Fundargerð - Aðalfundur 2014
Aðalfundur Eyþings 2014
Haldinn á Narfastöðum í Þingeyjarsveit
3. og 4. október 2014
Fundargerð
Föstudagur 3. október
1. Fundarsetning kl. 13:00.
Formaður Eyþings, Geir Kristinn Aðalsteinsson, setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Hann minntist fyrri funda og nefndi vel valin dæmi úr félagslífinu, enda væri mikilvægt að saman færu gaman og alvara. Að þessu sinni væru ferðamálin fyrirferðarmest.
Hann lagði til að Dagbjört Jónsdóttir og Margrét Bjarnadóttir yrðu fundarstjórar og var það samþykkt samhljóða.
1.1. Starfsmenn þingsins og kjörnefnd.
Fundarstjórar lögðu eftirfarandi til um starfsmenn þingsins og kjörnefnd:
Ritarar:
Yngvi Ragnar Kristjánsson, Skútustaðahreppi.
Þröstur Friðfinnsson, Grýtubakkahreppi.
Samþykkt samhljóða.
Kjörnefnd:
Arnór Benónýsson, Þingeyjarsveit, formaður.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Akureyri.
Steinunn M. Sveinsdóttir, Fjallabyggð.
Samþykkt samhljóða.
Ráðinn fundarritari:
Valtýr Sigurbjarnarson, Akureyri.
Yfirumsjón:
Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings.
1.2. Skýrsla stjórnar.
Geir Kristinn Aðalsteinsson, formaður Eyþings, flutti skýrslu stjórnar sem lögð hafði verið fyrir aðalfundarfulltrúa sem fundarskjal og fram kom að hún myndi fylgja með fundargerð aðalfundarins. Hann greindi frá hverjir hefðu skipað stjórn starfsárið 2013-2014 og hvaða nefndir ráð og starfshópar hefðu verið starfandi, alls 11 talsins. Stjórnin hélt á starfsárinu 12 bókaða stjórnarfundi og tók til afgreiðslu um 180 mál. Starfsemi samtakanna hefur verið að taka breytingum og verður sífellt umfangsmeiri. Geir Kristinn vakti athygli á að í fundargerðum stjórnar, og nú einnig fundargerðum fulltrúaráðs, er að öllu jöfnu gerð ítarleg grein fyrir þeim málum sem eru til umfjöllunar.
Fyrir liggur að mikil breyting mun verða á stjórn þar sem fjórir af sjö stjórnarmönnum eru ekki lengur í hópi kjörinna fulltrúa og munu hætta störfum að sveitarstjórnarmálum, a.m.k. að sinni.
Stjórn Eyþings skipar eða tilnefnir fulltrúa í nokkrar nefndir, ráð og starfshópa, s.s.:
Skólanefnd Framhaldsskólans á Laugum, Vinnumarkaðsráð Norðurlands eystra, nefnd um almenningssamgöngur, fjallskila- og markanefnd í Eyjafirði, samráðsvettvang um landsskipulagsstefnu, vatnasvæðisnefnd (svæði 2), samráðshóp um gerð framkvæmda-áætlunar fyrir félagsmálasjóð Evrópu (ESF), Minjaráð Norðurlands eystra, Norðurslóðanet Íslands, starfshóp til að fara yfir stöðu breiðbandsvæðingar og svæðisbundinn samráðshóp um kortlagningu auðlinda í ferðaþjónustu á Íslandi.
Þá gerði Geir Kristinn grein fyrir helstu verkefnum:
Sóknaráætlun Norðurlands eystra og ný skipan byggðaþróunarverkefna.
Mikil óvissa ríkti lengi vel um framhald sóknaráætlunar, bæði fjármagn og skipulag. Formenn og framkvæmdastjórar voru loks boðaðir til fundar með stýrihópi Stjórnarráðsins þann 11. apríl. Þar kom fram að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem ráðherra byggðamála, hefði tekið við ábyrgð verkefnisins. Þar með færðist einnig formennska í stýrihópi Stjórnarráðsins frá innanríkisráðuneytinu. Í maí var síðan undirritaður samningur um framlög til byggðaþróunar á Norðurlandi eystra árið 2014. Í samningnum felst umsjón og ábyrgð Eyþings á framkvæmd verkefna í sóknaráætlun landshlutans og umsjón og ábyrgð á úthlutun á framlagi ríkisins til eflingar atvinnulífs í landshlutanum, svonefndum vaxtarsamnings-fjármunum.
Almenningssamgöngur.
Líkt og fram kom fyrir ári síðan hefur ekkert verkefni tekið jafn mikið á í starfi Eyþings og almenningssamgöngur. Mestu skipta nú væntingar um að loks fari að rofa til. Með bréfi 30. apríl sagði stjórnin verkefninu upp f.o.m 1. júlí og óskaði eftir yfirtöku Vegagerðarinnar á samningum við verktaka. Þetta var gert í samræmi við vilja fulltrúaráðs og á þeim grunni að verkefninu væri sjálfhætt hjá Eyþingi vegna hallareksturs. Vegagerðin féllst ekki á uppsögnina með vísan til samninga en jafnframt kom fram að Vegagerðin mundi sjá til þess að Eyþing gæti staðið við sínar skuldbindingar meðan unnið væri að lausnum. Rétt er að taka fram að þó hægt hafi gengið hafa fulltrúar Eyþings allsstaðar mætt velvilja og átt mjög gott samstarf við vegamálastjóra, innanríkisráðuneyti og Strætó bs.
Vaðlaheiðargöng.
Eitt stærsta hagsmunamál landshlutans sem unnið hefur verið að á vettvangi Eyþings er undirbúningur að gerð Vaðalheiðarganga. Sú vegferð hófst með formlegum hætti árið 2002 þó framkvæmdir hæfust ekki fyrr en á síðasta ári.
Menningarsamningurinn.
Menningarsamningur rann út um síðustu áramót. Verulegur dráttur varð á að gengið yrði frá nýjum samningi vegna þess hve dróst að fá svar um þátttöku atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis í samningnum vegna menningartengdrar ferðaþjónustu. Samningur fyrir árið 2014 var loks undirritaður í maí. Veittar eru 35.471 þús. kr. til samningsins frá ríki og að meðtöldu framlagi til stofn- og rekstrarstyrkja.
Skipulag Eyþings
Á aðalfundi í fyrra voru gerðar breytingar á lögum Eyþings sem miðuðu að því að tryggja virkari aðkomu kjörinna fulltrúa og allra sveitarfélaganna að starfi Eyþings. Breytingarnar sem samþykktar voru fólu annars vegar í sér fjölgun úr fimm í sjö manna stjórn og hins vegar að sett yrði á fót 20 manna fulltrúaráð sem fengi til kynningar og umfjöllunar mikilvæg mál sem koma á borð stjórnar og varða hagsmuni sveitarfélaganna og landshlutans.
Ýmsir fundir og verkefni
Framkvæmdastjóri, og einnig formaður í mörgum tilvikum, hefur sótt ýmsa fundi og viðburði fyrir samtökin auk þeirra sem tengjast einstökum málum sem getið er hér í skýrslunni. Nefna má fjármálaráðstefnu, ársfund Jöfnunarsjóðs, ársfund Byggðastofnunar, málþing um Ísland á Norðurslóðum, málþing um úrgangsmál, málþing um flugmál, málþing um samfélagshönnun og málþing um sjálfbæra orku sem haldið var með aðild Eyþings.
Samstarf við þingmenn
Stjórn og framkvæmdastjóri hafa að venju átt margháttað samstarf við þingmenn Norðausturkjördæmis um ýmis málefni landshlutans.
Aðsend þingmál
Á dagskrá stjórnar komu 46 þingmál til umsagnar. Reynt hefur verið að hafa samráð við Samband ísl. sveitarfélaga og veitti stjórnin aðeins í undantekningartilvikum beina umsögn.
Samstarf við ráðuneyti sveitarstjórnarmála, Samband ísl. sveitarfélaga og við önnur landshlutasamtök.
Náið samstarf var við innanríkisráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og stýrihóp Stjórnarráðsins á síðasta starfsári og sama á við um Samband ísl. sveitarfélaga og landshlutasamtökin.
Nýtt aðsetur
Þann 31. janúar sl. flutti Eyþing að Hafnarstræti 91 (3. hæð) á Akureyri eftir miklar endurbætur á húsnæðinu. Ásamt Eyþingi fluttu þar inn nokkrar fleiri stofnanir sveitarfélaga og ríkis, þ.e. Markaðsstofa Norðurlands, Vaðlaheiðargöng hf., Ferðamálastofa og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Aðalfundur Eyþings 2014
Kjörnir fulltrúar á aðalfundi Eyþings eru 40 talsins úr 13 sveitarfélögum með alls 29.080 íbúa þann 1. desember 2013. Sveitarfélögin eru sjö í Eyjafirði og sex austan Vaðlaheiðar. Að þessu sinni er gríðarleg endurnýjun í hópi aðalfundarfulltrúa, en 75% fulltrúa koma nú inn nýir. Konur í hópi fulltrúa eru 17 talsins, eða 42,5%.
Stjórn og framkvæmdastjóri Eyþings þakka sveitarstjórnarmönnum og starfsmönnum sveitarfélaga á starfssvæði sínu gott samstarf á liðnu starfsári og væntir góðs samstarfs við þá sveitarstjórnarmenn sem tekið hafa að sér að leiða hagsmuni landshlutans í þeim krefjandi verkefnum sem samtökin, og þar með sveitarfélögin, þurfa að takast á við.
Í lokin þakkaði Geir Kristinn fyrir gott samstarf í stjórn Eyþings og við framkvæmdastjóra og fjölda sveitarstjórnarmanna.
(GKA lauk máli sínu kl. 13:37).
Enginn kvaddi sér hljóðs um skýrslu stjórnar.
1.3. Ársreikningur og fjárhagsáætlun.
Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings gerði grein fyrir helstu atriðum í ársreikningi. Það væri alveg nýtt að sjá hallarekstur þó í fyrra hefði verið svolítið tap. Neikvætt eigið fé hefði aldrei áður sést í ársreikningi Eyþings, en það mætti að mestu rekja til verkefnis í almennings-samgöngum og lífeyrisskuldbindinga, eins og fram kæmi í skýringum 5, 6 og 8. Þá greindi Pétur Þór einnig frá fjárhagsáætlun og að gert væri ráð fyrir viðbótarstarfsmanni í 62,5% stöðuhlutfalli (5 klst. á dag). Venju samkvæmt yrði nú aðeins stutt yfirferð, enda nánar fjallað um skýrslu stjórnar, ársreikning og fjárhagsáætlun í fjárhags- og stjórnsýslunefnd.
Helstu niðurstöður ársreiknings eru þessar:
Rekstrarreikningur 2013
Rekstrartekjur 250.867.434
Rekstrargjöld 292.405.089
Rekstrarniðurstaða án fjármagnsliða (41.537.655)
Fjármunatekjur 1.412.417
Rekstrarniðurstaða ársins (40.125.238)
Efnahagsreikningur 31. des. 2013
Áhættufjármunir 2.325.436
Veltufjármunir 86.743.924
Eignir samtals 89.069.360
Eigið fé (34.470.309)
Lífeyrisskuldbindingar 17.078.779
Skammtímaskuldir 106.460.891
Eigið fé og skuldir samtals 89.069.360
Endurskoðuð fjárhagsáætlun fyrir árið 2014 og fjárhagsáætlun 2015.
