Fara í efni

Fundargerð - Ársþing SSNE - 9. og 10. október 2020

09.10.2020

Ársþing SSNE
Vefþing
9. og 10. október 2020

Fundargerð

Föstudagur 9. október.

     1.     Fundarsetning kl. 10:00.
Formaður SSNE, Hilda Jana Gísladóttir, setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna fyrir hönd stjórnar.

     1.1    Kosning fundarstjóra og tveggja ritara.
Hilda Jana lagði til eftirfarandi starfsmenn fundarins.

Fundarstjóri:
Hilmar Gunnlaugsson.
Samþykkt samhljóða.

Fundarritarar:
Ari Páll Pálsson.
Helga María Pétursdóttir.
Samþykkt samhljóða.

     1.2    Kosning kjörnefndar.
Hilmar Gunnlaugsson tók við fundarstjórn og þakkaði traustið. Hann vakti athygli á því að fundurinn væri tekinn upp og að þátttakendur samþykktu slíkt með viðveru á fundinum. Því næst kallaði hann eftir athugasemdum varðandi boðun fundarins og vísaði í samþykktir SSNE þar sem fram kemur:

  • að boða skuli til þinga með a.m.k. fjögurra vikna fyrirvara,
  • að tillögur og ályktanir annarra en stjórnar skulu hafa borist stjórn eigi síðar en 10 dögum fyrir þing og
  • að þing séu lögmæt ef löglega er til þeirra boðað og a.m.k. 2/3 kjörinna fulltrúa eru mættir.

Fundarstjóri fór yfir það hvernig kosið yrði á fundinum. Þegar hann hefði borið upp tillögu réttu þeir upp hönd rafrænt (raise hand) sem samþykktu tillöguna. Hann bað fundargesti að skíra sig fullu nafni og þingfulltrúa auk þess að setja A framan við nafnið sitt og fyrir hvaða sveitarfélag þeir mættu til að auðvelda yfirferð í atkvæðagreiðslum.

Fundarstjóri kynnti tillögu stjórnar að kjörnefnd fundarins.

Kjörnefnd:
Helgi Héðinsson, formaður.
Helena Eydís Ingólfsdóttir.
Samþykkt samhljóða.

     1.3    Kosning fjárhags- og stjórnsýslunefndar.
Fundarstjóri kynnti tillögu stjórnar að fjárhags- og stjórnsýslunefnd fundarins.

Fjárhags- og stjórnsýslunefnd:
Katrín Sigurjónsdóttir, formaður.
Gunnar Gíslason.
Finnur Yngvi Kristinsson.
Árni Pétur Hilmarsson.
Kolbrún Ada Gunnarsdóttir.
Samþykkt samhljóða.

Helgi Héðinsson, formaður kjörnefndar, upplýsti fundinn um að fleiri en 2/3 þingfulltrúa væru mættir og fundurinn því lögmætur.

Fundarstjóri lýsti fundinn lögmætan og gengið var til auglýstrar dagskrár.

Fundarstjóri bað fundargesti um að koma skilaboðum og spurningum á framfæri í gegnum spjallið (chat) á zoom. Eins skyldu fundargestir biðja um orðið þar.

     1.4    Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
Hilda Jana flutti stutta samantekt á skýrslu stjórnar. Sjá glærur.

Fundarstjóri lagði til við fundinn að umræður um skýrslu stjórnar færu fram samhliða umræðum um ársreikning.

     1.5    Ársreikningur og skýrsla endurskoðanda.
Níels Guðmundsson, endurskoðandi hjá Enor ehf., kynnti ársreikning Eyþings fyrir árið 2019. Þingfulltrúar fengu ársreikninginn sendan sem fundarskjal. Skýringar og sundurliðanir eru nákvæmar í ársreikningnum.

Helstu niðurstöður ársreiknings eru þessar:
Rekstrarreikningur 2019
Rekstrartekjur 427.034.557
Rekstrargjöld 422.965.908
Rekstrarniðurstaða án fjármagnsliða 4.068.649
Fjármunatekjur 931.698
Rekstrarniðurstaða ársins 5.000.347

Efnahagsreikningur 2019
Eignarhlutir í félögum 5.423.042
Veltufjármunir 120.726.107
Eignir samtals 126.149.149
Eigið fé (42.499.183)
Lífeyrisskuldbindingar 26.359.266
Skammtímaskuldir 142.289.066
Eigið fé og skuldir samtals 126.149.149

Fundarstjóri upplýsti fundinn um að fjárhags- og stjórnsýslunefnd legði til að ársreikningurinn yrði samþykktur og bauð þingfulltrúum að tjá sig á spjallinu.
Enginn tók til máls.

Fundarstjóri bar ársreikning undir atkvæði fundarins og bað þá sem samþykktu um að rétta upp hönd.
Samþykkt samhljóða.

     2.     Tillögur og ályktanir frá stjórn og þingfulltrúum.
Fundarstjóri bað um leyfi fundarins til að taka „endurmat og eftirfylgni sóknaráætlunar Norðurlands eystra“ fyrir næsta dag.
Samþykkt.

     2.1    Tillaga stjórnar um áherslumál og forgangsröðun verkefna.
Hilda Jana nefndi í tengslum við yfirferð á fjárhagsáætlun, undir lið 2.3, að Akureyrarbær hygðist lækka laun til nefndarmanna og að hún gerði ráð fyrir því að stjórn SSNE legði slíkt hið sama til á rafræna þinginu í desember.

Hilda Jana lagði fram tillögu stjórnar að bókun varðandi áherslumál og forgangsröðun verkefna:
„Stjórn leggur til að lögð verði sérstök áhersla á verkefni SSNE tengd þjónustu við sveitarfélög og atvinnulíf tengt heimsfaraldri Covid-19.“

Fundarstjóri gaf þingfulltrúum kost á að tjá sig.
Enginn tók til máls.

Fundarstjóri bar tillögu stjórnar að bókun undir atkvæði fundarins og bað þá sem samþykktu um að rétta upp hönd.
Samþykkt samhljóða.

     2.2    Tillaga stjórnar um starfsáætlun 2021.
Hilda Jana kynnti starfsáætlun stjórnar fyrir árið 2021. Þingfulltrúar fengu starfsáætlunina senda sem fundarskjal. Hún sagði áætlunina heldur rýra og bað um leyfi fundarins fyrir því að ítarlegri áætlun yrði lögð fyrir rafrænt þing í desember.
Samþykkt.

     2.3    Tillaga stjórnar um fjárhagsáætlun 2020 og 2021.
Eyþór Björnsson, framkvæmdastjóri SSNE, kynnti fjárhagsáætlun 2020 og 2021. Þingfulltrúar fengu áætlanirnar sendar sem fundarskjal.

Fyrirspurnir og umræður:
Guðmundur Baldvin Guðmundsson þakkaði fyrir góða yfirferð. Hann bað um frekari skýringar á auknum kostnaði við svæðisskipulag Eyjafjarðar og ferðakostnaði stjórnar. Hann spurði hvort ekki yrði lögð meiri áhersla á fjarfundi áfram.

Katrín Sigurjónsdóttir, formaður fjárhags- og stjórnsýslunefndar, sagði góðar skýringar hafa komið fram í máli Eyþórs. Hún sagði að ályktun nefndarinnar væri að ferðakostnaður væri hár og að nefndarmönnum fyndist að nýta ætti fundartækni eins og unnt væri. Hún sagði nefndina ekki gera athugasemdir við fjárhagsáætlun frekar en ársreikning.

Eyþór Björnsson þakkaði góðar fyrirspurnir. Hann sagði stjórnarfundi flesta vera fjarfundi og vilji væri til að halda því áfram. Þó væri gert ráð fyrir því að fleiri fundir yrðu haldnir til að komast yfir ýmis verkefni en það gæti kallað á fleiri fundi í raunheimum. Eins sagði hann að starfsdagur stjórnar og starfsmanna hefði verið haldinn í ágúst og að vilji væri til að endurtaka slíkt. Eyþór sagði ábendingar varðandi ferðakostnað góðar og að stjórn og starfsfólk væru meðvituð um að halda rafræna fundi. Þá sagði hann áætlanir um kostnað við svæðisskipulag Eyjafjarðar byggðar á upplýsingum frá Þresti Friðfinnssyni, sem sæti í nefndinni.

