Fundargerð - Aukaþing SSNE - 1. október 2021
Aukaþing SSNE
Vefþing 1. október 2021
Fundargerð (pdf skjal)
1. Þingsetning
Hilda Jana Gísladóttir, Formaður SSNE, setti fund kl. 9:00 inn og bauð fundarmenn velkomna fyrir hönd stjórnar.
1.1. Kosning fundarstjóra og tveggja ritara.
Formaður lagði til eftirfarandi starfsmenn fundarins:
Fundarstjóri:
• Dagbjört Jónsdóttir.
Samþykkt samhljóða.
Fundarritarar:
• Ari Páll Pálsson.
• Hildur Halldórsdóttir.
Samþykkt samhljóða.
Dagbjört þakkaði fyrir og tók við fundarstjórn. Hún gerði grein fyrir því að fundurinn væri tekinn upp og kynnti skipulag atkvæðagreiðslu og fyrirspurna á rafrænu þingi.
1.2. Kosning kjörnefndar.
Fundarstjóri kynnti eftirfarandi tillögu stjórnar um kjörnefnd fundarins:
• Helena Eydís Ingólfsdóttir, formaður
• Sóley Björk Stefánsdóttir
Samþykkt samhljóða.
1.3. Kosning fjárhags- og stjórnsýslunefndar.
Fundarstjóri kynnti eftirfarandi tillögu stjórnar um fjárhags- og stjórnsýslunefnd fundarins:
• Katrín Sigurjónsdóttir, formaður.
• Gunnar Gíslason.
• Finnur Yngvi Kristinsson.
• Árni Pétur Hilmarsson.
Samþykkt samhljóða.
Fundarstjóri innti formann kjörnefndar, eftir upplýsingum um lögmæti fundarins. Helena Eydís upplýsti fundinn um að 30 atkvæðisbærir fulltrúar væru mættir, eða 75% og fundurinn því lögmætur.
Fundarstjóri kallaði eftir athugasemdum við fundarboðun sem engar voru og lýsti þingið því lögmætt.
Hér má hlusta á upptöku.
1.4. Skýrsla stjórnar – framvinda starfsáætlunar yfirstandandi árs.
Formaður SSNE, Hilda Jana Gísladóttir, flutti samantekt um störf stjórnar, gerði grein fyrir framvindu starfsáætlunar yfirstandandi árs.
1.5. Starfsáætlun SSNE 2022.
Formaður kynnti í beinu framhaldi starfsáætlun SSNE fyrir 2022, sem þingfulltrúar höfðu fengið senda fyrir þingið. Sjá nánari umfjöllun.
Fundarstjóri þakkaði formanni fyrir og gaf orðið laust um skýrslu stjórnar og starfsáætlun.
Katrín Sigurjónsdóttir fagnaði fréttabréfi SSNE og gildi þess fyrir þá sem ekki fylgjast með starfsemi SSNE frá degi til dags til að fræðast um þau mál sem unnið er að hverju sinni.
Ekki tóku fleiri til máls og bar fundarstjóri starfsáætlun 2022 undir atkvæðagreiðslu fundarins.
Samþykkt samhljóða.
Hér má hlusta á upptöku.
1.6. Staða fjárhagsáætlunar 2021 og drög að fjárhagsáætlun 2022.
Fundarstjóri bauð Eyþóri Björnssyni, framkvæmdastjóra, að fara yfir fjárhagsáætlanir yfirstandandi og komandi árs.
Hann hóf mál sitt á því að gera grein fyrir breytingum í starfsmannahaldi og kynna nýja starfsmenn fyrir fundargestum.
Að því búnu gerði hann grein fyrir stöðu fjárhagsáætlunar yfirstandandi árs og kynnti drög að fjárhagsáætlun fyrir 2022. Sjá fjárhagsáætlanir 2021 og 2022 og greinargerð.
Þegar Eyþór hafði lokið máli sínu bað fundarstjóri Katrínu Sigurjónsdóttur að gera grein fyrir niðurstöðu fjárhags- og stjórnsýslunefndar.
Katrín sagði engar athugasemdir eftir þessa yfirferð. Nefndin hefði fundað tvisvar og atriði sem athugasemdir komu fram við hefðu nú verið leiðrétt.
Formaður þakkaði Katrínu fyrir og gaf kost á spurningum og umræðum um þær áætlanir sem kynntar voru. Engin kvaddi sér hljóðs og bar fundarstjóri fjárhagsáætlun 2022 undir atkvæðagreiðslu.