Pétur Þór Jónasson lagði fram tillögu að fjárhagsáætlun 2015. Framsetning áætlunarinnar er verulega breytt frá árinu á undan að því leyti að hún sýnir nú áætlaða heildarveltu samtakanna. Ekki var lögð fram tillaga að endurskoðaðri áætlun 2014. Undir dagskrárlið um menningarráð er sérstaklega gerð grein fyrir fjárhagsáætlun menningarráðs sem er hluti heildaráætlunar.
Áætlun 2014 (þkr) Áætlun 2015 (þkr)
Rekstrartekjur 28.475 283.041
Rekstrargjöld 28.975 283.541
Rekstrarniðurstaða án fjármagnsliða (500) (500)
Fjármagnstekjur og (fjármagnsgjöld) 500 500
Hagnaður (Halli) 0 0
Fundarstjóri lagði til að ársreikningi og áætlun yrði vísað til fjárhags- og stjórnsýslunefndar.
Samþykkt samhljóða. (Dagskrárlið lokið kl. 13:46).
2. Viðbrögð sveitarfélaga og landshlutans í ört vaxandi ferðaþjónustu.
Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.
Arnheiður greindi frá því að innan vébanda Markaðsstofu Norðurlands væru 170 samstarfs-fyrirtæki og 19 sveitarfélög. Starfsemin snérist um kynnisferðir fyrir erlenda og innlenda ferðaskipuleggjendur, blaðamannaheimsóknir og þjónustu við blaðamenn, nýsköpun og vöruþróun, sýningar og fyrirtækjastefnumót og söluferðir, vefmál og almenna markaðs-setningu.
Þá fjallaði hún um vöxt í ferðaþjónustu, bæði frá árinu 2000 (302.900) til ársins 2013 (807.300) og milli fyrstu átta mánaða árin 2013 og 2014. Einnig sagði hún frá fjölgun gistinátta á hótelum eftir landshlutum árin 2011-2013 og hvernig aukningin hefði verið yfir vetrarmánuðina (september-apríl) eftir þjóðernum sömu ár.
Næst nefndi Arnheiður nokkrar tölur fyrir Norðurland. Sumarið væri ennþá yfirgnæfandi með 80% af gestakomum. 44% dvelja í 3-4 nætur en 35% í eina til tvær nætur. 2012 hefði heildarfjöldi gesta verið 203 þúsund og gistinætur erlendra gesta verið 94 þúsund, en 2013 hefðu samsvarandi tölur verið 220 þúsund og 114 þúsund. Á Norðurlandi væru 25 hótel, 65 gistiheimili, um 70 sumarhús, íbúðir og farfuglaheimili, um 100 veitingastaðir, kaffihús og skyndibitastaðir. Hlíðarfjall væri vinsælasta skíðasvæði landsins og Jarðböðin við Mývatn hefðu einnig mjög mikið aðdráttarafl.
Arnheiður sýndi myndir af hlutdeild landshluta í gistinóttum á háönn og utan hennar og hvaða svæði og staðir væru mest heimsóttir, jafnframt því að gera grein fyrir helstu þáttum afþreyingar á Norðurlandi. Fram kom að dvöl vetrargesta á Íslandi er að miklu leyti bundin við höfuðborgarsvæðið.
Mikilvægt er að sveitarfélög tryggi aðstöðu svo sem sundlaugar, söfn, útsýnispalla, skilti og merkingar. Þá þarf þjónusta við ferðamenn að vera til staðar og þeim er m.a. sinnt af viðburðastofum, markaðsstofum og upplýsingamiðstöðvum. Samgöngur skipta að sjálfsögðu afar miklu máli, ferðamannavegir, snjómokstur og almenningssamgöngur milli svæða og innan.
Að lokum fjallaði Arnheiður um flugklasann Air 66N. Markmiðið væri að koma á reglulegu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll allt árið. Þar væru forgangsverkefnin sameiginleg og öflug markaðssetning, þróun og kynning á þjónustupökkum og að bæta innviði og aðgengi, þannig að unnt væri að dreifa vaxandi ferðamannastraumi betur um landið.
(AJ lauk erindi sínu kl. 14:15).
3. Áhrif ferðaþjónustu á uppbyggingu sveitarfélaga, eða öfugt.
Jón Óskar Pétursson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps.
Jón Óskar sagði að vissulega væru ýmsir kostir samfara mikilli ferðaþjónustu í sveitarfélagi eins og Skútustaðahreppi og áhrifin mikil. Ný atvinnutækifæri verða til og nýting staðbundinna auðlinda s.s. náttúru og sögu eru augljós. Jafnframt eykst fjárfesting í fasteignum og öðrum innviðum og þjónustustig hækkar.
Beinar tekjur sveitarfélaga af ferðamönnum eru þó takmarkaðar. Fyrst og fremst eru þær í gegnum hefðbundna tekjustofna. Fjölgun starfa leiðir af sér hærra útsvar og fleiri hótel skila hærri fasteignagjöldum. Þá má nefna selda þjónustu svo sem í sundlaug og sum sveitarfélög hafa tekjur af komu skemmtiferðaskipa í gegnum hafnargjöld.
Næst ræddi Jón Óskar um reiknuð ársverk eftir atvinnugreinum í Skútustaðahreppi árin 2006 til 2012. Mikil aukning hefur orðið í ferðaþjónustu meðan aðrar atvinnugreinar eru nálægt því að standa í stað. Árstíðasveiflur eru afar miklar og það veldur vandræðum. Húsnæðisskortur er yfir sumarið, m.a. af því að fá þarf margt aðkomufólk í tímabundna vinnu.
Síðan fjallaði Jón Óskar um helstu áskoranir sem þyrfti að takast á við. Of lítill hluti „local“ veltunnar skilaði sér í sveitarsjóð og spurning hvernig mögulegt væri að breyta því. Árstíðabundin sveifla í vinnuaflsþörf væri mikil. Starfsmenn eiga ekki lögheimili í því sveitarfélagi þar sem þeir vinna og því skilar útsvarið sér ekki. Álag á innviði og íbúa s.s. varðandi verslun er mikið og erfitt að þjóna mestu toppunum. Einnig er mikil tímabundin aðsókn í suma þjónustu sveitarfélagsins vegna starfsfólks í ferðaþjónustu, t.d. leikskóla. Uppbygging og viðhald samgöngumannvirkja kostar mikið og upp koma spurningar um innheimtu og verkaskiptingu hins opinbera og einkaaðila. Þar má t.d. nefna gríðarlegan kostnað vegna sorpmála.
Í lokin nefndi Jón Óskar nokkrar úrbætur sem hann telur brýnar. Hluti af „local“ veltu þarf að skila sér í sveitarsjóði. Spurning hvernig það mætti gerast. Hlutdeild í virðisaukaskatti? Útsvar sumarstarfsmanna ætti að skila sér að einhverju leyti til viðkomandi sveitarfélags. Þá mætti nefna gjaldtöku af þjónustu sem nú er mikið til umræðu og nauðsynlegt er að skapa sátt meðal íbúa um þessi mál. Síðast en ekki síst þarf að vinna vel að stefnumótun til framtíðar.
(JÓP lauk erindi sínu kl. 14:35).
4. Betri samgöngur - ferðaþjónustan.
Njáll Trausti Friðbertsson, flugumferðarstjóri, viðskiptafræðingur og bæjarfulltrúi.
Njáll Trausti byrjaði á því að fara aðeins yfir sögu samgöngumála á Íslandi. Árið 1932 var akvegi komið á alla leið milli Akureyrar og Reykjavíkur og 1980 voru 10% leiðarinnar með bundnu slitlagi. 1994 var komið samfellt bundið slitlag og fjórum árum síðar styttu Hvalfjarðargöng leiðina um 42 km. Loftlínan á milli staðanna er 250 km löng. 1932 var akvegurinn 80% lengri en loftlínan en er nú 55% lengri. Með Vindheimaleið og Húnavallabraut færi þetta hlutfall niður í 47% og með Sundabraut til viðbótar í 45%.
Næst ræddi Njáll Trausti um fjölda ferðamanna síðustu 75 árin. Hægt fjölgaði lengi framan af, en um síðustu aldamót voru ferðamenn um 200 þúsund. Síðan hefur fjölgað ört og alveg sérstaklega á allra síðustu árum, enda stefnir fjöldi ferðamanna nú í eina milljón. Nú er svo komið, í fyrsta skipti í sögu landsins, að þjónustuútflutningur skilar meiru en vöruútflutningur, einkum vegna ferðaþjónustu. Í innbyrðishlutföllum hefur hún tekið fram úr sjávarútvegi og útflutningi á áli.
Síðan fjallaði Njáll Trausti um hlutfall gistinátta eftir landshlutum. Höfuðborgarsvæðið hefur á síðustu 15 árum lengi vel verið með um 40% hlutdeild en hefur nú hækkað sig upp í 45%. Önnur svæði hafa tapað hlutdeild að sama skapi, svolítið misjafnt eftir landshlutum, mest þó Suðurland, Norðurland eystra og Vesturland.
Þessu næst minntist Njáll Trausti á stórfjölgun bílaleigubíla, en þeir eru nú um 12 þúsund. Hann sýndi mynd af viðkomustöðum erlendra ferðamanna og hlutföllum þeirra sumar og vetur. Þar sker Reykjavík sig algjörlega úr, með nánast sama hlutfall á hvorri árstíð, en einnig haldast hlutföllin nokkuð jöfn á Þingvöllum og við Geysi. Þetta skýrðist enn frekar með mynd sem sýndi hlutfallið vetrarhlutdeild/sumarhlutdeild á ferðamannastöðum eftir vegalengd frá Reykjavík.
Þá ræddi Njáll Trausti nýjan Kjalveg og þýðingu hans. Akureyri-Reykjavík styttist um 47 km, úr 389 km í 342 km. Akureyri-Selfoss styttist um 141 km, úr 430 km í 289 km og Gullfoss-Akureyri styttist um 237 km, úr 455 km í 218 km. Í tengslum við þetta kom fram að samkvæmt úrkomutölum eru Norðurland og Suðurland tvö veðurfarssvæði. Hann greindi frá dreifingu gistinátta eftir landshlutum 1998-2005, meðalgjaldeyristekjum á dvalardag eftir mánuðum 2003 og fjallaði um ýmsan mismun eftir þjóðernum.
Í lokin greindi Njáll Trausti frá þýðingu beins flugs milli Akureyrar og erlendra viðkomustaða. Það væri byggðamál, atvinnumál og skapaði möguleika bæði í fraktflugi og farþegaflugi.
(NTF lauk máli sínu kl. 15:00).
Steingrímur J. Sigfússon spurði Arnheiði hvernig samskiptin væru við Icelandair. Einnig spurði hann Jón Óskar hvernig innheimta mætti gjald af ferðamönnum, t.d. við komu eða brottför í Mývatnssveit
Guðmundur Baldvin Guðmundsson taldi að sveitarfélögin þyrftu að fá meiri hlutdeild í tekjum af ferðamönnum og þá væri afar brýnt að stunda meiri rannsóknir.
Guðný Sverrisdóttir minntist á frábæra náttúrulaug í Grýtubakkahreppi en ýmsum vandkvæðum væri bundið að nýta hana vegna öryggis- og heilbrigðisreglna.