Gunnar Gíslason þakkaði fyrir góða yfirferð. Hann kom á framfæri ábendingu frá fjárhags- og stjórnsýslunefnd um að greinargerð yrði send út með fjárhagsáætlun þar sem ítarleg grein yrði gerð fyrir breytingum á milli ára.

Jónas Egilsson þakkaði fyrir yfirferðina. Hann spurði hvort bein tenging væri á milli nefndarlauna hjá Akureyrarbæ og stjórnarlauna SSNE, þ.e. hvort það hefði skuldbindandi áhrif á stjórnunarkostnað hjá SSNE ef Akureyrarbær tæki upp á því að hækka nefndarlaun.

Hilda Jana Gísladóttir sagði að á sínum tíma hefðu laun verið tengd við þingfararkaup en að Akureyrarbær hefði tekið mið af lægri fjárhæð sem síðan var vísitölutengd. Tillaga stjórnar SSNE um að tengja stjórnarlaun við þá fjárhæð var samþykkt á aðalfundi Eyþings í fyrra. Hilda Jana sagði að innan stjórnar hefði verið rætt hvort leggja ætti fram sambærilega tillögu og Akureyrarbær, um lækkun launa, á ársþinginu í desember. Hún ítrekaði að ársþingið tæki ákvarðanir um öll málefni félagsins.

Eyþór Björnsson þakkaði nefndinni fyrir góða ábendingu um að láta greinargerð fylgja með fjárhagsáætlun.

Fundarstjóri bar fjárhagsáætlun SSNE fyrir árið 2021 undir atkvæði fundarins og bað þá sem samþykktu um að rétta upp hönd.
Samþykkt samhljóða.

     2.4    Tillaga stjórnar um skipan í fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar.
Fundarstjóri kynnti tillögu stjórnar að skipan í fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar. Þingfulltrúar fengu tillöguna senda sem fundarskjal.

Fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar:
Eiríkur H. Hauksson, Svalbarðsströnd, formaður.
Aðalsteinn Árni Baldursson, Húsavík.
Sigríður Róbertsdóttir, Eyjafjarðarsveit.
Thomas Helmig, Öxarfirði.
Eva Hlín Dereksdóttir, Akureyri.
Sigríður Vigdís Vigfúsdóttir, Siglufirði.
Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, Svartárkoti.

Fundarstjóri kallaði eftir öðrum tillögum og bauð þingfulltrúum að taka til máls.
Enginn tók til máls.

Fundarstjóri bar tillögu stjórnar að skipan í fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar undir atkvæði fundarins og bað þá sem samþykktu um að rétta upp hönd.
Samþykkt samhljóða.

     2.5    Tillaga stjórnar um skipan í fagráð menningar.
Fundarstjóri kynnti tillögu stjórnar að skipan í fagráð menningar. Þingfulltrúar fengu tillöguna senda sem fundarskjal.

Fagráð menningar:
Hulda Sif Hermannsdóttir, Akureyri, formaður.
Aníta Elefsen, Fjallabyggð.
Arnþrúður Dagsdóttir, Skútustaðahreppi.
Friðrik Ómar Hjörleifsson, Akureyri.
Guðni Bragason, Húsavík.
Jan Axel Klitgaard, Húsavík.
Þuríður Helga Kristjánsdóttir, Akureyri.

Fundarstjóri kallaði eftir öðrum tillögum og bauð þingfulltrúum að taka til máls.
Enginn tók til máls.

Fundarstjóri bar tillögu stjórnar að skipan í fagráð menningar undir atkvæði fundarins og bað þá sem samþykktu um að rétta upp hönd.
Samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri sagði tillögu hafa borist fyrir þingið frá Langanesbyggð, um fagráð umhverfismála, sem ekki væri gert ráð fyrir í samþykktum félagsins. Hann gaf Langanesbyggð færi á að fylgja tillögunni eftir og kynna fyrir fundinum.

Jónas Egilsson kynnti tillögu Langanesbyggðar og sagði umhverfismál eitt meginverkefna í sóknaráætlun Norðurlands eystra. Hann sagði að miklar kröfur væru gerðar á sveitarfélög í umhverfismálum, s.s. í sorpmálum. Jónas sagði að umhverfismál væru vaxandi málaflokkur og að menn væru á þeirri skoðun að það væri styrkur í því að taka á málinu sameiginlega. Hann sagði að ef tillagan yrði samþykkt þá tæki stjórn ákvörðun um mótun verkefnisins.

Fundarstjóri spurði hvort það væri rétt skilið að ef tillagan yrði samþykkt þá yrði ekki kosið í fagráð á þessu þingi heldur færi stjórn í undirbúningsvinnu um mótun verkefnisins.

Jónas Egilsson sagði stjórn þurfa að undirbúa verkefnið nánar og að hans hugmynd væri sú að fundurinn tæki stefnumótandi ákvörðun um að stofna fagráð umhverfismála.

Fyrirspurnir og umræður:
Sóley Björk Stefánsdóttir studdi tillöguna en tók fram að hún hefði engar upplýsingar um kostnað. Hún sagði mikilvægt að taka málaflokkinn fastari tökum.

Sigurður Þór Guðmundsson sagði tillöguna góða. Hann lagði til að fylgst yrði með því hvernig gengi að koma fagráði atvinnuþróunar og nýsköpunar og fagráði menningar í virkni næsta árið áður en farið yrði í þá vinnu að fjölga fagráðum.

Hilda Jana Gísladóttir sagði tillöguna góða en að hún væri tvístígandi um hvort þetta væri rétti tíminn til að fara í þá vinnu. Hún sagði að fagráðin væru að breytast, áður fóru þau yfir umsóknir um styrki í Uppbyggingarsjóð, en nú hefðu þau breiðara hlutverk og væru m.a. ráðgjafandi fyrir stjórn og ársþing. Þá spurði hún Eyþór út í mögulegan kostnað við þriðja fagráðið.

Eyþór Björnsson sagði fagráðin þurfa að hittast reglulega og funda til að tilsett virkni næðist. Hann sagði að í fjárhagsáætlun væri áætlaður kostnaður við fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar og fagráð menningar 3 m.kr. og að ef unnið væri út frá sömu forsendum yrði kostnaður við þrjú fagráð um 4,5 m.kr.

Elías Pétursson sagði tillöguna góða enda málefnið stórt og mikið. Hann tók undir með Sigurði og sagði að keyra þyrfti almennilega í gang það sem búið væri að ákveða í samþykktum áður en farið væri af stað með ný verkefni.

Sigurður Þór Guðmundsson sagði fagráðin bökkuð upp með starfssviðum. Starfandi hjá SSNE væru menningarfulltrúi og atvinnuráðgjafar sem tilheyrðu sviðunum. Ef stofna ætti fagráð umhverfismála þá væri verið að tala um nýtt starfssvið félagsins.

Hilda Jana Gísladóttir vakti athygli á að nú þegar hefði verið myndað teymi hjá SSNE varðandi umhverfismálin.

Jónas Egilsson sagði umræðurnar koma sér á óvart en fagnaði síðasta útspilinu varðandi teymi um umhverfismálin. Hann sagði málaflokkinn stærri en menn gerðu sér grein fyrir og að frestur væri ekki besta viðhorfið. Hann sagði útspil stjórnar um að setja málið í gang duga að sinni.

Fundarstjóri las upp af spjallinu:
Halla Björk Reynisdóttir sagðist taka undir með Sigurði og Elíasi um að rétt væri að bíða með tillöguna í eins og eitt ár.
Eva Hrund Einarsdóttir sagði að gefa mætti málaflokknum svigrúm innan fyrirliggjandi fagráða og skilgreina fjármagn í umhverfismál í  Uppbyggingarsjóði.

Fundarstjóri spurði hvort skilja mætti Jónas þannig að tillagan yrði dregin til baka í þeim skilningi að ekki þyrfti að greiða atkvæði um hana eða hvort henni yrði breytt á þann hátt að skorað yrði á stjórn að skoða þessi mál.

Jónas Egilsson sagði ásættanlegt að tillagan yrði skoðuð af stjórn og að stefnumótandi ákvörðun yrði lögð fyrir ársþingið í desember. Hann bað stjórn að vinna faglega að málinu.

Fundarstjóri spurði Jónas hvort tillögunni yrði breytt þannig:
„Fundurinn skorar á stjórn að taka til skoðunar að stofna sérstakt fagráð umhverfismála og kynna niðurstöðu sína á næsta ársþingi.“

Jónas Egilsson sagði það góða niðurstöðu.