Samþykkt samhljóða.
Hér má hlusta á upptöku.
2. Tillögur frá framkvæmdastjóra
Fundarstjóri bar upp eftirfarandi tillögur sem þingfulltrúar höfðu fengið sendar fyrir þingið.
2.1. Tillaga um breytta skipan fagráðs atvinnuþróunar og nýsköpunar.
Tillagan er svo hljóðandi (sjá pdf skjal):
Formaður fagráðs atvinnuþróunar og nýsköpunar, Eiríkur H. Hauksson, hefur óskað eftir því að stíga út úr hlutverki formanns fagráðsins en er reiðubúinn til þess að sitja áfram í fagráðinu.
Framkvæmdastjóri SSNE leggur til þá breytingu á fagráði atvinnuþróunar og nýsköpunar að Eva Hlín Dereksdóttir verði formaður fagráðsins í stað Eiríks sem áfram mun sitja í fagráðinu.
Tillaga framkvæmdastjóra SSNE er sú að fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar verði þannig skipað:
• Eva Hlín Dereksdóttir, formaður.
• Aðalsteinn Árni Baldursson.
• Sigríður Róbertsdóttir.
• Thomas Helmig.
• Eiríkur H. Hauksson.
• Sigríður Vigdís Vigfúsdóttir.
• Guðrún Sigríður Tryggvadóttir.
Fundarstjóri gaf orðið laust fyrir umræður.
Samþykkt samhljóða.
2.2. Tillaga um stofnun fagráðs umhverfismála SSNE.
Tillagan er svo hljóðandi (sjá pdf skjal)
Undirnefnd umhverfismála SSNE hefur nú starfað frá því að hún var stofnuð og síðan formlega skipuð á ársþingi 16. apríl 2021. Á þessum stutta tíma hefur það fengist staðfest að mikil þörf er fyrir öfluga starfsemi á vettvangi umhverfismála innan SSNE. Nú líður að umsókna- og úthlutunarferli uppbyggingarsjóðs og það er mikilvægt að umhverfismálin fái rými á þeim vettvangi til samræmis við atvinnuþróun og nýsköpun og menningarmál. Sem kunnugt er stendur sóknaráætlun SSNE á þremur megin stoðum: atvinnuþróun og nýsköpun, menningarmálum og umhverfismálum.
Framkvæmdastjóri leggur fram eftirfarandi tillögu:
Stofnað verði fagráð umhverfismála SSNE sem leysir af hólmi undirnefnd umhverfismála. Í því sambandi verði 16. gr. samþykkta SSNE breytt þannig að við 1. mgr. bætist einn starfliður: c) Fagráð umhverfismála.
Fundarstjóri gaf orðið laust fyrir umræður.
Samþykkt samhljóða.
2.3. Tillaga um skipan fagráðs umhverfismála.
Tillagan er svo hljóðandi (sjá pdf skjal)
Framkvæmdastjóri SSNE gerir þá tillögu að fagráð umhverfismála verði þannig skipað:
• Ottó Elíasson, formaður.
• Guðmundur Sigurðsson.
• Sveinn Margeirsson.
• Rut Jónsdóttir.
• Salbjörg Matthíasdóttir.
Fundarstjóri gaf orðið laust fyrir umræður.
Samþykkt samhljóða.
2.4. Tillaga um fjölgun varamanna í úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóðs.
Tillagan er svo hljóðandi (sjá pdf skjal)
Með því að til verður fagráð umhverfismála telur framkvæmdastjóri SSNE rétt að varamönnum í úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóðs verði fjölgað úr tveimur í þrjá til að tryggja að tilgreindir séu varamenn út öllum fagráðum. Í dag eru tilgreindir tveir varamenn sem koma úr núverandi fagráðum, fagráði menningar annars vegar og fagráði atvinnuþróun og nýsköpun hins vegar.
Framkvæmdastjóri SSNE leggur fram eftirfarandi tillögu:
1. mgr. 15. gr. samþykkta SSNE verði breytt þannig að í stað „...og tvo varamenn.“ komi „...og þrjá varamenn.“
Fundarstjóri gaf orðið laust fyrir umræður.
Samþykkt samhljóða.