Ingvi Ragnar Kristjánsson sagði brýnt að fá fé til uppbyggingar innviða.
Guðjón Bragason benti fundarmönnum á að frestur til að sækja um í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða væri til 14. október.
Arnheiður svaraði Steingrími og sagði að Icelandair væri ekki tilbúið í samstarf um beint flug milli Akureyrar og staða erlendis. Hjá þeim væri mikil áhersla á tengiflug og það væri ekki í samvinnu við aðila hér fyrir norðan.
Jón Óskar svaraði Steingrími því að mikilvægast væri að fá hlutdeild í „lokal“ veltu, en ekki því hvort væri innheimt við komu eða brottför.
(Dagskrárlið lokið kl. 15:10).
Afgreiðsla kjörnefndar á kjörbréfum.
Arnór Benónýsson, formaður kjörnefndar gerði grein fyrir afgreiðslu kjörbréfa. Af 40 kjörgengum fulltrúum væru 35 mættir, þ.e. 87,5%, þar af 5 varamenn. Hann sagði að kjörnefndin legði til að kjörbréf allra fulltrúanna yrðu samþykkt og var það gert samhljóða. Jafnframt upplýsti hann að skrá yfir fulltrúa yrði færð í lok fundargerðar. Fleiri fulltrúar gætu bæst við síðar.
(AB lauk sinni umfjöllun kl. 15:12).
Kaffihlé.
Arnór Benónýsson sagði að borist hefði bréf frá Eyjafjarðarsveit þar sem Elmari Sigurgeirssyni væri veitt umboð til setu á aðalfundi Eyþings sem aðalfulltrúi sveitarfélagsins í forföllum Sigurlaugar H. Leifsdóttur. Arnór óskaði eftir afstöðu fundarmanna, þ.e. hvort þeir samþykktu að Elmar sæti fundinn með full réttindi.
Fundarstjóri bar upp tillögu þess efnis.
Samþykkt samhljóða.
5. Framhald Sóknaráætlunar og aukin ábyrgð landshlutasamtakanna á byggðaþróunarverkefnum.
Torfi Jóhannesson, sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Torfi byrjaði á því að fara nokkrum orðum um byggðaáætlanir, sóknaráætlanir og vaxtarsamninga. Ekki hefði tekist að ná nægilega víðtækri sátt um byggðamálin. Athyglivert væri að því hefði lítil athygli verið veitt að störfum hefur fækkað umtalsvert í ráðuneytunum og í opinberri stjórnsýslu víða um land undanfarin nokkur ár. Hins vegar virtust ætla að verða mikil átök um flutning Fiskistofu og umræðan oft nokkuð öfgakennd.
Sóknaráætlanir væru tilraun til að bæta vinnubrögð og góð hugmynd í grunninn. Vera mætti að í framtíðinni myndu sóknaráætlanir og svæðisskipulag renna saman, enda sumt í vinnubrögðum við bæði verkefnin hliðstætt og mikilvægt að huga að samþættingu áætlana.
Stýrihópur stjórnarráðsins (S.st.) er starfandi og hittist reglulega til að fara yfir ýmis mál. M.a. væri skoðað hvort skynsamlegt væri að sameina menningarsamninga, vaxtarsamninga og sóknaráætlanir í einum samningi. Stefnumótun stendur yfir og stefnt er að 4-5 ára samningum.
Árangursmat hefur farið fram og fulltrúar S.st. munu hitta fulltrúa landshlutasamtakanna. Nýr samningur sem tæki við af menningar- og vaxtarsamningum og sóknaráætlun gæti verið þríþættur.
Í fyrsta lagi sóknaráætlunin sjálf, unnin út frá stöðugreiningu og stefnu ríkisins og viðkomandi sveitarfélaga.
Í öðru lagi samkeppnissjóður sem tæki við af menningar- og vaxtarsamningum. Þessi sjóður myndi styrkja menningu og nýsköpun og yrði í umsjón landshlutasamtakanna. Tiltekið hlutfall færi til menningarmála en yfir sjóðnum væri ein úthlutunarnefnd. Fagráð yrðu fyrir einstaka málaflokka og mótframlag kæmi frá sveitarfélögunum.
Í þriðja lagi væru átaksverkefni. Heimamenn kæmu með tillögur sem fengu umfjöllun og samþykki S.st., en landshlutasamtökin bæru síðan ábyrgð á framkvæmdinni.
Þessi rammi er frekar stór miðað við fyrirhugaðar fjárveitingar. Ef aðeins verða settar 15 mkr. í sóknaráætlanir, sbr. fjárlagafrumvarpið, þá er ekki ástæða til að breyta núverandi fyrirkomulagi. Vonandi verður að fáum árum liðnum hægt að hugsa betur að heildaráætlunargerð, enda er mikil framför fólgin í þeirri einföldun sem átt hefur sér stað með eflingu landshlutasamtakanna.
Arnór Benónýsson sagði að í ágúst hefði verið reiknað með nýjum samningum í maí á næsta ári. Það væri allt og seint. Nú væri talað um eftir áramót. Hvenær? Ekki væri bara nóg að vonast eftir betri tíð. Af hverju hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið með menningarmálin að gera í Reykjavík en atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið á landsbyggðinni? Arnór lýsti yfir gríðarlegum áhyggjum vegna niðurskurðar.
Brynhildur Pétursdóttir spurði hvers vegna menningarmálin á landsbyggðinni væru tekin frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og hvers væri að vænta varðandi fjárveitingar og stjórnsýslu.
Torfi svaraði Arnóri og Brynhildi. Viðurkennt væri að of seint væri að hafa nýja samninga frágengna í byrjun maí. Stefnt væri á byrjun febrúar. Hvað varðaði skiptingu milli ráðuneytanna þá bæri þess að geta að ekki væru menningar- eða vaxtarsamningar á höfuðborgarsvæðinu. S.st. mundi ræða þessi mál og Karitas Gunnarsdóttir og Þórarinn Sólmundsson myndu fylgja menningarmálunum eftir á þeim vettvangi.
Spurningu Brynhildar um hvers mætti vænta svaraði Torfi að hann sem embættismaður gæti ekki svarað fyrir stjórnmálin og fjárveitingavaldið.
(Þessum dagskrárlið lauk kl. 16:12).
6. Ávörp.
6.1. Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri, f.h.innanríkisráðherra.
Hermann bað fyrir góða kveðju frá innanríkisráðherra sem ekki gat mætt til fundarins. Hann gat þess að mikið samtal og reglulegir fundir væru milli ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga, en það mætti sjálfsagt auka enn frekar. Svokölluð Jónsmessunefnd væri bæði virk og góð.
Hermann minnti á ákvæði í 128 gr. sveitarstjórnarlaga um formlegt samráð og samstarf ríkis og sveitarfélaga og 129. gr. um kostnaðarmat. Því miður hefðu ákvæði um kostnaðarmat ekki gengið nægilega vel eftir. Skoða þyrfti umdæmamörk betur til að samræma opinbera þjónustu.
Unnið væri að því að setja ýmis áform og reglugerðir á netið á frumstigi og kalla eftir athugasemdum. Samstarf um efnahagsmál hefði eflst verulega og frumvarp um opinber fjármál yrði vonandi að lögum til að bæta vinnubrögðin enn frekar.
Að lokum nefndi Hermann Hvítbók í sveitarstjórnarmálum sem Hanna Birna innanríkisráðherra hefði rætt um á nýliðnu landsþingi sveitarfélaga.
(HS lauk ávarpi sínu kl. 16:25).
6.2. Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Karl byrjaði á því að ræða um síðustu sveitarstjórnarkosningar. Kosningaþátttaka hefði lækkað úr 87,8% árið 1974 í 66,5% nú eða um 21,3%. Hlutur kvenna í sveitarstjórnum jókst hins vegar úr 21,8% árið 1990 í 44,5% nú. Endurnýjun sveitarstjórnarmanna var 54,4%.
Næst fjallaði Karl um tekjujöfnuð og framlegð hins opinbera og sýndi myndir af samanburði ríkis og sveitarfélaga. Sveiflur milli ára eru áberandi mikið meiri hjá ríkinu. Skuldastaða A-hluta sveitarsjóða hefur farið jafnt og þétt batnandi frá árinu 2010. Þá nefndi hann frumvarp til laga um opinber fjármál en þar væri tækifæri til að stuðla að góðri hagstjórn og styrkri og ábyrgri stjórn á fjármálum hins opinbera, enda væri brýnt fyrir ríki og sveitarfélög að vinna sameiginlega að stefnumörkun um opinber fjármál og auka skilning á tekjuþörf og útgjaldaáformum beggja stjórnsýslustiga m.t.t. þjónustuábyrgðar þeirra skv. lögum.
Karl ræddi um landsþingið 2014 sem haldið var á Akureyri 24.-26. sept. sl. Þar fór fram kosning stjórnar og formanns auk endurskoðunar á stefnumörkun. Hann sýndi mynd af skipuriti sambandsins og fór nokkrum orðum um helstu þætti þess. Þá gat hann um brýn verkefni sem unnið væri að, t.d. mat á kostnaði við þjónustu við fatlað fólk, almenningssamgöngur, málefni tónskólanna og lífeyris- og kjaramál. Sérstaklega ræddi Karl um kjarasamninga við grunnskólakennara.
Síðan fjallaði Karl um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015 og taldi mjög skorta á samráð við sveitarfélögin. Hann nefndi m.a. styttingu atvinnuleysisbótatímabils um 6 mánuði, niðurskurð hjá Vinnumálastofnun og lækkun framlaga til atvinnuátaksverkefna. Þetta sagði Karl ekki ganga upp og að Sambandið krefðist aukinna framlaga til verkefna og virkniúrræða. Í þessu samhengi gerði hann grein fyrir stefnumótun Sambandsins um virkniúrræði, þ.e. að sveitarfélögin fái sanngjarna hlutdeild í almenna hluta tryggingargjaldsins til að standa undir auknum kostnaði við fjárhagsaðstoð og virkniúrræði fyrir notendur félagsþjónustu sveitarfélaga.
Þessu næst ræddi Karl um sóknaráætlanir landshluta og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Þrátt fyrir hana er lækkun til áætlananna frá 400 mkr. árið 2013 í 100 mkr. 2014 og lækkar niður í 15 mkr. samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Hann nefndi helstu þætti í stefnumótun sambandsins um sóknaráætlanir. Einnig gat Karl um tillögur verkefnisstjórnar um nýja húsnæðisstefnu.
Að síðustu minntist Karl á lífeyrisskuldbindingar sveitarfélaga og að ekki mætti draga að bregðast við aðsteðjandi vanda.
(KB lauk ávarpi sínu kl. 16:46).
6.3. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og 1. þingmaður NA-kjördæmis.
Forsætisráðherra byrjaði á því að fjalla um samgöngumál og nefndi Vaðlaheiðargöng í því sambandi. Þá gat hann þess að ýmsar stoðir væru að styrkjast. Uppbygging á Bakka norðan Húsavíkur væri tryggð, matvælaiðnaður væri í miklum blóma á starfssvæði Eyþings og norðurslóðamál í brennidepli.