Hilda Jana Gísladóttir lagði til að ekki yrði eingöngu skorað á stjórn að skoða fagráð heldur málaflokkinn í heild sem eina af þremur stoðum sóknaráætlunar. Að stjórn færi yfir það hvernig hún hygðist skapa samstarf og vinnu í umhverfismálum m.a. með tilkomu mögulegs fagráðs sem og öðru.

Fundarstjóri sagði tillöguna þá svohljóðandi:
„Fundurinn samþykkir að fela stjórn að skoða sérstaklega hvort tilefni sé til að stofna fagráð umhverfismála og með hvaða hætti fylgja á eftir áherslum í sóknaráætlun er varðar umhverfismál innan SSNE.“

Fundarstjóri bar tillöguna undir atkvæði fundarins og bað þá sem samþykktu um að rétta upp hönd.
Samþykkt samhljóða.

     2.6    Tillaga stjórnar um úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs.
Fundarstjóri kynnti tillögu stjórnar að skipan í úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs. Þingfulltrúar fengu tillöguna senda sem fundarskjal.

Úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs:
Eva Hrund Einarsdóttir, formaður.
Guðni Bragason.
Thomas Helmig.
Hulda Sif Hermannsdóttir, formaður fagráðs menningar.
Eiríkur H. Hauksson, formaður fagráðs atvinnuþróunar og nýsköpunar.

Varamenn:
Jan Axel Klitgaard.
Guðrún Sigríður Tryggvadóttir.

Hilda Jana kynnti breytingu á tillögu stjórnar. Hún sagði stjórn leggja til annan formann úthlutunarnefndar þar sem Eva Hrund Einarsdóttir ætlaði að sinna öðrum verkefnum sem samræmdust ekki starfi formanns úthlutunarnefndar. Hún sagði stjórn leggja til að Katrín Sigurjónsdóttir yrði formaður úthlutunarnefndar.

Fundarstjóri las upp ofangreinda tillögu með þeirri breytingu að Eva Hrund færi út og Katrín kæmi inn sem formaður. Hann bauð þingfulltrúum að taka til máls.
Enginn tók til máls.

Fundarstjóri bar tillöguna með breytingu undir atkvæði fundarins og bað þá sem samþykktu um að rétta upp hönd.
Samþykkt samhljóða.

     2.7    Tillaga stjórnar um greiðslu þóknana til stjórnar.
Fundarstjóri kynnti tillögu um greiðslu þóknunar til stjórnar SSNE. Þingfulltrúar fengu tillöguna senda sem fundarskjal.

Tillagan er svohljóðandi:
„Laun skulu nema skilgreindum hundraðshluta af viðmiðunarfjárhæð sem var 960.607 kr. í janúar 2017. Viðmiðunarfjárhæð tekur mið af launavísitölu og breytist 1. júlí og 1. janúar ár hvert. Viðmiðunarfjárhæð var 1.191.192 kr. 1. júlí 2020.

Laun stjórnarmanna SSNE skulu vera 4,0% af viðmiðunarfjárhæð fyrir setinn stjórnarfund. Laun formanns stjórnar SSNE skulu einnig vera 4,0% af viðmiðunarfjárhæð fyrir setinn stjórnarfund auk mánaðarlauna sem nema 10,5% af viðmiðunarfjárhæð. 1. júlí 2020 fengu stjórnarmenn 47.648 kr. fyrir setinn stjórnarfund og mánaðarlaun formanns voru auk þess 125.075 kr.“

Fundarstjóri opnaði mælendaskrá.
Enginn tók til máls.

Fundarstjóri bar tillöguna undir atkvæði fundarins og bað þá sem samþykktu um að rétta upp hönd.
Samþykkt með þorra atkvæða, enginn sat hjá og einn greiddi atkvæði á móti.

     2.8    Tillaga stjórnar um greiðslu þóknana til nefndarmanna í starfshópum, fagráðum eða úthlutunarnefnd.
Fundarstjóri kynnti tillögu stjórnar um greiðslu þóknunar til nefndarmanna í starfshópum, fagráðum eða úthlutunarnefndar.

Tillagan er svohljóðandi:
„Laun nefndarmanna, í starfshópum, fagráðum eða úthlutunarnefnd, fyrir fundarsetu skulu nema tveimur þriðju af launum stjórnarmanna SSNE á hverjum tíma. Laun formanns í starfshópum, fagráðum eða úthlutunarnefnd skulu vera sömu og laun stjórnarmanna SSNE á hverjum tíma. Auk þess fá nefndarmenn og formaður úthlutunarnefndar 750 kr. fyrir yfirferð hverrar verkefnaumsóknar og 1.000 kr. fyrir yfirferð hverrar umsóknar um stofn og rekstrarstyrk. 1. júlí 2020 voru laun nefndarmanna fyrir setinn fund 31.765 kr. og laun formanns 47.648 kr.“

Fundarstjóri opnaði mælendaskrá.
Enginn tók til máls.

Fundarstjóri bar tillöguna undir atkvæði fundarins og bað þá sem samþykktu um að rétta upp hönd.
Samþykkt með þorra atkvæða, enginn sat hjá og einn greiddi atkvæði á móti.

     2.9    Kosning endurskoðanda.
Fundarstjóri lagði fram tillögu stjórnar um að Enor ehf. sæi áfram um endurskoðun fyrir SSNE.

Fundarstjóri opnaði mælendaskrá.
Enginn tók til máls.

Fundarstjóri bar tillöguna undir atkvæði fundarins og bað þá sem samþykktu um að rétta upp hönd.
Samþykkt samhljóða.

     2.10   Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur málefni sem eru löglega upp borin.
Hilda Jana lagði til að rafrænt aukaþing yrði haldið í desember nk. og að ársþing SSNE í apríl 2021 yrði haldið í Eyjafjarðarsveit.

Fundarstjóri bar upp fyrri tillöguna:
„Að haldið yrði rafrænt aukaþing í desember nk.“

Fundarstjóri opnaði mælendaskrá.
Enginn tók til máls.

Fundarstjóri bað þá sem samþykktu tillöguna um að rétta upp hönd.
Samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri bar upp seinni tillöguna:
„Að ársþing SSNE í apríl 2021 yrði haldið í Eyjafjarðarsveit.“

Fundarstjóri opnaði mælendaskrá.
Enginn tók til máls.

Fundarstjóri bað þá sem samþykktu tillöguna um að rétta upp hönd.
Samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri spurði hvort einhver vildi taka til máls undir þessum lið.
Enginn tók til máls.

Fundarstjóri sagði þessum hluta ársfundar frestað til morguns þegar lögbundin dagskrá yrði kláruð.

     3.     Eimur – Nýsköpun í sjálfbærni.
Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Eims, kynnti stefnu, markmið og framtíðarsýn Eims ásamt Ottó Elíassyni, þróunarstjóra Eims. Sjá ítarlega umfjöllun og glærur.

Fyrirspurnir og umræður:
Hilda Jana Gísladóttir þakkaði fyrir innleggið og sagði verkefnið spennandi. Hún nefndi umræðu um samstöðu við starfandi fyrirtæki á svæðinu og að nýta leiðir þar til að þróa áfram verkefni á þessu sviði. Hún spurði hvernig Eimur sæi fyrir sér að vinna að slíku í framhaldinu og hvað þau sæju fyrir sér að gæti komið út úr slíku verkefni.

Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir sagði að Eimur teldi mikilvægt að ná þverfaglegri nálgun á verkefnið þar sem flestir kæmu að borðinu. Þannig stæðu aðilar saman frammi fyrir áskorunum.

Ottó Elíasson sagði Eim nú þegar hafa heimsótt fyrirtæki á svæðinu og að matvælaframleiðslan ætti hér sterkar rætur. Hann sagði að m.v. samtöl við forsvarsmenn fyrirtækja í matvælaframleiðslu, t.d. kjötvinnslu, sæju þau tækifæri til sameiginlegrar þróunar í þessum málum. Ottó sagðist vilja að verkefni Eims skiluðu sér út í samfélagið.

Sigurður Þór Guðmundsson vísaði í sóknaráætlun Norðurlands eystra þar sem eitt af markmiðunum er að draga úr kolefnisspori landshlutans um 50% fyrir árið 2024. Hann spurði hvort Eimur gæti komið að þeirri vinnu.

