Fara í efni

Eimur og Orkuveita Húsavíkur meðal samstarfsaðila í 3,5 milljarða verkefni um vatnsgæði

Eimur og Orkuveita Húsavíkur meðal samstarfsaðila í 3,5 milljarða verkefni um vatnsgæði

Verkefnið á meðal annars að auka þekkingu á ástandi vatns á Íslandi

Umhverfisstofnun, ásamt 22 samstarfsaðilum, hefur hlotið um 3,5 milljarða króna styrk frá Evrópusambandinu til að vinna að fjölbreyttum verkefnum til að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi.
Verkefnið ber yfirskriftina
LIFE ICEWATER og er ætlað að:

  • Auka þekkingu á notkun, eiginleikum og ástandi vatns á Íslandi
  • Tryggja fumlausa og samhæfða stjórnsýslu þegar kemur að vatnamálum
  • Bæta vatnsgæði, til dæmis með úrbótum í fráveitu og hreinsun á fráveituvatni
  • Fræða almenning og hagaðila um mikilvægi vatns

Með LIFE ICEWATER gefast tækifæri til nýsköpunar í stjórnsýslunni með þverfaglegu samstarfi ýmissa aðila með það fyrir augum að bæta vatnsgæði um allt land, auk þess að hámarka ábata samfélagsins af slíkum aðgerðum.

Einn stærsti styrkur sem fengist hefur

Styrkurinn fyrir LIFE ICEWATER er einn sá stærsti sem Ísland hefur fengið. Umfang verkefnanna sem samstarfshópurinn hefur sett saman er samtals um 5,8 milljarðar króna. LIFE áætlun Evrópusambandsins styrkir verkefnið um 60% eða samtals um 3,5 milljarða sem dreifast á samstarfshópinn og verða verkefnin unnin á árunum 2025-2030.

Verkefninu er skipt upp í 7 hluta. Eimur mun vinna verkefni um verðmætasköpun úr lífrænum efnum sem finnast í fráveituvatni með Orkuveitu Húsavíkur og Gefn, með áherslu á framleiðslu á orkugjöfum úr þeim lífmassa. Á mynd hér fyrir neðan má sjá yfirlit aðgerða undir hverjum verkhluta:


Þverfaglegt samstarf 22 hagsmunaaðila
Auk Umhverfisstofnunar eru 22 samstarfsaðilar í verkefninu: Eimur, Gefn, Grundarfjarðarbær, Hafrannsóknastofnun, Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, Hveragerðisbær, Isavia, Ísafjarðarbær, Kópavogsbær, Matvælastofnun, Náttúrufræðistofnun, Náttúruminjasafn Íslands, Orka náttúrunnar, Orkustofnun, Orkuveita Húsavíkur, Orkuveita Reykjavíkur, Reykjavíkurborg, Ríkisútvarpið, Samband íslenskra sveitarfélaga, umhverfis,- orku og loftslagsráðuneyti, Veðurstofa Íslands og Veitur, ásamt þremur óbeinum þátttakendum: Sveitarfélagið Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

Fréttin er tekin af eimur.is
Getum við bætt síðuna?