Mikilvægt væri að aðstæður væru í lagi. Til að geta nýtt tækifæri þyrfti stöðugleika og fyrirsjáanleika. Segja mætti að innviðirnir væru þríþættir. Í fyrsta lagi það sem fólk og fyrirtæki vill. Góðir skólar, heilbrigðisþjónusta og öryggi. Í öðru lagi eiginlegt notagildi svo sem greiðfær akstur um vegi, fjarskiptaþjónusta og annað í þeim dúr. Í þriðja lagi sú víxlverkun sem á sér stað þannig að heildin eflist, t.d. þegar hjón eru bæði með vinnu við hæfi og efla þannig bæði sjálf sig og samfélagið.
Forsætisráðherra sagði umsvif hins opinbera vera mikil og skipta máli. Vék aftur að Vaðlaheiðargöngum og efni úr þeim og því yrði fylgt eftir að nota það í stækkun flughlaðs við Akureyrarflugvöll. Þá nefndi hann ljósleiðaravæðingu og mikinn áhuga fyrir henni. Mikilvægt væri að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni, en umræðan væri stundum ansi skrítin. Talað væri um eðlilega þróun ef störf flyttust frá landsbyggðinni til Reykjavíkur en allt ætlaði af göflunum að ganga ef tilraun væri gerð til að gera eitthvað á hinn veginn. Mikilvægt væri að fá stuðning landbyggðarfólks.
Nefna mætti þrjár leiðir. Flytja stofnanir, flytja ákveðna starfsemi, deildir og í þriðja lagi að renna stoðum undir ný störf með nýrri starfsemi. Líkja mætti þessu við gróður. Þar sem hann væri fyrir dafnaði meira í skjóli hans. Forsætisráðherra taldi umræðuna að undanförnu hafa verið afar einhliða í stað þess að rökræða með efnislegum hætti.
Forsætisráðherra ræddi í lok ávarps síns um að tækifærin væru til staðar. Samvinna væri það sem skipti máli og þyrfti að vera til staðar, milli alþingismanna, sveitarstjórnarmanna og fólksins í landinu.
(SDG lauk ávarpi sínu kl. 17:07).
Umræður
Þröstur Friðfinnsson taldi ekki nóg að planta nýju. Hugsa þyrfti líka til þess að verja það sem fyrir væri, svo sem í löggæslu og heilbrigðismálum.
Kristján L. Möller fagnaði því hve jákvæður forsætisráðherra væri. Þess vegna hefði hann ekki rætt fjárlögin. Spurði um niðurskurð til skólamála og sameiningu framhaldsskóla. Einnig til samgöngumála. Heildar niðurskurður væri um 4,5 milljarðar í þessum málaflokkum. Hann kvaðst sammála styrkingu innviða en þess sæi ekki merki í fjárlagafrumvarpinu.
Logi Már Einarsson kvaðst ánægður með ýmislegt hjá ríkisstjórninni, m.a. að vilja fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni. Ekki veitti af, enda væru bara 4 ríki í heiminum með hærra hlutfall íbúa á sínu höfuðborgarsvæði en Ísland. Ástæða væri fyrir því að bæjaryfirvöld á Akureyri hefðu ekki komið fram með stuðningsyfirlýsingu við flutning Fiskistofu. Ógætilegt tal um staðsetningu sýslumannsembættis hefði ekki verið gott og sveitarstjórnarmenn á Eyþingssvæðinu yrðu að vinna saman. Sóknaráætlun til langs tíma væri góð leið til þess.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson sagðist sammála mörgu í málflutningi Loga. Sveitarstjórnarmenn yrðu að standa saman. Hann furðaði sig hins vegar mjög á ummælum og tillögugerð Halldórs Halldórssonar formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi flutning opinberra starfa, s.s. í tengslum við Fiskistofu. Þannig ætti maður í hans stöðu ekki að koma fram.
Reinhard Reynisson sagðist verða að koma því að hve eitt af innviðamálunum væri mikilvægt, þ.e. fjarskiptamálin og netsamband. Hann bar Póst- og fjarskiptastofnun ekki vel söguna og það væri auðvitað fyrir neðan allar hellur að bjóða fólki upp á 128 kb. netsamband á sekúndu og rukka fyrir það 300 þkr. tengigjald í dreifbýli.
Ragnar Bjarnason sagði gott að heyra samstöðutón og að forsætisráðherra skyldi nefna fjarskiptamálin með þeim hætti sem hann gerði.
(Dagskrárlið lauk kl. 17:20).
Fundarstjóri sagði frá skoðunarferð kl. 18:00
Nefndastörf.
Pétur Þór gerði grein fyrir nefndastörfum og hvar hver nefnd ætti að starfa. Þrjár nefndir starfa auk kjörnefndar og fulltrúum hafði verið skipað í hverja nefnd. Búið var að tala við formenn og undirbúa vinnuna eins og kostur var.
Nefndastörf hófust kl. 17:25.
Fundarhlé kl. 18:00
Laugardagur 4. október.
7. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra.
(skýrsla heilbrigðisnefndar, ársreikningur 2013, fjárhagsáætlun 2015 ásamt umræðum).
Alfreð Schiöth framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra flutti skýrsluna.
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hefur það markmið að vernda heilnæmt og ómengað umhverfi og efla góða lýðheilsu. Þessu er framfylgt með almennri fræðslu, vöktun og rannsóknum, samvinnu við önnur yfirvöld og hagsmunaaðila, með eftirliti og eftirfylgni.
Lagagrunn heilbrigðisnefnda og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga er að finna í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, lögum um matvæli nr. 93/1995 og lögum um tóbaksvarnir nr. 6/2002, öllum með síðari breytingum. Einnig hafa komið til lög um stjórn vatnamála, lög um umhverfisábyrgð og ný lög um efni og efnavörur þar sem eftirlit er fært framar í aðfangakeðjuna. Lagabreytingar hafa komið til um ríkari frumkvæðisskyldu stjórnvalda til að upplýsa um mál sem varða samfélagslega hagsmuni. Umhverfisstofnun fer með stjórnsýslu og eftirlit með framkvæmd laga um umhverfisábyrgð og einnig koma lögregla og landhelgisgæsla að málum.
Fjölmargar reglugerðir, skilyrði og leiðbeiningar eru gefnar út með stoð í fyrrnefndum lögum. Starf heilbrigðisfulltrúa skarast gjarnan við starf annarra embætta, s.s. skipulags- og byggingafulltrúa, eldvarnaeftirlits, Vinnueftirlits ríkisins, embætti landlæknis og Umhverfis-stofnunar og Matvælastofnunar. Framleiðsla og dreifing matvæla er háð leyfi heilbrigðisnefnda og heilbrigðisnefnd hefur eftirlit með framleiðslu, nema þegar um er að ræða starfsemi sem heyrir undir eftirlit Matvælastofnunar. Rísi ágreiningur milli heilbrigðisnefndar og sveitarstjórna um framkvæmd laga er almenna reglan sú að vísa skuli málinu til fullnaðarúrskurðar ráðherra.
Umhverfisstofnun (www.ust.is) og Matvælastofnun (www.mast.is) samræma og hafa yfirumsjón með störfum heilbrigðisnefnda. Á heimasíðum þessara stofnana er að finna margvíslegan fróðleik og fræðsluefni og einnig er þar greiður aðgangur að helstu lögum og reglum; flokkað út frá mismunandi forsendum. Starfsemi heilbrigðisnefnda heyrir þannig undir tvö ráðuneyti; umhverfis- og auðlindaráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
Alfreð nefndi nokkur verkefni, t.d. að á síðustu árum og á yfirstandandi ári hefðu borist mörg erindi frá sýslumönnum vegna afgreiðslu rekstrarleyfa fyrir gistiþjónustu og í mörgum tilfellum hafa heilbrigðisfulltrúi og fulltrúi Vinnueftirlits ríkisins samstarf um framkvæmd eftirlits og þannig er leitast við að hagræða í eftirliti. Umhverfisstofnun hefur boðið HNE að nýta sér gagnaskráningarkerfi sem er í þróun hjá stofnuninni og það samstarf hefur verið afar ánægjulegt og gagnlegt. Gott samstarf hefur einnig verið við Matvælastofnun vegna innleiðingar á Evrópureglum á matvælasviði og heilbrigðisfulltrúar hafa sótt námskeið og fundi í því sambandi. Nú hillir undir að HNE fái aðgang að gagnaskráningarkerfi MAST til skráningar á eftirliti með matvælafyrirtækjum og er unnið að innleiðingu þess kerfis.
Einnig ræddi Alfreð um mikilvægi þess að sveitarfélög setji í fráveitusamþykktir skýr og mælanleg viðmið um forhreinsun á iðnaðarskólpi áður en að því er veitt inn á fráveitukerfi. Sú skylda hvílir á eigendum fráveitna að fullnægja kröfum um hreinsun á fráveituvatni áður en því er veitt í viðtaka og að koma útrásum þannig fyrir að mengun í fjörum verði innan ákveðinna marka. Úrbætur á fráveitum ættu að fá forgang hjá sveitarstjórnum.
Því miður hafa orðið miklar breytingar í Mývatni undanfarin ár. Þörungamotta á botni vatnsins er algerlega horfin, líklega vegna næringarefnamengunar af mannavöldum. Heilbrigðisnefnd hefur mælst til þess að sveitarstjórn Skútustaðahrepps taki frumkvæði í þessu máli og skipuleggi og hrindi í framkvæmd úrbótum í fráveitumálum, gagngert í þeim tilgangi að draga úr álagi á Mývatn af völdum næringarefna.
Þessu næst fjallaði Alfreð um loftmengun frá gosstöðvunum í Holuhrauni, nefndi dæmi um að vatnsból þéttbýlisstaða hafi spillst í aurskriðum og þannig skapast vandræði í matvælavinnslum og óþægindi fyrir almenning. Einnig gat hann um alvarlega matarsýkingu í barni og matareitrun þar sem fjöldi fólks veiktist í aðdraganda að bæjarhátíð. Þessi tilfelli voru rannsökuð og gripið til viðeigandi ráðstafana til að takmarka skaða og fyrirbyggja endurtekningu.
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra er samvinnuverkefni sveitarfélaga á Norðurlandi eystra og á vettvangi Eyþings er í gildi sérstakur samstarfssamningur milli sveitarfélaga um heilbrigðis-eftirlitið. Fjallabyggð er þó í samstarfi við Norðurland vestra.
Heilbrigðisnefnd er skipuð á aðalfundi Eyþings að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Fimm nefndarmenn eru tilnefndir af sveitarstjórnunum samkvæmt samstarfssamningi og einn fulltrúi er tilnefndur af samtökum atvinnurekenda á eftirlitssvæðinu. Uppbyggingin er þannig að heilbrigðiseftirlitinu er stjórnað af heilbrigðisnefnd.
Heilbrigðisnefnd sem nú lætur af störfum er skipuð eftirfarandi:
Frá Akureyri:
Margrét Auður Sigurbjörnsdóttir, formaður. Varamaður Preben Pétursson.
Sigurjón Jóhannesson, varamaður Jóna Jónsdóttir.
Frá öðrum sveitarfélögum við Eyjafjörð:
Birna Jóhannesdóttir, varamaður Fjóla Stefánsdóttir.
Frá Norðurþingi:
Hafsteinn H. Gunnarsson, varamaður Jón Helgi Björnsson
Frá öðrum sveitarfélögum í Þingeyjarsýslu:
Steinn Karlsson, varamaður Steinþór Heiðarsson.