Ottó Elíasson vísaði í skýrslu Akureyrarbæjar, um losun kolefnis, þar sem fram kemur að samgöngur og urðun sorps séu stærsti hlutinn þegar kæmi að losun kolefnis. Hann sagði borðleggjandi að vinna að þessu markmiði saman.

Hilda Jana Gísladóttir sagði að framundan hjá stjórn SSNE væri fundur með Eimi. Hún taldi að samstarf við Eim væri mikilvægt í tengslum við tillögu Langanesbyggðar um fagráð umhverfismála.

Þorsteinn Ægir Egilsson þakkaði fyrir áhugaverða framsögu. Hann sagði að tillaga Langanesbyggðar um fagráð umhverfismála ætti heima þar.

Hádegishlé.

     4.     Matís á landsbyggðunum.
Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís, kynnti fyrir þinginu áform Matís um uppbyggingu starfsstöðva á landsbyggðunum og samning þess efnis við ríkið. Sjá ítarlega umfjöllun og glærur.

Fyrirspurnir og umræður:
Katrín Sigurjónsdóttir lýsti ánægju með Matís og sagði til fyrirmyndar hvernig verið væri að færa starfsemina út um landsbyggðir og hvernig áherslur tækju mið af svæðisbundnum styrkleikum.

Siggeir Stefánsson spurði hvort fjármunirnir sem ráðstafað væri til eflingar starfsstöðva í landsbyggðum yrðu fastur liður á fjárlögum til frambúðar og hvernig Matís nálgaðist atvinnulífið og hvort það væri gert með markvissum hætti

Helgi Héðinsson sagði að á hans svæði væri mikill áhugi á landbúnaði og nýsköpun í matvælaframleiðslu almennt og þau áhugasöm um það starf sem fram færi hjá Matís. Á svæðinu væru margir smáframleiðendur og horft til tækifæra í frumkvöðlastarfi í matvælaframleiðslu. Hann sagði vera til mótuð verkefni sem rímuðu vel við þau sjónarmið sem fram hefðu komið og að þau hafi verið að þróa aðstöðu og mannauð til að halda áfram. Hann vildi beina því til Matís að þau væru fús til samstarfs og vel undir það búin að taka við svona verkefnum.

Sigríður Bjarnadóttir fagnaði þessari stefnu og framkvæmd hjá Matís. Hún sagði skipta miklu máli að nálgast grasrótina með þessum hætti, kæmi sem innspýting inn í það sem fyrir væri og skapaði gróskumikið samfélag.

Sveinn Margeirsson spurði um afstöðu almennt gagnvart störfum án staðsetningar. Margt hafi breyst á skömmum tíma og hvort ekki væri hægt með fyrirtæki eins og Matís að horfa á þetta með öðrum hætti, þ.e. að Ísland væri bara einn vinnumarkaður og við ættum að finna fólk þar sem fólk vildi vera?

Oddur Már Gunnarsson sagðist, varðandi fjármagn til framtíðar, ekki horfa á hlutina þannig og að starfsfólk ætti að geta staðið fyrir sínu. Hann sagði það ekki skipta máli hvar fólk sæti eins og Sveinn benti á. Hann sagði þau ekki þurfa pening til að greiða niður störfin heldur þyrfti að finna fjármagn til starfseminnar og að það veitti ákveðið aðhald sem þyrfti að standa undir. Ef ekki væri eftirspurn eftir starfseminni og enginn tilbúinn til að fjármagna, þá ætti ekki að fjármagna hana. Hann sagðist einnig telja að breytingarnar myndu efla Matís frekar en ekki. Þá sagðist Oddur finna fyrir öflugu starfi meðal smáframleiðenda og að margir væru tilbúnir til að vinna með Matís og þyrftu á þeim að halda. Þetta væri alltaf hjálp til sjálfshjálpar og Matís væri líka tilbúið til að koma með námskeið og tímabundin verkefni. Hann sagði mögulega hægt að fara í 1-2 ára átak til að koma einhverju af stað, en allt væri háð fjármögnun. Störf án staðsetningar væri framtíðin.

Fundarstjóri las upp af spjallinu:
Steingrímur J. Sigfússon spurði hvort Matís hefði einhverja skoðun á breytt nýsköpunarumhverfi, niðurlagningu NmÍ og allt það.
Hilda Jana Gísladóttir tók undir hrós og spurði hvort rætt hefði verið um mögulega þörf fyrir matvælaklasa í landshlutanum og hvort Oddur teldi slíkt skynsamlegt?

Fundarstjóri las skilaboð frá Eimi þess efnis að áherslur Matís pössuðu vel við áherslur Eims, og hvatti hann þau Odd og Sesselju til að ræða saman.

Siggeir spurði aftur um nálgun Matís við fyrirtækin, hvernig mætti auka vitund fyrirtækja á störfum Matís og efla tengsl aðila svo sérþekking og starf Matís nýttist sem best.

Oddur Már Gunnarsson sagði niðurlagningu NMÍ vera og eiga að vera pólitískt mál. Ætlunin væri að nýsköpunarstefnan yrði skilvirkari og hann vonaði að svo yrði. Þá sagðist Oddur spenntur fyrir samstarfi við Eim. Hann svaraði spurningu Siggeirs þannig að fyrirtækin kæmu stundum til Matís að eigin frumkvæði en að Matís hefði líka heimsótt landshlutana og fjölda fyrirtækja Hann sagði að einn af styrkleikum Matís, sem gerði það líka eftirsótt í alþjóðlegu samstarfi, væri hið sterka samband við atvinnulífið, fyrirtækin og frumgreinaframleiðsluna. Varðandi klasa sagði Oddur þá geta verið svo margt, t.d. væru samtök smáframleiðenda e.k. klasi. Hann taldi gott þegar litlir aðilar söfnuðust saman til að mynda stoðkerfi utan um sig. Hann taldi að við þyrftum að hugsa landbúnaðinn svolítið upp á nýtt m.t.t. erlendrar samkeppni, einkum ef landið opnaði meira. Það yrði erfitt að keppa við stóra erlenda aðila á þeirra forsendum og við þyrftum því að finna okkar forsendur, t.d. í gegnum klasastarf.

     5.     Hópastarf fundargesta.
Hilda Jana fór yfir skipulag hópastarfs fundarins. Fundargestum var skipt upp í sjö hópa sem var falið að ræða hvað gengi vel og hvað mætti betur fara hjá samtökunum til að þjónusta enn betur sveitarfélög og atvinnulíf á svæðinu. Þá bað hún bað hópana að velja sér talsmann sem síðan kynnti niðurstöður hópsins.

     6.     Hópar kynna niðurstöður úr hópastarfi.
Sjá niðurstöður úr hópastarfi.

Fundarstjóri las upp af spjallinu:
Eyþór Björnsson þakkaði hópunum fyrir góða endurgjöf á starf SSNE og frábærar ábendingar til að vinna áfram.

Kaffihlé.

     7.     Ávörp.
Fundarstjóri kynnti þrjár framsögur undir þessum lið.

     7.1    Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti m.a. fjárfestingaáætlun í samgöngum fyrir þinginu og sagði að stórsókn yrði í vegaframkvæmdum á næstu árum. Hann sagði frá loftbrú sem gæfi íbúum á landsbyggðunum kost á lægra flugfargjaldi og samstarfi við Akureyrarbæ og SSNE um stöðu Akureyrarbæjar sem stærsta þéttbýliskjarna utan höfuðborgarsvæðisins. Þá lýsti hann yfir vonbrigðum með hversu illa gengi að hrinda í framkvæmd aðgerðinni störf án staðsetningar.

Sigurður kynnti fjárfestingaráætlun í samgöngum og að stórsókn yrði í vegaframkvæmdum á næstu árum. Meðal verkefna á Norðurlandi eystra nefndi hann Dettifossveg, Brekknaheiði og stækkun flugstöðvarinnar á Akureyri. Hann sagði að einnig yrði ráðist í fjölmörg verkefni á sviði hafnarmála.

Sigurður sagði ríkisstjórnina hafa gripið til aðgerða til viðspyrnu, vegna Covid-19, og að stöðugt væri metin þörfin fyrir frekari aðgerðir. Að lokum sagði Sigurður að Alþingi hefði samþykkt stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga þar sem mikilvægasta aðgerðin væri að stórefla stuðning Jöfnunarsjóðs við sameiningar sveitarfélaga.