2.5. Tillaga um breytta skipan úthlutunarnefndar uppbyggingarsjóðs.
Tillagan er svo hljóðandi (sjá pdf skjal)
Samkvæmt ákvæðum 15. gr. samþykkta SSNE sitja formenn fagráða í úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóðs. Vegna breytinga í fagráði atvinnuþróunar og nýsköpunar leggur framkvæmdastjóri SSNE til þá breytingu að Eva Hlín Dereksdóttir, nýr formaður fagráðs, taki sæti í úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóðs í stað Eiríks H. Haukssonar. Að auki bætist við úthlutunarnefndina formaður fagráðs umhverfismála, Ottó Elíasson. Því til viðbótar hefur framkvæmdastjóri SSNE gert þá tillögu að fjölga varamönnum úr tveimur í þrjá þannig að ávallt sé tilgreindur varamaður úr öllum fagráðum.
Framkvæmdastjóri SSNE leggur fram þá tillögu að úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóðs verði þannig skipuð aðalmönnum og varamönnum:
• Katrín Sigurjónsdóttir, formaður.
• Guðni Bragason.
• Thomas Helmig.
• Hulda Sif Hermannsdóttir, formaður fagráðs menningar.
• Eva Hlín Dereksdóttir, formaður fagráðs atvinnuþróunar og nýsköpunar.
• Ottó Elíasson, formaður fagráðs umhverfismála.
Varamenn:
• Jan Axel Klitgaard.
• Guðrún Sigríður Tryggvadóttir.
• Sveinn Margeirsson.
Fundarstjóri gaf orðið laust fyrir umræður.
Samþykkt samhljóða.
Hér má hlusta á upptöku.
3. Svæðisborgin Akureyri – Birgir Guðmundsson
Fundarstjóri kynnti Birgi Guðmundsson til þess að kynna hugmyndir um Akureyri sem svæðisborg.
Birgir þakkaði tækifærið til þess að kynna þetta verkefni sem væri í raun skilgetið afkvæmi SSNE sem varð að samstarfsverkefni með samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Hann lýsti góðu samstarfi starfshópsins og áherslum hans á að samþætta áherslur úr byggðaráætlun stjórnvalda um sjálfbæra þróun við skilgreiningu á borgarhlutverki Akureyrar sem gæti þá orðið púsl inn í heildarstefnu stjórnvalda um byggðastefnu í landinu. Birgir sagði að taka þyrfti tillit til margra þátta, m.a. í samhengi við mótun á höfuðborgarstefnu og hvernig verkaskipting byggðastiga í landinu ætti að þróast.
Hér má sjá kynningu.
Fundarstjóri þakkaði Birgi fyrir áhugavert erindi og opnaði mælendaskrá.
Þingfulltrúar tóku til máls.
Hér má hlusta á upptöku með frekari umræðum.
4. Samgöngustefna SSNE, staða verkefnisins og umræður
Eyþór Björnsson gerði stutta grein fyrir stöðu verkefnisins. Stjórn SSNE samþykkti snemma árs að leggja fjármagn í áhersluverkefni um gerð Samgöngustefnu fyrir SSNE og var RHA var fengið til að vinna ákveðna undirbúningsvinnu sem lýtur að möguleikum í vegaframkvæmdum á svæðinu. Var sú skýrsla kynnt á fundi með sveitarstjórnarfólki í september (sjá pdf skjal).
Þar sem skýrslan nær aðeins til hluta þeirra þátta sem heyra undir samgöngustefnu var ákveðið að safna saman öðrum upplýsingum, m.a. frá Vegagerðinni. Grundvallaratriði er að vinna við samgöngustefnu verði lýðræðislega unnin með aðkomu allra sem málið varðar á svæðinu.
Eyþór bauð velkominn Pál Brynjarsson, framkvæmdastjóra SSV, til að kynna hvernig SSV hefði nálgast vinnu við samgöngustefnu á Vesturlandi. Einnig gat hann þess að Jón Þorvaldur Heiðarsson sem vann skýrslu RHA væri á fundinum og reiðubúinn að svara spurningum.
Páll Brynjarsson fór hvernig vinna SSV við samgönguáætlun Vesturlands fór af stað árið 2016 með vinnuhóp sem skilaði tillögum í árslok 2016 sem vísað var til umsagnar allra sveitarfélaga landshlutans og samþykkt stuttu síðar. Með því hafi náðst sameiginleg framtíðarsýn um uppbyggingu og forgangsröðun verkefna á sviði samgöngu- og fjarskiptamála í landshlutanum.