Fulltrúi samtaka atvinnurekenda:
Kristín Halldórsdóttir, varamaður Sigurgeir Höskuldsson.
Auk þess situr Jón Torfi Halldórsson, yfirlæknir Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri fundina sem áheyrnarfulltrúi.
Nefndin heldur að jafnaði 10 fundi á ári.
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hefur tvær starfsstöðvar. Á Akureyri með þremur starfs-mönnum og á Húsavík með einum starfsmanni. Starfsmennirnir hafa með sér samstarf og samráð og veita umsagnir og ráðgjöf um mörg málefni, s.s. vegna skipulags, laga og reglu-setningar.
Alfreð greindi síðan frá starfsemi (fyrirtækjum) sem eftirlitið nær til og starfsleyfi þarf fyrir, en þau eru nú um 1.200 á starfssvæði HNE.
Hann sagði að á þessum fundi lægi fyrir ársreikningur næstliðins árs og fjárhagsáætlun fyrir næsta ár ásamt áætlaðri skiptingu á milli sveitarfélaga og gjaldskrá. Við gerð áætlunarinnar var miðað við forsendur Akureyrarbæjar um breytingar á milli ára. Áætlunin gerir ráð fyrir 5,32% hækkun á milli ára og að gjaldskrá hækki um sama hlutfall. Samningur er við Akureyrarbæ um umsjón með bókhaldi og fjárreiðum heilbrigðiseftirlitsins.
Helstu atriði úr ársreikningi 2013
Rekstrartekjur 52.318 þkr.
Rekstrargjöld 52.035 þkr.
Fjárhagsáætlun 2014 og 2015
Áætlun ársins 2014 52.006 þkr.
Áætlun ársins 2015 54.775 þkr.
Hækkun milli ára er því 2.769 þkr. eða 5,32%.
Að öðru leyti vísaði Alfreð til gagna sem hann lagði fram. (AS lauk máli sínu kl. 9:34).
Fundarstjóri lagði til að umfjöllun um fjárhagsáætlun HNE yrði vísað til fjárhags- og stjórnsýslunefndar.
Samþykkt samhljóða.
8. Menningarráð Eyþings.
Arnór Benónýsson, formaður menningarráðs Eyþings.
Fyrst rakti Arnór sögu samninga. Menningarsamningurinn sem starf menningaráðsins byggir á var fyrst undirritaður í apríl 2007 og rann sá samningur út við lok árs 2009. Í júní 2010 var samningurinn endurnýjaður til eins árs. Í apríl 2011 var undirritaður nýr samningur til þriggja ára. Í ágúst 2012 var undirritaður viðaukasamningur til tveggja ára þar sem menningarráði var falið að úthluta fjármagni sem áður var á safnliðum fjárlaga. Báðir þessir samningar runnu út um áramótin 2013-2014. Niðurskurður á framlagi mennta- og menningarmálaráðuneytisins fylgdi hagræðingarkröfu ráðuneytisins sem var 10%. Um tíma var nokkuð óljóst með framlag atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins (sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti) en undir vorið var ljóst að framlag þeirra yrði 6,5 mkr. eða 800 þkr. hærra en árið áður. Í maí sl. var síðan undirritaður samningur til eins árs og rennur hann út um nk. áramót.
Í Menningarráði Eyþings sitja sjö fulltrúar, þrír koma austan Vaðlaheiðar, þrír vestan hennar og einn fulltrúi er skipaður af Háskólanum á Akureyri. Ráðið er þannig skipað frá október 2012 til hausts 2014:
Arnór Benónýsson Þingeyjarsveit, formaður.
Bjarni Valdimarsson Dalvíkurbyggð.
Hanna Rósa Sveinsdóttir Hörgársveit.
Hildur Stefánsdóttir Svalbarðshreppi.
Logi Már Einarsson Akureyri, varaformaður.
Þórgunnur Reykjalín Vigfúsdóttir Norðurþingi.
Kjartan Ólafsson (Ingibjörg Sigurðardóttir 2012) Háskólanum á Akureyri.
Það sem af er árinu hefur menningarráðið haldið fimm fundi. Líkt og á síðasta ári var ein úthlutun á árinu.
Í október 2013 auglýsti menningarráðið verkefnastyrki til umsóknar fyrir árið 2014. Menningar-fulltrúi fór um svæðið og hafði viðtalstíma á 12 stöðum. Alls bárust ráðinu 130 umsóknir um 85,5 mkr. Heildarkostaður við verkefnin var áætlaður 422,3 mkr. Í lok maí úthlutaði menningarráðið rúmlega 29 milljónum til 67 verkefna. Frá upphafi hafa menningarráðinu borist 919 umsóknir um 542 mkr. Úthlutað hefur verið tæpum 190 mkr. til 515 verkefna. U.þ.b. helmingur umsókna hefur frá upphafi fengið loforð um verkefnastyrki hjá menningarráðinu.
Heildarframlag ríkisins til menningarsamningsins árið 2014 er 35.471 þkr.- Heimilt er að nota allt að 14,5 m.kr. til stofn- og rekstrarstyrkja. Framlag mennta- og menningarmálaráðuneytisins til menningarsamningsins er 28.971. þkr. og framlag atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis 6,5 mkr. Framlag sveitarfélaga til menningarsamningsins er 40% af framlagi ráðuneyta til verkefnastyrkja, eða samkvæmt áætlun kr.10.600 þkr. fyrir árið 2014. Sveitarfélögin á svæðinu leggja hlutfallslega jafnt til samningsins. Framlög sveitarfélagana árið 2014 nema um 365 kr. á. íbúa.
Markmið stjórnvalda með menningarsamningunum eru að halda úti kraftmiklu menningar- og mannlífi á landsbyggðinni, efla það og styrkja. Í lok ársins 2013 var kynnt úttekt á framkvæmd menningarsamninga árin 2011-13. Úttektin var samræmd yfir landið og framkvæmd af Capacent. Í skýrslunni er staðfest að þessi aðferð hefur í öllum megindráttum gengið vel og að samningarnir hafa haft jákvæð áhrif. Í úttekt Capacent (bls. 10) er m.a. fjallað um faglegt starf og starf menningarfulltrúa: „Starf menningarfulltrúa svæðanna er í grunninn fyrst og síðast á sviði frumkvæðis og samræmingar á héraðsgrundvelli þar sem grasrótar- og tengslavinna inní samfélögunum skiptir mestu máli.“
Menningarráð Eyþings skorar næst hæðst í heildarmati menningarráða. Þar af er það hæst í framkvæmd stefnu menningarráðs.
„Heildarárangur svæðisins er metinn 89% og er svæðið með hæstu einkunn allra svæða á sviði framkvæmdrar stefnu enda eitt af þeim svæðum sem hafa formlega mótað stefnu á samningstímabilinu eins og menningarsamningarnir kveða skýrt á um.
Svæðið er mjög framarlega þegar kemur að samstarfi innan svæðis og þó svo að það sé ekki markmið menningarsamningana er samstarf Norðurlands eystra og Austurlands til þess fallið að efla hvort svæði um sig. Í því samhengi má benda á að þessi tvö menningarsvæði eru með tvær hæstu einkunnir í mati úttektaraðila.“ (Úr úttekt Capacent bls. 41).
Líta þarf til úttektar Capacent nú þegar breytingar standa fyrir dyrum. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi árangur í starfi menningarráðs með faglegu starfi og baklandi.
Menningarráð vinnur nú að tveim þróunarverkefnum. Í upphafi ársins 2013 var farið af stað með þróunarverkefnið Aftur heim. Verkefnið nær yfir svæðið austan Vaðlaheiðar og miðar að því að gefa ungu fólki, menntuðu í menningu og listum, tækifæri til að koma í heimabyggð og vinna að öflugum menningarverkefnum. Verkefnið er unnið með styrk frá sóknaráætlun landshluta. Það á einnig við um verkefnið Grunngerð og mannauður. Hugmyndin með því verkefni er að kortleggja menningarstarf á svæðinu og gera það aðgengilegt í formi gagna-grunns á heimasíðu menningarráðs.
Menningarráð réði starfsmann í sex mánuði til að sinna söfnun upplýsinga í gagnagrunnin. Niðurstöður og aðferðafræði verkefnisins verða kynntar í skýrslu sem gefin verður út síðar í haust.
Menningarfulltrúi tekur þátt í samstarfsneti menningarfulltrúa landsbyggðarinnar og menningarráð hefur einnig átt samstarf við fjölmarga aðra aðila innan og utan svæðis. Menningarfulltrúi Eyþings var fulltrúi menningarfulltrúa landsbyggðarinnar í matsnefnd Eyrarrósarinnar. Úthlutun hennar fór fram á Seyðisfirði í upphafi árs. Áhöfnin á Húna II hlaut Eyrarrósina, Verksmiðjan á Hjalteyri var einnig tilnefnd til viðurkenningarinnar.
Helstu breytingar á fjárhagsáætlun ársins 2014 felast í auknum verkefnum og auknu umfangi. Árið 2014 fékk menningarráð styrk til tveggja verkefna úr sóknaráætlun landshlutans og er hluti þess fjármagns nýttur á þessu ári. Á móti þeim styrkjum eykst skrifstofukostnaður m.a. vegna tímabundinnar ráðningar starfsmanns. Forsendur fjárhagsáætlunar menningarráðs fyrir árið 2015 eru mjög óljósar. Menningarsamningur við ríkið rennur út um næstu áramót og ekki er ljóst hvaða fjármagn kemur í málaflokkinn á næsta ári. Einnig verður kjörið nýtt menningarráð og því ekki ljóst hver ferða- og fundarkostnaður þess verður. Vísað er til framlagðra áætlana.
Að lokum gat Arnór þess að ómæld vinna hefði farið í undirbúning og vinnu við endurnýjun samninga. Mikilvægt væri að úthlutanir til menningarstarfs fari áfram í gegnum faglegan farveg með sterku baklandi. Það væri grunnur að þeim árangri sem náðst hefði í atvinnusköpun á sviði menningar og lista. (AB lauk máli sínu kl. 9:57).
Fundarstjóri lagði til að umfjöllun um fjárhagsáætlun menningarráðs yrði vísað til fjárhags- og stjórnsýslunefndar.
Samþykkt samhljóða.
9. Tækifæri og áskoranir í almenningssamgöngum – kynning á áfangaskýrslu.
Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs Sambands ísl. sveitarfélaga.
Samráðshópur um almenningssamgöngur var skipaður samkvæmt ákvörðun innanríkisráðherra til að fjalla heildstætt um verkefnið og leysa úr ýmsum vandamálum sem snúa að verkefninu.
Nefndarmenn eru: Sigurbergur Björnsson frá IRR, Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Guðjón Bragason frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri í Vogum fyrir hönd landshlutasamtaka sveitarfélaga og Ásta Þorleifsdóttir frá IRR.
Skýrslan er m.a. unnin að áeggjan sambandsins en á ábyrgð Vegagerðarinnar og samráðshóps um almenningssamgöngur. Markmið var einkum að safna upplýsingum um árangur af verkefni um almenningssamgöngur utan höfuðborgarsvæðisins, en mikilvægt er fyrir samningsaðila að geta sýnt fram á það með tölum hvernig reynslan er af verkefninu.