Fyrirspurnir og umræður:
Hilda Jana Gísladóttir hrósaði Sigurði fyrir gott samtal og viðbrögð á tímum Covid-19. Hún sagði farveg í vinnu við byggðaáætlun og sóknaráætlun ákaflega markvissan og þéttan.

Sigurður Þór Guðmundsson sagðist ánægður með starf ríkisstjórnarinnar á erfiðum tímum og að það lægi fyrir að horfa þyrfti á styrk atvinnuveganna til að ná tekjum ríkissjóðs til baka og þ.a.l. sveitarfélaganna.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson tók undir hrós með Sigurði og Hildu Jönu og lýsti þó sérstaklega yfir ánægju með uppbyggingu á flugstöðinni sem yrði mesta hagsmunamál fyrir svæðið.

Siggeir Stefánsson þakkaði fyrir skýra og góða framsögu og tók undir með öðrum. Hann sagðist hafa séð marga byggðastefnuna í gegnum áratugina en að núna fylgdu peningar með orðunum sem væri ánægjulegt og fyllti menn bjartsýni. Hann spurði hvernig Sigurður ætlaði að fá stjórnendur ríkisfyrirtækja til að vera opnari fyrir störfum án staðsetningar.

Sveinn Margeirsson þakkaði fyrir kynninguna og tók undir hrós. Hann sagði að eftirlitsgeirinn í matvælaframleiðslu væri ein af hindrunum varðandi nýsköpun í matvælaiðnaði og landbúnaði og spurði hvort stíga ætti einhver skref í því samhengi.

Helgi Héðinsson tók undir að margt jákvætt hefði verið gert fyrir svæðið. Hann sagði að sóknaráætlanir væru góður farvegur til að virkja frumkvöðlastarf á svæðinu og spurði hvort kæmi til greina koma aftur með aukaframlag í sóknaráætlanir með enn styrkari hætti en áður.

Sigurður Ingi Jóhannsson svaraði spurningunni um störf á staðsetningar á þá leið að stjórnendur ríkisfyrirtækja segðust sjálfir vera með hugmyndir og að þegar þeir prófuðu þá væri reynslan góð. Hann sagði að það þyrfti að halda þessu við. Þá sagði hann að sér væri ekki kunnugt um breytingar í eftirlitsgeiranum á matvælasviði og að aukaframlög í sóknaráætlanir ekki hefði komið til tals.

Fundarstjóri las upp af spjallinu:
Hilda Jana Gísladóttir sagði að það mætti hvetja önnur ráðuneyti til þess að setja fjármagn í sóknaráætlanir.                                                             

     7.2    Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, kynnti m.a. fyrir fundinum þróun hagvaxtar í landinu og atvinnuleysi á Norðurlandi eystra samanborið við atvinnuleysi á landinu öllu. Aldís fór yfir áætlaða fjárþörf ríkis og sveitarfélaga og sagði að til stæði að vinna áfram að greiningarvinnu svo hægt væri að meta stöðuna reglulega og grípa inn í.

Aldís fór stuttlega yfir ýmis mikilvæg verkefni, s.s. hálendisþjóðgarð, frumvarp um raflínuskipulag, breytingu á sveitarstjórnarlögum, ný kosningalög og breytingu á fæðingarorlofslögum. Hún sagði að sveitarfélögin þyrftu að setja sér loftslagsstefnu og að stafræn framþróun sveitarfélaga væri framtíðarverkefni. Að lokum sagði Aldís ýmsar þreifingar í gangi varðandi sameiningar sveitarfélaga.

Fyrirspurnir og umræður:
Fundarstjóri las upp kveðjur og þakkir til Aldísar af spjallinu.

     7.3    Steingrímur J. Sigfússon 2. þingmaður Norðausturkjördæmis.
Steingrímur J. Sigfússon, 2. þingmaður Norðausturkjördæmis, sagði frá góðu samstarfi þingmannahópsins. Þá sagði hann frá nokkrum stórum hagsmunamálum svæðisins, s.s Dettifossvegi, uppbyggingu á Akureyrarflugvelli, tveimur heilsugæslustöðvum á Akureyri og legudeild og viðbyggingu við SAk sem væri í fjármálaáætlun. Steingrímur sagði að fylgja þyrfti eftir áformum HA um að fá viðurkenningu á tækninámi og að það væri forsenda þess að HA gæti fóstrað háskólaútibú á Austurlandi.

Steingrímur sagði að staðan væri þung og að gerðar hefðu verið gríðarlegar ráðstafanir sem allar miðuðu að því að halda Alþingi starfhæfu. Hann sagði það hafa sýnt sig vera mikilvægt því mörg mál hefðu verið afgreidd. Hann sagði þingnefndir nú geta tekið ákvarðanir, afgreitt mál og greitt atkvæði rafrænt og að væntanlega yrði gert að lögum að alltaf yrði hægt að grípa til þess.

Fyrirspurnir og umræður:
Hilda Jana Gísladóttir þakkaði yfirferðina. Hún sagði samskipin við þingmannahópinn hafa verið góð og að hratt hafi verið brugðist við í upphafi Covid-19 og fundað með landshlutasamtökunum. Hilda Jana spurðu út í rafræna fundi og þá heimildir annars vegar þegar þannig áraði og að sveitarfélögum gæti verið í sjálfsvald sett að funda rafrænt til framtíðar ef þau svo kysu.

Gunnar Gíslason tók undir þakkir. Hann sagði mikilvægt að taka upp tækninám en að það væri líka mikilvægt að tryggja HA fjármagn svo ekki þyrfti að takmarka aðgang að skólanum eins og undanfarin ár. Hann sagði að horfa þyrfti til þess auk þess að fjölga námsbrautum.

Steingrímur J. Sigfússon sagði komið fram frumvarp þar sem skilgreint væri vel í lagatextanum hvað gæti verið andlag þess að menn nýttu sér fjarfundi. Hann sagði þetta vera eitthvað sem sveitarstjórnirnar gætu skoðað og sótt þá um lagaheimild sem væri ekki opin en væri bundin við tilteknar aðstæður og ákveðin skilyrði. Hann sagði að þessi leið hefði verið farin því það væri ekki nokkur leið að tryggja meðferð trúnaðarupplýsinga á þessu fundarformi. Steingrímur sagðist sammála Gunnari varðandi stöðu HA um að aðsókn hefði verið mikil undandarin ár og töluvert umfram fjárveitingar.

Þinghlé.

Laugardagur 10. október.
Fundarstjóri setti fund kl. 09:00.

     8.     Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra.
Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, kynnti starfsemi HNE á árinu. Hann sagði reksturinn vera í góðu jafnvægi. Sjá ítarlega umfjöllun, ársreikning og ársskýrslu.

Fyrirspurnir og umræður:
Hermann Gunnarsson þakkaði fyrir góða greinagerð og spurði hvort embættið hefði þurft að taka á málum, varðandi drasl á lóðum hjá einstaklingum, í dreifbýli á bæjum.

Alfreð Schiöth lýsti ítarlega verkferlum og vandkvæðum við þessar aðgerðir. Hann sagði að í minni sveitarfélögum virtist ekki vera sami vilji eins og t.d. hjá Akureyrarbæ að ganga hratt fram og leggja heilbrigðisfulltrúa lið. Hann sagði reynast best í dreifbýli að bjóða þeim sem ættu dót að fá gám heim á hlað en ef það dygði ekki þá giltu sömu verkferlar og í þéttbýli. Þá væri gerð krafa á viðkomandi eiganda um að fjarlægja fyrir ákveðinn tíma, annars yrði það gert á hans kostnað.

Gunnar Gíslason þakkaði fyrir innleggið. Hann sagði liggja nokkurn veginn fyrir hvernig vinna væri í kringum bifreiðar og lausamuni en vildi forvitnast um hvernig málum væri háttað þegar kæmi að húsnæði, s.s. húseignir sem stæðu á áberandi stöðum. Hann sagði dæmi um að menn hafa fengið leyfi til að rífa hús en gerðu ekki.

Alfreð Schiöth svaraði að heilbrigðisnefndin væri á veikum grunni þegar kæmi að viðhaldi eða niðurrifi húsa. Skipulags- og byggingarfulltrúi hefði hins vegar þær heimildir. Í slíkum tilvikum væri farsælast að þessi tvö embætti hefðu með sér samstarf.