Páll sagði áætlunina hafa orðið til þess að sveitarfélögin hefðu skýra sýn varðandi hvað þau vilja í samgöngumálum og eru orðin samstíga í málflutningi sínum sem er mjög gagnlegt í samtali við stjórnvöld. Reynslan af þessu hefði orðið til þess að í ár ráðist var endurskoðun á samgönguáætlun SSV sem nýlega var samþykkt.
Páll ræddi síðan hvernig landshlutaáætlanir í samgöngumálum tengjast samgöngustefnu ríkisins og gerði frekari grein fyrir verklagi og efnistökum endurskoðaðrar áætlunar, þar sem sérstök áhersla var lögð á tengivegi, m.a. með tilliti til atvinnustarfsemi.
Fundarstjóri þakkaði Páli góða punkta fyrir áframhaldandi vinnu SSNE og opnaði mælendaskrá.
Þingfulltrúar tóku til máls.
Hér má hlusta á upptöku með kynningu Páls og umræðum.
5. SSNE og atvinnulífið
Fundarstjóri kynnti erindi um SSNE og atvinnulífið og hópavinnu í kjölfar þess og gaf starfsmönnum SSNE, Elvu Gunnlaugsdóttur og Önnu Lind Björnsdóttur orðið.
Elva Gunnlaugsdóttir byrjaði á að fara yfir helstu verkefni SSNE í tengslum við atvinnulíf á svæðinu. Í máli hennar kom m.a. fram hve fjölbreytt tengslin við atvinnulífið eru, hvernig starfsmenn SSNE dreifast um svæðið og að samstarf við sveitarfélögin um starfsmannamál hefði reynst einkar vel.
Einnig vék hún að Sóknaráætlun Norðurlands eystra, sem allt starf og starfsáætlun SSNE byggir á, og var mótuð í víðtæku samráði við alla hagaðila á svæðinu; sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, almenning.
Elva kynnti því næst samskiptastefnu SSNE fór því næst yfir ýmsa þætti í daglegri starfsemi samtakanna í tengslum við atvinnulíf á svæðinu.
Hér má sjá kynningu.
5.1. Hópavinna
Í framhaldi af erindi Elvu tók Anna Lind Björnsdóttir við keflinu og varpaði fram spurningunni um hvernig þingið vildi sjá SSNE auka tengsl við atvinnulífið. Hún kynnti hópavinnu þar sem fulltrúar voru beðnir um að deila skoðun sinni á áherslum SSNE í málefnum atvinnulífsins út frá spurningum um hvað ætti að byrja að gera, hvað ætti að halda áfram að gera og hvað ætti að hætta að gera.
Þinggulltrúum var skipt upp í umræðuhópa og í kjölfar þess kynntu fulltrúar hópanna helstu niðurstöður.
Anna Lind þakkaði hópunum fyrir sitt gagnlega innlegg. Framkvæmdastjóri kvaddi sér einnig hljóðs og þakkaði fyrir góða punkta sem sagði að teknir yrðu til skoðunar og unnið með. Hann fagnaði því einnig að ekki væri ákall um að hætta neinu heldur frekar bæta í starfsemina.
Hér má hlusta á upptöku af kynningum Elvu og niðurstöðum hópavinnu.
6. Umræður og atkvæðagreiðsla um önnur málefni sem löglega eru upp borin
Engin málefni lágu fyrir undir þessum lið.
7. Önnur mál
Engin málefni lágu fyrir undir þessum lið en fundarstjóri gaf orðið laust.
Enginn tók til máls.
8. Þingslit
Þar sem engin önnur mál lágu fyrir þakkaði fundarstjóri fyrir, og óskaði eftir heimild þingfulltrúa til þess að ganga frá fundargerð ásamt ritara að loknu þingi áður en fundargerð yrði birt.
Engin andmæli bárust og þakkaði fundarstjóri þinggestum og starfsfólki SSNE fyrir fundinn og bauð Hildi Jönu Gísladóttir, formanni SSNE, að slíta þinginu.
Hilda Jana tók undir þakkir til starfsfólk og þakkaði fundarstjóra skelegga fundarstjórn. Hún hvatti að lokum þingfulltrúa til að hafa óhikað sambandi við starfsfólk og stjórnarmenn, því starf SSNE væri samstarfsverkefni sem yrði aðeins öflugt og við ákveðum að það verði.
Fundi slitið kl.12:00
Hér má hlusta á upptöku.