Umfjöllun var um helstu áskoranir og leiðir til lausna. Lausir endar í lagafrumvarpi voru ræddir, ágreiningsefni um leið 57, kvartanir vegna einkaaðila sem ekki virða einkarétt landshluta-samtakanna, olíugjald og mögulegar breytingar á þróunarstyrkjum. Samræmi er komið á um endurgreiðslu olíugjalds og Eyþing búið að fá leiðréttingu. Viðræður IRR við fjármálaráðuneytið hafa staðið um að framlengja endurgreiðslu olíugjalds, helst til 2019. Þegar samningar voru gerðir árið 2011 var olíugjald endurgreitt að 80% en endurgreiðslan hefur verið skert verulega.
Ágreiningur er milli landshlutasamtaka um skiptingu tekna á leið 57 Reykjavík-Akureyri og einnig milli SSA og Sterna sem er fyrir dómstólum og skapar óvissu. Lykilatriði er að ný lög verði sett til að koma í veg fyrir slíkar deilur. Þá er mikilvægt að tryggja landshlutasamtökum meira forræði á gjaldskrárbreytingum en nú er til staðar. Áfangaskýrslan sýnir góðan árangur. Ánægja notenda hefur aukist og krafa er um áframhald. Árangurinn endurspeglast í umtalsverðri fjölgun farþega, nánast á öllum leiðum
Ágæt greining liggur fyrir hjá Eyþingi á ástæðum þess að verkefnið hefur ekki gengið sem skyldi á svæðinu. Tækifæri til úrbóta eru til staðar og mikilvægt að þau verði skoðuð jafnhliða því að áhersla verði á að „rétt þurfi að gefa“ til að halda verkefninu áfram
Að lokum sagði Guðjón ljóst að bættar almenningssamgöngur myndu styrkja búsetu utan höfuðborgarsvæðisins og með því að leysa deilur milli landshlutasamtakanna ættu önnur mál að leysast í kjölfarið. (GB lauk máli sínu kl. 10:25).
Nefndastörf. Hófust kl.10:30.
Hádegisverður kl. 12:00
10. Aðalfundarstörf.
(Álit nefnda. Afgreiðsla tillagna og ályktana, kosningar o.fl.).
Fundarstjóri tilkynnti að formenn eða fulltrúar nefnda myndu gera grein fyrir tillögum.
10.1. Tillögur nefnda.
Atvinnu-, umhverfis- og samgöngumálanefnd
Í nefndinni sátu:
Ingibjörg Ólöf Isaksen, formaður
Sólrún Júlíusdóttir
Jón Þór Benediktsson
Sóley Björk Stefánsdóttir
Eva Hrund Einarsdóttir
Elmar Sigurgeirsson
Eiríkur H. Hauksson
Margrét Bjarnadóttir
Yngvi Ragnar Kristjánsson
Kjartan Páll Þórarinsson
Olga Gísladóttir
Siggeir Stefánsson
Formaður þakkaði nefndarfólki fyrir samstarfið og gerði síðan grein fyrir niðurstöðum.
Mikilvægi almenningssamgangna
Aðalfundur Eyþings, haldinn í Þingeyjarsveit 3. og 4. október, lýsir yfir ánægju með vilja stjórnvalda til að auka og bæta þjónustu í almenningssamgöngum. Verkefnið er mikilvægt til að jafna búsetuskilyrði á svæði Eyþings og tengir íbúa þess við önnur landsvæði.
Fundurinn leggur þunga áherslu á mikilvægi hækkunar þróunarstyrks til Eyþings vegna verkefnisins og að lausn finnist vegna niðurgreiðslu olíugjalds.
Fundurinn fagnar því að nú sé að störfum nefnd um almenningssamgöngur á vegum innanríkisráðuneytisins og bindur miklar vonir við niðurstöður þeirrar nefndar. Fundurinn bendir á mikilvægi þess að frumvarp til laga um fólksflutninga á landi í atvinnuskyni nái fram að ganga en með því mun einkaleyfið vera tryggt. Fundurinn styður áherslur stjórnar vegna uppgjörs og reksturs á leiðum 56 og 57 í samræmi við forsendur Vegagerðarinnar við yfirtöku verkefnisins.
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða
Aðalfundur Eyþings, haldinn í Þingeyjarsveit 3. og 4. október 2014, leggur áherslu á að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða verði efldur í samræmi við vaxandi ferðamannastraum og jafnframt mælist fundurinn til að krafa um mótframlag sveitarfélaga verði felld út.
Nýtt flughlað
Aðalfundur Eyþings, haldinn í Þingeyjarsveit 3. og 4. október 2014, krefst þess að stjórnvöld tryggi fjármagn í fjárlögum ársins 2015 til stækkunar flughlaðs á Akureyrarflugvelli. Fundurinn leggur áherslu á að nýta tækifærið þar sem efni til stækkunar er til staðar. Akureyri er einn af varaflugvöllum í millilandaflugi og því eitt af mikilvægustu samgöngu- og öryggismannvirkjum landsins.
Hlið inn í Norðurland - Millilandaflug
Aðalfundur Eyþings, haldinn í Þingeyjarsveit 3. og 4. október 2014, bendir á mikilvægi þess að álagi vegna fjölgunar erlendra ferðamanna verði dreift betur um landið en nú er gert meðal annars til að vernda náttúruna. Fundurinn skorar á stjórnvöld að bæta aðstöðu til millilandaflugs um Akureyrarflugvöll með byggingu nýrrar millilandaflugstöðvar. Með þeim hætti er hægt að efla enn frekar þá mikilvægu atvinnugrein sem ferðaþjónustan er orðin.
Aðgerðir gegn ágengum plöntum á starfssvæði Eyþings
Aðalfundur Eyþings, haldinn í Þingeyjarsveit 3. og 4. október 2014, lýsir áhyggjum sínum af vaxandi útbreiðslu ágengra plöntutegunda á borð við skógarkerfil og bjarnarkló. Aðalfundurinn kallar eftir áframhaldandi aðkomu ríkisvaldsins að þeirri varnarbaráttu sem sveitarfélögin heyja gegn þessum vágestum í íslenskri náttúru og óskar eftir stefnu stjórnvalda í þessum efnum.
Dreifing á starfssemi ríkisins
Aðalfundur Eyþings, haldinn í Þingeyjarsveit 3. og 4. október 2014, styður stefnumörkun stjórnvalda í fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni. Betri dreifing opinberra starfa vítt og breitt um landið festir í sessi búsetu um land allt. Þá er ekki eðlilegt að uppbygging opinberrar þjónustu sem fjármögnuð er með skattfé allra landsmanna eigi sér að mestu stað á höfuðborgarsvæðinu. Fundurinn telur orðið tímabært að endurskoða staðsetningu opinberra starfa út frá þeirri tækniþróun sem hefur átt sér stað.
Staðsetning opinberra starfa á ekki að vera bitbein á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis heldur þarf að tryggja fjölbreytt störf og góð búsetuskilyrði um land allt. Það eru sameiginlegir hagsmunir allra Íslendinga að byggð blómstri á öllu landinu.
Fjarskiptamál
Aðalfundur Eyþings, haldinn í Þingeyjarsveit 3. og 4. október 2014 , gerir kröfu um að tryggð verði aukin gæði nettenginga, sjónvarps- og útvarpssendinga á svæði Eyþings í samræmi við stefnumörkun fjarskiptaáætlunar. Farsímaþjónusta verður að vera trygg án undantekninga enda hefur mikilvægi þessa öryggisþáttar sannað sig sbr. eldgosið í Holuhrauni. Mikil tækifæri felast í þróun samskiptatækni sem getur breytt stöðunni ef ráðist yrði í stórfellda uppbyggingu netsambands á svæðinu. Því telur fundurinn mikilvægt að gripið sé til ráðstafana í því efni. Slíkt mundi hafa víðtæk áhrif á möguleika til menntunar, innri samskipta og miðlunar hvers konar, að ekki sé minnst á þróun og uppbyggingu atvinnustarfsemi fyrirtækja og búsetu.
Flugsamgöngur
Aðalfundur Eyþings, haldinn í Þingeyjarsveit 3. og 4. október 2014, ítrekar mikilvægi þess að stutt verði við flugsamgöngur til og frá Þórshöfn, Vopnafirði, Húsavík og Grímsey. Flugsamgöngur eru ein af lífæðum þessara samfélaga sem nauðsynlegt er að standa vörð um.
Malarvegir
Aðalfundur Eyþings, haldinn í Þingeyjarsveit 3. og 4. október 2014, skorar á samgönguyfirvöld að veita mun meira fé til uppbyggingar og viðhalds héraðs- og tengivega heldur en verið hefur að undanförnu. Litlu fé hefur verið varið til uppbyggingar og viðhalds malarvega og nú er svo komið að ýmsir þeirra eru orðnir mjög illa farnir og beinlínis hættulegir. Nefna má veginn milli Þórshafnar og Bakkafjarðar, um Melrakkasléttu, í Bárðardal og í Hörgárdal. Fundurinn leggur áherslu á að lagt verði bundið slitlag milli þéttbýliskjarnanna Þórshafnar og Bakkafjarðar sem fyrst. Eins leggur fundurinn áherslu á að Dettifossvegur verði kláraður.
Snjómokstur
Aðalfundur Eyþings, haldinn í Þingeyjarsveit 3. og 4. október 2014, lýsir áhyggjum sínum af fjársvelti Vegagerðarinnar hvað snjómokstur og vetrarþjónustu varðar og skorar á stjórnvöld að bæta úr því.
Úrgangs- og fráveitumál
Aðalfundur Eyþings, haldinn í Þingeyjarsveit 3. og 4. október 2014, ítrekar ósk sína eftir stefnu stjórnvalda í úrgangsmálum og að fundnar verði ásættanlegar lausnir til framtíðar. Auk þess telur fundurinn mikilvægt að stuðningur ríkisins við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga verði tryggður.
Úrbætur vegna takmarkana í flutningsgetu á raforku
Aðalfundur Eyþings, haldinn í Þingeyjarsveit 3. og 4. október 2014, lýsir yfir áhyggjum af því að takmörkuð flutningsgeta á rafmagni innan svæðisins geti haft þau áhrif að skekkja samkeppnistöðu fyrirtækja á starfssvæði Eyþings. Flutningsgeta má ekki standa eðlilegri atvinnuþróun og atvinnuuppbyggingu fyrir þrifum. Þá leggur fundurinn þunga áherslu á að þriggja fasa rafmagn verði í boði á öllu svæðinu. Fundurinn leggur áherslu á að tekið verði tillit til óska sveitarfélaga um val á línugerð sem og að kostnaður vegna lagningar lína falli ekki á sveitarfélög.
Flugvöllurinn í Vatnsmýri
Aðalfundur Eyþings, haldinn í Þingeyjarsveit 3. og 4. október 2014, leggst eindregið gegn því að miðstöð innanlandsflugs verði flutt úr Vatnsmýrinni. Flutningur flugvallarins myndi draga verulega úr aðgengi íbúa landsbyggðanna að höfuðborginni og þar með heilbrigðisþjónustu, stjórnsýslu, viðskiptalífi og menningarlífi. Kostnaður við sjúkraflug mun aukast og öryggi sjúklinga minnka. Líkur eru á að flug myndi leggjast af til nokkurra staða. Flutningurinn myndi því hafa alvarleg áhrif á lífsgæði íbúa landsbyggðanna og auka verulega þann kostnað sem þeir bera.