Sveinn Margeirsson þakkaði Alfreð fyrir erindið og spurði hvort honum væri kunnugt um að vinna hefði farið í gang í vor varðandi greiningu á heilbrigðiseftirlitskerfinu öllu og samhenginu við Matvælastofnun og fleiri aðila. Hann spurði einnig um framtíðarsýn varðandi urðun á lífrænum úrgangi einkum vegna heimaslátrunar, sér í lagi í dreifðari hluta svæðisins.

Alfreð Schiöth sagði það hafa verið lengi á stefnuskrá Matvælastofnunar að sameina allt matvælaeftirlit í landinu og að stjórnvöld þyrftu að taka endanlega ákvörðun í þeim efnum.

Sveinn Margeirsson spurði hver staðan væri á vinnunni sem verið hefði í gangi, hvort KPMG væri búið að skila af sér.

Alfreð Schiöth sagði KPMG hafa skrifað skýrslu sem væri lýsing á ástandinu eins og það væri í dag og að þar kæmu fram vangaveltur um kosti og galla við mismunandi leiðir en engin niðurstaða eða tillaga. Hann sagði að vandamálin varðandi lífrænan úrgang frá heimaslátrun sneru annars vegar að smitvörnum búfjársjúkdóma og hins vegar að almennum hreinlætis- og mengunarmálum. Hann sagði að ákveðin rest endaði í urðun, en að ákveðinn hluti af þessum úrgangi væri skilgreindur sem áhættuúrgangur sem ætti í raun og veru að fara í brennslu. Alfreð sagði vandamál að hér vanti góð brennsluúrræði til að fullnægja kröfum ESA.

     9.     Miðstöð velferðar- og heilbrigðistækni á Norðurlandi.
Halldór Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar, og Sigurður Einar Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á SAk, kynntu miðstöð velferðar- og heilbrigðistækni á Norðurlandi. Sjá ítarlega umfjöllun og glærur.

Fyrirspurnir og umræður:
Hilda Jana Gísladóttir þakkaði fyrir kynninguna og sagðist mjög spennt fyrir verkefninu. Hennar mat væri að grípa ætti tækifærið núna, verið væri að vinna klasastefnu í landinu, leggja niður NMÍ og að í undirbúningi væri ný byggðaáætlun. Hún sagði að í núverandi byggðaáætlun væri verkefni sem sneri að fjarheilbrigðisþjónustu og að í sóknaráætlun kæmu fram atriði varðandi nýsköpun í velferðartækni, tengingu við norðurslóðamál og borgarstefnu.

Sveinn Margeirsson sagði kynninguna mjög góða og þess virði að velta tengingunni við CCP fyrir sér. Hann benti á tengingu við matvæli, þ.e. að tengja það sem við setjum ofan í okkur við heilbrigði og síðan umhverfismálin og í raun hringrásarhagkerfið. Hann sagði mikilvægt að störf án staðsetningar væru með sterka tenginu við klasa á svæðinu og lagði til að verkefnið yrði skoðað mjög alvarlega.

Katrín Sigurjónsdóttir sagði verkefnið mjög spennandi og stórt sóknarfæri fyrir svæðið í heild. Hún spurði hvort ekki væri möguleiki á að sækja í stærri sjóði, s.s. Evrópusjóði. Hún taldi verkefnið geta orðið að næstu stóriðju fyrir svæðið.

Ingibjörg Isaksen þakkaði fyrir framsöguna og tók undir að gríðarleg tækifæri væru í málaflokknum. Hún sagði að rætt hefði verið að bregðast þyrfti við fjölgun eldri borgara á næstu árum og að horft hefði verið til Akureyrarbæjar varðandi velferðartækni og þjónustu við eldri borgara. Hún sagði að verið væri að veita góða þjónustu í málaflokknum en að kerfin töluðu ekki nógu vel saman.

Fundarstjóri las upp af spjallinu:
Fjöldi þingfulltrúa sagði verkefnið áhugavert og spennandi.
Finnur Yngvi Kristinsson spurði hvort einhver reynsluverkefni væru í gangi í dreifðum byggðum. Hann sagðist hafa átt gott samtal við Halldór um verkefnið fyrir nokkru þar sem Halldór var að leitast eftir slíku.

Halldór Sigurður Guðmundsson sagði gott að finna stuðninginn og að næstu skref væru að „byrja“. Byrja heima og búa til eininguna og að þá hefðu þeir mannskap í vinnu við að sækja fjármagn í minni og stærri sjóði.

Sigurður Einar Sigurðsson sagði þá hafa unnið í samstarfi við norðurslóðaverkefni með dreifðari byggðum á Norðurlöndunum, Kanada og Skotlandi. Hann sagði niðurstöðuna í þeim verkefnum oftar en ekki þá að þessi svæði ættu oft meira sameiginlegt heldur en dreifðu byggðirnar ættu með þéttbýlinu í sama landi. Hann sagði það gefa þeim mikið að vinna með öðrum við svipaðar aðstæður í öðrum löndum.

     10.    Endurmat og eftirfylgni sóknaráætlunar Norðurlands eystra.
Frestaður dagskrárliður frá fyrri degi.

Hilda Jana sagðist skynja á umræðum fundarins, ekki síst um matvælaframleiðslu og velferðartækni, að það væru tækifæri til að verða enn markvissari í sóknaráætlun og aðgerðum hennar. Hún sagði umræðu þurfa að eiga sér stað um hvernig vinna ætti sérstaklega áhersluverkefni svo þau skiluðu árangri. Þá sagði hún stjórn taka skilaboð úr hópastarfi og umræðu um matvælaframleiðslu og velferðartækni með sér af fundinum til frekari skoðunar.

Hilda Jana sagði heimsóknir starfsmanna í sveitarfélögin mikilvægar þar sem sóknaráætlun væri rýnd. Hún sagði að öll starfsemi SSNE væri byggð á sóknaráætlun, s.s. starfsáætlunin og úthlutun á fjármunum. Hún sagði að fundurinn hefði heimild til að gera breytingar á sóknaráætlun þrisvar á ári á ársþingum. Þá sagði hún að stjórn gæti eftir fundinn, í samvinnu við starfsfólk, rýnt sóknaráætlun betur og komið með tillögur að breytingum inn á næsta þing í desember.

Fundarstjóri gaf Norðurþingi færi á að fylgja tillögu um breytingar á sóknaráætlun, sem þingfulltrúar fengu senda sem fundarskjal, eftir og kynna fyrir fundinum.

Helena Eydís Ingólfsdóttir kynnti tillögu Norðurþings. Hún lagði til að sá hluti tillögunnar sem lyti að því að fækka markmiðum og áhersluatriðum yrði vísað til stjórnar og afstaða tekin á aukaþinginu í desember.

Hún sagði hinn hluta tillögunnar um að Heilbrigðisstofnunar Norðurlands yrði getið þar sem fjallað væri um Sjúkrahúsið á Akureyri snúa að því að heilbrigðisstofnunin væri stór og mikilvæg stofnun á svæðinu sem hefði alla burði til að taka að sér samskonar hlutverk og SAk. Þá sagði hún setninguna „hætta að gera sömu hlutina á tveimur stöðum“ í kaflanum um nýsköpun og atvinnulíf setja á okkur óheppilegar skorður þó í henni væri líka ákveðin skynsemi.

Fundarstjóri sagði að þrjár afgreiðslur yrðu teknar fyrir undir þessum lið.

Fundarstjóri gaf Eyþóri orðið.

Eyþór Björnsson hélt stutta kynningu um þá vinnu sem framundan væri við endurskoðun sóknaráætlunar. Hann sagði margar áherslur og markmið í sóknaráætlun og ljóst að þeim þyrfti að forgangsraða áður en aðgerðaráætlun yrði unnin. Eyþór sagði starfsfólk hafa unnið greiningu á upphafsstöðu mælanlegu markmiðanna, unnið svokallaða núllpunktagreiningu. Hann taldi að með því að greina sóknarætlun yrði hægt að stilla upp aðgerðaráætlun til að ná settum markmiðum.

