt
læstur í herbergi fimm Böðvar Pétursson á aðalfundi Eyþings 2016.
Fyrirlesarar:
Anna Lóa Ólafsdóttir, verkefnastjóri og ráðgjafi hjá Símey.
Skráðir gestir:
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, alþingismaður Norðausturkjördæmis.
Hulda Kristín Baldursdóttir, sveitarstjórnarmaður Langanesbyggð.
Karl Frímannsson, stjórnarmaður í Eyþingi.
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra og alþingismaður Norðausturkjördæmis.
Sigmundur Einar Ófeigsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar.
Steingrímur J. Sigfússon, alþingismaður Norðausturkjördæmis.
Ólafur Rúnar Ólafsson, sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar.
Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga
Þorsteinn Ægir Egilsson, sveitarstjórnarmaður Langanesbyggð.
Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður Norðausturkjördæmis.
Starfsmenn og embættismenn:
Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.
Linda Margrét Sigurðardóttir, verkefnastjóri Eyþing.
Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings.
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, menningarfulltrúi Eyþings.
Sigríður Ólafsdóttir, markþjálfi og viðskiptastjóri hjá Gallup.
Mætingarlisti 2016
Sveitarfélag |
|
Aðalfulltrúar |
|
Varafulltrúar |
Fjallabyggð |
X |
Gunnar I Birgisson |
|
Kristinn Kristjánsson |
Fjallabyggð |
X |
Steinunn M Sveinsdóttir |
|
Hilmar Elefsen |
Fjallabyggð |
|
S. Guðrún Hauksdóttir |
|
Helga Helgadóttir |
Fjallabyggð |
|
Sólrún Júlíusdóttir |
|
Jón Valgeir Baldursson |
Dalvíkurbyggð |
X |
Heiða Hilmarsdóttir |
|
Íris Hauksdóttir |
Dalvíkurbyggð |
X |
Bjarni Th. Bjarnason |
|
Pétur Sigurðsson |
Dalvíkurbyggð |
|
Lilja Björk Ólafsdóttir |
|
Gunnþór E Gunnþórsson |
Dalvíkurbyggð |
|
Kristján E Hjartarson |
|
Valdís Guðbrandsdóttir |
Hörgársveit |
X |
Snorri Finnlaugsson |
|
Axel Grettisson |
Hörgársveit |
|
Jón Þór Benediktsson |
|
Ásrún Árnadóttir |
Akureyrarbær |
|
Sigríður Huld Jónsdóttir |
X |
Dagbjört Pálsdóttir |
Akureyrarbær |
|
Matthías Rögnvaldsson |
|
Anna Hildur Guðmundsdóttir |
Akureyrarbær |
|
Silja Dögg Baldursdóttir |
|
Víðir Benediktsson |
Akureyrarbær |
X |
Guðmundur B. Guðmundsson |
|
Siguróli Magni Sigurðsson |
Akureyrarbær |
|
Ingibjörg Ólöf Isaksen |
|
Halldóra Kristín Hauksdóttir |
Akureyrarbær |
X |
Logi Már Einarsson |
|
Ólína Freysteinsdóttir |
Akureyrarbær |
X |
Gunnar Gíslason |
X |
Njáll Trausti Friðbertsson |
Akureyrarbær |
X |
Eva Hrund Einarsdóttir |
|
Bergþóra Þórhallsdóttir |
Akureyrarbær |
|
Preben Jón Pétursson |
X |
Sóley Björk Stefánsdóttir |
Eyjafjarðarsveit |
X |
Jón Stefánsson |
|
Hólmgeir Karlsson |
Eyjafjarðarsveit |
X |
Jóhanna Dögg Stefánsdóttir |
|
Halldóra Magnúsdóttir |
Eyjafjarðarsveit |
X |
Sigurlaug Hanna Leifsdóttir |
|
Kristín Kolbeinsdóttir |
Svalbarðsstrandarhr. |
X |
Eiríkur H Hauksson |
|
Halldór Jóhannesson |
Svalbarðsstrandarhr. |
|
Valtýr Hreiðarsson |
|
Ólafur Rúnar Ólafsson |
Grýtubakkahreppur |
X |
Þröstur Friðfinnsson |
|
Fjóla Valborg Stefánsdóttir |
Grýtubakkahreppur |
X |
Ásta Fönn Flosadóttir |
|
Sigurbjörn Jakobsson |
Þingeyjarsveit |
X |
Arnór Benónýsson |
|
Árni Pétur Hilmarsson |
Þingeyjarsveit |
|
Margrét Bjarnadóttir |
X |
Dagbjört Jónsdóttir |
Þingeyjarsveit |
|
Ragnar Bjarnason |
X |
Sigurður H. Snæbjörnsson |
Skútustaðahreppur |
|
Yngvi Ragnar Kristjánsson |
|
Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir |
Skútustaðahreppur |
X |
Böðvar Pétursson |
|
Guðrún Brynleifsdóttir |
Norðurþing |
X |
Sif Jóhannesdóttir |
|
Óli Halldórsson |
Norðurþing |
X |
Örlygur Hnefill Örlygsson |
|
Kristján Þór Magnússon |
Norðurþing |
X |
Gunnlaugur Stefánsson |
|
Soffía Helgadóttir |
Norðurþing |
|
Jónas Einarsson |
|
Kjartan Páll Þórarinsson |
Norðurþing |
X |
Olga Gísladóttir |
|
Friðrík Sigurðsson |
Tjörneshreppur |
X |
Katý Bjarnadóttir |
|
Sveinn Egilsson |
Svalbarðshreppur |
X |
Sigurður Þór Guðmundsson |
|
Sigurður Jens Sverrisson |
Langanesbyggð |
X |
Elías Pétursson |
|
Þorsteinn Ægir Egilsson |
Langanesbyggð |
X |
Siggeir Stefánsson |
|
Halldóra J. Friðbergsdóttir |
Rétt til setu á aðalfundinum 2016 áttu 40 kjörnir fulltrúar, sjá ofangreinda töflu. Alls mættu 30 fulltrúar frá 13 sveitarfélögum.