Framangreindar tillögur voru bornar upp hver fyrir sig og allar samþykktar samhljóða.
Velferðar-, mennta- og menningarmálanefnd
Sif Jóhannesdóttir, formaður
Kristinn Kristjánsson, (sat fundinn sem gestur)
Bjarni Th. Bjarnason
Guðmundur Sigvaldason
Matthías Rögnvaldsson
Gunnar Gíslason
Margrét Kristín Helgadóttir
Jóhanna Dögg Stefánsdóttir
Þröstur Friðfinnsson
Ragnar Bjarnason
Dagbjört Bjarnadóttir, (sat fundinn sem stjórnarmaður)
Soffía Helgadóttir
Formaður þakkaði nefndarfólki fyrir samstarfið og gerði síðan grein fyrir niðurstöðum.
Menntun fyrir atvinnulífið
Aðalfundur Eyþings, haldinn í Þingeyjarsveit 3. og 4. október 2014, felur stjórn Eyþings að láta vinna aðgerðaáætlun fyrir eflingu menntunar fyrir atvinnulífið á starfssvæðinu. Í aðgerðaáætluninni verði lögð áhersla á menntun í ferðamálafræðum, upplýsingatækni og öðrum greinum sem fela í sér sóknarfæri svæðisins. Aðgerðaáætlunina skal leggja fyrir næsta aðalfund Eyþings til umræðu og afgreiðslu.
Niðurskurður á fjárheimildum til framhaldsskóla
Aðalfundur Eyþings, haldinn í Þingeyjarsveit 3. og 4. október 2014, mótmælir harðlega þeim niðurskurði sem fyrirhugaður er á fjárheimildum til rekstrar framhaldsskóla, sem birtist í fækkun áætlaðra nemendaígilda í skólunum. Þá lýsir aðalfundurinn áhyggjum sínum á fyrirhuguðu 25 ára aldurstakmarki á inngöngu í framhaldsskólana. Um er að ræða mjög mikilvægt byggðamál, m.a. þar sem framhaldsskólarnir gegna mikilvægu hlutverki í að hækka menntunarstig landsbyggðanna.
Háskólinn á Akureyri
Aðalfundur Eyþings, haldinn í Þingeyjarsveit 3. og 4. október 2014, leggur áherslu á sjálfstæði Háskólans á Akureyri og að honum verði tryggt nægt fjármagn til sinna því hlutverki sem honum er ætlað, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir landsbyggðirnar. Jafnframt telur aðalfundurinn mikilvægt að skólanum verði sköpuð skilyrði til að þróa nýjar námsleiðir í samvinnu við atvinnulífið.
Menningarsamningur og framlög til menningarmála
Aðalfundur Eyþings, haldinn í Þingeyjarsveit 3. og 4. október 2014, mótmælir harðlega þeirri skerðingu sem orðið hefur á framlögum til menningarsamningsins á starfssvæði Eyþings á síðustu árum. Aðalfundurinn leggur mikla áherslu á að gerð nýs samnings dragist ekki á langinn og að hann verði undirritaður fyrir ársbyrjun 2015. Í fyrirhugaðri breytingu á skipan byggðaþróunarverkefna þarf að tryggja stöðugleika og lágmarksfjárhæðir í framlögum til menningarmála.
Aðalfundurinn minnir á að í úttekt Capacent á síðasta ári kom starfsemi menningarráðs Eyþings afar vel út og hann telur það grundvallaratriði fyrir farsæla þróun menningarmála á starfssvæðinu að áframhaldandi árangur í starfi menningarráðsins verði tryggður með faglegu starfi, góðu baklandi og fjárhagslegum grundvelli til lengri tíma.
Heilbrigðisþjónusta
Aðalfundur Eyþings, haldinn í Þingeyjarsveit 3. og 4. október 2014, minnir á að almenn og góð heilbrigðisþjónusta er mikilvægt byggða- og öryggismál. Nauðsynlegt er að stjórnvöld tryggi aðgengi að grunnþjónustu heilsugæslu og öldrunarþjónustu á öllu svæðinu. Til þess þarf að tryggja fjármagn til reksturs þjónustunnar sem er a.m.k. sambærilegt því sem gerist á höfuðborgarsvæðinu. Þá brýnir fundurinn stjórnvöld til þess að vinna breytingar á heilbrigðisþjónustu svæðisins í nánu samstarfi við íbúa, stofnanir og sveitarstjórnir á Eyþingssvæðinu.
Sjúkrahúsið á Akureyri
Aðalfundur Eyþings, haldinn í Þingeyjarsveit 3. og 4. október 2014, ítrekar mikilvægi þess að standa vörð um og efla uppbyggingu Sjúkrahússins á Akureyri.
Læknaskortur
Aðalfundur Eyþings, haldinn í Þingeyjarsveit 3. og 4. október 2014, skorar á heilbrigðisráðherra og ríkisstjórn að leita lausna til að gera starf lækna á Íslandi eftirsóknarvert, sem tryggi nægan fjölda lækna á Íslandi.
Framangreindar tillögur voru bornar upp hver fyrir sig og allar samþykktar samhljóða.
Fjárhags- og stjórnsýslunefnd.
Í nefndinni sátu:
Sigurður Valur Ásbjarnarson, formaður
Kristján E. Hjartarson
Silja Dögg Baldursdóttir
Logi Már Einarsson
Jón Stefánsson
Valtýr Hreiðarsson
Sigurbjörn Jakobsson
Jón Óskar Pétursson
Örlygur Hnefill Örlygsson
Katý Bjarnadóttir
Hilma Steinarsdóttir
Sigurður Valur þakkaði nefndarfólki fyrir málefnalega vinnu og gerði síðan grein fyrir niðurstöðum. M.a. kom fram að í fjárhagsáætlun næsta árs væri gert ráð fyrir nýjum starfsmanni hjá Eyþingi. Hann nefndi að hallarekstur árið 2013 hefði verið um 40 mkr. sem er til kominn vegna verkefnisins um almenningssamgöngur. Síðan las hann ályktun um almennings-samgöngur.
Rekstur verkefnis um almenningssamgöngur
Það er skýr afstaða aðalfundar Eyþings, haldinn í Þingeyjarsveit 3. og 4. október 2014, að áframhaldandi hallarekstur á verkefninu um almenningssamgöngur sé óásættanlegur og bendir fundurinn á að samkvæmt 64. grein sveitarstjórnarlaga ber sveitarfélögum að ná jafnvægi í rekstri innan hvers þriggja ára tímabils. Eðlilegt er að gera sömu kröfur til rekstrar landshlutasamtaka.
Greinargerð:
Líkt og fram kemur í skýrslu stjórnar Eyþings fyrir starfsárið 2013-2014 hefur ekkert verkefni tekið jafn mikið á í starfi Eyþings og verkefnið um almenningssamgöngur. Eins og fram kemur í ársreikningi fyrir árið 2013 er viðvarandi halli á verkefninu á starfssvæði Eyþings og hefur svo verið frá því verkefnið hófst árið 2012. Þessi rekstrarniðurstaða er í miklu ósamræmi við þær forsendur sem lagt var upp með þegar samningar um verkefnið voru undirritaðir.
Á aðalfundi 2014 hefur verið rætt ítarlega um stöðu verkefnisins, skýringar á erfiðri stöðu þess og hvaða aðgerðir eru í skoðun til þess að vinna á þeim halla sem er á verkefninu ásamt því að tryggja rekstrargrundvöll verkefnisins til framtíðar. Ljóst er að Eyþing getur ekki leyst úr því máli á sitt eindæmi. Fram hefur komið að mikill vilji er til úrbóta af hálfu innanríkisráðuneytisins og Vegagerðarinnar og eru væntingar um að ýmsar lykilforsendur verði endurskoðaðar á næstunni, til hagsbóta fyrir landshlutasamtök sveitarfélaga. Má þar einkum nefna tvo fjárhagslega þætti, sem eru endurgreiðsla olíugjalds og endurskoðun á skiptingu þróunarstyrkja milli landshluta. Aðalfundurinn leggur áherslu á að stjórn Eyþings beiti sér af fullum þunga fyrir því að þessar úrbætur nái fram að ganga. Einnig leggur fundurinn áherslu á að leyst verði sem fyrst úr ágreiningi milli landshlutasamtakanna um skiptingu tekna af leið 57 ásamt því að ná fram endurskoðun á gjaldskrá landshlutasamtakanna á þessu hausti. Jafnframt er mikilvæg forsenda fyrir framhaldi verkefnisins að lög um fólksflutninga á landi verði sett á þessum vetri, til að tryggja einkarétt landshlutasamtaka á almenningssamgöngum.
Ef framangreindir þættir ná fram að ganga væntir aðalfundurinn þess að forsendur skapist til þess að endurskoða uppsögn Eyþings á samningum við Vegagerðina um rekstur verkefnisins. Þar með verði unnt að halda rekstri verkefnisins áfram og vinna enn frekar að framþróun almenningssamgangna innan starfssvæðis Eyþings ásamt því að þróa áfram samstarf um rekstur almenningssamgangna milli landshluta. Óumdeilt er að á landsvísu er um að ræða verkefni sem stuðlað getur að bættum forsendum til búsetu utan höfuðborgarsvæðisins og er það sýn Eyþings að ríkið verði að beita sér fyrir úrbótum svo hægt verði að tryggja rekstur almenningssamgöngukerfis sem nær til alls landsins.
Samþykkt samhljóða.
Ársreikningur 2013
Fjárhags- og stjórnsýslunefnd gerir ekki athugasemdir við ársreikninginn og leggur til við fundinn að hann verði samþykktur.
Fjárhagsáætlun 2015
Fjárhags- og stjórnsýslunefnd gerir ekki athugasemdir við fjárhagsáætlun Eyþings fyrir árið 2014 og leggur til að hún verði samþykkt.
Endurskoðuð fjárhagsáætlun menningarráðs 2014
Fjárhags- og stjórnsýslunefnd gerir ekki athugasemdir við endurskoðaða fjárhagsáætlun menningarráðs fyrir árið 2014 og leggur til að hún verði samþykkt.
Fjárhagsáætlun menningarráðs 2015
Fjárhags- og stjórnsýslunefnd gerir ekki athugasemdir við tillögu að fjárhagsáætlun menningarráðs fyrir árið 2015 og leggur til að hún verði samþykkt.
Framangreindar tillögur um ársreikning og fjárhagsáætlanir voru bornar upp hver fyrir sig og allar samþykktar samhljóða.
10.2. Tillögur frá Kjörnefnd.
Í nefndinni sátu:
Arnór Benónýsson, Þingeyjarsveit, formaður.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Akureyri.
Steinunn M. Sveinsdóttir, Fjallabyggð.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson gerði grein fyrir niðurstöðum og tillögum nefndarinnar.
Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra 2014 – 2018
Pétur Maack Þorsteinsson Akureyri, formaður
Svanhildur Dóra Björgvinsdóttir Akureyri
Hafsteinn Gunnarsson Norðurþingi
Þórarinn Þórisson Langanesbyggð
Hólmfríður G. Jónsdóttir Dalvíkurbyggð
Til vara (í sömu röð og aðalmenn)
Linda María Ásgeirsdóttir Akureyri
Hjördís Stefánsdóttir Akureyri
Örlygur Hnefill Örlygsson Norðurþingi
Steinþór Heiðarsson Tjörneshreppi
Fjóla Stefánsdóttir Grýtubakkahreppi
Samþykkt samhljóða.