Eyþór sagði styrki úr sóknaráætlun, þ.e. áhersluverkefni og Uppbyggingarsjóð, dreifast ójafnt þegar horft væri til markmiðanna. Hann taldi vert að kanna hvort ekki væri rétt að auglýsa sérstaklega eftir styrkjum í ákveðna flokka til að laða að verkefni sem gætu fært okkur nær þeim markmiðum sem stæðu höllum fæti. Auk styrkja hefðu samtökin aðrar leiðir til að ná settum markmiðum.

Fyrirspurnir og umræður:
Gunnar Gíslason lýsti yfir ánægju með greiningarvinnu SSNE. Hann var sammála tillögu Norðurþings um að of mörg atriði væru undir og að við þyrftum að forgangsraða verkefnum og vinna þau síðan áfram skipulega. Hann sagði málið snúast um að taka smá skref en taka þau nógu ört eftir því sem málum yndi fram. Hann taldi mikilvægt að vinna núllpunktagreiningu, ef við ætluðum að vita hvert við erum komin þyrftum við að vita hvaðan við hófum vegferðina. Hann sagði vinnubrögðin til fyrirmyndar.

Fundarstjóri las upp af spjallinu:
Hilda Jana Gísladóttir sagðist taka undir tillögu Norðurþings varðandi HSN sem og tillögu um að taka út “að gera sömu hlutina á tveimur stöðum”. Hún lagði einnig til að ársþing fæli stjórn og starfsfólki að vinna að breytingum á sóknaráætlun í samræmi við umræður á þinginu og legði fyrir rafrænt þing í desember.
Helgi Héðinsson sagði að varðandi það sem Helena nefndi um „að gera sömu hlutina á tveimur stöðum“ þá væri það hans skoðun að skerpa þyrfti á því orðalagi. Þetta væri fyrst og síðast vísun í að forðast sóun þ.e. tvíverknað á ýmsum sviðum, en ekki endilega því samhengi sem Helena nefndi. Hann sagði orðalagið vissulega ekki nægilega skýrt.

Hilda Jana Gísladóttir sagði að á fundi með stýrihópi Stjórnarráðsins hafi verið bent á að við þyrftum ekki að auglýsa alveg opin verkefni heldur gætum við auglýst þau verkefni sem við vildum koma af stað. Hún sagði að tvö stór verkefni hefðu verið rædd á þinginu, þ.e. velferðartækni og matvælaklasa, sem gæti verið skilaboð til stjórnar um að þau yrðu auglýst sem áhersluverkefni eða við leitt saman þá sem við teldum skipta máli í þeim málum. Þá bað hún um afstöðu fundarins til þess að horft yrði til þess að tiltekin verkefni yrðu auglýst fremur en opin verkefni eða að farin yrði blönduð leið.

Fundarstjóri las upp af spjallinu:
Kristján Þór Magnússon sagði algjöra frumforsendu að ríkið og þingmenn kjördæmisins væru meðvituð um það hver okkar markmið væru.
Helgi Héðinsson tók undir og sagði e.t.v. tækifæri í því að fækka markmiðum og skerpa fókusinn, en að það þarfnaðist sérstakrar umræðu.
Kristján Þór Magnússon sagði leiðir til þess m.a. að senda minnisblöð á allar ríkisstofnanir og þrýsta á að fá fleiri opinber störf á svæðið þar sem mun fleiri störf mætti vinna án staðsetningar.
Helgi Héðinsson benti á að Covid-19 gæti hafa breytt sjónarmiðum okkar eða hvort við værum á sama stað og síðasta haust.
Sveinn Margeirsson sagði vinnuna góða en varðandi strategíu benti hann á clusters í Horizon Europe áætluninni.

Helgi Héðinsson var með fyrirspurn til Kristjáns Þórs og stjórnar SÍS varðandi það hvort rætt hafi verið á vettvangi Sambandsins að aukið fé yrði lagt í sóknaráætlanir. Hann taldi vettvanginn góðan til að efla nýsköpunarkraft en takmarkað fjármagn væri að vinna úr. Þá velti hann fyrir sér hvort búið væri að ræða, í tengslum við breyttar áherslur í sóknaráætlunum landshlutanna, umhverfismálin og aðkomu umhverfisráðuneytisins að borðinu, sér í lagi þegar kæmi að fjármagni.

Eva Hrund Einarsdóttir sagðist sammála Helga. Hún nefndi þar til gerðan nýjan málaflokk í sóknaráætlun, heilbrigðismálin, og hvort ýta ætti á það ráðuneyti að setja fjármagn í þau verkefni. Hún sagði að halda þyrfti umræðunni á lofti innan Sambandsins og að við þyrftum að pikka sjálf í ráðuneytin. Eva Hrund lýsti yfir ánægju með tillögu Norðurþings og sagði þetta hafa verið rætt á fundi stjórnar með starfsfólki SSNE, þ.e. hvort markmiðin væru of mörg. Hún taldi núllpunktagreiningu nauðsynlega til að sjá hvaða verkefni væru raunhæf og hrósaði starfsfólki fyrir þá vinnu. Varðandi auglýsingar að áhersluverkefnum taldi hún að hiklaust ætti að fara blandaða leið og auglýsa ákveðin forgangsverkefni. Auk þess væri hægt að úthluta hluta úr Uppbyggingarsjóði í ákveðin verkefni.

Fundarstjóri las upp af spjallinu:
Gunnar Gíslason sagði að fara ætti blandaða leið en þó þannig að ef stór verkefni væru framundan sem þörfnuðust aukins fjármagns yrði að leggja áherslu á þau.

Kristján Þór Magnússon svaraði spurningu Helga um aukið fé til sóknaráætlana og sagði þá útfærslu ekki hafa verið efst á blaði stjórnar SÍS í samtölum við ríkið nú, að því er hann best vissi. Sannarlega hefði verið rætt hvernig mætti draga fjármagn inn á svæðið, og e.t.v. væri þetta leiðin sem flestir horfðu til. Hann taldi rétt að landshlutasamtökin óskuðu sjálf eftir að það væri gert. Hann sagðist ekki vita hvernig umræðan væri annars staðar og hvort þetta væri almenn stemning á landinu, en sagðist sammála Helga um að sóknaráætlun hefði reynst okkur góður vettvangur. Þó væri alltaf spurning hvernig ætti að presentera sértækar leiðir; þ.e. til ákveðinna sveitarfélaga eða inn á svæðið, og þá hver samkeppnin væri um þá fjármuni. Hann sagðist telja fullt tilefni til að SSNE, eða þingið, óskaði eftir að þetta yrði skoðað vandlega.

Fundarstjóri las upp af spjallinu:
Halla Björk Reynisdóttir sagðist sammála Helga um að þrýsta á aukið fjármagn frá ríki í gegnum sóknaráætlanir þannig að við gætum tekist á við stærri verkefni.
Hilda Jana Gísladóttir sagðist hiklaust telja, í ljósi þess hve mikil áhersla væri lögð á umhverfismálin, að umhverfisráðuneytið kæmi með aukið fjármagn í sóknaráætlun.
Helgi Héðinsson benti á að ein leiðin gæti verið að fara vandlega í gegnum markmiðin á stórum vinnufundi með það fyrir augum að forgangsraða markmiðum.
Katrín Sigurjónsdóttir sagðist sammála Evu Hrund um að fara blandaða leið og setja hiklaust stór verkefni í forgang.
Hilda Jana Gísladóttir sagði það sama eiga við um sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið varðandi matvælaklasa og heilbrigðisráðuneytið varðandi velferðartæknina.

Eva Hrund Einarsdóttir benti á að tölur sýndu að fjármunir úr samkeppnissjóðum sem næðu yfir allt landið væru að mestu að fara til höfuðborgarsvæðisins. Hún sagði að ef við vildum stýra þeim fjármunum frekar út á landsbyggðirnar þá væri þetta kjörinn vettvangur til þess.

Sveinn Margeirsson benti á að það myndi styrkja gríðarlega samkeppnishæfni svæðisins í innanlands samkeppninni ef tekinn yrði strategískur fókus í þessum efnum. Hann taldi rétta nálgun að taka heilbrigðis-, matvæla- og umhverfismál saman og horfa til norðurslóðafjármögnunar, evrópskrar fjármögnunar og síðan fjármögnunar á Íslandi.

Arnór Benónýsson þakkaði starfsfólki SSNE fyrir góða vinnu og tók undir orð Hildu Jönu um að hætta að gera hlutina eins og við höfum alltaf gert þá.

Fundarstjóri bar tillögur Norðurþings upp fyrir fundinn.

Fyrsta tillaga er svohljóðandi:
„Lagt er til að markmiðum og áhersluatriðum í sóknaráætlun verði fækkað og er stjórn falið að koma með tillögu í þeim efnum á aukaþingi í desember“.

Fundarstjóri bað þá sem samþykktu um að rétta upp hönd.
Samþykkt samhljóða.

Önnur tillaga er svohljóðandi:
„Heilbrigðisstofnun Norðurlands verði getið þar sem fjallað er um Sjúkrahúsið á Akureyri og að Heilbrigðisstofnun Norðurlands verði skilgreindur samstarfsaðili varðandi nýsköpun í öldrunarþjónustu“.

Fundarstjóri bað þá sem samþykktu um að rétta upp hönd.
Samþykkt samhljóða.

Þriðja tillaga er þannig að eftirfarandi setning verður felld niður í kaflanum um nýsköpun og atvinnulíf:
„Hætta að gera sömu hlutina á tveimur stöðum.“

Fundarstjóri bað þá sem samþykktu um að rétta upp hönd.
Samþykkt með þorra atkvæða, enginn sat hjá og einn greiddi atkvæði á móti.

Fundarstjóri kallaði eftir samþykki fundarins fyrir því að fela fundarstjóra og fundarriturum að klára fundargerð og að hún yrði síðan birt á vefsíðu SSNE.

Fundarstjóri bað þá sem samþykktu um að rétta upp hönd.
Samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri þakkaði, fyrir hönd starfsmanna fundarins, fyrir góðan fund og gaf Hildu Jönu orðið.

Hilda Jana þakkaði fyrir góðan fund. Hún þakkaði Hilmari fyrir góða fundarstjórn og starfsfólki SSNE fyrir undirbúning. Hún sagðist ánægð með fundinn og að hún væri enn sannfærðari en áður um að mikilvægt skref hefði verið tekið með sameiningu félaganna þriggja. Hún sagði kraftinn á svæðinu ótrúlegan.

Að lokum tók Hilda Jana undir orð Kristjáns Þórs á spjallinu:
„Frískandi að finna þann kraft og samstöðu sem mér finnst ég greina meðal fulltrúa á fundinum. Ég upplifi byr í seglin, hvatningu til góðra verka og sameiginlegrar sóknar fyrir landshlutann. Bæði málefnalegar og uppbyggilegar umræður.“

Hilda Jana undirstrikaði mikilvægi þess að tala saman og vera saman í liði. Þannig gætum við gert ótrúlega hluti fyrir landshlutann. Að lokum þakkaði hún öllum fyrir sitt framlag.

Fundi slitið kl. 11:30.

Fyrirlesarar:
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Halldór Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar.
Níels Guðmundsson, endurskoðandi hjá Enor.
Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís.
Ottó Elíasson, rannsókna- og þróunarstjóri Eims.
Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Eims.
Sigurður Einar Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á SAk.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Norðausturkjördæmis.

Skráðir gestir:
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Norðausturkjördæmis.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Norðausturkjördæmis.
Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit.
Jónas Egilsson, sveitarstjóri Langanesbyggðar.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Norðausturkjördæmis.
Logi Einarsson, þingmaður Norðausturkjördæmis.
Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri í Hörgársveit.

Starfsmenn og embættismenn:
Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.
Ari Páll Pálsson, verkefnastjóri hjá SSNE.
Baldvin Valdemarsson, verkefnastjóri hjá SSNE.
Charlotta Englund, verkefnastjóri hjá SSNE.
Elva Gunnlaugsdóttir, verkefnastjóri hjá SSNE.
Eyþór Björnsson, framkvæmdastjóri SSNE.
Helga María Pétursdóttir, verkefnastjóri hjá SSNE.
Karen Nótt Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá SSNE.
Nanna Steina Höskuldsdóttir, verkefnastjóri hjá SSNE.
Rebekka Kristín Garðarsdóttir, verkefnastjóri hjá SSNE.
Silja Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá SSNE.
Vigdís Rún Jónsdóttir, verkefnastjóri menningarmála hjá SSNE.

Þingfulltrúalisti 2020:

Aðalmenn

Mæting

Varamenn

Mæting

Þröstur Friðfinnsson

Grýtubakkahreppur

 

Fjóla V. Stefánsdóttir

 

Margrét Melstað

Grýtubakkahreppur

x

Þórarinn Ingi Pétursson

x

Kristján Þór Magnússon

Norðurþing

x

Heiðbjört Þóra Ólafsdóttir

 

Helena Eydís Ingólfsdóttir

Norðurþing

x

Birna Ásgeirsdóttir

 

Kolbrún Ada Gunnarsdóttir

Norðurþing

x

Berglind Hauksdóttir

 

Hjálmar Bogi Hafliðason

Norðurþing

x

Bergur Elías Ágústsson

 

Hafrún Olgeirsdóttir

Norðurþing

 

Hrund Ásgeirsdóttir

 

Arnór Benónýsson

Þingeyjarsveit

x

Margrét Bjarnadóttir

 

Árni Pétur Hilmarsson

Þingeyjarsveit

x

Dagbjört Jónsdóttir

 

Jóna Björg Hlöðversdóttir

Þingeyjarsveit

 

Sigríður Hlynur H. Snæbjörnsson

x

Gestur Jensson

Svalbarðsstrandarhreppur

 

Anna Karen Úlfarsdóttir

x

Björg Erlingsdóttir

Svalbarðsstrandarhreppur

x

Ólafur Rúnar Ólafsson

 

Axel Grettisson

Hörgársveit

x

Ásrún Árnadóttir

 

Jón Þór Benediktsson

Hörgársveit

x

Jónas Þór Jónasson

 

Þorsteinn Ægir Egilsson

Langanesbyggð

x

Halldóra J. Friðbergsdóttir

 

Siggeir Stefánsson

Langanesbyggð

x

   

Sigurður Þór Guðmundsson

Svalbarðshreppur

x

Sigríður Jóhannesdóttir

 

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson

Dalvíkurbyggð

x

Valdemar Þór Karlsson

 

Katrín Sigurjónsdóttir

Dalvíkurbyggð

x

Þórhalla Franklín Karlsdóttir

 

Lilja Guðnadóttir

Dalvíkurbyggð

x

Felix Rafn Felixson

 

Kristján Eldjárn Hjartarson

Dalvíkurbyggð

 

Guðmundur St. Jónsson

 

Helga Helgadóttir

Fjallabyggð

x

Sigríður Guðrún Hauksdóttir

 

Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir

Fjallabyggð

x

Nanna Árnadóttir

 

Jón Valgeir Baldursson

Fjallabyggð

 

Tómas Atli Einarsson

 

Elías Pétursson

Fjallabyggð

x

Særún Hlín Laufeyjardóttir

 

Halla Björk Reynisdóttir

Akureyrarbær

x

Þórhallur Jónsson

 

Guðmundur B. Guðmundsson

Akureyrarbær

x

Geir Kristinn Aðalsteinsson

 

Hilda Jana Gísladóttir

Akureyrarbær

x

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir

 

Andri Teitsson

Akureyrarbær

 

Rósa Njálsdóttir

 

Ingibjörg Ólöf Isaksen

Akureyrarbær

x

Unnar Jónsson

 

Heimir Haraldsson

Akureyrarbær

x

Lára Halldóra Eiríksdóttir

 

Gunnar Gíslason

Akureyrarbær

x

Jana Salóme I. Jósepsdóttir

 

Eva Hrund Einarsdóttir

Akureyrarbær

x

Anna Fanney Stefánsdóttir

 

Sóley Björk Stefánsdóttir

Akureyrarbær

x

Berglind Ósk Guðmundsdóttir

 

Hlynur Jóhannsson

Akureyrarbær

x

Þórhallur Harðarson

 

Helgi Héðinsson

Skútustaðahreppur

x

Dagbjört Bjarnadóttir

 

Sveinn Margeirsson

Skútustaðahreppur

x

Margrét Halla Lúðvíksdóttir

 

Jón Stefánsson

Eyjafjarðarsveit

 

Halldóra Magnúsdóttir

x

Hermann Ingi Gunnarsson

Eyjafjarðarsveit

x

Rósa Margrét Húnadóttir

 

Ásta Arnbjörg Pétursdóttir

Eyjafjarðarsveit

 

Sigríður Bjarnadóttir

x

 

Getum við bætt síðuna?