Menningarráð Eyþings 2014 – 2016
Sóley Björk Stefánsdóttir Akureyri
Freyr Antonsson Dalvíkurbyggð
Guðný Sverrisdóttir Grýtubakkahreppi
Jóhanna Kristjánsdóttir Norðurþingi
Arnór Benónýsson Þingeyjarsveit
Hildur Stefánsdóttir Svalbarðshreppi
Til vara (í sömu röð og aðalmenn)
Margrét Kristín Helgadóttir Akureyri
Kristinn Kristjánsson Fjallabyggð
Valdimar Gunnarsson Eyjafjarðarsveit
Röðull Reyr Kárason Norðurþingi
Dagbjört Bjarnadóttir Skútustaðahreppi
Sigríður Jóhannesdóttir Langanesbyggð
Háskólinn á Akureyri hefur tilnefnt Kjartan Ólafsson til setu í menningarráðinu og Guðrúnu Rósu Þórsteinsdóttur til vara.
Samþykkt samhljóða.
Stjórn Eyþings 2014 – 2016
Logi Már Einarsson Akureyri, formaður
Eva Hrund Einarsdóttir Akureyri
Sigurður Valur Ásbjarnarson Fjallabyggð
Jón Stefánsson Eyjafjarðarsveit
Sif Jóhannesdóttir Norðurþingi
Arnór Benónýsson Þingeyjarsveit
Hilma Steinarsdóttir Langanesbyggð
Til vara (í sömu röð og aðalmenn)
Sigríður Huld Jónsdóttir Akureyri
Gunnar Gíslason Akureyri
Bjarni Th. Bjarnason Dalvíkurbyggð
Eiríkur Haukur Hauksson Svalbarðsstrandarhreppi
Örlygur Hnefill Örlygsson Norðurþingi
Jón Óskar Pétursson Skútustaðahreppi
Olga Gísladóttir Norðurþingi
Samþykkt samhljóða.
10.3. Val á endurskoðanda.
Tillaga kjörnefndar er að endurskoðandi verði áfram sá sami, þ.e. verði Enor ehf., Davíð Búi Halldórsson löggiltur endurskoðandi.
Samþykkt samhljóða.
10.4. Ákvörðun um fundarstað næsta aðalfundar.
Guðmundur Sigvaldason, Hörgársveit kvaddi sér hljóðs. Hann sagði að sú hefð hefði skapast að halda aðalfundi Eyþings til skiptis austan og vestan Vaðlaheiðar. Síðan bauð hann til næsta aðalfundar Eyþings að ári í Hörgársveit.
10.5. Önnur mál.
Logi Már Einarsson kvaddi sér hljóðs og þakkaði fyrir það traust sem sér hefði verið sýnt og sagðist ætla að leggja sitt af mörkum til að efla samstarf sveitarfélaganna enn frekar. Verkefni færu oftast ekki eftir hreppamörkum og pólitík væri ekki ráðandi. Hann nefndi Vaðlaheiðargöng sem ættu eftir að tengja byggðarlög enn frekar, eins og Héðinsfjarðargöng gera núna. Vert væri að efna til sérstakrar athafnar þegar Vaðlaheiðargöng verða opnuð og sýna með táknrænum hætti hvað svæðið hefur upp á að bjóða. Að lokum þakkaði Logi Már fráfarandi formanni, Geir Kristni Aðalsteinssyni fyrir vel unnin störf.
10.6. Fundarslit.
Geir Kristinn Aðalsteinsson þakkaði hlý orð í sinn garð. Hann bauð nýtt fólk í stjórn Eyþings, menningarráði og heilbrigðisnefnd velkomið til starfa og óskaði því velfarnaðar. Þá þakkaði hann fyrir góðar móttökur í Þingeyjarsveit og aðbúnað á fundarstað. Að lokum þakkaði Geir Kristinn stjórnarmönnum, framkvæmdastjóra og þeim sveitarstjórnarmönnum sem hann hefði átt samvinnu við fyrir afar ánægjulega samfylgd á liðnum árum. Sérstaklega þakkaði hann framkvæmdastjóra fyrir lærdómsríkar kaffihúsaferðir í höfuðborginni en kaffihúsin væru orðin á þriðja tug. Hann óskaði fundarmönnum góðrar heimferðar og sagði fundi slitið.
Þá var klukkan 14:05.
Fyrirlesarar:
Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.
Jón Óskar Pétursson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps.
Njáll Trausti Friðbertsson, flugumferðarstjóri, viðskiptafræðingur og bæjarfulltrúi.
Torfi Jóhannesson, sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Guðjón Bragason, sviðsstjóri Sambandi ísl. sveitarfélaga.
Skráðir gestir:
Baldvin Valdimarsson, verkefnisstjóri Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar.
Bjarkey Gunnarsdóttir, alþingismaður Norðausturkjördæmi.
Brynhildur Pétursdóttir, alþingismaður Norðausturkjördæmi.
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyri.
Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu.
Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur RHA.
Höskuldur Þórhallsson, alþingismaður Norðausturkjördæmi.
Jóhannes Tómasson, upplýsingafulltrúi innanríkisráðuneytisins.
Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Karl Frímannsson, sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit.
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra og alþingismaður Norðausturkjördæmi.
Kristján Þór Magnússon, bæjarstjóri Norðurþings.
Kristján L. Möller, alþingismaður Norðausturkjördæmi.
Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Norðausturkjördæmi.
Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigurður Egilsson, bifreiðastjóri forsætisráðuneyti.
Steingrímur J. Sigfússon, alþingismaður Norðausturkjördæmi.
Valgerður Gunnarsdóttir, alþingismaður Norðausturkjördæmi.
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar.
Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður Norðausturkjördæmi.
Starfsmenn og embættismenn:
Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.
Dagbjört Bjarnadóttir, í stjórn Eyþings.
Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri í Þingeyjarsveit.
Geir Kristinn Aðalsteinsson, formaður Eyþings.
Guðný Sverrisdóttir, í stjórn Eyþings.
Halla Björk Reynisdóttir, í stjórn Eyþings.
Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings.
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, menningarfulltrúi Eyþings.
Valtýr Sigurbjarnarson, ráðinn fundarritari.
Kjörnir fulltrúar á aðalfund Eyþings 2014
Sveitarfélag |
|
Aðalfulltrúar |
|
Varafulltrúar |
Fjallabyggð |
X |
Sigurður Valur Ásbjarnarson |
|
Magnús Jónasson |
Fjallabyggð |
X |
Steinunn M Sveinsdóttir |
|
Kristjana R Sveinsdóttir |
Fjallabyggð |
|
Helga Helgadóttir |
|
S. Guðrún Hauksdóttir |
Fjallabyggð |
X |
Sólrún Júlíusdóttir |
|
Jón Valgeir Baldursson |
Dalvíkurbyggð |
|
Heiða Hilmarsdóttir |
|
Þórhalla Franklín Karlsdóttir |
Dalvíkurbyggð |
X |
Bjarni Th. Bjarnason |
|
Pétur Sigurðsson |
Dalvíkurbyggð |
|
Lilja Björk Ólafsdóttir |
|
Gunnþór E Gunnþórsson |
Dalvíkurbyggð |
X |
Kristján E Hjartarson |
|
Valdís Guðbrandsdóttir |
Hörgárbyggð |
X |
Guðmundur Sigvaldason |
|
Axel Grettisson |
Hörgárbyggð |
X |
Jón Þór Benediktsson |
|
Ásrún Árnadóttir |
Akureyrarbær |
|
Bjarki Ármann Oddsson |
|
Sigríður Huld Jónsdóttir |
Akureyrarbær |
X |
Matthías Rögnvaldsson |
|
Dagur Fannar Dagsson |
Akureyrarbær |
X |
Silja Dögg Baldursdóttir |
|
Tryggvi Þór Gunnarsson |
Akureyrarbær |
X |
Guðmundur Baldvin Guðmundsson |
|
Siguróli Magni Sigurðsson |
Akureyrarbær |
X |
Ingibjörg Ólöf Isaksen |
|
Halldóra Kristín Hauksdóttir |
Akureyrarbær |
X |
Logi Már Einarsson |
|
Ólína Freysteinsdóttir |
Akureyrarbær |
X |
Gunnar Gíslason |
|
Njáll Trausti Friðbertsson |
Akureyrarbær |
X |
Eva Hrund Einarsdóttir |
|
Bergþóra Þórhallsdóttir |
Akureyrarbær |
X |
Margrét Kristín Helgadóttir |
X |
Sóley Björk Stefánsdóttir |
Eyjafjarðarsveit |
X |
Jón Stefánsson |
|
Hólmgeir Karlsson |
Eyjafjarðarsveit |
X |
Jóhanna Dögg Stefánsdóttir |
|
Halldóra Magnúsdóttir |
Eyjafjarðarsveit |
|
Sigurlaug Hanna Leifsdóttir |
X |
Elmar Sigurgeirsson |
Svalbarðsstrandarhreppur |
X |
Eiríkur H Hauksson |
|
Halldór Jóhannesson |
Svalbarðsstrandarhreppur |
X |
Valtýr Hreiðarsson |
|
Ólafur Rúnar Ólafsson |
Grýtubakkahreppur |
X |
Þröstur Friðfinnsson |
|
Fjóla Valborg Stefánsdóttir |
Grýtubakkahreppur |
|
Ásta Fönn Flosadóttir |
X |
Sigurbjörn Jakobsson |
Þingeyjarsveit |
X |
Arnór Benónýsson |
|
Árni Pétur Hilmarsson |
Þingeyjarsveit |
X |
Margrét Bjarnadóttir |
|
Dagbjört Jónsdóttir |
Þingeyjarsveit |
X |
Ragnar Bjarnason |
|
Sigurður Hlynur Snæbjörnsson |
Skútustaðahreppur |
X |
Yngvi Ragnar Kristjánsson |
|
Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir |
Skútustaðahreppur |
X |
Jón Óskar Pétursson |
|
Guðrún Brynleifsdóttir |
Norðurþing |
X |
Sif Jóhannesdóttir |
|
Óli Halddórsson |
Norðurþing |
X |
Örlygur Hnefill Örlygsson |
|
Kristján Þór Magnússon |
Norðurþing |
|
Gunnlaugur Stefánsson |
X |
Soffía Helgadóttir |
Norðurþing |
|
Jónas Einarsson |
X |
Kjartan Páll Þórarinsson |
Norðurþing |
X |
Olga Gísladóttir, (4. 10.) |
X |
Friðrík Sigurðsson, (3. 10.) |
Tjörneshreppur |
X |
Katý Bjarnadóttir |
|
Sveinn Egilsson |
Svalbarðshreppur |
|
Sigurður Þór Guðmundsson |
|
Sigurður Jens Sverrisson |
Langanesbyggð |
X |
Hilma Steinarsdóttir |
|
Þorsteinn Ægir Egilsson |
Langanesbyggð |
X |
Siggeir Stefánsson |
|
Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir |
Rétt til setu á aðalfundinum 2014 áttu 40 fulltrúar frá 13 sveitarfélögum, sjá ofangreinda töflu. Alls mættu 37 fulltrúar frá 12 sveitarfélögum.